Í nýsamþykktum fjáraukalögum vegna ársins 2018 var fjárheimild til trúmála hækkuð um 820 milljónir króna. Þessi hækkun skýrist annars vegar af því að framlag til þjóðkirkjunnar verður aukið um 857 milljónir króna og hins vegar lækka framlög vegna sóknargjalda um 37 milljónir króna vegna endurmats á fjölda einstaklinga í skráðum trúfélögum.
Þetta framlag kemur til viðbótar því fjármagni sem þegar hefur verið ráðstafað til þjóðkirkjunnar á fjárlögum, en þaðan er greitt framlag til Biskups Íslands, í Kirkjumálasjóð og Jöfnunarsjóð sókna.
Samtals er áætlað að þessi upphæð verði 2.830 milljónir króna í ár. Til viðbótar fær þjóðkirkjan greidd sóknargjöld í samræmi við þann fjölda sem í henni er. Ætla má að sú upphæð verði yfir 1,7 milljarðar króna í ár. Samtals kostaði rekstur þjóðkirkjunnar því tæplega 4,6 milljarða króna í ár áður en að viðbótarframlagið var samþykkt. Það hækkaði ríkisframlagið um tæp 19 prósent.
Samningsviðræður milli ríkis og kirkju standa yfir
Framlagið til þjóðkirkjunnar er vegna hins svokallaða kirkjujarðarsamkomulags milli ríkis og kirkju sem gert var 10. janúar 1997. Í því var samið um að kirkjan léti af hendi kirkjujarðir að frátöldum prestssetrum og að andvirði seldra kirkjujarða rynni í ríkissjóð. Á móti mundi ríkissjóður greiða laun biskups Íslands, vígslubiskupa, 138 starfandi presta og prófasta kirkjunnar og 18 starfsmanna Biskupsstofu, annan rekstrarkostnað prestsembætta og Biskupsstofu, námsleyfi, fæðingarorlof, veikindi o.fl.
Til viðbótar skyldi ríkið greiða árlegt framlag í Kristnisjóð sem svaraði til 15 fastra árslauna presta. Ef það fækkaði eða fjölgaði í þjóðkirkjunni skyldi framlag ríkisins lækka eða hækka eftir tilteknum viðmiðum en þó aldrei niður fyrir tiltekinn fjölda starfa. Þá skyldu laun og launatengd gjöld fyrrgreindra starfsmanna þjóðkirkjunnar vera samkvæmt úrskurðum kjararáðs.
Í frumvarpi til fjáraukalaga segir að í kjölfar bankahrunsins hafi orðið forsendubrestur í ríkisfjármálum og til að bregðast við því var óhjákvæmilegt að gera umtalsverðar aðhaldskröfur í rekstrarútgjöldum allra ríkisstofnana og rekstraraðila sem fjármagnaðir eru úr ríkissjóði.
„Í tilfelli þjóðkirkjunnar var um sambærilegar aðhaldskröfur að ræða og gerðar voru í öðrum almennum rekstri hjá ríkinu. Í fjáraukalögum 2015, 2016 og 2017 voru samskonar tillögur samþykktar undir þeim formerkjum að viðræður mundu þegar hefjast við kirkjuna um endurskoðun kirkjujarðasamkomulagsins sem fæli þá í sér endurskoðun allra fjárhagslegra samskipta ríkis og kirkju, þ.m.t. hvað varðar sóknargjöld, jöfnunarsjóð sókna, framlög til kirkjumálasjóðs og Kristnisjóðs, með markmið m.a. um verulega einföldun þessara samskipta.“
Ríkið myndi greiða laun 80 presta þótt engin væri í þjóðkirkjunni
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, skilaði inn minnihlutaáliti í fjárlaganefnd þar sem sérstaklega er fjallað um framlög ríkisins til þjóðkirkjunnar.
Þar bendir hann á að þeim sem skráðir séu í þjóðkirkjuna hafi fækkað um rúmlega tíu þúsund frá árinu 1998 og miðað við það ætti ríkið því að greiða laun 136 presta samkvæmt kirkjujarðasamkomulaginu, en ekki 138.
Í áliti Björns Leví segir einnig: „Kirkjujarðasamkomulagið er hins vegar augljóslega mjög gallað þar sem engin tímatakmörk eru sett á það hversu lengi ríkið á að greiða laun biskups, presta og þess háttar samkvæmt samkomulaginu. Svör við fyrirspurnum um það hvaða gæði ríkið fékk í staðinn hafa verið einföld, ríkið veit það ekki. Það liggur í augum uppi að þetta samkomulag er mjög slæmt fyrir ríkið og vafasamt hvort það stenst lög um samningsákvæði eða greinar stjórnarskrár um fjárheimildir. Miðað við þá framkvæmd sem hefur tíðkast, að samþykkja fjárheimildir eftir á, má leiða rök að því að ef Alþingi samþykkir ekki þessa fjárheimild þá sé Alþingi að rifta samningnum.“