Norski bankinn DNB er sá banki á Norðurlöndunum sem hefur einna oftast verið nefndur sem góður kaupandi að Íslandsbanka, þegar að því kemur að íslenska ríkið selji bankann. Ríkið eignaðist bankann að fullu með stöðugleikasamningunum svokölluðu, þegar leyst var úr vanda slitabúa föllnu bankanna.
Í nokkur skipti eftir hrun fjármálakerfisins - og endurreisn þess í kjölfarið - hafa átt sér stað samtöl við fulltrúa bankans, bæði innan slitastjórnar Glitnis og íslenska stjórnkerfisins, þar sem rætt hefur verið um þennan möguleika.
Sérstaklega voru þessar viðræður í hávegum í byrjun ársins 2012 en slitastjórn Glitnis hafði þá fengið UBS bankann svissneska til að kanna möguleika á sölu á eignarhluta sínum í Íslandsbanka, sem þá var 95 prósent hlutur.
Þá hefur DNB einnig sótt nokkuð inn á íslenskan markað fyrir fyrirtækjalán.
Þannig hafa nokkur sjávarútvegsfyrirtæki fært fjármögnun til bankans, þar sem hann hefur getað boðið betri og sveigjanlegri fjármögnun heldur en íslensku bankarnir, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Íslandsbanki og DNB gerðu með sér samning um eignastýringu 1. desember 2010 og því hefur verið nokkur tengsl milli bankanna um nokkurra ára skeið.
Stór banki með norska ríkið sem stærsta eiganda
DNB bankinn er risavaxinn á íslenskan mælikvarða. Heildareignir hans í lok árs 2017 námu um 33 þúsund milljörðum króna (Miðað við ISK 14 NK), samanborið við rúmlega þúsund milljarða hjá Íslandsbanka á sama tíma.
Heildarefnahagur DNB er um það bil tíu sinnum stærri en heildareignir Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans samanlagt.
Norska ríkið er stærsti eigandi bankans með 34 prósent hlut. Í gegnum innstæðutryggingasjóð, og einnig eignarhluti sem heyra undir DNB banka, þá má segja að norska ríkið fari með rúmlega 50 prósent hlut í bankanum.
Aðrir eigendur hans eru meðal annars flest af stærstu alþjóðlegu eignarstýringarfyrirtækjum heimsins. Þannig á Black Rock, og sjóðir á vegum þess, 2,3 prósent hlut og sjóðir á vegum annars risa, Vanguard, eiga 1,5 prósent hlut.
Bankinn er skráður í Noregi og hefur þar höfuðstöðvar. Starfsemi hans er hins vegar víða um heim, og hefur hann meðal annars markað sér sérstöðu á sviði fjármálaþjónustu í orkugeiranum og matvælaiðnaði, meðal annars sjávarútvegi.
Söluferlið hefjist fyrir lok kjörtímabilsins
Eins og kunnugt er hafa stjórnvöld hug á því að endurskipuleggja eignarhald á íslenskum bönkum, meðal annars með sölu á hlutabréfum í ríkisbönkunum tveimur, Íslandsbanka og Landsbankanum (98 prósent).
Ekki hefur verið formlega farið af stað með þá vinnu, en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að stjórnvöld vilji hefja söluferlið áður en kjörtímabilinu lýkur, og er horft til þess að selja Íslandsbanka í heild sinni, en að ríkið haldi síðan eftir kjölfestueignarhlut í Landsbankanum, á bilinu 35 til 40 prósent.
Í hvítbók um fjármálakerfið, sem stjórnvöld létu taka saman og kynnt var í lok síðasta árs, er fjallað um að stjórnvöld hafi nokkrar leiðir við sölu, meðal annars að virkja til þess skráðan markað og finna nýja eigendur í gegnum hann, eins og gert var þegar Arion banki var skráður á markað í tvíhliða skráningu, bæði á Íslandi og í Svíþjóð.
Heildareigið fé ríkisbankana tveggja, Íslandsbanka og Landsbankans, nemur um 450 milljörðum króna.