Þegar talið berst að auðlindum jarðar er sandur líklega ekki það sem oftast ber á góma. Þeir sem fara um stóru sandana á Suður- og Suðausturlandi, og finnst þeir stórir, eiga kannski erfitt með að trúa því að víða um heim sé sandur eftirsótt hráefni, sem ekki er óþrjótandi.
Stundum er sagt að í veröldinni séu tvö hráefni sem séu mikilvægust alls: vatn og sandur. Vatnið fyrir mannfólkið, dýralífið, ræktunarland og framleiðslu. Sandurinn í steinsteypu, sem er mikilvægasta byggingaefni jarðarbúa, notuð í hús, vegi, og flest mannvirki sem fyrirfinnast. Í steinsteypu eru sandur og möl um það bil áttatíu prósent efnisins. Rétt er að geta þess að andrúmsloftið flokkast ekki undir hráefni.
Gríðarleg aukning
Á síðustu 100 árum hefur notkun á sandi aukist gríðarlega, nánar tiltekið er árleg notkun nú um það bil tuttugu og þrisvar sinnum meiri en í upphafi síðustu aldar. Á síðustu tíu árum hafa Kínverjar notað álíka mikinn sand og Bandaríkin notuðu á allri síðustu öld.
Árið 2017 notuðu jarðarbúar um það bil níu og hálfan milljarð tonna sands, markaðsvirði þessa stóra bings samsvarar um það bil 12 þúsund milljörðum íslenskra króna.
Þessi mikla notkun á sandi hefur haft í för með sér stóraukna eftirspurn, og þótt verðið sé enn „tiltölulega“ lágt spá sérfræðingar að það muni stórhækka á næstu árum og áratugum.
Er ekki nóg til af sandi?
Af og til sjást í sjónvarpi myndir frá sandauðnum Afríku, einkum Sahara, og kannski erfitt að gera sér í hugarlund að sandskortur geti orðið vandamál. Iðulega sjást líka myndir frá Dubai, þar sem hvítar sandstrendur, með háhýsum og pálmatrjám eru mest áberandi. Ætla mætti að allur sá sandur sem þar er væri heimafenginn eða frá nágrönnum í Sádi-Arabíu og Oman. En það er öðru nær. Vissulega er í þessum tveim löndum nægur sandur, ljós og fíngerður. Gallinn er bara sá að þessi sandur, og allur eyðimerkursandur, hentar ákaflega illa í steinsteypu. Til þess er hann alltof fíngerður og sé hann notaður í steinsteypu nær steypan ekki þeim styrkleika sem nauðsynlegt er og auk þess endist slík steypa ekki sérlega vel. Sandurinn í Dubai hefur verið fluttur um langan veg, nánar tiltekið frá Ástralíu. Sömu sögu er að segja frá Los Angeles í Kaliforníu, þangað er fluttur sandur, í stórum stíl, frá Vancouver eyju, um tvö þúsund kílómetra leið. Singapúrar flytja jafnt og þétt sand frá Malasíu, Indónesíu, Víetnam og Kambódíu. Mestu af þeim sandi er sturtað í hafið við ströndina, til nota síðar. Singapúrarnir horfa til framtíðar, telja sig vita að sandur hækki mjög í verði og þá er gott að eiga birgðir. Sannkölluð hækkun í hafi.
Sandframleiðandinn Grænland
Fyrir nokkrum dögum greindi vísindaritið Nature Sustainability frá rannsóknarverkefni nokkurra sérfræðinga. Yfirumsjón með verkefninu hafði Metta Bendixen sérfræðingur við Hafnarháskóla en hún hefur undanfarið gegnt stöðu gestakennara við háskólann í Boulder Colorado. Auk hennar unnu að verkefninu danskir og bandarískir sérfræðingar.
Verkefnið snerist um að rannsaka þær breytingar sem bráðnun jökla á Grænlandi hefur í för með sér. Nánar tiltekið það sem berst í sjó fram með vatni frá jöklunum. Lengi hefur verið vitað að vatnið sem þannig fellur til ber með sér jarðefni en magnið kom hins vegar sérfræðingunum á óvart. Semsé að næstum tíu prósent þess sands sem til verður í heiminum ár hvert streymi til sjávar frá Grænlandi. Stærstur hluti þessa sands fellur til á afmörkuðum svæðum og fjórðungur af áðurnefndum tíu prósentum berst til sjávar með Sermeq ánni, nokkuð fyrir sunnan Nuuk. Í skýrslu sérfræðinganna segir að hlýnun jarðar hafi í för með sér að sandmagnið sem berst til sjávar á Grænlandi muni aukast til muna á næstu árum og áratugum.
Ef Grænlendingar haldi rétt á spilunum geti útflutningur á sandi hugsanlega skapað landsmönnum miklar tekjur. Í viðtali við dagblaðið Berlingske sagði Mette Bendixen að áður en hugsanlegur útflutningur gæti hafist þyrftu margháttaðar rannsóknir að koma til.
Ekki allir jafn sannfærðir
Per Kalvig, forstöðumaður GEUS rannsóknasetursins, sem annast alhliða rannsóknir á náttúruauðlindum, sagði í blaðaviðtali að hugmyndin um sandnám á Grænlandi sé spennandi. „Ég hef hinsvegar ákveðnar efasemdir um viðskiptahugmyndina og hugsanlegar tekjur.“ Þótt verð á sandi færi hækkandi yrði hann ódýrt hráefni og ef verðið hækkaði of mikið myndu vísindamenn leita leiða til að notast við önnur efni „þótt ég viti ekki hver þau ættu að vera“ sagði Per Kalvig.
Jöklaleirinn er næringarríkur áburður
Minik Rosing prófessor við Náttúrufræðideild Hafnarháskóla var í hópi þeirra sem tóku þátt í verkefni Mette Bendixen. Í viðtali við dagblaðið Berlingske sagði hann að framburður jökulánna bæri með sér fleira en sand. Nefnilega jökulleir, í geysimiklu magni. Leirinn hefur verið rannsakaður og hann reynist mjög næringarríkur. „Kannski er það bjartsýni en ég tel að leirinn gæti orðið enn mikilvægari útflutningsvara en sandurinn, til dæmis til Afríkulanda. Þar skortir víða áburð“ sagði Minik Rosing.