Mynd: 123rf.com

Rúmlega einn Ísafjörður af erlendum borgurum bæst við Reykjanesbæ

Erlendum ríkisborgurum hélt áfram að fjölga gríðarlega hratt í fyrra. Fjöldi þeirra hefur rúmlega tvöfaldast á sjö árum. Mest er fjölgunin áfram á Suðurnesjum og í Reykjavík. Ef allir Pólverjar sem hér búa byggju í eigin sveitarfélagi væri það fjórða fjölmennasta sveitarfélag landsins.

Næstum fjórði hver íbúi í Reykja­nesbæ þann 1. des­em­ber síð­ast­lið­inn var erlendur rík­is­borg­ari. Alls voru íbúar sveit­ar­fé­lags­ins 18.888 og þar af voru erlendir rík­is­borg­arar 4.575, eða 24,2 pró­sent. Í lok árs 2011 voru 1.220 erlendir rík­­is­­borg­­arar í sveit­­ar­­fé­lag­inu og þeir 8,6 pró­­sent íbúa. Á sjö árum hefur erlendum rík­is­borg­urum sem búa Í Reykja­nesbæ því fjölgað um 3.355 og fjöldi þeirra tæp­lega fjór­falt meiri en hann var þá. Ekk­ert sveit­ar­fé­lag á land­inu hefur upp­lifað jafn hraða og mikla aukn­ingu og Reykja­nes­bær á und­an­förnum árum.

Þetta kemur fram í nýjum tölum Þjóð­skrár Íslands um fjölda erlendra rík­is­borg­arar sem búa á Íslandi.

Mikil fjölgun á öllum Suð­ur­nesjum

Fjölgun útlend­inga er yfir­höfuð mjög mikil á Suð­ur­nesj­um. Alls bjuggu 6.050 erlendir rík­is­borg­arar á svæð­inu í byrjun des­em­ber í fyrra og voru þá orðnir 22,3 pró­sent allra íbúa þess. Í kringum 19 pró­sent íbúa Suð­ur­nesja­bæj­ar, sem mynd­aður er úr Garði og Sand­gerði, og Voga eru erlendir rík­is­borg­arar og um 17 pró­sent íbúa Grinda­vík­ur.

Í lok árs 2011 var fjöldi erlendra rík­is­borg­ara á Suð­ur­nesjum 1.890. Slíkum hefur því fjölgað um 4.160 á sjö árum. Það er rúm­lega einn Ísa­fjarð­ar­bær, en íbúar hans voru 3.807 1. des­em­ber síð­ast­lið­inn.

Ástæðan er fyrst og síð­­­­­ast sú mikla aukn­ing í umsvifum sem orðið hefur á Kefla­vík­­­­­ur­flug­velli sem stað­­­settur er á Suð­­­ur­­­nesj­­­um. Ferða­­­mönnum sem heim­­­sækja Íslands hefur endað fjölgað úr um 500 þús­und árið 2010 og í um 2,5 millj­­­ónir í fyrra, sam­­­kvæmt spám.

Fjöldi erlendra tvö­fald­ast á sjö árum

Alls voru 44.276 erlendir rík­is­borg­arar búsettir hér­lendis í byrjun árs 2019. Í lok árs 2011 voru þeir 20.930 tals­ins og því hefur fjöldi þeirra rúm­lega tvö­fald­ast á sjö árum. Saman myndu erlendu rík­is­borg­ar­arnir geta myndað næst fjöl­menn­asta sveit­ar­fé­lag lands­ins, en í dag er það Kópa­vogur með 36.930 íbúa.

Árið 2017 var algjört metár í fjölgun erlendra rík­is­borg­ara sem hófu búsetu hér­lendis en þá fjölg­aði slíkum um 7.570 á tólf mán­uð­um. Í fyrra var fjölg­unin hæg­ari, en þá fjölg­aði þeim um 6.326. Það er samt sem áður næst mesta fjölgun erlendra rík­is­borg­ara innan árs í Íslands­sög­unni.

Alls fjölg­aði þeim sem búsettir eru á Íslandi um 8.834 í fyrra. Það þýðir að erlendir rík­is­borg­arar voru ábyrgir fyrir um 72 pró­sent af fjölgun íbúa lands­ins á árinu 2018.

Lyk­il­tölur um erlenda rík­is­borg­ara:

  • Erlendir rík­is­borg­arar á Íslandi í byrjun árs 2019: 44.276

  • Erlendir rík­is­borg­arar í Reykja­vík: 18.435 eða 14,3 pró­sent allra íbúa

  • Erlendir rík­is­borg­arar í Reykja­nes­bæ: 4.575 eða 24,2 pró­sent allra íbúa

  • Erlendir rík­is­borg­arar í Garða­bæ: 724 eða 4,4 pró­sent allra íbúa

  • Pól­verjar sem búa á Íslandi: 19.269 eða fleiri en búa á Akur­eyri og Reykja­nesbæ

Heim­ild: Þjóð­skrá Íslands

Lang­fjöl­menn­asti hóp­ur­inn sem hér býr eru Pól­verj­ar. Þeir eru alls 19.269 tals­ins og fjölg­aði um rúm­lega 2.200 í fyrra. Það þýðir að 44 pró­sent allra erlendra rík­is­borg­ara sem búa á Íslandi eru með pólskt rík­is­fang.

Fjölgun þeirra hefur verið mjög hröð. Í byrjun árs 1998 bjuggu 820 ein­stak­lingar sem fæddir voru í Pól­landi hér­lend­is. Fjöldi þeirra hefur því tæp­lega 24fald­ast á rúm­lega 20 árum.

Ef allir Pól­verjarnir sem búa hér­lendis byggju saman í einu sveit­ar­fé­lagi væri íbúa­fjöldi þess hærri en á Akur­eyri (18.903) í Reykja­nesbæ (18.888) og Garðabæ (16.277). Pólska sveita­fé­lagið væri því fjórða stærsta sveit­ar­fé­lag lands­ins.

Reykja­vík tekur við lang­flestum

Mesta fjölgun erlendra rík­is­borg­ara er þó áfram sem áður á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Erlendir rík­is­borg­arar þess eru nú 27.213 tals­ins og fjölg­aði um 4.013 í fyrra. Lang­flestir þeirra sett­ust að í höf­uð­borg­inni Reykja­vík, en þar fjölg­aði um 2.795 útlend­inga í fyrra og þeir eru nú 18.435 tals­ins. Nú eru 14,3 pró­sent íbúa Reykja­víkur erlendir rík­is­borg­arar en þeir voru 12,4 pró­sent íbúa borg­ar­innar í byrjun árs 2018. Til sam­an­burðar var fjöldi erlendra rík­is­borg­ara í Reykja­vík 9.190 í lok árs 2011. Frá þeim tíma hefur fjöldi erlendu rík­is­borgar­anna tvö­fald­ast. Sú aukn­ing hefur að mestu átt sér stað á síð­ustu tveimur árum, 2017 og 2018. Á þeim hefur árum einum saman hefur erlendum rík­is­borg­urum fjölgað um 5.935, sem þýðir að 65 pró­sent af aukn­ing­unni sem átt hefur sér stað á síð­ustu sjö árum varð árin 2017 og 2018.

Íbúar Reykja­víkur eru 56,4 pró­sent af heildar­í­búa­fjölda höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins en þar búa samt 68 pró­sent allra erlendra rík­is­borg­ara sem búa á svæð­inu. Eina sveit­ar­fé­lag höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins utan Reykja­víkur sem nær að vera erlenda rík­is­borg­ara sem yfir tíu pró­sent íbúa sinna er Hafn­ar­fjörður (10,6 pró­sent).

Fæstir útlend­ingar eru að venju í Garða­bæ, en 4,4 pró­sent íbúa sveit­ar­fé­lags­ins eru erlendir rík­is­borg­ar­ar. Þeim fjölg­aði úr 640 í 724 í fyrra. Á Sel­tjarn­ar­nesi eru síðan 7,4 pró­sent íbúa erlend­ir, og þeim fjölg­aði úr 330 í 347 á árinu 2018. Mos­fells­bær er með svipað hlut­fall útlend­inga á meðal íbúa, alls 7,8 pró­sent, og þar fjölg­aði þeim úr 650 í 896 í fyrra.

Fáir á Akur­eyri

Ann­ars­staðar á land­inu er ekki jafn mikil og hröð aukn­ing eins og á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og Suð­ur­nesj­um. Þar búa þrír af hverjum fjórum erlendum rík­is­borg­urum sem sest hafa hér að.

Utan suð­vest­ur­horns­ins er hlut­fall þeirra hæst á Vest­fjörðum þar sem 15,5 pró­sent íbúa eru erlend­ir. Lægst er það að Norð­ur­landi vestra þar sem 6,8 pró­sent íbúa eru útlend­ing­ar, eða 491 af 7.227 íbúum alls.

Á Norð­ur­landi eystra búa alls 2.296 útlend­ingar sem þýðir að 7,5 pró­sent íbúa þar eru slík­ir. Lang­fjöl­menn­asta sveit­ar­fé­lagið þar er Akur­eyri, þar sem 937 útlend­ingar búa. Það þýðir að ein­ungis fimm pró­sent af 18.903 íbúum þess eru útlend­ing­ar. Til sam­an­burðar er næst fjöl­menn­asta sveit­ar­fé­lag svæð­is­ins Norð­ur­þing. Þar búa 3.050 manns og þar af 493 útlend­ing­ar. Það þýðir að 16,2 pró­sent íbúa Norð­ur­þings eru erlendir rík­is­borg­ar­ar.

Það sveit­ar­fé­lag sem er með hæst hlut­fall erlendra rík­is­borg­ara innan sinna bæj­ar­marka er þó Mýr­dals­hreppur á Suð­ur­land­inu. Alls eru 40,2 pró­sent íbúa hans erlendir rík­is­borg­ar­ar, en þess ber þó að geta að þar búa 697 manns. Útlend­ing­arnir eru því ein­ungis 280 tals­ins.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar