Margt ríkasta fólk heimsins býr við sama vatnið í Washington ríki, Lake Washington. Skyndilegt andlát og skilnaður eru nú að valda töluverðum titringi og eignauppskiptingu sem á sér fá fordæmi þegar horft er til umfangsins.
Mikil verðmæti
Tvö verðmætustu fyrirtæki heimsins, Amazon og Microsoft, eru bæði með höfuðstöðvar á Seattle-borgarsvæðinu í Washington, en uppbygging þessara tæknirisa hefur leitt til gífurlegrar auðsöfnunar þeirra sem byggðu fyrirtækin upp og stofnuðu þau, eins og gefur að skilja.
Markaðsvirði Amazon er 834 milljarðar Bandaríkjadala, eða um 110 þúsund milljarðar króna, en virði Microsoft er 825 milljarðar Bandaríkjadala, eða um 102 þúsund milljarðar króna. Þessi tvö fyrirtæki hafa skipst á að vera verðmætasta fyrirtæki heimsins undanfarna mánuði.
Núlifandi stofnendur fyrirtækjanna búa báðir á Seattle svæðinu, þar sem fyrirtækin urðu til, þeir Bill Gates og Jeff Bezos, og eru tveir ríkustu einstaklingar heimsins.
Miklar eignir í innviðum
Bill og kona hans Melinda Gates reka einnig stofnun sína, Bill and Melinda Gates Foundation, frá Seattle og vinna nú að umfangsmikilli stækkun hennar í miðborginni, sem mun kalla á ráðningar á 10 þúsund manns til viðbótar.
Eignir Bill Gates eru bundnar í ýmsum eignaflokkum, en helst í hlutabréfum og landareignum og nema samtals um 90 milljörðum Bandaríkjadala, eða um 11 þúsund milljörðum króna.
Hann er stór hluthafi í UPS póstþjónusunni, lestarteinaframleiðandanum Canadian National Railway Company í Kanada, framleiðslutækjafyrirtækinu Caterpillar, sorphirðufyrirtækinu Waste Mangement Inc, svo eitthvað sé nefnt.
Þá á hann einnig hlutafé í fjárfestingafélaginu Berkshire Hathaway, sem Warren Buffett stýrir, og síðan í Microsoft. Hann hefur hins vegar selt töluvert af eignum í því fyrirtæki á undanförnu árum. Bill and Melinda Gates Foundation á eignarhlut í Microsoft sem er virði um 3,4 milljarða Bandaríkjadala, um 400 milljarða.
You can’t beat this ROI. https://t.co/MgzJkjec7l
— Bill Gates (@BillGates) January 18, 2019
Á undanförnum mánuðum hefur Bill Gates fjárfest umtalsvert í landi og keypti meðal annars landbúnaðarland í uppsveitum Washington ríkis, í október síðastliðnum, fyrir um 170 milljónir Bandaríkjadala, eða jafnvirði um 22 milljarða króna.
Til viðbótar við framantaldar eignir er stór hluti eignanna í sjóðum, meðal annars nýsköpunarsjóðum, sem þau hjónin bæði stýra í gegnum Bill and Melinda Gates Foundation.
Miðpunkturinn í starfsemi þeirra og fjárfestingum hefur ávallt verið Seattle svæðið, en Bill Gates er fæddur þar og uppalinn.
Löggjöfin í Washington ríki er þannig, að eignir hjóna eru í jafnri hlutdeild þeirra, og því má segja að þau hjónin séu eitt, eins og þau hafa reyndar lagt áherslu á alla tíð, meðal annars þegar þau tilkynntu um að þau myndu gefa allar eignir sínar frá sér í þróunaraðstoð, í gegnum Bill and Melinda Gates Foundation.
Meðstofnandi deyr
Meðstofnandi Bill Gates hjá Microsoft, Paul Allen, lést 15. október síðastliðinn, eftir skammvinna baráttu við krabbamein. Hann var ógiftur og barnlaus, en á eina systur, Jody Allen. Andlát Paul Allen olli miklum titringi og setti af stað umfangsmikla endurskipulagningarvinnu á eignasafni hans, samkvæmt skrifum Pudget Sound Business Journal, viðskiptatímarits sem sérhæfir sig í hagkerfi Seattle svæðisins.
Eignirnar voru meðal annars bundnar í félaginu Vulcan, sem hélt utan um fjárfestingar Allens í fasteignum, rannsóknarverkefnum, góðgerðarmálum og ýmsu öðru sem hann kom að.
Forbes verðmat eignir hans á 30 milljarða Bandaríkjadala, eða um 3.600 milljarða króna, en vegna þess hve mikið lá í óskráðum eignum þá er erfitt að fullyrða um virði þeirra.
Skömmu áður en hann lést, setti hann fasteignir á Mercer Island, þar sem margt efnað fólk á Seattle svæðinu býr, á sölu fyrir um 130 milljónir Bandaríkjadala, eða um 17 milljarða króna. Þó þetta sé lítill hluti af heildareignum, þá er þetta stórbiti fyrir fasteignamarkað Seattle borgar, þar sem íbúar eru um 700 þúsund, en á borgarsvæðinu í heild eru íbúar rúmlega 3 milljónir. Hluti af eignunum var bundinn í lúxushúsnæði, sem fáir hafa efni á, en stór hluti var í verðmætu byggingarlandi.
Proud to continue the work of our founder in his beloved home town. https://t.co/FS8Sn6uBkY
— Vulcan Inc. (@VulcanInc) January 18, 2019
Fasteignasafn Allens er að miklu leyti bundið við miðborg Seattle, en hann hefur meðal annars byggt upp húsnæði sem í dag hýsir höfuðstöðvar Amazon og stórar starfsstöðvar bæði Google og Facebook í miðborginni. Þannig hefur hann verið tengdur ævintýralegum vexti Amazon og hagnast á honum í gegnum fasteignaviðskipti, en þróun borgarinnar hefur einnig verið framkvæmd í samvinnu við Vulcan, ekki síst svæðið nærri Lake Uninon, sem er miðsvæðis á borgarsvæðinu.
Eignirnar sem hann skildi eftir voru líka óvenjulega fjölbreyttar. Meðal annars átti hann NFL liðið Seattle Seahawks og NBA liðið Portland Trailblazers í nágrannaborginni Portland, í Oregon. Þá átti hann stærsta gítarasafn í heimi, stærsta herminjasafn í heimi, og flugvélasafn sem á sér ekki hliðstæðu í veröldinni. Margt af því sem þarna er að finna eru safngripir sem erfitt er að verðmeta.
Systir Allens, Jody, hefur nú fengið þessar eignir að mestu, en ekki hefur þó verið upplýst um hvernig fer með fjárfestingafélagið Vulcan, en sjálfur hafði Allen hugsað það félag til framtíðar litið sem sjálfseignarstofnun, þar sem fjármunir færu að miklu leyti í góðgerðarstarf. Eitt hans síðasta verk var að gefa frá sér 125 milljónir Bandaríkjadala, um 15 milljarða króna, til rannsóknarstofnunar, Allen Institute, sem mun stunda rannsóknir á sviði læknavísinda.
Bezos hjónin skilja
Hinn 9. janúar birtist yfirlýsing frá Jeff Bezos og eiginkonu hans til 25 ára, MacKenzie Bezos, þar sem tilkynnt var um það að þau væru að skilja. Fréttin kom eins og þruma úr heiðskíru lofti, en ekki reyndist allt með felldu.
— Jeff Bezos (@JeffBezos) January 9, 2019
Slúðurtímaritið National Enquirer hafði fylgst náið með Jeff Bezos yfir átta mánaða tímabil og meðal annars myndað hann með sjónvarpskonunni Lauren Sanches. Þau reyndust þá eiga í ástarsambandi og er það talin vera ástæða skilnaðarins.
Jeff Bezos hefur verið skráður fyrir 17 prósent eignarhlut í Amazon, en virði hans í dag nemur um 141,7 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 17 þúsund milljörðum króna. Þessi eign gerir hann að langsamlega ríkasta manni heimsins. Ef farið verður eftir laganna bókstaf í Washingtor ríki í skilnaðinum, þá mun þessi hlutabréfaeign skiptast jafnt á milli Jeff og MacKenzie, og verður hún þá ríkasta kona heimsins, en Jeff fer niður í fjórða sæti yfir ríkasta fólkið í heiminum.
Ákveði MacKenzie að selja þessi hlutabréf, þá gæti það valdið miklum breytingum hjá Amazon, svo dæmi sé tekið, enda hefur Jeff Bezos verður nær einráður í fyrirtækinu frá stofnun, og stýrt því með farsælum hætti, svo ekki sé meira sagt.
On this day in 1964: Jeff Bezos born
— Jon Erlichman (@JonErlichman) January 12, 2019
Age 53: becomes a centi-billionaire
Age 49: buys Washington Post
Age 39: survives a helicopter crash
Age 36: starts a space company
Age 35: becomes billionaire
Age 33: becomes millionaire
Age 30: launches Amazon
Age 22: starts work on Wall St pic.twitter.com/zylR2iTJzd
Aðrar eignir sem Jeff á eru meðal annars dagblaðið Washington Post, geimferða- og rannsóknarfyrirtækið Blue Origin, auk þess sem hann hefur fjárfest í mörgum sjóðum, ekki síst á sviði nýsköpunar. Hann ákvað á dögunum á ráðstafa tveimur milljörðum Bandaríkjadala, jafnvirði um 240 milljörðum króna, í góðgerðarsjóð, sem mun styðja við valin verkefni árlega.