Vilja alls ekki hleypa Miðflokknum í formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd
Meirihluti stjórnarandstöðunnar vill ekki að Bergþór Ólason, né nokkur annar Klausturmaður, stýri nefndum Alþingis. Bergþór stýrði samt fundi umhverfis- og samgöngunefndar í morgun, þvert á vilja meirihluta nefndarinnar.
Ekki liggur enn fyrir hvort Bergþór Ólason, annar þeirra þingmanna sem mest fór fyrir á Klausturbar í nóvember, muni sitja áfram sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Andstaða er við það á meðal annarra stjórnarandstöðuflokka sem vilja að Miðflokkurinn skipi annan formann. Einhvern sem var ekki á meðal þeirra sem sátu saman við drykkju á Klaustri.
Þrátt fyrir þessa andstöðu, sem teygir sig líka til fulltrúa stjórnarflokkanna þriggja í nefndum Alþingis, þá stýrði Bergþór fundi umhverfis- og samgöngunefndar í morgun. Því liggur fyrir að Miðflokkurinn ætlar ekki að beygja sig fyrir vilja meirihluta þingheims um að Klausturþingmennirnir stýri ekki nefndum Alþingis.
Fyrir helgi, sérstaklega í kringum endurkomu Bergþórs og samflokks manns Gunnars Braga Sveinssonar til starfa, hafði skapast umtalsverð óvissa um þetta eftir að Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna sem situr í nefndinni, lét hafa eftir sér við Fréttablaðið að fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingar og Vinstri grænna sem í umhverfis- og samgöngunefnd hefðu lýst því yfir að þau vildu ekki að Bergþór gegndi formennsku áfram. „Bergþór kemur og hefur rétt til að ganga inn í nefndina og rétt til að taka sitt sæti sem hann hafði. Við getum ekki sagt nei. Málið er að hann er þarna samkvæmt samkomulagi minnihlutaflokkanna,“ sagði Ari Trausti við Fréttablaðið.
Fulltrúi stjórnarmeirihlutans virtist með þessu, að mati margra í stjórnarandstöðu, vera að kasta ábyrgðinni á veru eða brottför Bergþórs yfir til minnihlutans á Alþingi. Viðmælendur Kjarnans sem tilheyra honum telja að með því séu stjórnarflokkarnir að forðast það að taka afstöðu í því hvernig þingið eigi að taka á endurkomu Klausturmanna.
Ekki talsmaður minnihlutans
Oddný Harðardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, brást við með stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hún sagði Ara Trausta ekki vera talsmann minnihlutans á Alþingi. Samkvæmt samkomulagi um formennsku í nefndum lá fyrir að stjórnarandstaðan fengi þrjá formenn slíkra. Stjórnarandstöðuflokkarnir ákváðu að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Samfylkingin, fengi að velja fyrst, sá næst stærsti, Miðflokkurinn, síðan og Píratar fengu formennsku í þeirri þriðju.
Oddný sagði að flokkarnir ráði því algjörlega sjálfir hvaða þingmenn séu valdir í formannssætið. Það sé því Miðflokkurinn sem ræður því hver sé formaður í umhverfis- og samgöngunefnd. Hinn valkosturinn væri að rifta samkomulaginu og þá væru allt undir og allir flokkar þurfi að setjast niður og finna aðra umgjörð um störf þingsins.
Um hvað gerist þá eru skiptar skoðanir. Sumir viðmælendur Kjarnans innan úr stjórnarandstöðunni segja að þá muni þeir 19 stjórnarandstöðuþingmenn sem tilheyra Samfylkingu, Pírötum, Viðreisn og Flokki fólksins einfaldlega krefjast þess áfram að ráða því hvernig skipting nefndarformennsku fari fram. Aðrir óttast að upptaka samkomulagsins geti leitt til þess að Miðflokkurinn, með stuðningi tveggja óháðra þingmanna, verði stærsta einstaka aflið í stjórnarandstöðu og muni þá krefjast formennsku í annarri nefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Óttast samstarf óháðra þingmanna við Miðflokkinn
Samkomulag stjórnarandstöðuflokkanna gengur út á að Samfylkingin stýri þeirri nefnd fyrri hluta kjörtímabilsins og Píratar síðari hluta þess. Um er að ræða eina valdamestu nefnd þingsins. Hún hefur til að mynda frumkvæði að því að kanna ákvarðanir einstakra ráðherra og verklag þeirra. Nefndin gerir líka tillögu um hvenær rétt sé að skipa rannsóknarnefndir og gefur þinginu álit sitt um skýrslur þeirra. Þá eru öll málefni Stjórnarráðsins og æðstu stjórnar ríkisins undir hjá nefndinni ásamt stjórnarskrármálum, öllum málefnum forseta Íslands, Alþingis og kosningamálum.
Ef samkomulag stjórnarandstöðunnar verður tekið upp þá óttast hluti hennar að þeir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason, sem standa nú utan flokka eftir að hafa verið reknir úr þingflokki Flokks fólksins vegna Klausturmálsins, muni fara í samstarf með Miðflokknum. Við það myndi sá þingflokkur verða stærstur allra í stjórnarandstöðu með níu þingmenn og þar af leiðandi telja sig eiga að fá fyrsta val á formennsku í nefnd. Þá er líklegt að formennska í hinni valdamiklu stjórnarskipunar- og eftirlitsnefnd yrði fyrir valinu.
Aðrir stjórnarandstöðuþingmenn segja þetta ekki geta gerst. Það liggi alveg fyrir að meirihluti andstöðunnar muni ekki styðja það fyrirkomulag.
Getur skipað rannsóknarnefndir
Skammt er síðan að formaður og varaformaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson, neituðu að mæta fyrir þá nefnd til að ræða tal sitt um pólitísk hrossakaup með sendiherrastöður á Klausturbar í nóvember. Þess í stað sendu þeir yfirlýsingar þar sem þeir gagnrýndu málið allt og sérstaklega Helgu Völu Helgadóttur, þingmann Samfylkingarinnar og formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut þann 16. janúar síðastliðinn sagði Helga Vala að það þyrfti að skoða hvort skipa ætti rannsóknarnefnd um sendiherramálið. „Það hefur verið rætt við mig óformlega bæði innan og utan þings frá lögspekingum.“
Ástæðan væri sú að það væri mögulega lögbrot að ráðherra aðhafist eitthvað gegn því að hann fái eitthvað síðar. Gunnar Bragi heyrist á upptökunum af Klaustri stæra sig af því að eiga inni sendiherrastöðu hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir að hafa skipað Geir H. Haarde sendiherra í Bandaríkjunum þegar hann var utanríkisráðherra. Sigmundur Davíð staðfestir þá frásögn á upptökunni. Eftir að upptökurnar voru gerðar opinberar hafi þeir þvertekið fyrir að sagan um loforðið hafi verið sönn. Gunnar Bragi sagðist hafa verið að ljúga upp á Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins.
Ef Miðflokkurinn fær formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er ljóst að af slíkri rannsókn yrði aldrei.
Ekkert ákveðið og málefnin ráða för
Staða Ólafs og Karl Gauta á þingi hefur verið mikil til umræðu hjá þingmönnum að undanförnu. Þeir geta enda raskað fyrirliggjandi valdajafnvægi mjög mikið ákveði þeir að ganga til liðs við nýjan flokk frekar en að vera áfram óháðir, sem takmarkar getu þeirra til fullra þingstarfa.
Miðað við málefnastöðu þeirra og fortíð koma einungis tveir flokkar til greina sem nýtt heimili. Sá fyrri er augljóslega Miðflokkurinn, flokkurinn sem fundurinn á Klaustri í nóvember snerist um að ná þeim í. Mikil málefnaleg samleið hefur verið á milli Ólafs og Karls Gauta annars vegar og Miðflokknum hins vegar í stórum málum.
Í fréttum Stöðvar 2 á föstudag var greint frá því að Ólafur og Karl Gauti útilokuðu ekki möguleikann á því að stökkva um borð til Miðflokksins. Ólafur sagði hins vegar í samtali við Kjarnann síðar sama dag að ekkert væri ákveðið með það, heldur væri staðan einfaldlega breytt. Málefnin myndu ráða ferðinni um hvaða skref yrðu stigin. Ef tvímenningarnir færu yfir í Miðflokkinn myndi sá flokkur, líkt og áður sagði verða stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þingi út þetta kjörtímabil.
Hinn möguleikinn er að þeir gangi til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, minnti á að þeir eiga fortíðartengsl við þann flokk í grein sem hún skrifaði 17. janúar sem bar fyrirsögnina „Karlar sem hatast við konur“ þar sem hún gerði upp Klausturmálið og eftirmála þess. Í greininni skrifaði hún að nú hefði komið á daginn að þessir gömlu vagnhestar Sjálfstæðisflokksins hafa síður en svo reynst happafengur fyrir okkur í Flokki fólksins.“
Möguleikar í stöðunni
Ekkert er þó víst um að þeim yrði tekið opnum örmum inn í Sjálfstæðisflokkinn. Þótt tveir þingmenn til viðbótar myndu styrkja stöðu hans sem stærsta flokks landsins og auka ríkisstjórnarmeirihlutann úr 33 þingmönnum í 35, þá væri fólgin í því mikil pólitísk áhætta að taka menn laskaða eftir jafn afgerandi hneykslismál inn í þingflokk sinn. Auk þess er líklegt að andstaða yrði við slíkt hjá hluta þingmanna af prinsipástæðum vegna þess sem fram fór á Klaustri. Þá er Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum, en varaformaður hans og mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, fékk einna rætnustu útreið þeirra sem rætt var um á Klaustri.
Þingmennirnir tveir, Ólafur og Karl Gauti, hafa engu að tapa, að minnsta kosti til skamms tíma. Þeir gengu til liðs við Flokk fólksins í kjölfar þess að boðað var til skyndilegra þingkosninga með rúmlega mánaðarfyrirvara haustið 2017 og náðu óvænt inn á þing. Hvorugir eru unglömb. Karl Gauti verður sextugur í ár og Ólafur verður 64 ára í næsta mánuði. Þegar næst verður kosið, að óbreyttu vorið 2021, verða því ekki mörg starfsár eftir hjá þeim ef miðað er við formlegan eftirlaunaaldur. Því er alls ekki fyrirliggjandi að þeir horfi lengra í pólitík en bara til yfirstandandi kjörtímabils, og þurfi því ekki að takast á við afleiðingar ákvarðana sinna í næstu kosningum.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars