Ríkustu 26 einstaklingar í heimi eiga jafnmikinn samanlagðan auð og fátækari helmingur heimsbyggðarinnar, eða 3,8 milljarðar manna. Á árinu 2018 urðu hinir ríku enn ríkari og hinir fátækustu fátækari. Árið 2017 þurfti 43 milljarðamæringa til að eiga jafn mikið og fátækasti helmingur mannkyns.
Þá eru hinir ofurríku að fela samtals um 7,6 trilljónir dala, 810 þúsund milljarðar íslenskrar króna frá skattyfirvöldum víðs vegar um heiminn og fyrirtæki fela auk þess gríðarlegar fjárhæðir í skattaskjólum fjarri þeim löndum þar sem arðsemi þeirra verður til. Þessi tilhneiging auðstéttarinnar, að greiða ekki skatta í samræmi við lög og reglur heldur fela auð sinn frá skattheimtu, gerir það að verkum að þróunarlönd verða af 171 milljarði dala, eða 20.570 milljörðum króna á ári hverju vegna skatta sem skila sér ekki.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Oxfam-samtakana um misskiptingu auðs, sem gerð var opinber í dag.
Ríkari aldrei verið ríkari
Á þeim áratug sem liðinn er frá því að alþjóðleg efnahagskreppa reið yfir heiminn hefur fjöldi milljarðamæringa nánast tvöfaldast. Auður þeirra sem áttu yfir milljarð dali, eða meira en 121 milljarð króna, jókst um 900 milljarða dala, 108.900 milljarða króna, í fyrra. Milljarðamæringar heimsins eiga nú meiri auð en nokkru sinni áður í heimssögunni.
Fátækustu bera meiri byrðar en ríkustu
Á sama tíma og auðsöfnun þeirra ríkustu er í mikilli sókn, samkvæmt samantekt Oxfam, þá njóta þeir sem tilheyra hópnum, og fyrirtækin sem þeir eiga, líka hagstæðari skattaskilyrða en þeir hafa notið í áratugi.
Oxfam bendir á að auður sé ekki skattlagður nema að litlum hluta. Þannig komi til að mynda einungis fjögur prósent af öllum skatttekjum til vegna auðlegðarskatta. Í ríkum löndum þá lækkuðu hæstu tekjuskattar úr 62 prósent árið 1970 í 38 prósent árið 2013 og í þróunarlöndunum er hæsta tekjuskattshlutfall 28 prósent.
Skýrslan bendir á að í Brasilíu og Bretlandi séu fátækustu tíu prósent landsmanna farin að greiða hærra hlutfall af launum sínum í skatt en ríkustu tíu prósentin.
Leggja til endurhannað alþjóðlegt skattkerfi
Skýrsla Oxfam er birt á sama degi og viðskiptaráðstefnan í Davos í Sviss, þar sem margt áhrifamesta fólk heimsins á sviði stjórnmála og viðskipta kemur saman til skrafs og ráðagerða, er sett.
Í henni eru lagðar fram þrjár lykil tillögur um það hvernig megi vinna gegn vaxandi ójöfnuði. Sú fyrsta er að bjóða upp á gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu, menntun og aðra opinbera þjónustu um heim allan sem nái einnig til kvenna og stúlkna. Oxfam hvetur til þess að einkavæðingu opinberrar þjónustu verði hætt, að allir fái eftirlaun, barnabætur og aðrar greiðslur sem tryggi félagslegt réttlæti fyrir alla.
Í þriðja lagi leggur Oxfam til að það verði hætt að undirskattleggja ríka einstaklinga og fyrirtæki með því að einfaldlega hækka skatta á þá og koma í veg fyrir skattaundanskot þeirra með sameiginlegum aðgerðum. Það sé hægt með því að ná samkomulagi um nýtt alþjóðlegt regluverk og með því að setja upp nýjar alþjóðlegar stofnanir til að framfylgja því. Með þessu væri í raun verið að endurhanna skattakerfi heimsins í grundvallaratriðum til að gera það réttlátara og hleypa þróunarlöndum að ákvörðunartöku til jafn við ríkari lönd heimsins.