Mynd: United Silicon

Stakksberg telur íbúakosningu um stóriðju í Helguvík ólögmæta og geta leitt til bótaskyldu

Stakksberg, félag í eigu Arion banka, hefur sent Reykjanesbæ bréf þar sem félagið segir sveitarfélagið skaðabótaskylt ef komið verður í veg fyrir starfsemi kísilmálmverksmiðjunar sem áður var í eigu United Silicon. Í bréfinu er tekið fram að fjárfesting í verksmiðjunni nemi 22 milljörðum króna.

Stakksberg, félag í eigu Arion banka sem heldur á kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík, telur að íbúakosning um breytingar á skipulagi á svæðinu sem félagið hefur óskað eftir að láta vinna sé ekki lögmæt. Í bréfi sem félagið sendi Skipulagsstofnun, og Kjarninn hefur undir höndum, segir að „slíkar umsóknir verði að afgreiða á grundvelli lögmætra og málefnalegra sjónarmiða en ekki í vinsældarkosningu.“ Nú stendur yfir undirskriftasöfnun Í Reykjanesbæ þar sem krafist er bindandi íbúakosningar vegna starfsemi kísilmálmverksmiðja í Helguvík.

Í bréfinu segir lögmaður Stakksberg að þegar hafi verið fallist á starfsemina sem hafi fengið öll leyfi og sé meðal annars með gilt starfsleyfi. „Verksmiðjan hefur þegar verið byggð á lóðinni fyrir um 22 milljarða króna. Um er að ræða réttindi sem njóti verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar og atvinnuréttindi sem njóti verndar 75. gr. stjórnarskrár. Um slík réttindi verði ekki kosið í almennum kosningum að mati Stakksberg ehf.“

Verði kosið um málið, og niðurstaða þeirrar kosningar verði sú að starfsemi kísilmálmverksmiðjunnar verði hafnað, þá telur Stakksberg Reykjanesbæ hafa bakað sér bótaskyldu. Í bréfinu segir að verði látin fara fram kosning „og leiði hún til þess að ekki verði hægt að starfrækja þá verksmiðju sem þegar hefur verið byggð á lóðinni mun það að mati Stakksberg ehf. leiða af sér skaðabótaskyldu gagnvart eiganda lóðarinnar[...]Sökin væri nokkuð augljós enda um að ræða ásetning til þess að koma í veg fyrir tiltekna starfsemi/uppbyggingu sem þegar hafði verið fallist á og hefði þegar leitt til verulegrar fjárfestingar.“

Ef skipulagi yrði breytt til að koma í veg fyrir starfsemi verksmiðjunnar myndi það leiða til verulegs tjóns sem birtist meðal annars í því að „verðmæti fasteignarinnar skerðist verulega, umfram það sem við á um sambærilegar eignir í næsta nágrenni. Augljóst má vera að skipulagsbreyting sem beindist beint gegn lóðinni, einkum ef hún beindist ekki að lóð Thorsil, væri bótaskyld. Mögulegt væri einnig að krefjast yfirtöku eignarinnar í heild gegn greiðslu fulls verðs[...]Í þessu sambandi er minnt á að þegar unnin fjárfesting í verksmiðju Stakksberg nemur um 22 milljörðum króna.“


Stofnunin sendi erindi Reykjanesbæjar til Stakksbergs

Skipulagsfulltrúi Reykjanesbæjar sendi spurningar sem lúta að deiliskipulagsbreytingum í Helguvík til Skipulagsstofnunar 1. nóvember síðastliðinn. Það var gert að beiðni bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og í bréfinu var óskað svara við alls níu spurningum.

Svar hefur ekki borist frá Skipulagsstofnun vegna málsins. En slíkt barst hins vegar frá Stakksbergi. Bæjarráð Reykjanesbæjar er ósátt við þessi vinnubrögð og á síðast fundi þess, sem fram fór í gær, var bókað að bæjarráð óski eftir því að leitað verði svara hjá Skipulagsstofnun „hvers vegna lögfræðingar hagsmunaaðila í málinu þ.e. Stakksbergs fengu afhentar spurningar frá Reykjanesbæ er lúta að deiliskipulagsbreytingum í Helguvík og heimild til þess að skila inn athugasemdum áður en stofnunin svaraði Reykjanesbæ.“

Bæjarráðið samþykkti auk þess að leggja fram þrjár spurningar fyrir stofnunina:

  1. Eru þetta alvanaleg vinnubrögð Skipulagsstofnunar?
  2. Telur Skipulagsstofnun að með þessu sé verið að gæta hlutleysis?
  3. Á hvaða lagagrundvelli tók Skipulagsstofnun ákvörðun um að afhenda Stakksbergi spurningar Reykjanesbæjar?

Mikil óánægja vegna mengunar

Hart hefur verið tekist á um uppbyggingu stóriðju í Helguvíkur eftir að kísilverksmiðja United Silicon, sem var gangsett í nóvember 2016. Fljót­­­lega eftir gangsetningu fór að bera á mik­illi óánægju hjá íbúum í Reykja­­­nesbæ með mengun frá verk­smiðj­unn­i. Margir fundu fyrir tölu­verðum lík­­­am­­­legum ein­­­kennum vegna þessa og voru meðal ann­­ars haldnir fundir þar sem fólk deildi sögum sínum og kvart­aði undan meng­un­inn­i.

Í apríl 2017 til­­­kynnti Umhverf­is­­­stofnun for­svar­s­­­mönn­um United Silicon að ekki yrði hjá því kom­ist að loka verk­smiðj­unni vegna meng­unar sem frá henni streymdi. Í kjöl­farið voru veittir frestir en starf­­­semin var end­an­­­lega stöðvuð 1. sept­­­em­ber 2017 og fram­­­leiðsla hefur legið niðri síð­­­­­an.

United Silicon ehf. fór í kjölfarið í þrot og yfir stendur sakamálarannsókn á starfsháttum innan félagsins. Magnús Garðarsson, stofnandi og fyrrverandi forstjóri félagsins, er meðal annars grunaður um fjársvik og að hafa dregið að sér yfir 600 milljónir króna. Samkvæmt skýrslu sem KPMG vann fyrir þrotabú United Silicon er rökstuddur grunur um  að Magnús hafi, í starfi sínu sem for­stjóri United Silicon, falsað reikn­inga og und­ir­skrift­ir, átt við lánasamninga og búið til gervilén í við­leitni sinni til að draga að sér fé úr fyr­ir­tæk­inu.

Þrotabúið hefur einnig stefnt Magnúsi til að reyna að endurheimta það fé sem það telur að hann hafi stolið. Í október síðastliðnum greindi Viðskiptablaðið frá því að þrotabúið hefði einnig stefnt endurskoðunarfyrirtækinu Ernst & Young sem sá um tíma um endurskoðun United Silicon.

Andstæðingar vilja að starfsleyfi verði afturkallað

Helsti kröfuhafi United Silicon var Arion banki. Eftir gjaldþrotið tók félag í eigu bankans, áðurnefnt Stakksberg, yfir kísilmálverksmiðjuna í Helguvík og lýsti því yfir að markmið þess væri að gera allar þær úrbætur sem nauð­­syn­­legar væru til að upp­­­fylla kröf­ur Um­hverf­is­stofn­un­ar, og koma verksmiðjunni aftur í gagnið. Í kjölfarið væri hægt að selja hana.

Mikil andstaða er við öll frekari áform um rekstur kísilmálmvera í Helguvík á meðal hluta íbúa Í Reykjanesbæ, en auk verksmiðju United Silicon hyggur félagið Thorsil á byggingu slíkrar á svæðinu. Vegna hennar hafa verið stofnuð félagasamtökin „Andstæðingar stóriðju í Helguvík“. Samtökin standa nú fyrir undirskriftasöfnun til að efna til bindandi íbúakosninga vegna starfsemi Stakksberg og Thorsil í Helguvík. Átakið fer m.a. fram á að beiðni Stakksbergs um breytingu á deiliskipulagi í Helguvík verði hafnað.

Þá hafa samtökin falið lögmanni að óska eftir því við Umhverfisstofnun að starfsleyfi Stakksbergs verði afturkallað. Í fréttatilkynningu vegna þessa sem send var út í dag segir að samtökin telji „annars vegar að ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins sé ógildanleg og hins vegar að alvarleg tilvik og ítrekuð brot gegn lögum, reglum og ákvæðum starfsleyfisins hafi komið upp á gildistíma þess og að úrbótum hafi ekki verið sinnt. ASH benda á að áður en starfsemin var loks stöðvuð hafði Umhverfisstofnun borist á annað þúsund kvartana vegna lyktamengunar frá verksmiðjunni þar sem lýst var margvíslegum líkamlegum einkennum af hennar völdum. Þá telja ASH að annað hvort mat á umhverfisáhrifum byggi á röngum forsendum um fyrirhugaða starfsemi eða þá að hönnun og starfræksla verksmiðjunnar sé ekki í samræmi við þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar matinu og þar með útgáfu starfsleyfisins. Hvoru tveggja sé um að ræða verulegan annmarka á málsmeðferð til undirbúning útgáfu starfsleyfisins sem leiðir til þess að ákvörðunin er ógildanleg og þar með afturkallanleg.“

Samtökin telja einnig ljóst að stöðvun starfseminnar ein og sér sé ekki til þess fallin að ná því markmiði að tryggja nauðsynlegar úrbætur þannig að frávikin endurtaki sig ekki heldur sé nauðsynlegt að starfsleyfisveitingarferlið sé endurtekið á réttum forsendum. Afturköllun starfsleyfisins sé eina úrræðið sem getur náð því markmiði að tryggja til frambúðar að starfsemi verksmiðjunnar verði í samræmi við lög.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar