Mynd: Birgir Þór Harðarson

Ríkisstjórnarflokkarnir græða mikið fylgi á Klaustursmálinu

Samanlagt fylgi þeirra þriggja flokka sem mynda ríkisstjórn jókst um 8,6 prósentustig eftir Klaustursmálið. Mesta fylgisaukningin er hjá Framsókn. Frjálslynda stjórnarandstöðublokkin bætir líka við sig en sameiginlegt fylgi Klausturflokkanna tveggja, Miðflokks og Flokks fólksins, helmingast.

Í könnun sem MMR birti 21. nóvember síðastliðin var samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja, Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks, 38,9 prósent. Það var lægsta samanlagða fylgi þeirra frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum 30. nóvember 2017. Allir flokkarnir þrír áttu í vandræðum. Sjálfstæðisflokkurinn hafði til að mynda mælst með undir 20 prósent fylgi í könnun sem birtist í nóvember, Vinstri græn höfðu tapað 40 prósent af fylgi sínu frá kosningunum og Framsóknarflokkurinn mældist með einungis 7,5 prósent fylgi.

Í nýjustu könnun MMR, sem framkvæmd var 5-11. desember 2018, bæta allir stjórnarflokkarnir við sig. Mestur er viðsnúningurinn hjá Framsóknarflokknum, sem fer úr 7,5 prósentum í 12,5 prósent. Það er 67 prósent aukning á milli kannanna sem birtust með 23 daga millibili. Nú er samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna 47,5 prósent og jókst um 8,6 prósentustig. Það er sameiginleg fylgisaukning um 22 prósent.

Ástæða þessa er einföld: Klaustursmálið.

Klausturmálið helmingar fylgið

Þann 28. nóvember síðastliðinn hófu fjölmiðlar að birta fréttir upp úr upptöku af samtali sex þingmanna, – fjórum úr Miðflokknum og tveimur úr Flokki fólksins – sem tekin var upp á Klausturbar 20. nóvember. Í samtali þingmannanna, sem var tekið upp að hluta á meðan að þingfundur stóð yfir, níðast þeir og hæðast að nafngreindu fólki stjórnmálum. Þeir heyrast einnig stæra sig að pólitískum hrossakaupum, þingmenn Miðflokksins reyna að telja þingmenn Flokks fólksins um að ganga til liðs við sig auk þess sem niðurlægjandi orð eru látin falla um Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingmann og þekktan baráttumann fyrir auknum réttindum fatlaðra, og þekktan samkynhneigðan tónlistarmann.

Þing­­menn­irnir sex sem ræddu saman á fund­inum á Klaustur bar, 20. nóv­­em­ber, voru Sig­­mundur Dav­íð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins , Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður hans, Anna Kol­brún Árna­dótt­ir, ritari flokksins, og Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. Með þeim voru Karl Gauti Hjalta­­son og Ólafur Ísleifs­­son úr Flokki fólksins. Þeir tveir síð­­ast­­nefndu hafa verið reknir úr Flokki fólks­ins, og Berg­þór og Gunnar Bragi eru farnir í leyfi. Eng­inn þing­­manna hefur sagt af sér, og eng­inn hefur það í hyggju.

Fylgi Miðflokksins gjörsamlega hrynur á milli kannanna. Flokkurinn var á miklu flugi í síðustu könnun MMR þar sem fylgi hans mældist 13,1 prósent, sem hefði gert Miðflokkinn að þriðja stærsta flokki landsins ef kosið hefði verið á þeim tímapunkti. Fylgi flokksins hafði aldrei mælst meira.

Nú, í kjölfar Klausturmálsins, mælist fylgið 5,9 prósent. Miðflokkurinn rétt næði inn á þing ef kosið yrði í dag. Flokkurinn, sem stofnaður var í aðdraganda síðustu kosninga og vann þar glæstan kosningasigur þegar hann fékk 10,9 prósent atkvæða, það mesta sem nýr flokkur hefur nokkru sinni fengið í fyrstu kosningum sínum í Íslandssögunni, hefur aldrei mælst með jafn lítið fylgi í mælingum MMR og nú.

Flokkur fólksins fær líka útreið og mælist með 4,2 prósent fylgi. Það myndi ekki duga honum til að ná inn manni ef kosið yrði í dag.

Flokkarnir tveir hafa átt samleið í mörgum málum og haldið á lofti sambærilegum áherslum. Saman er þessi blokk flokka, sem hefur legið undir ámæli um að stunda lýðskrum í ýmsum málum og voru meðal annars flokkaðir sem popúlistaflokkar í nýlegri úttekt breska stórblaðsins Guardian um ris slíkra í Evrópu, nú með 10,1 prósent fylgi. Hún var með 20,7 prósent fylgi fyrir 23 dögum síðan. Fylgið hefur því rúmlega helmingast.

Framsókn upplifir endurnýjun lífdaga

Sá flokkur sem græðir mest fylgi á Klausturmálinu er Framsóknarflokkurinn. Kjörtímabilið hafði verið honum erfitt og fylgið mælst mjög lítið í undanförnum könnunum. Þann 21. nóvember sögðust 7,5 prósent landsmanna að þeir myndu kjósa hann. Það er ansi langt undir kjörfylgi, sem var 10,7 prósent, þrátt fyrir að niðurstaðan í síðustu kosningum hafi verið versta niðurstaða Framsóknarflokksins í rúmlega 100 ára sögu hans.

Ástæðan fyrir þessari stöðu var fyrst og fremst uppgangur Miðflokksins, klofningsflokks fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Bein fylgni var milli vaxtar hans og hnignunar Framsóknar.

Eftir Klaustursmálið bætir Framsóknarflokkurinn við heilum fimm prósentustigum og mælist með 12,5 prósent fylgi. Það sýnir að þorri þess fylgis sem tálgast hefur af Miðflokknum hefur líkast til snúið aftur heim til Framsóknar.

Þar skiptir miklu máli framganga Lilju D. Alfreðsdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins og mennta- og menningarmálaráðherra, í kjölfar þess að Klausturupptökurnar voru gerðar að hluta til opinberar. Lilja er einn þeirra stjórnmálamanna sem var mikið rædd, á kynferðislegan og niðrandi hátt, í samtali þingmanna Miðflokksins. Á upptökunum heyrist Gunnar Bragi meðal annars segja: „Hjólum í helvítis tíkina“ þegar rætt er um Lilju.

Lilja fór í viðtal í Kastljósi 5. desember síðastliðinn sem hefur mælst afar vel fyrir þvert á pólitískar línur. Þar var hún mjög afgerandi í afstöðu sinni gagnvart framferði Klausturfólksins., sagði tal þeirra vera „algjört ofbeldi“ og að hún væri „ofboðslega“ ósátt við það.

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningamálaráðherra, var einn þeirra stjórnmálamanna sem rætt var um á niðrandi hátt á Klausturbar.
Mynd: Hringbraut

Vinstri græn, sem leiða ríkisstjórn, bæta einnig verulega við sig á örfáum vikum. Fylgi flokksins mælist nú 12,9 prósent en var áður 10,3 prósent. Flokkurinn er enn langt frá kjörfylgi sínu, en hann fékk 16,9 prósent í kosningunum í október 2017.

Píratar bæta umtalsverðu við sig

Hin blokkin í stjórnarandstöðu, sú sem skipuð er frjálslyndari flokkum, nýtur þess líka í nýju könnuninni að Miðflokkurinn og Flokkur fólksins tapi verulegu fylgi. Sameiginlegt fylgi Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar var 36,2 prósent í lok nóvember en er nú 38,9 prósent. Í síðustu kosningum fékk þessi blokk 28 prósent atkvæða. Samanlagt fylgi flokkanna þriggja hefur því aukist um 39 prósent á rúmu ári.

Fylgi Viðreisnar stendur nánast í stað og mælist 8,5 prósent og fylgi Samfylkingarinnar, sem hefur sjálf þurft að takast á við hneykslismál tengd núverandi og fyrrverandi þingmönnum flokksins, bætir lítillega við sig milli kannana. Hún myndi fá 16,9 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag sem myndi gera flokkinn að næst stærsta flokki landsins.

Sá þriðji stærsti yrði hins vegar Píratar, sem á eftir Framsókn eru mestu hástökkvararnir frá því að síðasta könnun MMR var birt. Fylgi flokksins hefur risið úr 11,3 í 14,4 prósent.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar