Alls telja 65 prósent landsmanna að margir eða nánast allir stjórnmálamenn á Íslandi séu viðriðnir spillingu. Árið 2016, þegar Panamaskjölin voru opinberuð, töldu 34 prósent landsmanna að margir eða nánast allir íslenskir stjórnmálamenn væru spilltir. Einungis níu prósent landsmanna telja að nánast engir eða fáeinir stjórnmálamenn séu spilltir en fyrir tveimur árum var það hlutfall 28 prósent.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í könnun Félagsvísindastofnunar sem framkvæmd var daganna 4. til 17. desember 2018. Könnunin var send út á á 2000 einstaklinga og 975 svöruðu og var því þátttökuhlutfallið um 49 prósent. Gögnin sem könnunin byggir á voru vigtuð eftir kyni, aldri, búsetu og menntun þannig að úrtakið endurspegli þýði Íslendinga að þessu leyti.
Könnunin er því gerð eftir að fréttir um hið svokallaða Klaustursmál hófu að birtast og niðurstöðurnar sýna því áhrif þess á tiltrú almennings á Alþingi.
Fleiri treysta Alþingi ekki neitt
í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að 62 prósent landsmanna telja að það myndi auka traust þeirra til Alþingis mikið ef meira væru um afsagnir þingmanna í kjölfar mistaka. Engin ein ástæða er meira ráðandi í traustleysi á Alþingi í dag en sú að þingmenn segi ekki af sér þegar þeir verða uppvísir af mistökum.
Athygli vekur að 16 prósent aðspurðra telja að nánast allir stjórnmálamenn landsins séu viðriðnir spillingu. Fyrir tveimur árum síðan, eftir að Panamaskjölin voru opinberuð, töldu fimm prósent landsmanna að nánast allir stjórnmálamenn landsins væru spilltir. Það hlutfall hefur því rúmlega þrefaldast á tveimur árum.
Að sama skapi telja einungis tvö prósent landsmanna að nánast engin þingmaður sé spilltur, en það hlutfall var sjö prósent árið 2016.
Fleiri segjast ekki treysta Alþingi neitt í dag en gerðu það fyrir fimm árum síðan þegar sömu spurningar voru lagðar fyrir í sambærilegri könnun. Nú segjast 18 prósent landsmanna bera alls ekkert traust til Alþingis en það hlutfall var 16 prósent árið 2013.
Það hefur þó fækkað í þeim hópi sem ber mjög eða frekar litið traust til Alþingis. Í dag er helmingur þjóðarinnar á þeirri skoðun en það hlutfall var 60 prósent árið 2013.
Klaustursmálið áhrifavaldur
Þann 28. nóvember síðastliðinn hófu fjölmiðlar að birta fréttir upp úr upptöku af samtali sex þingmanna, – fjórum úr Miðflokknum og tveimur úr Flokki fólksins – sem tekin var upp á Klausturbar 20. nóvember. Í samtali þingmannanna, sem var tekið upp að hluta á meðan að þingfundur stóð yfir, níðast þeir og hæðast að nafngreindu fólki stjórnmálum. Þeir heyrast einnig stæra sig að pólitískum hrossakaupum, þingmenn Miðflokksins reyna að telja þingmenn Flokks fólksins um að ganga til liðs við sig auk þess sem niðurlægjandi orð eru látin falla um Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingmann og þekktan baráttumann fyrir auknum réttindum fatlaðra, og þekktan samkynhneigðan tónlistarmann.
Miklar fylgisbreytingar
Í könnunum sem gerðar hafa verið að undanförnu hefur komið skýrt fram að Klaustursmálið hefur haft umtalsverð áhrif á hið íslenska stjórnmálalandslag. Í könnun MMR sem birt var í síðustu viku mældist Miðflokkurinn til að mynda með 5,9 prósent fylgi en hafði mælst með 13 prósent í fyrri könnunum.
Flokkur fólksins fær líka útreið og mælist með 4,2 prósent fylgi. Það myndi ekki duga honum til að ná inn manni ef kosið yrði í dag. Samanlagt fylgi þessara tveggja flokka, sem hafa átt nokkra samleið í mörgum málum, helmingaðist milli kannana.
Aðrir flokkar bættu að sama skapi við sig fylgi. Sá flokkur sem græddi mest er Framsóknarflokkurinn. Fylgi hans jókst um fimm prósentustig og mælist nú 12,5 prósent.