Bára Huld Beck Halldór Sigurðsson
Bára Huld Beck

Framandi breytingar framundan sem munu bylta hinu daglega lífi

Áleitnar spurningar vakna þegar við veltum fyrir okkur hvernig ný tækni muni breyta lífi okkar í náinni framtíð. Gríðarlegar breytingar hafa þegar orðið á hversdagslegu lífi fólks – sérstaklega í hinum vestræna heimi – og þrátt fyrir að sumar þeirra séu tiltölulega nýtilkomnar er erfitt að ímynda sér veruleikann án snjallsíma, samfélagsmiðla og svo mætti lengi telja.

Tæknin spilar mik­il­væg­ara og stærra hlut­verk í lífi ein­stak­linga og fyr­ir­tækja en áður og fyr­ir­séð er að sú þróun muni ein­ungis halda áfram. Ný tækni á borð við 5G ryður sér til rúms og hafa sér­fræð­ingar velt því fyrir sér hvort inn­viðir lands­ins geti borið þá miklu bylt­ingu sem boðað hefur verið að fylgi þess­ari nýju tækn­i. 

Kjarn­inn náði tali af Hall­dóri Sig­urðs­syni, sér­fræð­ingi í fjar­skipta­málum hjá alþjóð­lega ráð­gjafa­fyr­ir­tæk­inu McK­insey & Company, þegar hann var hér á landi fyrir skömmu. Umræðu­efnin voru meðal ann­ars 5G, net­ör­yggi, nýsköpun og mögu­leikar Íslend­inga í breyttum heimi.

5G er fimmta kyn­slóð far­neta en hún hefur verið kölluð net iðn­að­ar­ins. Með því geta nettengdir hlutir eða kerfi sent gögn sín á milli en til þess þarf að ráð­ast í viða­mikla upp­bygg­ingu á innvið­um. Hall­dór segir að 5G sé stór hluti af þess­ari tækni­bylgju sem nú ríður yfir og að ein­hverju leyti muni sú tækni bera uppi þær nýj­ungar sem framundan eru, bæði fyrir heim­ili og fyr­ir­tæki. „Þess vegna er mik­il­vægt fyrir Ísland að sú orka sem fylgir nýsköpun sé nýtt til að búa til verð­mæti fyrir landið sem hægt sé að þróa áfram,“ segir hann.

Nær hjart­anu að stuðla að breyt­ingum hér heima

Hall­dór er fæddur og upp­al­inn á Íslandi en fór árið 1999 til Dan­merkur í háskóla­nám í verk­fræði. Eftir það ílend­ist hann og hefur síðan þá meira og minna búið þar í landi. Hann seg­ist þó flakka mikið um heim­inn en hann hefur starfað hjá McK­insey síð­ustu tólf til þrettán árin. Hann er með dokt­ors­gráðu í blönd­uðu námi í hag­fræði og verk­fræði.

Hann er með­eig­andi í fyr­ir­tæk­inu og vinnur hann aðal­lega í fyr­ir­tækja­ráð­gjöf fyrir stór fyr­ir­tæki um heim allan sem og stofn­an­ir. Aðal­lega vinnur hann fyrir síma­fyr­ir­tæki eða í fjar­skipta­geir­an­um. „Í fjar­skipta­fyr­ir­tækjum hjálpum við þeim meðal ann­ars að taka ákvarð­anir um 5G. Þá vakna spurn­ingar eins og hvenær eigi að byggja 5G, hvað það kosti og hvaða tekju­mögu­leikar séu í boð­i.“ McK­insey er ekki með skrif­stofu á Íslandi en Hall­dór segir að fyr­ir­tækið taki að sér ein­staka ráð­gjöf fyrir íslensk fyr­ir­tæki. Hann segir alltaf gott og gaman að koma heim og útskýrir hann það á þá leið að það sé nær hjart­anu að reyna að stuðla að ein­hverjum breyt­ingum hér á landi en ann­ars stað­ar.

Hann bendir þó á að heim­ur­inn sé að verða meira „gló­bal“ og jafn­framt séu íslensku fyr­ir­tækin að verða það líka og stærri. Hann telur að fámenni – eins og á Íslandi – geti skapað vand­ræði en að sama skapi hafi Íslend­ingar marga kosti sem reyn­ist vel.

Heim­ilin borga fram­kvæmdir á end­anum

Eins og áður segir vinnur Hall­dór aðal­lega fyrir síma­fyr­ir­tæki og að eigin sögn býr hann nán­ast í flug­vél og flakkar um heim­inn. Hann segir að nú séu ákveðin tíma­mót á Íslandi og þess vegna þurfi að taka ákvörðun hvaða leið sé farin varð­andi kom­andi tækninýj­ung­ar. „Sumt af því sem verið er að gera virkar ekki endi­lega eins og það skyn­samasta,“ segir hann og tekur ein­falt dæmi því til útskýr­ing­ar. „Byrjað er að grafa götur upp í annað skiptið til að setja ljós­leið­ara ofan á ljós­leið­ara. Það þarf ekki dokt­ors­gráðuna hjá mér til að skilja að það sé ekki það hag­kvæm­asta fyrir þjóð­fé­lag­ið,“ segir hann.

Hann segir að á end­anum lendi það óum­flýj­an­lega á heim­il­unum að borga slíkar fram­kvæmd­ir. Hingað til hafi það verið rétt ákvörðun að nota þrjú far­net en hann bendir á að síður en svo sé aug­ljóst að hið rétta sé að byggja þrjú 5G-­net í fram­tíð­inni. „Ef öll þrjú fjar­skipta­fyr­ir­tækin geta boðið sína þjón­ustu á einu fylgineti þá er minni kostn­aður sem þarf að deila á heild­ina.“ Hall­dór segir að í fyrsta lagi hafi 5G ennþá meiri fjár­fest­inga­þörf en fyrri kyn­slóð­ir, sem þýðir að það að halda úti þremur netum sé ekk­ert endi­lega hið rétta fyrir næstu bylgju.

5G
www.123rf.com

„Varð­andi fyrri kyn­slóðir fjar­skipta­neta þá voru það fjar­skipta­fyr­ir­tækin sem fengu arð­inn eða hagn­að­inn af þeirri þjón­ustu sem boðið var upp á,“ segir hann. Í annarri og þriðju kyn­slóð neta borg­aði ein­stak­lingur fyrir að tala í sím­ann. Nú sé öldin önnur þar sem ein­stak­lingar noti sím­ann til að kaupa smá­forrit þar sem hagn­að­ur­inn fari til Banda­ríkj­anna eða Kís­ildals­ins. Minna verði eftir af hagn­aði fyrir íslensk síma­fyr­ir­tæki.

Hlut­verk fjar­skipta­fyr­ir­tækja breytst

Hall­dór segir að gríð­ar­legir mögu­leikar séu til staðar vegna þeirrar þró­unar sem á sér stað og tæki­færi í heim­inum fyrir Íslands sem og önnur lönd. En á sama tíma sé hlut­verk fjar­skipta­fyr­ir­tækja að breyt­ast og séu sum hver að verða dreif­inga­fyr­ir­tæki eins og orku­fyr­ir­tæk­in. „Maður notar raf­magn til að gera alls konar hluti en það eina sem orku­fyr­ir­tækið gerir er að tryggja að orka sé í leiðsl­un­um. Að ein­hverju leyti erum við að fara svip­aða leið með síma­mál. Síma­fyr­ir­tæki tryggja að það sé teng­ing en svo er annað mál hvernig þú notar hana. Virð­is­aukn­ingin sem verður til fer minna til þeirra,“ segir hann.

Aðferðir sem síma­fyr­ir­tæki nota eru mis­mun­andi, að sögn Hall­dórs. „Þegar við lítum í kringum okkur – ann­ars staðar í heim­inum – þá eru tvær til þrjár leiðir sem hægt er að fara. Ein þeirra er að fara í átt­ina að efn­isveitu og upp­lifun; þá verða síma­fyr­ir­tæki ekki lengur eig­in­leg síma­fyr­ir­tæki, heldur frekar afþrey­ing­ar­þjón­usta,“ segir hann og bendir á að mörg fyr­ir­tæki fari í þá átt, til dæmis hefur AT&T í Banda­ríkj­unum keypt og sam­ein­ast Time Warn­er.

Fjar­skipta­fyr­ir­tæki sem gagna­veitur

Hinar öfgarnar lýsa sér í því að fyr­ir­tæki verða ein­ungis inn­viða­net. Hall­dór útskýrir þessa starf­semi á þann hátt að þá séu fyr­ir­tækin ein­ungis starf­rækt út frá nyt­semi á sama máta og orku­fyr­ir­tæki útvega og dreifa orku. Hann segir að slíkar breyt­ingar megi sjá víðs­vegar um heim.

Sem dæmi um þetta tekur Hall­dór TDC í Dan­mörku sem er stærsta síma­fyr­ir­tæki þar í landi. „Nýir eig­endur vilja skipta fyr­ir­tæk­inu í tvennt og búa til tvær skil­virk­ari ein­ing­ar; aðra sem efn­isveitu – upp­lifun og afþrey­ing­ar­þjón­ustu – og hina ein­ing­una sem á að vera gagna­veita og fjár­festa enn frekar í innvið­um, ljós­leið­urum á heim­ili, 5G o.s.frv..“ Hann segir að þessar tvær ein­ingar séu meira virði sitt í hvoru lagi en sam­an. Þá sé ein­blínt á að hafa lagnir í jörðu en mjög mikil umfram­eft­ir­spurn sé eftir stöð­ugum fjár­fest­ing­ar­kost­um.

Hall­dór segir að auð­veld­ara sé að veðja á inn­viði því alltaf sé þörf á þeim. Aftur á móti sé sömu­leiðis eft­ir­spurn eftir inn­lendri fram­leiðslu en auð­vitað sé erfitt fyrir hana að keppa við stórar efn­isveitur á borð við Net­flix og fleiri slíkar veit­ur. Finna þurfi nýja leiðir til að slík efn­is­fram­leiðsla standi undir sér.

5G mun tækni­væða hið dag­lega líf

Þegar talið berst að 5G og með hvaða hætti sú tækni muni breyta dag­legu lífi fólks segir Hall­dór 5G vera hluta af stærri staf­rænum breyt­ingum og muni spila hlut­verk í því að tækni­væða líf­ið. „Ef maður setur 5G-­tækn­ina inn í þær tækni­breyt­ingar sem eru að verða þá eru stórar breyt­ingar að verða bæði á heim­ilum og í fyr­ir­tækja­rekstri. Það er hægt að koma með gríð­ar­lega virð­is­aukn­ingu hjá fyr­ir­tækj­um, heim­ilum og ein­stak­lingum með því að nota þann mögu­leika að vera alltaf í sam­band­i,“ segir hann.

Hall­dór bendir á að snjall­símar séu ákveðin gátt inn í þessa tækni og að hún eigi bara eftir að aukast. „Ég tel að það sé engin spurn­ing að breyt­ing eigi eftir að verða á hinu dag­lega lífi og mun sumt af því vera sjá­an­legt og annað ekki.“ Sem dæmi nefnir hann að öll stýr­ing á orku eigi lík­lega eftir að verða auð­veld­ari, að þá verði hægt að hita hús í gegnum fjar­stýr­ingu eftir hent­ug­leika.

Lífið fyrir og eftir far­síma­tækn­ina

Mann­leg sam­skipti voru tölu­vert öðru­vísi áður en far­síma­tæknin tók stökk fyrir um tíu til fimmtán árum. „Það virkar sem stein­öld þegar ég tala við mín börn og reyni að útskýra lífið fyrir far­síma­tækni. Hvernig mælti fólk til dæmis sér mót? Það var hægt en aug­ljós­lega er það auð­veld­ara núna. Það er alltaf verið að taka skref í þá átt að greiða götu okkar sem ein­stak­lingar til að gera þá hluti sem við vilj­u­m,“ segir hann en bætir því við að aftur á móti sé hægt að hafa skoðun á því hvort það sé æski­legt eða ekki. „En það er fyrir mér aug­ljóst að þetta á eftir að auka hag­kvæmn­i.“

Hall­dór telur gott fyrir Íslend­inga og fyrir þau fyr­ir­tæki sem starfa hér á landi að hugsa um sér­stöðu Íslands. „Við erum orku­ríkt sam­fé­lag þannig að í orku­fram­leiðslu og dreif­ingu og öðru verður mun meiri notkun á 5G-­bún­aði. Þó svo að við séum ekk­ert að stressa okkur á orku­notkun – vegna þess að við höfum það mikið af orku – þá eru samt gríð­ar­legir mögu­leikar að nýta hana bet­ur.“

Sem dæmi nefnir ferða­mennsku en með auk­inni tækni verði hægt að vita hvar ferða­menn eru staddir á land­inu ef þeir hafa komið sér í ein­hvers konar vand­ræði og segir Hall­dór að jafn­vel sé hægt að selja þeim trygg­ingar út frá því hvert þeir ferð­ast. Þannig sé hægt að sjá fyrir sér ýmiss konar við­skipta­mód­el.

Hugs­an­lega verða snjall­símar forn­eskju­legir

Þrátt fyrir að tækninýj­ungar verði hvers­dags­legar í augum fólks þá telur Hall­dór að einnig sé hægt að hugsa sér að kom­andi breyt­ingar verði mun meira fram­andi. Hann segir að lík­lega muni fólk hafa minni sam­skipti í gegnum snjall­síma eftir fimm ár og að sú tækni sem þykir sjálf­sögð í dag verði það ekki endi­lega í fram­tíð­inni.

„Ef ég ætti að koma með lang­tíma­spá varð­andi þessi mál þá verður það lík­lega þannig að eftir 10 ár þá þykir það mjög forn­eskju­legt að hafa ein­hvern svona lít­inn glugga sem maður ýtir á til að upp­lifa heim­inn í gegn­um,“ segir hann. Hall­dór bendir á að þegar fólk horfir á fram­tíð­ar­kvik­myndir þá virki þær fram­and­legar en raun­veru­leik­inn sé alltaf nátt­úru­leg­ur.

Halldór veltir fyrir sér netöryggi. Hvernig tryggir þú persónuupplýsingar? Hvernig tryggir þú aðgengi að upplýsingum og hvernig tryggir þú öryggi einstaklinga og stjórnvalda þegar allt er stýrt með tölvum?

Hvernig er hægt að tryggja net­ör­yggi?

Hall­dóri þykir vert að viðra ákveðnar áhyggjur sem hann hefur varð­andi alla þessa tækni­væð­ingu. Hann segir að spurn­ingar vakni á borð við: Hvernig tryggir þú per­sónu­upp­lýs­ing­ar? Hvernig tryggir þú aðgengi að upp­lýs­ingum og hvernig tryggir þú öryggi ein­stak­linga og stjórn­valda þegar allt er stýrt með tölv­um? Þarna á hann við allt frá aðgangs­stýr­ingu á húsum – þar sem hægt væri að brjót­ast inn raf­rænt – til fjar­stýr­ingar á flug­vélum – þar sem hægt væri að láta hana brot­lenda í gegnum tölvu.

Þess vegna er net­ör­yggi mjög mik­il­vægt, að hans mati. Honum finnst skipta máli hvernig farið er með þær upp­lýs­ingar sem safnað er. Hall­dór veltir því líka fyrir sér hvernig ný tækni gæti verið nýtt gegn almennum borg­ur­um. Þar horfir hann til að mynda til Kína en þar í landi verður hægt innan tveggja ára að bera kennsl á and­lit á öllum opin­berum stöð­um. „Þannig getur hið opin­bera auð­veld­lega leitað að þér og vitað hvað ein­stak­lingar aðhaf­ast. Hægt verður að finna þig eftir aðeins tvær mín­útur vegna þess að á götu­ljósum eru mynda­vélar sem þekkja and­lit þitt og skrá það nið­ur,“ segir hann og minnir á að þessi fram­tíð­ar­sýn minni mikið á veru­leika úr skáld­skap eins og 1984 eftir George Orwell eða Brave New World eftir Aldous Huxley.

„Ég hræð­ist það að ein­hverju leyti hvernig hægt er að nota tækni. Og það að sumir ein­stak­lingar og sér­stak­lega yngri kyn­slóðir stressa sig lítið á þessu vegna þess að þær eru vanar þeirri hugsun að allt er hvort sem er á sam­fé­lags­miðl­um. Þess vegna er sumum alveg sama. Þeir upp­lifa ekki að kerfið sé vont eða að kerfið gæti mis­notað vald­ið,“ segir hann.

Hall­dór telur það að vera með efa­semdir gagn­vart yfir­völdum gangi að ein­hverju leyti í arf vegna þess sem á undan er geng­ið. Hann nefnir að í Aust­ur-Þýska­landi og slíkum stöðum þá sé fólk vant því að vera var­kárt með per­sónu­upp­lýs­ing­ar. Ennþá sé ríkt í minni fólks eða sam­fé­lags­ins að passa þurfi upp á þetta. „Að sama skapi má segja um þá sem aldrei hafa upp­lifað slíka tíma að þeir verði of ómeð­vit­aðir um hætt­una. Það þýðir ekki að hún sé ekki til stað­ar, bara að við gerum okkur ekki grein fyrir því,“ segir hann.

Nú er tæki­færi fyrir íslensk fyr­ir­tæki í hinum stóra heimi

Hall­dór segir að miklir mögu­leikar felist í nýsköpun fyrir Íslend­inga í allri þess­ari tækni vegna þess að stærð­ar­hag­kvæmni sé aðgengi­leg fleirum í heim­in­um. Hann bendir á að á síð­ustu 100 árum hafi alþjóð­legu stór­fyr­ir­tækin í raun sópað inn arði í skjóli stærðar sinnar sem þau hefðu aldrei ann­ars getað gert.

„Stærð­ar­hag­kvæmni er enn til stað­ar, hún er bara að breyt­ast. Fyrr kom stærð­ar­hag­kvæmni frá því að hafa skrif­stofur og fólk í mis­mun­andi lönd­um. Núna er heim­ur­inn að verða staf­rænn og mögu­leik­arnir eru fleiri fyrir minni aðila – þar á meðal Ísland – til þess að öðl­ast stærð­ar­hag­kvæmni gegnum Inter­net­ið; þ.e. að fá aðgang að öllum heim­inum og mörk­uðum í gegnum það,“ segir hann.

Eig­in­leikar Íslend­inga eiga mjög vel við þennan nýja veru­leika, að mati Hall­dórs. Hann segir þá að vissu leyti vera tæki­fær­is­sinna sem finni upp á ein­hverjum skrítnum leiðum sem engum hefur áður dottið í hug. „Ég sé gríð­ar­lega mögu­leika og mikil tæki­færi fyrir Ísland til að nýta sér þennan staf­ræna heim sem framundan er.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal