Umfjöllun Stundarinnar í janúar 2019

Af háum stalli að falla

Í kjölfar metoo-byltingarinnar hafa fleiri konur treyst sér til að greina frá sinni reynslu af kynbundinni áreitni og ofbeldi en áður. Eitt skýrasta dæmi síðustu missera er vitnisburður fjögurra kvenna sem stigu fram í Stundinni fyrir rúmri viku síðan og þá hefur fjöldi kvenna gengið í metoo-hóp á Face­­book þar sem fleiri sögur af kyn­­ferð­is­brotum hans og ósæmi­­legri hátt­­semi hafa komið fram. Við fyrstu sýn virðist samfélagið ætla að bregðast öðruvísi við þeim frásögnum en áður fyrr. Kjarninn kannaði málið.

Jón Bald­vin Hanni­bals­son, fyrr­ver­andi ráð­herra, sendi­herra og for­maður Alþýðu­flokks­ins, hefur haft orð á sér að vera rök­fast­ur, traustur og vel gef­inn stjórn­mála­maður og hefur í gegnum tíð­ina verið gríð­ar­lega áhrifa­mik­ill. Stjórn­mála­fer­ill hans er langur en Jón Bald­vin kemur einnig úr þekktri stjórn­mála­fjöl­skyldu þar sem faðir hans var Hanni­bal Valdi­mars­son, alþing­is­maður og ráð­herra. Mörgum brá því í brún þegar Guð­rún Harð­ar­dótt­ir, syst­ur­dóttir Bryn­dísar Schram eig­in­konu hans, steig fram og greindi frá sam­skiptum sínum við Jón Bald­vin í við­tali við tíma­ritið Nýtt líf árið 2012 – og bréfa­skriftum hans til hennar sem nú eru orðin landskunn.

Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans var þó orðrómur innan Sam­fylk­ing­ar­innar um „að eitt­hvað ein­kenni­legt væri í gangi“ hjá Jóni Bald­vin um miðjan fyrsta ára­tug­inn en fyrir þann tíma hefðu sögu­sagnir af meintum brotum hans ein­ungis verið flökku­sög­ur. Þær fjöll­uðu um téð bréf til Guð­rúnar en fáir fengu stað­fest­ingu á til­vist þeirra þar til þau birt­ust árið 2012. Eftir umfjöll­un­ina var tölu­vert fjallað um málið í fjöl­miðlum en ekki voru áhrifin þó lang­vinn.

Jóni Bald­vin var þó meinað að kenna sem stunda­kenn­ari í HÍ við nám­skeið um stöðu smá­þjóða í alþjóða­kerf­inu eftir gagn­rýni á ráðn­ingu hans í kjöl­far birt­ingar bréf­anna. Þá mót­mæltu ein­stakir kenn­arar ráðn­ing­unni en þáver­andi rekt­or, Kristín Ing­ólfs­dótt­ir, taldi ráðn­ingu Jóns geta ógnað starfs­friði við skól­ann vegna mót­mæl­anna. Hann fékk aftur á móti greidda hálfa milljón króna frá Háskóla Íslands í bætur árið 2014, auk þess sem rektor bað hann afsök­unar á að máls­með­ferð varð­andi ráðn­ingu hans hefði verið ábóta­vant og bitnað á honum að ósekju. Fyrir vikið féll Jón Bald­vin frá máls­höfðun á hendur Háskóla Íslands.

Kristín taldi jafn­framt að mót­mælin hefðu verið til­hæfu­laus að því leyti að Jón Bald­vin upp­fyllti hæf­is­skil­yrði til að starfa við skól­ann. „Rektor stað­fest­ir, að Háskóli Íslands muni í fram­tíð­inni leit­ast í hví­vetna við að fara að lögum í til­vik­um, sem tengj­ast Jóni Bald­vini," stóð í til­kynn­ingu vegna máls­ins. Jafn­framt kom fram að Háskóli Íslands við­ur­kenndi þó ekki bóta­skyldu en engu að síður hefði verið ákveðið að greiða Jóni Bald­vini hálfa milljón í bætur vegna máls­ins.

Fyrsta frá­sögnin yfir 50 ára gömul

Jón Bald­vin er fæddur á Ísa­firði 21. febr­úar 1939 og eru for­eldrar hans sem fyrr segir Hanni­bal Valdi­mars­son og Sól­veig Ólafs­dóttir hús­móð­ir. Hann er giftur Bryn­dísi Schram, systur Ell­erts B. Schram alþing­is­manns. Saman eiga þau fjögur björn, þau Aldísi, Glúm, Snæ­fríði sem lést árið 2013 og Kol­finnu. Hann kenndi í Haga­skóla í Reykja­vík á árunum 1964 til 1970. Elsta atvikið sem komið hefur fram í fjöl­miðlum mun hafa átt sér stað árið 1967 þegar Jón Bald­vin var kenn­ari í téðum skóla. Þolendur meintrar áreitni hans og nem­endur við skól­ann, Matt­hildur Krist­manns­dóttir og María Alex­and­ers­dótt­ir, voru á bil­inu 13 og 14 ára.

Í fyrr­nefndri umfjöllun Stund­ar­innar segir Matt­hildur frá því þegar hún var nem­andi við Haga­skóla árið 1967, þegar Jón Bald­vin vann þar sem kenn­ari. „Hann fór að segja mér að ég lærði ekki nógu vel heima, sem er mjög lík­lega alveg rétt, og vildi að ég sæti eft­ir. Það var ekki í sömu kennslu­stofu heldur í her­bergi hinum megin á gang­in­um. Þar fór hann með mig inn og læsti. Þar var einn stóll og borð og hann gekk svona fram og til baka og lét mig skrifa. Hann var alltaf að beygja sig yfir mig til þess að vita hvernig ég skrif­aði. Um leið og hann beygði sig yfir mig fann ég að hann var að strjúka mér. Og hann gerð­ist alltaf nær­göng­ulli.“

Matt­hildur segir að hún hafi farið að kvíða fyrir tímunum hjá Jóni Bald­vini, þar sem hann lét hana alltaf sitja eftir eina. „Ég fór að reyna að læra betur heima en það breytti engu. Hann sagð­ist bara þurfa að láta mig læra þetta bet­ur. Ég bara skynj­aði það að það væri eitt­hvað fram undan sem mundi ger­ast,“ segir hún.

Loks hafi Jón Bald­vin farið að færa sig upp á skaft­ið. „Hann hélt áfram að strjúka mér og fór að troða sér aftan á stól­inn hjá mér. Þetta var svona gam­all skóla­stóll með algjör­lega beinu baki og beinu sæti. Honum tókst að troða sér fyrir aftan mig á milli mín og stól­baks­ins. Ég sat alveg á nipp­inu á stóln­um. Hann var mjög grannur á þessum árum og ég líka og þetta tókst honum að gera. Hann byrj­aði að káfa á mér allri og sleikti á mér háls­inn og eyrað og kinn­ina. Ég var algjör­lega fros­in. Ég gat ekki staðið upp. Ég gat ekki sagt neitt. Ég bara sat. Ég man eftir hvað ég skamm­að­ist mín fyrir hvað væri að ger­ast.“

Ótt­að­ist að verða næst

María segir í við­tal­inu á Stund­inni að hún hafi ótt­ast að verða næst. „Hann var alltaf mjög hortugur og leið­in­legur við krakk­ana,“ segir hún og bætir því við að stuttu eftir að sam­nem­endur Matt­hildar mót­mæltu eft­ir­setu hennar hafi Jón Bald­vin alltaf verið að grúfa sig yfir hana í tím­um, eins og hann væri að skoða hvað hún væri að gera og strjúka á henni axl­irnar í leið­inni. „Hann lagði hend­urnar yfir axl­irnar og strauk mig og grúfði sig alveg upp við and­litið á mér. Og þetta fannst mér alveg hræði­lega óþægi­leg­t.“

Loks hafi komið að því að hann hafi sagt henni að sitja eft­ir. „Þá sagði ég nei, ég vildi ekki lenda í því sama og Matt­hild­ur. Eftir það lét hann mann í friði. Þetta var alveg nóg til að maður var alltaf drullu­hrædd­ur. Ég var búin að lenda í ýmsu tvö sumur áður í sveit. Ég vissi nákvæm­lega hvað karl­inn ætl­aði sér,“ segir hún.

Nýleg­asta frá­sögnin síðan í sumar

„Þegar ég stóð upp á einum tíma­punkti og fór að skenkja í glös­in, þá bara gerði kall­inn sér lítið fyrir og byrj­aði að strjúka á mér rass­inn.“ Þannig lýsir Car­men Jóhanns­dóttir í sam­tali við blaða­mann Stund­ar­innar sam­skiptum sínum við Jón Bald­vin en hún segir að hann hafi áreitt hana kyn­ferð­is­legra síð­asta sumar en það er síð­asta dæmið um slíka hegðun af hans hálfu. Car­men segir að atvikið hafi átti sér stað á Spáni í júní 2018, að loknum leik Íslands og Argent­ínu á HM í knatt­spyrnu. Hún segir að Jón Bald­vin hafi áreitt sig kyn­ferð­is­lega á heim­ili hans og Bryn­dísar Schram, eig­in­konu hans, í bænum Salobreña í Andalús­íu.

Car­men seg­ist hafa fros­ið, horft á hinar kon­urnar við borðið og reynt að átta sig á hvað væri að ger­ast. „Ég fékk svo mikið áfall að ég vissi ekki hvað ég ætti að gera. Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra þetta.“ Hún sett­ist niður hjá móður sinni og vissi ekki hvað hún átti að segja. Lauf­ey, móðir henn­ar, stað­festir í sam­tali við Stund­ina að hún hafi séð Jón Bald­vin káfa á Car­men. „Ég horfði á þetta ger­ast,“ segir Lauf­ey. „Ég sagði honum við borðið að ég hefði séð hann gera þetta og að það minnsta sem hann gæti gert væri að biðja hana afsök­unar fyrir framan okk­ur. Hann hélt nú ekki.“

Car­men lýsir atburða­rásinni með sama hætti. „Hann sagð­ist ekki vita hvað hún væri að tala um. Og mamma sagði „ég sá hvað þú gerð­ir, Jón Bald­vin“. Ég stóð upp frá borð­inu og fór nið­ur.“ Vin­kona Jóns Bald­vins og Bryn­dís­ar, Hug­rún Jóns­dótt­ir, sem einnig var á staðn­um, seg­ist í sam­tali við Stund­ina ekki hafa séð meinta áreitni eiga sér stað. Hún hafi aðeins orðið vitni að ágrein­ingnum sem fylgdi í kjöl­far­ið.

Car­men segir þær mæðgurnar hafa ákveðið stuttu síðar að yfir­gefa heim­il­ið. „Við heyrðum Jón Bald­vin sturl­að­an, öskr­andi, þegar við fórum út. Mamma kom klyfjuð út með allan far­ang­ur­inn okkar og hann hróp­aði á eftir henni: „Ef þið farið með þetta í fjöl­miðla þá lög­sæki ég ykk­ur!““

Stjórn­mála­maður í tugi ára

Jón Bald­vin var skóla­meist­ari Mennta­skól­ans á Ísa­firði 1970 til 1979 og síðan rit­stjóri Alþýðu­blaðs­ins 1979 til 1982 en sama ár og hann hætti sem rit­stjóri gerð­ist hann alþing­is­maður Reyk­vík­inga fyrir Alþýðu­flokk­inn og sinnti því starfi til árs­ins 1998. Hann var skip­aður fjár­mála­ráð­herra árið 1987 og gegndi því emb­ætti til 1988. Sama ár var hann skip­aður utan­rík­is­ráð­herra og sinnti hann því starfi til 1995. Þremur árum síðar varð hann sendi­herra Íslands í Banda­ríkj­unum til árs­ins 2002 og í Finn­landi á árunum 2002 til 2005.

Hann var í nefnd til und­ir­bún­ings aðildar að EFTA 1968 til 1970, bæj­ar­full­trúi á Ísa­firði 1971 til 1978 og for­seti bæj­ar­stjórnar 1975 til 1976. Jón Bald­vin var for­maður Alþýðu­flokks­ins í tólf ár frá 1984 til 1996 og for­maður ráð­herra­ráðs EFTA 1989, 1992 og 1994, svo eitt­hvað sé nefnt.

Jón Baldvin
Skjáskot/RUV

„Ær­legur og hlífir hvorki sjálfum sér né sam­ferða­mönn­um“

Árið 2002 kom út ævi­saga Jóns Bald­vins en Kol­brún Berg­þórs­dóttir skráði. Í til­­kynn­ingu frá Vöku-Helga­­felli á sínum tíma kom fram að Kol­brún byggði á sam­­töl­um við Jón Bald­vin og sam­­ferða­menn hans, minn­is­p­unkt­um og einka­bréf­­um. Í ævi­­sög­unni greindi Jón Bald­vin ít­­ar­­leg­ar frá einka­­lífi sínu en áður, meðal ann­ars sam­­skipt­um sín­um við föður sinn, upp­­vexti á Vest­­fjörðum og í Reykja­vík, eig­in­­konu sinni, námi heima og er­­lend­is, skóla­­meist­­ara­ár­unum á Ísaf­irði, rit­­stjóra­­ferli sín­um á Alþýðu­blað­inu og upp­­­gjör­inu við Vil­­mund Gylfa­­son í kjöl­far deilna sem áttu sér stað í kring­um blað­ið.

Þess má geta að Til­huga­líf var sölu­hæsta bókin á land­inu í des­em­ber árið 2002, sam­kvæmt sam­an­tekt Félags­vís­inda­stofn­un­ar. Í lýs­ingu á bók­inni á vef­síðu For­lags­ins segir að Til­huga­líf sé Íslend­inga­saga í nýjum stíl þar sem bræður berj­ast og brugguð eru laun­ráð á bak­við tjöld­in. Þetta sé saga ungs manns sem leggur af stað út í heim með sam­hygð­ina með bræðrum sínum og systrum í vega­nesti úr for­eldra­hús­um. Hann rati víða og fari um skeið villur vegar en finni loks leið­ina heim. Og hreppi á leið sinni ball­er­ín­una sem á hug hans all­an.

„Jón Bald­vin er flug­beittur að vanda, mælskur og ástríðu­full­ur. Umfram allt er hann þó ærlegur og hlífir hvorki sjálfum sér né sam­ferða­mönn­um. Saga Jóns Bald­vins er umbúða­laus, hvort sem sagt er frá einka­högum eða stjórn­mál­u­m,“ segir í lýs­ingu á bók­inni.

Útgáfu á nýrri bók frestað

Í til­efni af átt­ræð­is­af­mæli Jóns Bald­vins á þessu ári stóð til að gefa út bók með ræðum hans, ritum og greinum um „frum­kvæði Íslands að stuðn­ingi við sjálf­stæð­is­bar­áttu Eystra­salts­þjóða, samn­ing­ana við ESB um Evr­ópska efna­hags­svæðið (EES) og Nor­ræna mód­elið sem raun­hæfan val­kost við auð­ræði nýfrjáls­hyggj­unn­ar.“ Í frétt Eyj­unnar um málið kemur fram að velunn­urum hins aldna leið­toga íslenskra jafn­að­ar­manna eins og hann er nefnd­ur, hafi gef­ist þess kostur að skrá nafn sitt á heilla­óska­skrá í til­efni útgáf­unnar og fá bók­ina á for­lags­verði í stað­inn, eða 6000 krón­ur.

Vegna umfjöll­unar fjöl­miðla um kyn­ferð­is­lega áreitni síð­ast­liðnar vikur var útgáf­unni þó frestað um óákveð­inn tíma. Þetta stað­festi Stein­grímur Stein­þórs­son hjá útgáfu­fé­lag­inu Skruddu við Eyj­una. Bókin var langt kom­in, en ekk­ert var fjallað um ósæmi­legar bréfa­skriftir Jóns Bald­vins til Guð­rún­ar.

Bókakápa Tilhugalífs

Dóttirin segir frá

Aldís Schram Mynd: Facebook-síða AldísarAldís Schram, dóttir Jóns Bald­vins og Bryn­dís­ar, hefur til margra ára reynt að koma sjón­ar­miðum sínum og reynslu­sögu á fram­færi við mis­mikla athygli fjöl­miðla. Eftir umfjöllun Stund­ar­innar um meint brot föður hennar sagði hún í Morg­un­út­varp­inu á Rás 2 í síð­ustu viku að Jón Bald­vin hefði notað bréfs­efni send­i­ráðs Íslands í Was­hington þegar hann óskaði eftir því að hún yrði nauð­ung­­­ar­vi­­­stuð á geð­­­deild. Með því hefði hann mis­­­notað stöðu sína sem send­i­herra til þess að reka per­­­són­u­­­leg erindi.

Aldís sagð­ist hafa gengið á föður sinn árið 1992 vegna kyn­­­ferð­is­brota eftir að gömul skóla­­­systir hennar hafði sagt Aldísi frá því að hún hefði vaknað við að Jón Bald­vin væri að áreita hana kyn­­­ferð­is­­­lega. Aldís telur að sá fundur hafi orðið til þess að hún var í fyrsta sinn nauð­ung­­­ar­vi­­­stuð á geð­­­deild.

Hún sagði að eftir þetta hefði hann getað hringt í lög­­­­­reglu hvenær sem er til að hand­­­taka hana. „Um­­­svifa­­­laust er ég í járnum farið með mig upp á geð­­­deild, ég fæ ekki við­­­tal og það er skraut­­­­­legt að lesa þessar yfir­­­lýs­ingar geð­lækna. Það er um ein­hverjar ímynd­­­anir mínar og rang­hug­­­myndir sem ég er með þegar ég er reið út í föður minn,“ sagði hún.

Segir að ásak­­anir séu „hreinn upp­­­spuni“ eða „skrum­­skæl­ing á veru­­leik­an­um“

Eftir að umfjöllun Stund­ar­innar komst í hámæli kvaðst Jón Bald­vin ekki ætla að svara strax nýjum ásök­unum þegar fjöl­miðlar leit­uð­ust eftir því en gaf loks út yfir­­lýs­ingu í Frétta­­blað­inu í morg­un. Í henni segir hann að sög­u­sagnir og ásak­­anir á hendur hon­um, um brot gegn konum og kyn­­ferð­is­­lega áreitni hans, séu ýmist „hreinn upp­­­spuni“ eða „skrum­­skæl­ing á veru­­leik­an­­um.“

Hann segir elstu dóttur sína og Bryn­­dísar Schram, eig­in­­konu hans, Aldísi Schram, glíma við geð­ræn vanda­­mál og að ásak­­anir hennar og ann­­arra kvenna megi rekja til þess.

Yfirlýsing Jóns Baldvins: Án dóms og laga

Að undanförnu hefur mátt lesa í hefðbundnum fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum sögur nafngreindra kvenna um vítaverða hegðun undirritaðs gagnvart kvenþjóðinni, jafnvel hálfa öld aftur í tímann.

Þessar sögur eiga það meðal annars sameiginlegt að vera ýmist hreinn uppspuni eða þvílík skrumskæling á veruleikanum, að sannleikurinn er óþekkjanlegur. Sannleikurinn er því nú þegar fyrsta fórnarlambið í þessu leikriti. Það bíður síns tíma að leiðrétta það, m.a. af eftirfarandi ástæðum:

Meginástæðan er sú, að sögurberar eru ýmist í nánum fjölskyldutengslum við okkur Bryndísi eða nánir vinir elstu dóttur okkar. Við Bryndís erum sammála um, að fjölskylduböl af þessu tagi – því að það er það – verði ekki útkljáð í réttarsal, né heldur til lykta leitt í fjölmiðlum. Við stefnum dóttur okkar ekki fyrir dóm – lái okkur hver sem vill.

En hver er þá okkar ábyrgð á fjölskyldubölinu, sem mér er svo tíðrætt um? Ætlum við að skella allri skuld af ógæfu fjölskyldunnar á aðra? Er þetta virkilega allt öðrum að kenna? Því fer fjarri. Sjálfur ber ég þunga sök af því að hafa valdið langvarandi ósætti innan fjölskyldu Bryndísar. Bréfaskipti mín við Guðrúnu Harðardóttur, systurdóttur Bryndísar, þegar hún var 17 ára, voru hvort tveggja með öllu óviðeigandi og ámælisverð. Á því hef ég beðist margfaldlega afsökunar, bæði Guðrúnu sjálfa og fjölskyldu hennar, sem og opinberlega. Ég hef leitað eftir fyrirgefningu, en án árangurs. Á þessu máli ber ég einn ábyrgð – og enginn annar.

Seinni tíma ásakanir um áreitni við Guðrúnu á barnsaldri eru hins vegar tilhæfulausar með öllu. Það mál var rannsakað í tvígang af lögreglu og saksóknara, m.a. með yfirheyrslum og vitnaleiðslum, og vísað frá í bæði skiptin, enda varð vitnum við komið. Öll gögn, sem máli skipta, liggja fyrir og eru öllum aðgengileg, m.a. á heimasíðu minni (www.jbh.is).

Hvers vegna er elstu dóttur okkar svo mjög í nöp við foreldra sína, eins og raun ber vitni? Hversu margar eru þær fjölskyldur í okkar litla samfélagi, sem eiga um sárt að binda vegna geðrænna vandamála einhvers í fjölskyldunni? Hversu algengt er það ekki, að reiði og hatur, sem af hlýst, beinist fyrst og fremst að nánustu aðstandendum? Þetta er kjarni málsins. Eftir að hafa oftar en einu sinni orðið við ákalli geðlækna um nauðungarvistun elstu dóttur okkar á geðdeild, snerist vinarþel og ástúð dóttur til föður að lokum í hatur, sem engu eirir, eins og frásagnir hennar bera vott um. Nauðungarvistun er síðasta neyðarúrræði geðlæknis. Á þessum tíma þurfti að lögum heimild náins aðstandanda til að beita þessu neyðarúrræði. Dóttir okkar treysti mér einum til þess og lét bóka það. Þeir sem halda því fram, að einhver svokallaður „valdamaður“ geti sigað lögreglu á varnarlausa einstaklinga að geðþótta, vita ekki hvað þeir eru að tala um. Sem betur fer hefur þessari kvöð nú verið létt af aðstandendum.

Allar tilraunir til sátta, einnig með milligöngu sálusorgara og sérfræðinga, hafa engan árangur borið. Þetta er nógu sár lífsreynsla fyrir alla, sem hlut eiga að máli, þótt ekki bætist við, að fjölmiðlar vilji velta sér upp úr ógæfu annarra með því að lepja upp einhliða og óstaðfestan óhróður, að óathuguðu máli. Það er satt að segja hreinn níðingsskapur að færa sér í nyt fjölskylduharmleik eins og þann, sem við höfum mátt búa við í áratugi, til þess að ræna fólk mannorðinu, í skjóli þess að vörnum verði vart við komið. Það verður hvorki réttlætt með sannleiksást né réttlætiskennd. Það er ekki rannsóknarblaðamennska. Það er sorp-blaðamennska.

Hvað er þá til ráða til að hnekkja ósönnum og ærumeiðandi aðdróttunum í fjölmiðlum? Varðar það ekki við lög að bera ósannar sakir á aðra? Hingað til hefur það talist vera svo. Og til þess eru dómstólar í réttarríki að leiða sannleikann í ljós – útkljá málin. En eins og áður sagði, munum við Bryndís hvorki lögsækja veika dóttur okkar né þær frændsystur Bryndísar, sem hlut eiga að máli. Fremur kjósum við að láta þetta yfir okkur ganga; og bera harm okkar í hljóði að sinni.

Ég vil líka taka það fram, að ómerkilegan pólitískan skæting, hvort heldur hann er framreiddur af formanni Sambands sjálfstæðiskvenna eða af fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar, virðum við ekki svars. Það hefur ekki þótt vera neinum til vegsauka með okkar þjóð hingað til að sparka í liggjandi fólk. Og að því er varðar mína pólitísku arfleifð uni ég því vel að vera að lokum dæmdur af verkum mínum.

Fyrst í stað fannst mér, að ég gæti með engu móti setið þegjandi undir öllum þessum ásökunum, ásamt persónuníðinu, sem flæðir yfir alla bakka á svokölluðum samfélagsmiðlum. Við nánari íhugun er niðurstaðan samt sú, að í þessu eitraða andrúmslofti, þar sem ósannar fullyrðingar og níð hafa fengið að grassera athugasemdalaust dögum saman, sé það til lítils annars en að skemmta skrattanum. Ekki vegna þess að þögn sé sama og samþykki; heldur vegna hins, að málflutningur sem byggir á staðreyndum, mun engin áhrif hafa á óvildarmenn mína. Við treystum því hins vegar, að það fólk, sem þekkir okkur Bryndísi persónulega af eigin reynslu, sjái í gegnum moldviðrið.

Að öllu þessu virtu, er það niðurstaða okkar Bryndísar, að sálarheill okkar umsetnu fjölskyldu eigi að hafa forgang, umfram réttarhöld í kastljósi fjölmiðla, að svo stöddu. Heildstæð greinargerð, þar sem öllum framkomnum sakargiftum verði gerð verðug skil, verður því að bíða betri tíma.

Því er ekki að neita, að mál af þessu tagi vekja upp ýmsar áleitnar spurningar, sem eru ekki á sviði einkamála, heldur varða almannaheill. Getum við ekki lengur treyst því, að hver maður teljist saklaus, uns hann hefur verið sekur fundinn fyrir dómi? Skal hann samt teljast sekur samkvæmt dómstóli fjölmiðla, þótt sýknaður hafi verið af réttum yfirvöldum að rannsókn lokinni? Þetta er sjálfur tilvistarvandi okkar brothætta réttarríkis. Á því berum við öll ábyrgð.

Tekin af fram­boðs­lista Sam­fylk­ing­ar­innar

Ljóst er að nokkrir ein­stak­lingar innan Sam­fylk­ing­ar­innar vissu af bréfum Jóns Bald­vins til Guð­rúnar áður en þau voru gerð opin­ber. Í byrjun árs 2007 hafði Jón Bald­vin verið skip­aður í heið­urs­sæti á fram­boðs­lista Sam­fylk­ing­ar­innar fyrir kom­andi alþing­is­kosn­ingar en í mars sama ár var Guð­rúnu til­kynnt að Rík­is­sak­sókn­ari hefði ákveðið að fella mál hennar gegn Jóni Bald­vini nið­ur.

Ingi­björg Sól­rún Gísla­dótt­ir, þáver­andi for­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, fékk vit­neskju um bréfin og þar af leið­andi aðgang að þeim. Í kjöl­farið boð­aði hún Jón Bald­vin til fundar ásamt Degi B. Egg­erts­syni borg­ar­full­trúa, þar sem Jóni Bald­vini var tjáð að hann yrði fjar­lægður af fram­boðs­lista flokks­ins.

„Tókum ranga ákvörð­un“

Í byrjun árs 2012 – rétt áður en við­talið við Guð­rúnu birt­ist í Nýju lífi – var Jón Bald­vin leið­bein­andi á nám­skeiði Sam­fylk­ing­ar­fé­lags­ins í Reykja­vík sem fjall­aði um skýrslu Rann­sókn­ar­nefndar Alþingis um banka­hrunið en það var ein­ungis opið flokks­mönn­um.

Kjartan Val­garðs­son, þáver­andi for­maður Sam­fylk­ing­ar­fé­lags­ins í Reykja­vík, segir í sam­tali við Kjarn­ann að vit­neskjan um bréfin hefði komið fram á þriðja degi nám­skeiðs­ins og að einn dagur hefði verið eft­ir. „Ég tel að við höfum tekið ranga ákvörð­un, að láta hann klára nám­skeið­ið. Ég sé það núna ég hefði átt að taka mál­stað Guð­rún­ar,“ segir hann.

Í frétt Stund­ar­innar um málið segir Kjartan að hann hafi rætt málið við Jón Bald­vin. „Hann var ekki ánægð­ur, eins og þú getur ímyndað þér. Ég vildi bara láta hann vita að ég vissi af þessu og „con­frontera“ hann með þetta. Auð­vitað var það álita­mál hvort það ætti að láta hann halda áfram eða ekki. Þetta varð hins vegar til þess að Ingi­björg Sól­rún Gísla­dóttir sagði sig úr Sam­fylk­ing­ar­fé­lag­inu í Reykja­vík. Mér fannst vont að missa þessa miklu for­ystu­konu úr félag­in­u.“

Allir við­mæl­endur Kjarn­ans eru sam­mála um að nú séu við­horfin breytt og að við­brögðin við frá­sögnum þeim – sem hér hefur verið lýst – séu ólík þeim fyrir sjö árum, svo ekki sé minnst á ára­tug­ina þar á und­an. Og þrátt fyrir að ekki sé lengri tími lið­inn þá sé fólk frekar til­búið að hlusta á reynslu­sögur kvenna og velta fyrir sér ábyrgð og afleið­ingum meintra gjörða. Nú sé af háum stalli að falla fyrir áhrifa­menn sem brotið hafa gegn öðrum í skjóli með­virkni og aðdá­un­ar.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar