Bára Huld Beck Halldór Sigurðsson

Framandi breytingar framundan sem munu bylta hinu daglega lífi

Áleitnar spurningar vakna þegar við veltum fyrir okkur hvernig ný tækni muni breyta lífi okkar í náinni framtíð. Gríðarlegar breytingar hafa þegar orðið á hversdagslegu lífi fólks – sérstaklega í hinum vestræna heimi – og þrátt fyrir að sumar þeirra séu tiltölulega nýtilkomnar er erfitt að ímynda sér veruleikann án snjallsíma, samfélagsmiðla og svo mætti lengi telja.

Tæknin spilar mikilvægara og stærra hlutverk í lífi einstaklinga og fyrirtækja en áður og fyrirséð er að sú þróun muni einungis halda áfram. Ný tækni á borð við 5G ryður sér til rúms og hafa sérfræðingar velt því fyrir sér hvort innviðir landsins geti borið þá miklu byltingu sem boðað hefur verið að fylgi þessari nýju tækni. 

Kjarninn náði tali af Halldóri Sigurðssyni, sérfræðingi í fjarskiptamálum hjá alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Company, þegar hann var hér á landi fyrir skömmu. Umræðuefnin voru meðal annars 5G, netöryggi, nýsköpun og möguleikar Íslendinga í breyttum heimi.

5G er fimmta kynslóð farneta en hún hefur verið kölluð net iðnaðarins. Með því geta nettengdir hlutir eða kerfi sent gögn sín á milli en til þess þarf að ráðast í viðamikla uppbyggingu á innviðum. Halldór segir að 5G sé stór hluti af þessari tæknibylgju sem nú ríður yfir og að einhverju leyti muni sú tækni bera uppi þær nýjungar sem framundan eru, bæði fyrir heimili og fyrirtæki. „Þess vegna er mikilvægt fyrir Ísland að sú orka sem fylgir nýsköpun sé nýtt til að búa til verðmæti fyrir landið sem hægt sé að þróa áfram,“ segir hann.

Nær hjartanu að stuðla að breytingum hér heima

Halldór er fæddur og uppalinn á Íslandi en fór árið 1999 til Danmerkur í háskólanám í verkfræði. Eftir það ílendist hann og hefur síðan þá meira og minna búið þar í landi. Hann segist þó flakka mikið um heiminn en hann hefur starfað hjá McKinsey síðustu tólf til þrettán árin. Hann er með doktorsgráðu í blönduðu námi í hagfræði og verkfræði.

Hann er meðeigandi í fyrirtækinu og vinnur hann aðallega í fyrirtækjaráðgjöf fyrir stór fyrirtæki um heim allan sem og stofnanir. Aðallega vinnur hann fyrir símafyrirtæki eða í fjarskiptageiranum. „Í fjarskiptafyrirtækjum hjálpum við þeim meðal annars að taka ákvarðanir um 5G. Þá vakna spurningar eins og hvenær eigi að byggja 5G, hvað það kosti og hvaða tekjumöguleikar séu í boði.“ McKinsey er ekki með skrifstofu á Íslandi en Halldór segir að fyrirtækið taki að sér einstaka ráðgjöf fyrir íslensk fyrirtæki. Hann segir alltaf gott og gaman að koma heim og útskýrir hann það á þá leið að það sé nær hjartanu að reyna að stuðla að einhverjum breytingum hér á landi en annars staðar.

Hann bendir þó á að heimurinn sé að verða meira „glóbal“ og jafnframt séu íslensku fyrirtækin að verða það líka og stærri. Hann telur að fámenni – eins og á Íslandi – geti skapað vandræði en að sama skapi hafi Íslendingar marga kosti sem reynist vel.

Heimilin borga framkvæmdir á endanum

Eins og áður segir vinnur Halldór aðallega fyrir símafyrirtæki og að eigin sögn býr hann nánast í flugvél og flakkar um heiminn. Hann segir að nú séu ákveðin tímamót á Íslandi og þess vegna þurfi að taka ákvörðun hvaða leið sé farin varðandi komandi tækninýjungar. „Sumt af því sem verið er að gera virkar ekki endilega eins og það skynsamasta,“ segir hann og tekur einfalt dæmi því til útskýringar. „Byrjað er að grafa götur upp í annað skiptið til að setja ljósleiðara ofan á ljósleiðara. Það þarf ekki doktorsgráðuna hjá mér til að skilja að það sé ekki það hagkvæmasta fyrir þjóðfélagið,“ segir hann.

Hann segir að á endanum lendi það óumflýjanlega á heimilunum að borga slíkar framkvæmdir. Hingað til hafi það verið rétt ákvörðun að nota þrjú farnet en hann bendir á að síður en svo sé augljóst að hið rétta sé að byggja þrjú 5G-net í framtíðinni. „Ef öll þrjú fjarskiptafyrirtækin geta boðið sína þjónustu á einu fylgineti þá er minni kostnaður sem þarf að deila á heildina.“ Halldór segir að í fyrsta lagi hafi 5G ennþá meiri fjárfestingaþörf en fyrri kynslóðir, sem þýðir að það að halda úti þremur netum sé ekkert endilega hið rétta fyrir næstu bylgju.

5G
www.123rf.com

„Varðandi fyrri kynslóðir fjarskiptaneta þá voru það fjarskiptafyrirtækin sem fengu arðinn eða hagnaðinn af þeirri þjónustu sem boðið var upp á,“ segir hann. Í annarri og þriðju kynslóð neta borgaði einstaklingur fyrir að tala í símann. Nú sé öldin önnur þar sem einstaklingar noti símann til að kaupa smáforrit þar sem hagnaðurinn fari til Bandaríkjanna eða Kísildalsins. Minna verði eftir af hagnaði fyrir íslensk símafyrirtæki.

Hlutverk fjarskiptafyrirtækja breytst

Halldór segir að gríðarlegir möguleikar séu til staðar vegna þeirrar þróunar sem á sér stað og tækifæri í heiminum fyrir Íslands sem og önnur lönd. En á sama tíma sé hlutverk fjarskiptafyrirtækja að breytast og séu sum hver að verða dreifingafyrirtæki eins og orkufyrirtækin. „Maður notar rafmagn til að gera alls konar hluti en það eina sem orkufyrirtækið gerir er að tryggja að orka sé í leiðslunum. Að einhverju leyti erum við að fara svipaða leið með símamál. Símafyrirtæki tryggja að það sé tenging en svo er annað mál hvernig þú notar hana. Virðisaukningin sem verður til fer minna til þeirra,“ segir hann.

Aðferðir sem símafyrirtæki nota eru mismunandi, að sögn Halldórs. „Þegar við lítum í kringum okkur – annars staðar í heiminum – þá eru tvær til þrjár leiðir sem hægt er að fara. Ein þeirra er að fara í áttina að efnisveitu og upplifun; þá verða símafyrirtæki ekki lengur eiginleg símafyrirtæki, heldur frekar afþreyingarþjónusta,“ segir hann og bendir á að mörg fyrirtæki fari í þá átt, til dæmis hefur AT&T í Bandaríkjunum keypt og sameinast Time Warner.

Fjarskiptafyrirtæki sem gagnaveitur

Hinar öfgarnar lýsa sér í því að fyrirtæki verða einungis innviðanet. Halldór útskýrir þessa starfsemi á þann hátt að þá séu fyrirtækin einungis starfrækt út frá nytsemi á sama máta og orkufyrirtæki útvega og dreifa orku. Hann segir að slíkar breytingar megi sjá víðsvegar um heim.

Sem dæmi um þetta tekur Halldór TDC í Danmörku sem er stærsta símafyrirtæki þar í landi. „Nýir eigendur vilja skipta fyrirtækinu í tvennt og búa til tvær skilvirkari einingar; aðra sem efnisveitu – upplifun og afþreyingarþjónustu – og hina eininguna sem á að vera gagnaveita og fjárfesta enn frekar í innviðum, ljósleiðurum á heimili, 5G o.s.frv..“ Hann segir að þessar tvær einingar séu meira virði sitt í hvoru lagi en saman. Þá sé einblínt á að hafa lagnir í jörðu en mjög mikil umframeftirspurn sé eftir stöðugum fjárfestingarkostum.

Halldór segir að auðveldara sé að veðja á innviði því alltaf sé þörf á þeim. Aftur á móti sé sömuleiðis eftirspurn eftir innlendri framleiðslu en auðvitað sé erfitt fyrir hana að keppa við stórar efnisveitur á borð við Netflix og fleiri slíkar veitur. Finna þurfi nýja leiðir til að slík efnisframleiðsla standi undir sér.

5G mun tæknivæða hið daglega líf

Þegar talið berst að 5G og með hvaða hætti sú tækni muni breyta daglegu lífi fólks segir Halldór 5G vera hluta af stærri stafrænum breytingum og muni spila hlutverk í því að tæknivæða lífið. „Ef maður setur 5G-tæknina inn í þær tæknibreytingar sem eru að verða þá eru stórar breytingar að verða bæði á heimilum og í fyrirtækjarekstri. Það er hægt að koma með gríðarlega virðisaukningu hjá fyrirtækjum, heimilum og einstaklingum með því að nota þann möguleika að vera alltaf í sambandi,“ segir hann.

Halldór bendir á að snjallsímar séu ákveðin gátt inn í þessa tækni og að hún eigi bara eftir að aukast. „Ég tel að það sé engin spurning að breyting eigi eftir að verða á hinu daglega lífi og mun sumt af því vera sjáanlegt og annað ekki.“ Sem dæmi nefnir hann að öll stýring á orku eigi líklega eftir að verða auðveldari, að þá verði hægt að hita hús í gegnum fjarstýringu eftir hentugleika.

Lífið fyrir og eftir farsímatæknina

Mannleg samskipti voru töluvert öðruvísi áður en farsímatæknin tók stökk fyrir um tíu til fimmtán árum. „Það virkar sem steinöld þegar ég tala við mín börn og reyni að útskýra lífið fyrir farsímatækni. Hvernig mælti fólk til dæmis sér mót? Það var hægt en augljóslega er það auðveldara núna. Það er alltaf verið að taka skref í þá átt að greiða götu okkar sem einstaklingar til að gera þá hluti sem við viljum,“ segir hann en bætir því við að aftur á móti sé hægt að hafa skoðun á því hvort það sé æskilegt eða ekki. „En það er fyrir mér augljóst að þetta á eftir að auka hagkvæmni.“

Halldór telur gott fyrir Íslendinga og fyrir þau fyrirtæki sem starfa hér á landi að hugsa um sérstöðu Íslands. „Við erum orkuríkt samfélag þannig að í orkuframleiðslu og dreifingu og öðru verður mun meiri notkun á 5G-búnaði. Þó svo að við séum ekkert að stressa okkur á orkunotkun – vegna þess að við höfum það mikið af orku – þá eru samt gríðarlegir möguleikar að nýta hana betur.“

Sem dæmi nefnir ferðamennsku en með aukinni tækni verði hægt að vita hvar ferðamenn eru staddir á landinu ef þeir hafa komið sér í einhvers konar vandræði og segir Halldór að jafnvel sé hægt að selja þeim tryggingar út frá því hvert þeir ferðast. Þannig sé hægt að sjá fyrir sér ýmiss konar viðskiptamódel.

Hugsanlega verða snjallsímar forneskjulegir

Þrátt fyrir að tækninýjungar verði hversdagslegar í augum fólks þá telur Halldór að einnig sé hægt að hugsa sér að komandi breytingar verði mun meira framandi. Hann segir að líklega muni fólk hafa minni samskipti í gegnum snjallsíma eftir fimm ár og að sú tækni sem þykir sjálfsögð í dag verði það ekki endilega í framtíðinni.

„Ef ég ætti að koma með langtímaspá varðandi þessi mál þá verður það líklega þannig að eftir 10 ár þá þykir það mjög forneskjulegt að hafa einhvern svona lítinn glugga sem maður ýtir á til að upplifa heiminn í gegnum,“ segir hann. Halldór bendir á að þegar fólk horfir á framtíðarkvikmyndir þá virki þær framandlegar en raunveruleikinn sé alltaf náttúrulegur.

Halldór veltir fyrir sér netöryggi. Hvernig tryggir þú persónuupplýsingar? Hvernig tryggir þú aðgengi að upplýsingum og hvernig tryggir þú öryggi einstaklinga og stjórnvalda þegar allt er stýrt með tölvum?

Hvernig er hægt að tryggja netöryggi?

Halldóri þykir vert að viðra ákveðnar áhyggjur sem hann hefur varðandi alla þessa tæknivæðingu. Hann segir að spurningar vakni á borð við: Hvernig tryggir þú persónuupplýsingar? Hvernig tryggir þú aðgengi að upplýsingum og hvernig tryggir þú öryggi einstaklinga og stjórnvalda þegar allt er stýrt með tölvum? Þarna á hann við allt frá aðgangsstýringu á húsum – þar sem hægt væri að brjótast inn rafrænt – til fjarstýringar á flugvélum – þar sem hægt væri að láta hana brotlenda í gegnum tölvu.

Þess vegna er netöryggi mjög mikilvægt, að hans mati. Honum finnst skipta máli hvernig farið er með þær upplýsingar sem safnað er. Halldór veltir því líka fyrir sér hvernig ný tækni gæti verið nýtt gegn almennum borgurum. Þar horfir hann til að mynda til Kína en þar í landi verður hægt innan tveggja ára að bera kennsl á andlit á öllum opinberum stöðum. „Þannig getur hið opinbera auðveldlega leitað að þér og vitað hvað einstaklingar aðhafast. Hægt verður að finna þig eftir aðeins tvær mínútur vegna þess að á götuljósum eru myndavélar sem þekkja andlit þitt og skrá það niður,“ segir hann og minnir á að þessi framtíðarsýn minni mikið á veruleika úr skáldskap eins og 1984 eftir George Orwell eða Brave New World eftir Aldous Huxley.

„Ég hræðist það að einhverju leyti hvernig hægt er að nota tækni. Og það að sumir einstaklingar og sérstaklega yngri kynslóðir stressa sig lítið á þessu vegna þess að þær eru vanar þeirri hugsun að allt er hvort sem er á samfélagsmiðlum. Þess vegna er sumum alveg sama. Þeir upplifa ekki að kerfið sé vont eða að kerfið gæti misnotað valdið,“ segir hann.

Halldór telur það að vera með efasemdir gagnvart yfirvöldum gangi að einhverju leyti í arf vegna þess sem á undan er gengið. Hann nefnir að í Austur-Þýskalandi og slíkum stöðum þá sé fólk vant því að vera varkárt með persónuupplýsingar. Ennþá sé ríkt í minni fólks eða samfélagsins að passa þurfi upp á þetta. „Að sama skapi má segja um þá sem aldrei hafa upplifað slíka tíma að þeir verði of ómeðvitaðir um hættuna. Það þýðir ekki að hún sé ekki til staðar, bara að við gerum okkur ekki grein fyrir því,“ segir hann.

Nú er tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í hinum stóra heimi

Halldór segir að miklir möguleikar felist í nýsköpun fyrir Íslendinga í allri þessari tækni vegna þess að stærðarhagkvæmni sé aðgengileg fleirum í heiminum. Hann bendir á að á síðustu 100 árum hafi alþjóðlegu stórfyrirtækin í raun sópað inn arði í skjóli stærðar sinnar sem þau hefðu aldrei annars getað gert.

„Stærðarhagkvæmni er enn til staðar, hún er bara að breytast. Fyrr kom stærðarhagkvæmni frá því að hafa skrifstofur og fólk í mismunandi löndum. Núna er heimurinn að verða stafrænn og möguleikarnir eru fleiri fyrir minni aðila – þar á meðal Ísland – til þess að öðlast stærðarhagkvæmni gegnum Internetið; þ.e. að fá aðgang að öllum heiminum og mörkuðum í gegnum það,“ segir hann.

Eiginleikar Íslendinga eiga mjög vel við þennan nýja veruleika, að mati Halldórs. Hann segir þá að vissu leyti vera tækifærissinna sem finni upp á einhverjum skrítnum leiðum sem engum hefur áður dottið í hug. „Ég sé gríðarlega möguleika og mikil tækifæri fyrir Ísland til að nýta sér þennan stafræna heim sem framundan er.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal