Þýski bankinn Deutsche Bank hefur gengið gengum miklar hremmingar á undanförnum árum og óhætt er að segja að ekki sjái fyrir endann á þeim.
Þessi misserin er starfsemi bankans til rannsóknar fyrir aðkomu að stórfelldu peningaþvætti og Demókratar ætla sér að fá fjármálaumsvif Donalds Trumps Bandaríkjaforseta upp á yfirborðið, þar á meðal viðskipti hans við þýska bankann.
Vöxtur og erfiðleikar
Starfsemi hans teygir anga sína um allan heim og hefur hann á undanförnum tveimur áratugum vaxið hratt og mikið, einkum á sviði fjárfestingabankasviði.
Bankinn glímir hins vegar við miklar erfiðleika þessi misserin, og greindi Bloomberg frá því í gær að forsvarsmenn bankans hefðu átt í viðræðum við konungsfjölskylduna í Katar um að leggja bankanum til meira fé, bæði hlutafé og laust fé.
Árið 2014 fjárfesti konungsfjölskyldan í bankanum fyrir 8 milljarða evra og hefur verið meðal hlutahafa bankans undanfarin ár. Stærstu hluthafar Deutsche Bank eru alþjóðlegir fagfjárfestar, svo sem fjárfestingasjóðir og bankar, en þýskir hluthafar eiga 53 prósent hlut en erlendir fjárfestar 47 prósent, samkvæmt upplýsingum á vefsíðu bankans.
Samkvæmt umfjöllun Bloomberg eru viðræðurnar við konungsfjölskylduna í Katar á viðkvæmu stigi, ekki síst þar sem líklegt þykir að bankinn verið sektaður af yfirvöldum í Bandaríkjunum vegna þátttöku í peningaþvæti.
Markaðsvirði bankans er nú um 20 milljarðar Bandaríkjadala, en virðið hefur dregist saman um meira en 60 prósent frá því árið 2015. Slæm afkoma, rannsóknir yfirvalda, hagræðing í rekstri og umfangsmikil endurskipulagning, er það sem hefur einkennt starfsemina.
Deutsche Bank faces growing U.S scrutiny over money laundering https://t.co/nAwQLYqfDX
— FORTUNE (@FortuneMagazine) January 26, 2019
Al Thani til bjargar?
Sjóðirnir sem konungsfjölskyldan í Katar stýrir eru digrir, svo ekki sé fastar að orðið kveðið. Þó íbúar séu aðeins 2,6 milljónir, þá eru fjárfestingasjóðirnir - byggðir upp með arðinum af olíuauðlindum landsins - stórir og gefa þeir landinu mikið vægi á fjármála- og verðbréfamörkuðum í heiminum.
QIA, sjóður í eigu Katar, stýrir eignum upp á um 320 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 40 þúsund milljörðum króna. Til samanburðar er íslenska lífeyrissjóðakerfið með um 4 þúsund milljarða króna.
Samkvæmt Bloomberg er það sá sjóður sem horft er til þess að muni fjárfesta í bankanum, en þar er meðlimur konungsfjölskyldunnar, Mohammed bin Abdulrahman al Thani, með þræðina í hendi sér.
Al Thani nafið er Íslendingum kunnugt, en eitt þekktasta sakamálið sem tengt er við hrun fjármálakerfisins er Al Thani málið svonefnda, þar sem Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Magnús Guðmundsson og Ólafur Ólafsson, voru dæmdir í fangelsi fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik. Fjallað er ítarlega um málið í bókinni Kaupthinking, eftir ritstjóra Kjarnans, Þórð Snæ Júlíusson.
Nú þegar hefur verið tilkynnt um það konungsfjölskyldan líti til Þýskalands fyrir erlenda fjárfestingu, og í fyrra var tilkynnt um að fjárfest yrði í þýsku hagkerfi fyrir 11 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur úm 1.300 milljörðum króna, á næstu fimm árum.
Sameining við Commerzbank?
Deutsche Bank gæti sameinast Commerzbank, öðrum þýskum banka, til að styrkja efnahaginn og koma á meiri stöðugleika í rekstinum. Sá síðarnefndi er með heildareignir sem eru á við 1/3 af heildareignum Deutsche Bank.
Í umfjöllun Bloomberg 12. desember í fyrra var frá því greint að þýsk stjórnvöld væru að þrýsta á um að Deutsche Bank leysti úr bráðavanda sínum með sameiningu við annan banka. Ekki hefur það þó gerst enn, og má eflaust rekja það til rannsókna á starfsemi bankans. Fjárfestar sem yrðu hluthafar í bankanum vilja fá skýrari mynd af því hvernig staða bankans er í raun og veru, áður en næstu skref verða tekin.
Efnahagsreikningur bankans er stór og mikill. Heildareignir bankans í lok árs 2017 námu rúmlega 206 þúsund milljörðum króna. Bankinn hefur unnið að því að minna eignahliðina, með sölu eigna, og fóru heildareignir bankans úr um 220 þúsund milljörðum árið 2016 niður í 206 þúsund milljarða árið eftir.
Til samanburðar eru heildareignir Arion banka, Landsbankans og Íslandsbanka rúmlega 3 þúsund milljarðar króna.
Ljóst er þó að sameining við Commerzbank myndi stækka efnahagsreikninginn, en búist er við því að með sameiningunni vilji þýsk stjórnvöld tryggja öryggi rekstrarins og auka stöðugleikann í fjármálakerfi landsins.