Fleiri Íslendingar fluttu frá Íslandi á síðasta ári en komu aftur heim. Brottfluttir íslenskir ríkisborgarar voru 75 fleiri en þeir sem fluttu til landsins, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Það gerðist þrátt fyrir gott árferði, nær ekkert atvinnuleysi, stóraukinn kaupmátt og fordæmalausa efnahagslega stöðu þjóðarbúsins.
Á sama tíma og íslenskum ríkisborgurum fækkaði fjölgaði erlendum ríkisborgurum sem hingað flytja áfram mikið. Alls fjölgaði þeim um 6.560 á árinu 2018 sem er næst mesta fjölgun þeirra á einu ári sem nokkru sinni hefur átt sér stað. Metárið er enn 2017, þegar 7.910 fleiri erlendir ríkisborgarar fluttu til Íslands en frá landinu.
Sjaldgæft að Íslendingar flýji góðæri
Í byrjun janúar 2016 birti Alþýðusamband Íslands (ASÍ) greiningu á brott- og aðflutningi til Íslands síðustu 50 árin. Þar kom fram að þrátt fyrir bætt efnahagsleg skilyrði hefur brottflutningu íslenskra ríkisborgara frá Íslandi aukist á árunum 2014 og 2015.
Fleiri Íslendingar fluttu frá landinu en til þess. Frá árinu 1961 hafa verið átta tímabil þar sem brottflutningur á hverju ári hefur verið yfir meðaltali áranna 1961 til 2015. Sjö þeirra tímabila hafa verið í tengslum við öfgar í efnahagslífi þjóðarinnar á borð við brotthvarf síldarinnar, mikla verðbólgu eða hátt atvinnuleysi.
Þessi þróun hélt áfram á árinu 2016 þegar brottfluttir Íslendingar voru 190 fleiri en aðfluttir.
Olli ráðamönnum hugarangri
Þessi staða olli þáverandi ráðamönnum töluverðu hugarangri. Þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, og aðstoðarmenn hans héldu því fram í opinberri umræðu að það væri rangt að fjöldi brottfluttra væri óeðlilega mikill.
Forsætisráðherrann fyrrverandi gerði málið m.a. að umtalsefni í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu og sagði hlutfall brottfluttra undir 40 ára á árinu 2015 lágt í samanburði við liðin ár og áratugi. Það væri afmarkaður en hávær hópur fólks, sem ætti erfitt að sætta sig við góðar fréttir, sem héldi hinu gagnstæða fram. Jákvæð þróun veki hjá hópnum gremju, hún sé litin hornauga og tortryggð á allan mögulegan hátt. Þetta sé sá hópur fólks sem getur ekki sætt sig við að jákvæðir hlutir gerist ef þeir gerast ekki í krafti hinnar einu „réttu“ hugmyndafræði.
Bjarni Benediktsson, þáverandi og núverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Lét til að mynda tvívegis hafa eftir haustið 2016 að í fyrsta skipti í mörg ár væri útlit fyrir að á árinu 2016 myndu fleiri Íslendingar flytjast til landsins en frá landinu. Það varð þó ekki raunin.
Erlendum fjölgað um 112 prósent
Árið 2017 varð loks viðsnúningur. Íslendingum fjölgaði um 360 á einu mesta góðærisári í manna minnum en erlendum ríkisborgurum fjölgaði á sama tíma um 7.910. Íslenskir aðfluttir ríkisborgarar voru því ábyrgir fyrir 4,4 prósent þeirrar aukningar sem varð vegna aðfluttra einstaklinga á því ári.
Í fyrra snerist sú þróun aftur við og brottfluttir íslenskir ríkisborgarar voru 75 fleiri en aðfluttir, á sama tíma og erlendum ríkisborgurum fjölgaði um 6.560 umfram þá sem fóru. Alls er fjöldi erlendra ríkisborgara sem búa á Íslandi nú 44.310. Hann var 20.930 í lok árs 2011 og því erlendum ríkisborgurum fjölgað um 112 prósent á sjö árum. Á sama tíma hefur íslenskum ríkisborgurum fjölgað um 4,7 prósent.