Á jóladag árið 2001 skrapp Johannes Nielsen, búsettur í Sædding hverfinu við Esbjerg, út til að kaupa rúnnstykki handa fjölskyldunni. Johannes fór á bensínstöðina á Sædding Ringvej, vissi að þar væri opið og nýbökuð rúnnstykki. Hann borgaði með reiðufé, fékk 40 krónur til baka og ákvað að kaupa lottómiða, sem kostaði einmitt 40 krónur. Lottómiðanum stakk hann í jakkavasann og fór svo heim með rúnnstykkin.
Viku síðar var dregið í lottóinu. Hæsti vinningurinn hljóðaði upp á 9,3 milljónir danskra króna (175 milljónir íslenskar). Um það bil 800 þúsund lottómiðar höfðu selst þessa viku en eigandi miðans með stóra vinningnum gaf sig ekki fram.
Í mars 2002 mundi Johannes Nielsen allt í einu eftir miðanum í jakkavasanum. Hann fór þá með miðann í hverfisverslunina Søstjernen. Þegar röðin kom að honum afhenti hann fyrst þrjá miða, sem hann hafði keypt nokkrum dögum fyrr. Enginn vinningur þar en svo lagði hann gamla miðann, þann frá jóladeginum, á borðið. Það tók dálitla stund að renna þeim miða gegnum vélina en í millitíðinni heyrði Johannes barnabarnið, sem beið í bílnum, kalla. Hann hljóp þess vegna út til að róa barnið, hann var þá ekki búinn að fá miðann til baka. Andartaki síðar kemur maður hlaupandi út úr búðinni og kallar til Johannesar að það sé svokallaður joker vinningur á miðann. Johannes segir að það geti ekki verið, hann sé með sinn miða í vasanum, settist svo inn í bílinn og ók heim. Hinn maðurinn fór aftur inn í búðina.
Margir töldu sig eiga miðann
Nokkrum dögum síðar ( í mars 2002) síðar greindu danskir fjölmiðlar frá því að stór vinningur væri ósóttur. Fram kom að miðinn með ósótta vinningnum væri í Strandvejens Kiosk en ekki í versluninni Søstjernen þar sem hann hafði, að sögn Johannes Nielsen, verið skilinn eftir. Þegar Johannes Nielsen sá þessa frétt í blaði var hann strax sannfærður um að þarna væri verið að tala um miðann sinn þótt hann geti ekki útskýrt hvers vegna miðinn hefði endað í Söluturninum á Strandvejen. Johannes sneri sér til lögreglunnar og tilkynnti að hann ætti þennan miða, sem fjölmiðlarnir hefðu sagt frá. Hjá lögreglunni fékk hann að vita að hann væri ekki sá fyrsti sem lýsti sig eiganda miðans og næstu daga á eftir hringdu mörg hundruð manns til lögreglunnar og Danske Spil (lottófyrirtækið) og allir höfðu sömu sögu að segja, töldu sig hinn rétta eiganda. Höfðu allir gleymt miðanum á búðarborðinu. Ergilegt.
Kom ekki á óvart
Í viðtali hjá danska útvarpinu, DR, í apríl 2002, sagði Johannes Nielsen að svörin hjá lögreglunni og Dansk Spil hefðu ekki komið sérlega á óvart. Hann ætlaði hinsvegar ekki að gefast upp, væri búinn að ráða lögfræðing til að vinna með sér. Sá hætti að vinna fyrir Johannes eftir tvö ár, taldi málið vonlaust. Lögfræðingur sem Johannes réð þá til starfa hætti fljótlega af sömu ástæðu en þriðji lögfræðingurinn veitti athygli dálitlu sem farið hafði framhjá hinum tveim og Johannes Nielsen. Nefnilega því að þegar fjölmiðlar greindu frá ósótta lottóvinningnum var þess getið að á vinningsmiðanum væri auðkenni sem aðeins eigandinn myndi þekkja. ,,Þegar þetta kom í ljós var ég alveg viss“ sagði Johannes Nielsen, ,, ég hef nefnilega alltaf merkt mína lottómiða með upphafsstöfum mínum, þá er ég alltaf viss um að fá sama seðilinn til baka þegar búið er að kanna hann og athuga hvort á honum leynist vinningur.“ En þetta dugði ekki. Eftirlitsnefnd sem fylgist með starfsemi happdrætta og spilakassa taldi sýnishorn rithandar Johannesar, sem hann hafði sent, ekki nægilega sönnun þess að hann ætti vinningsmiðann. Johannes hefur ekki fengið að sjá merkinguna á vinningsmiðanum, af skiljanlegum ástæðum.
Tapaði í Bæjarrétti og Landsrétti, vill málið fyrir Hæstarétt
Johannes Nielsen undi ekki úrskurði eftirlitsnefndarinnar og kærði til Bæjarréttar. Niðurstaða réttarins var sú að eftirlitsnefndinni bæri ekki að gera merkingu, eða auðkenni, vinningsmiðans opinbera. Dómkvaddur sérfræðingur sagði að á miðanum væri ekki auðkenni sem benti til að hann tilheyrði Johannes Nielsen. Í Vestri - Landsrétti var niðurstaðan sú sama. En Johannes Nielsen gefst ekki upp, hann vill fá að fara með málið fyrir Hæstarétt Danmerkur.
Enn fleiri telja sig eiga miðann
Í fyrrahaust, eftir að Johannes Nielsen tilkynnti að hann vildi skjóta máli sínu til Hæstaréttar sendi Dansk Spil frá sér tilkynningu þess efnis að þrátt fyrir að frestur til að sækja vinninga væri löngu liðinn myndi ,,stóri lottóvinningurinn“ verða greiddur út, ef eigandinn fyndist. Það var eins og við manninn mælt, tugir fólks hringdu. Að sögn starfsmanns Dansk Spil voru sögurnar margar hverjar skemmtilegar þar sem hugmyndafluginu voru fá takmörk sett. En hinsvegar fjarri öllu sanni.
Af hverju trúir enginn Johannes Nielsen?
Kannski von að spurt sé. En fyrir því eru einkum tvær ástæður. Í fyrsta lagi stemmir ekki dagsetningin þegar miðanum var skilað við dagsetninguna sem Johannes Nielsen tilgreindi. Og í öðru lagi var komið með miðann, þar sem vinningurinn kom í ljós, í Strandvejens Kiosk, en ekki í verslunina Søstjernen eins og Johannes Nielsen hélt fram. Fjarlægðin milli þessara tveggja staða er um það bil tveir kílómetrar. Þetta misræmi getur Johannes Nielsen ekki útskýrt en telur hugsanlegt að maðurinn sem kom hlaupandi með miðann út úr Søstjernen hafi fyrst stungið miðanum í vasann en síðar skilað honum í Strandvejens Kiosk. ,,Aðalatriðið er“ segir Johannes Nielsen ,, að vinningsmiðinn er merktur mér, hvernig á þessu rugli með Søstjernen og Strandvejens Kiosk stendur er aukaatriði.“ Hvorki hefur tekist að hafa uppi á manninum sem kom hlaupandi út og kallaði ( að sögn Johannes) að á miðanum væri vinningur, né vitnum að þessu atviki.
Ætlar ekki að gefast upp
Johannes Nielsen, sem er 82 ára, ætlar ekki að leggja árar í bát. Hann vill fá málið fyrir Hæstarétt og viðurkennir að þetta sé orðin þráhyggja. Hann hefur þegar eytt 300 þúsundum krónum (5.7 milljónum íslenskum) í þetta mál, það er fyrst og fremst lögfræðikostnaður. Hvort málið endar fyrir Hæstarétti liggur ekki fyrir. Johannes Nielsen segir að fjölskyldan sé dauðleið á þessu máli og láti gott heita. Johannes er ekki á sömu skoðun og ætlar ekki að gefast upp. ,,Ekki að ræða það.“