Mynd: Bára Huld Beck

Vilja alls ekki hleypa Miðflokknum í formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd

Meirihluti stjórnarandstöðunnar vill ekki að Bergþór Ólason, né nokkur annar Klausturmaður, stýri nefndum Alþingis. Bergþór stýrði samt fundi umhverfis- og samgöngunefndar í morgun, þvert á vilja meirihluta nefndarinnar.

Ekki liggur enn fyrir hvort Berg­þór Óla­son, annar þeirra þing­manna sem mest fór fyrir á Klaust­ur­bar í nóv­em­ber, muni sitja áfram sem for­maður umhverf­is- og sam­göngu­nefndar Alþing­is. And­staða er við það á meðal ann­arra stjórn­ar­and­stöðu­flokka sem vilja að Mið­flokk­ur­inn skipi annan for­mann. Ein­hvern sem var ekki á meðal þeirra sem sátu saman við drykkju á Klaustri.

Þrátt fyrir þessa and­stöðu, sem teygir sig líka til full­trúa stjórn­ar­flokk­anna þriggja í nefndum Alþing­is, þá stýrði Berg­þór fundi umhverf­is- og sam­göngu­nefndar í morg­un. Því liggur fyrir að Mið­flokk­ur­inn ætlar ekki að beygja sig fyrir vilja meiri­hluta þing­heims um að Klaust­ur­þing­menn­irnir stýri ekki nefndum Alþing­is.

Fyrir helgi, sér­stak­lega í kringum end­ur­komu Berg­þórs og sam­flokks manns Gunn­ars Braga Sveins­sonar til starfa, hafði skap­ast umtals­verð óvissa um þetta eftir að Ari Trausti Guð­munds­son, þing­maður Vinstri grænna sem situr í nefnd­inni, lét hafa eftir sér við Frétta­blaðið að full­trúar Við­reisn­ar, Sam­fylk­ingar og Vinstri grænna sem í umhverf­is- og sam­göngu­nefnd hefðu lýst því yfir að þau vildu ekki að Berg­þór gegndi for­mennsku áfram. „Berg­þór kemur og hefur rétt til að ganga inn í nefnd­ina og rétt til að taka sitt sæti sem hann hafði. Við getum ekki sagt nei. Málið er að hann er þarna sam­­kvæmt sam­komu­lagi minn­i­hluta­­flokk­anna,“ sagði Ari Trausti við Frétta­blað­ið.

Full­trúi stjórn­ar­meiri­hlut­ans virt­ist með þessu, að mati margra í stjórn­ar­and­stöðu, vera að kasta ábyrgð­inni á veru eða brott­för Berg­þórs yfir til minni­hlut­ans á Alþingi. Við­mæl­endur Kjarn­ans sem til­heyra honum telja að með því séu stjórn­ar­flokk­arnir að forð­ast það að taka afstöðu í því hvernig þingið eigi að taka á end­ur­komu Klaust­ur­manna.

Ekki tals­maður minni­hlut­ans

Oddný Harð­ar­dótt­ir, for­maður þing­flokks Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, brást við með stöðu­upp­færslu á Face­book þar sem hún sagði Ara Trausta ekki vera tals­mann minni­hlut­ans á Alþingi. Sam­kvæmt sam­komu­lagi um for­­mennsku í nefndum lá fyrir að stjórn­­­ar­and­­staðan fengi þrjá for­­menn slíkra. Stjórn­ar­and­stöðu­flokk­arnir ákváðu að stærsti stjórn­ar­and­stöðu­flokk­ur­inn, Sam­fylk­ing­in, fengi að velja fyrst, sá næst stærsti, Mið­flokk­ur­inn, síðan og Píratar fengu for­mennsku í þeirri þriðju.

Oddný sagði að flokk­­arnir ráði því algjör­­lega sjálfir hvaða þing­­menn séu valdir í for­­manns­­sæt­ið. Það sé því Mið­­flokk­­ur­inn sem ræður því hver sé for­­maður í umhverf­is- og sam­­göng­u­­nefnd. Hinn val­­kost­­ur­inn væri að rifta sam­komu­lag­inu og þá væru allt undir og allir flokkar þurfi að setj­­­ast niður og finna aðra umgjörð um störf þings­ins.

Um hvað ger­ist þá eru skiptar skoð­an­ir. Sumir við­mæl­endur Kjarn­ans innan úr stjórn­ar­and­stöð­unni segja að þá muni þeir 19 stjórn­ar­and­stöðu­þing­menn sem til­heyra Sam­fylk­ingu, Píröt­um, Við­reisn og Flokki fólks­ins ein­fald­lega krefj­ast þess áfram að ráða því hvernig skipt­ing nefnd­ar­for­mennsku fari fram. Aðrir ótt­ast að upp­taka sam­komu­lags­ins geti leitt til þess að Mið­flokk­ur­inn, með stuðn­ingi tveggja óháðra þing­manna, verði stærsta ein­staka aflið í stjórn­ar­and­stöðu og muni þá krefj­ast for­mennsku í annarri nefnd, stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd.

Ótt­ast sam­starf óháðra þing­manna við Mið­flokk­inn

Sam­komu­lag stjórn­ar­and­stöðu­flokk­anna gengur út á að Sam­fylk­ingin stýri þeirri nefnd fyrri hluta kjör­tíma­bils­ins og Píratar síð­ari hluta þess. Um er að ræða eina valda­mestu nefnd þings­ins. Hún hefur til að mynda frum­kvæði að því að kanna ákvarð­anir ein­stakra ráð­herra og verk­lag þeirra. Nefndin gerir líka til­lögu um hvenær rétt sé að skipa rann­sókn­ar­nefndir og gefur þing­inu álit sitt um skýrslur þeirra. Þá eru öll mál­efni Stjórn­ar­ráðs­ins og æðstu stjórnar rík­is­ins undir hjá nefnd­inni ásamt stjórn­ar­skrár­mál­um, öllum mál­efnum for­seta Íslands, Alþingis og kosn­inga­mál­um.

Ef sam­komu­lag stjórn­ar­and­stöð­unnar verður tekið upp þá ótt­ast hluti hennar að þeir Ólafur Ísleifs­son og Karl Gauti Hjalta­son, sem standa nú utan flokka eftir að hafa verið reknir úr þing­flokki Flokks fólks­ins vegna Klaust­ur­máls­ins, muni fara í sam­starf með Mið­flokkn­um. Við það myndi sá þing­flokkur verða stærstur allra í stjórn­ar­and­stöðu með níu þing­menn og þar af leið­andi telja sig eiga að fá fyrsta val á for­mennsku í nefnd. Þá er lík­legt að for­mennska í hinni valda­miklu stjórn­ar­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd yrði fyrir val­inu.

Aðrir stjórn­ar­and­stöðu­þing­menn segja þetta ekki geta gerst. Það liggi alveg fyrir að meiri­hluti and­stöð­unnar muni ekki styðja það fyr­ir­komu­lag.

Getur skipað rann­sókn­ar­nefndir

Skammt er síðan að for­maður og vara­for­maður Mið­flokks­ins, Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son og Gunnar Bragi Sveins­son, neit­uðu að mæta fyrir þá nefnd til að ræða tal sitt um póli­tísk hrossa­kaup með sendi­herra­stöður á Klaust­ur­bar í nóv­em­ber. Þess í stað sendu þeir yfir­­lýs­ingar þar sem þeir gagn­rýndu málið allt og sér­­stak­­lega Helgu Völu Helga­dótt­ur, þing­mann Sam­fylk­ing­ar­innar og for­­mann stjórn­­­skip­un­­ar- og eft­ir­lits­­nefnd­­ar.

Í sjón­varps­þætt­inum 21 á Hring­braut þann 16. jan­úar síð­ast­lið­inn sagði Helga Vala að það þyrfti að skoða hvort skipa ætti rann­sókn­ar­nefnd um sendi­herra­mál­ið. „Það hefur verið rætt við mig ófor­m­­lega bæði innan og utan þings frá lög­­­spek­ing­­um.“

Ástæðan væri sú að það væri mögu­lega lög­brot að ráð­herra aðhaf­ist eitt­hvað gegn því að hann fái eitt­hvað síð­ar. Gunnar Bragi heyr­ist á upp­tök­unum af Klaustri stæra sig af því að eiga inni sendi­herra­stöðu hjá Sjálf­stæð­is­flokknum fyrir að hafa skipað Geir H. Haarde sendi­herra í Banda­ríkj­unum þegar hann var utan­rík­is­ráð­herra. Sig­mundur Davíð stað­festir þá frá­sögn á upp­tök­unni. Eftir að upp­­­­tök­­­­urnar voru gerðar opin­berar hafi þeir þver­­­­tekið fyrir að sagan um lof­orðið hafi verið sönn. Gunnar Bragi sagð­ist hafa verið að ljúga upp á Bjarna Bene­dikts­­­son, for­mann Sjálf­stæð­is­flokks­ins.

Ef Mið­flokk­ur­inn fær for­mennsku í stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd er ljóst að af slíkri rann­sókn yrði aldrei.

Ekk­ert ákveðið og mál­efnin ráða för

Staða Ólafs og Karl Gauta á þingi hefur verið mikil til umræðu hjá þing­mönnum að und­an­förnu. Þeir geta enda raskað fyr­ir­liggj­andi valda­jafn­vægi mjög mikið ákveði þeir að ganga til liðs við nýjan flokk frekar en að vera áfram óháð­ir, sem tak­markar getu þeirra til fullra þing­starfa.

Miðað við mál­efna­stöðu þeirra og for­tíð koma ein­ungis tveir flokkar til greina sem nýtt heim­ili. Sá fyrri er aug­ljós­lega Mið­flokk­ur­inn, flokk­ur­inn sem fund­ur­inn á Klaustri í nóv­em­ber sner­ist um að ná þeim í. Mikil mál­efna­leg sam­leið hefur verið á milli Ólafs og Karls Gauta ann­ars vegar og Mið­flokknum hins vegar í stórum mál­um.

Í fréttum Stöðvar 2 á föstu­dag var greint frá því að Ólafur og Karl Gauti úti­lok­uðu ekki mögu­leik­ann á því að stökkva um borð til Mið­flokks­ins. Ólafur sagði hins vegar í sam­tali við Kjarn­ann síðar sama dag að ekk­ert væri ákveðið með það, heldur væri staðan ein­fald­­lega breytt. Mál­efnin myndu ráða ferð­inni um hvaða skref yrðu stig­in.  Ef tví­menn­ing­arnir færu yfir í Mið­flokk­inn myndi sá flokk­ur, líkt og áður sagði verða stærsti stjórn­ar­and­stöðu­flokk­ur­inn á þingi út þetta kjör­tíma­bil.

Hinn mögu­leik­inn er að þeir gangi til liðs við Sjálf­stæð­is­flokk­inn. Inga Sæland, for­maður Flokks fólks­ins, minnti á að þeir eiga for­tíð­ar­tengsl við þann flokk í grein sem hún skrif­aði 17. jan­úar sem bar fyr­ir­sögn­ina „Karlar sem hat­ast við kon­ur“ þar sem hún gerði upp Klaust­ur­málið og eft­ir­mála þess. Í grein­inni skrif­aði hún  að nú hefði komið á dag­inn að þessir gömlu vagn­hestar Sjálf­­stæð­is­­flokks­ins hafa síður en svo reynst happa­­fengur fyrir okkur í Flokki fólks­ins.“

Mögu­leikar í stöð­unni

Ekk­ert er þó víst um að þeim yrði tekið opnum örmum inn í Sjálf­stæð­is­flokk­inn. Þótt tveir þing­menn til við­bótar myndu styrkja stöðu hans sem stærsta flokks lands­ins og auka rík­is­stjórn­ar­meiri­hlut­ann úr 33 þing­mönnum í 35, þá væri fólgin í því mikil póli­tísk áhætta að taka menn laskaða eftir jafn afger­andi hneyksl­is­mál inn í þing­flokk sinn. Auk þess er lík­legt að and­staða yrði við slíkt hjá hluta þing­manna af prinsipá­stæðum vegna þess sem fram fór á Klaustri. Þá er Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn í rík­is­stjórn með Fram­sókn­ar­flokkn­um, en vara­for­maður hans og mennta- og menn­ing­ar­mála­ráð­herra, Lilja D. Alfreðs­dótt­ir, fékk einna rætn­ustu útreið þeirra sem rætt var um á Klaustri.

Þing­menn­irnir tveir, Ólafur og Karl Gauti, hafa engu að tapa, að minnsta kosti til skamms tíma. Þeir gengu til liðs við Flokk fólks­ins í kjöl­far þess að boðað var til skyndi­legra þing­kosn­inga með rúm­lega mán­að­ar­fyr­ir­vara haustið 2017 og náðu óvænt inn á þing. Hvor­ugir eru unglömb. Karl Gauti verður sex­tugur í ár og Ólafur verður 64 ára í næsta mán­uði. Þegar næst verður kos­ið, að óbreyttu vorið 2021, verða því ekki mörg starfsár eftir hjá þeim ef miðað er við form­legan eft­ir­launa­ald­ur. Því er alls ekki fyr­ir­liggj­andi að þeir horfi lengra í póli­tík en bara til yfir­stand­andi kjör­tíma­bils, og þurfi því ekki að takast á við afleið­ingar ákvarð­ana sinna í næstu kosn­ing­um.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar