Nýjar reglur varðandi giftingar erlendra ríkisborgara á danskri grund tóku gildi 1. janúar í fyrra (2018). Reglunum er ætlað að koma í veg fyrir að ríkisborgar landa utan ESB geti „bakdyramegin“ fengið landvistarleyfi í löndum Evrópusambandsins.
Árið 2016 (nýjustu tölur sem til eru) voru hjónavígslur í Danmörku samtals um það bil 44 þúsund. Af þessum fjölda voru um það bil 13 þúsund vígslur þar sem gefið var saman par búsett utan Danmerkur, en annar einstaklingurinn ríkisborgari eins af ríkjum ESB. Reglur ESB eru þannig að giftist ríkisborgari ESB lands einstaklingi sem er ríkisborgari í landi utan ESB fær sá síðarnefndi sjálfkrafa dvalarleyfi í öllum ríkjum sambandsins.
Ekki hægt að láta pússa sig saman „bara sisvona“
Fyrir giftingunum þarf að fá leyfi, frá opinberum aðilum. Samkvæmt reglum ESB ber hverju aðildarríkjanna að fylgja tilteknum reglum varðandi ofannefndar giftingar. Í stuttu máli sagt ganga þær reglur út á að fólk sé að ganga í hjónaband af fúsum og frjálsum vilja, ekki sé um sýndarhjónaband að ræða, hjónin séu ekki þegar gift öðrum, hvort viðkomandi hafi aldur til að ganga í hjónaband o.s.frv. Til þess að ganga úr skugga um hvort allt sé með felldu varðandi fyrirhugaðan ráðahag hafa ESB löndin mismunandi fyrirkomulag, þótt reglurnar séu alls staðar þær sömu. Sum lönd hafa eina stofnun sem nær til alls landsins, þangað fara allar umsóknir og þegar parið hefur fengið „leyfið“ getur það látið pússa sig saman hvar sem er í landinu.
Danska leiðin
Í Danmörku hefur fyrirkomulagið verið með öðrum hætti. Þar hefur hvert sveitarfélag afgreitt umsóknirnar. Parið velur sér hvar það vill láta vígsluna fara fram og sækir svo um á viðkomandi stað. Á sínum tíma voru rökin fyrir þessu þau að þetta væri einfaldara og gengi hraðar fyrir sig. Ekki þyrfti sérstaka miðstýrða stofnun til að halda utan um þessa afgreiðslu. Um þetta voru flokkar á danska þinginu, Folketinget, sammála og sveitarfélögunum þótti þetta líka ákjósanlegt fyrirkomulag.
Af hverju að giftast í Danmörku?
Eins og fyrr var nefnt létu um það bil 13 þúsund pör, þar sem annar aðilinn var ESB borgari en hinn ekki, gifta sig í Danmörku árið 2016. Kannski velta einhverjir fyrir sér hvernig á því standi að þessi fjöldi velji að leggja leið sína til Danmerkur til að ganga í það heilaga. Hlutfall þessara giftinga er nefnilega miklu hærra, hlutfallslega, en í öðrum aðildarríkjum ESB. Þessari spurningu hafa danskir stjórnmálamenn líka velt fyrir sér og telja sig vita svarið. Það hefur semsé reynst miklu auðveldara að verða sér úti um „leyfið“ í Danmörku en annars staðar. Og stjórnmálamennirnir telja sig líka vita skýringuna: fyrir sveitarfélögin þýði brúðkaupin tekjur og þegar peningar eru annars vegar sé tilhneigingin sú að ,,túlka reglurnar frjálslega“ eins og danskur ráðherra komst að orði í blaðaviðtali.
Umtalsverðar tekjur
Tekjur vegna erlendra ríkisborgara sem láta gefa sig saman í Danmörku eru umtalsverðar. „Leyfisgjaldið“ rann til viðkomandi sveitarfélags sem jafnframt sá um að innheimta. Gjaldið var fram til 1. janúar 2018 kr. 870.- danskar (15.900.- íslenskar) en nú borgar hvert par kr. 1.600.- (29.000.- íslenskar) og þær tekjur renna til ríkisins. En þetta eru fjarri því einu tekjurnar sem brúðkaupunum fylgja. Erlendu brúðhjónin láta nánast alltaf gifta sig í kirkju (nema í Kaupmannahöfn, þar er Ráðhúsið vinsælast) og það þarf að borga prestinum. Svo er það söngurinn, hann kostar líka sitt. Lang oftast fylgja hamingjusama parinu ættingjar og vinir og þá þarf að slá upp veislu og svo bætist gistingin við. Í sumum tilvikum er fólk komið langt að og vill gera meira úr ferðinni og dvelur nokkra daga í Danmörku. Ekki er vitað um tölu þeirra sem komið hafa til Danmerkur á undanförnum árum vegna þessara brúðkaupa en ljóst að fjöldinn er umtalsverður.
Nokkrir staðir vinsælli en aðrir
Samkvæmt upplýsingum sem fréttaskýrendur DR, danska útvarpsins hafa aflað sér eru nokkrir staðir sem skera sig úr (hvað brúðkaupsvinsældir varðar). Fyrir utan Kaupmannahöfn eru það Tønder og Sønderborg á Suður-Jótlandi og eyjarnar Ærø og Langeland, sunnan við Fjón. Fyrir þessa staði, kannski að Sønderborg undanskilinni, hafa tekjurnar af túristabrúðhjónunum, eins og Danir kalla það, skipt miklu máli. Sú staðreynd hefur kannski orðið til þess að skilyrðin um „leyfisbréfin“ hafa verið túlkuð frjálslega.
Nýju reglurnar
Eins og áður var nefnt tóku nýjar reglur varðandi „túristabrúðkaupin“ gildi 1. janúar 2018. Aðalbreytingin, fyrir utan hærra verð fyrir „leyfisbréfið“ er að frá því í byrjun þessa árs er það ekki lengur hvert sveitarfélag sem ákveður hvort tilvonandi brúðhjón uppfylli skilyrðin. Nú fara allar slíkar umsóknir um sérstaka skrifstofu í Óðinsvéum á Fjóni. Með því vill ríkisstjórnin tryggja að allir sitji við sama borð þegar að giftingarleyfunum kemur. Þótt þetta nýja fyrirkomulag hafi aðeins verið í gildi í tæpa tvo mánuði hefur umsóknum um „leyfisbréf“ þegar fækkað til muna, samanborið við fyrri ár. Sveitastjórnarmenn segja ástæðuna seinagang á leyfisveitingakontórnum í Óðinsvéum. Nú þurfi fólk að senda erindi þangað og bíða eftir svari. Það taki langan tíma og þetta verði til þess að margir hætti einfaldlega við allt saman.
Ráðherrann hefur aðrar skýringar
Sveitarstjórnarmenn hafa farið fram á það við Mai Mercado félagsmálaráðherra, að leyfisveitingarnar verði aftur fluttar til sveitarfélaganna. Ráðherrann hefur sagt að það komi ekki til greina og segir að ástæðan fyrir því að færri sæki um „leyfisbréf“ sé ekki skrifstofan í Óðinsvéum. Ástæðan sé að mikið hafi verið um svokölluð sýndarbrúðkaup, það er að segja brúðkaup sem eru eingöngu til þess ætluð að auðvelda einstaklingum frá löndum utan ESB að fá landvistarleyfi í ESB löndunum. „Við viljum ekki að fólk geti með þessum hætti komið bakdyramegin inn í lönd Evrópusambandsins.“
Í greinargerð sem danska lögreglan vann fyrir félagsmálaráðherrann kemur fram að margt bendi til að hluti umræddra giftinga sem fram hafa farið í Danmörku sé skipulagður af glæpasamtökum. Beinlínis í þeim tilgangi að konur frá utanaðkomandi ríkjum komist til ESB landa og verði svo seldar í vændi. Danmörk eigi ekki að stuðla að slíku segir í greinargerð lögreglunnar.