Varnarlaus gagnvart peningaþvætti árum saman
Ísland er í kappi við tímann að sýna alþjóðlegum samtökum að landið sinni almennilegu eftirliti gagnvart peningaþvætti, eftir að hafa fengið falleinkunn í úttekt í fyrra. Vandamálið er ekki nýtt af nálinni. Fjármálaeftirlitið gerði úttektir á íslenskum bönkum árið 2007 þar sem voru gerðar alvarlegar athugasemdir við framkvæmd eftirlits með þvætti. Þeim var ekki fylgt eftir „vegna starfsmannaskorts og sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.“
Vöxtur íslensku bankanna fyrir hrun var gríðarlegur. Saman tuttugufölduðust Kaupþing, Landsbanki Íslands og Glitnir að stærð á um sjö árum, frá byrjun árs 2002 og fram að endalokunum haustið 2008.
Vöxturinn var meðal annars drifinn áfram af áhættusamri og hraðri sókn inn á nýja markaði sem bankarnir þekktu lítið sem ekkert. Þangað sóttu þeir sér nýja viðskiptavini og tóku þátt í útrás annarra inn á óþekktar lendur.
Allt þetta leiddi til þess að miklir fjármunir runnu um æðar bankakerfisins, og enduðu oft í skattaskjólum sem kröfðust lítillar upplýsingagjafar en lögðu þeim mun meiri áherslu á leynd yfir því hverjir viðskiptavinir þeirra voru.
Við þessa eðlisbreytingu á íslensku bankakerfi, sem tengdist á þessum árum af alvöru hinu alþjóðlega fjármálakerfi, jukust líkur á athæfi á borð við peningaþvætti. Í því felst að koma ólögmætum fjármunum í umferð með því að nýta löglegar leiðir til þess.
Ýmsir þurfa að stunda slíka háttsemi, t.d. skipulagðir glæpahópar sem meðal annars selja fíkniefni eða stunda mansal á svörtum markaði. Þeir þurfa að þvætta rekstrarhagnað sinn til þess að hægt sé að nota hann í raunheimum.
Skattsvikarar, þeir sem hafa framið auðgunarbrot og fólk sem hefur komið fjármunum undan réttmætum kröfuhöfum sínum er í sömu stöðu. Það þarf að gera peninganna sína sem eru illa fengnir, eða í raun eign annarra, „hreina“ þannig að þeir geti notað þá aftur.
Áhyggjum komið á framfæri 2006
Þessi staða gerði það að verkum að mun ríkari kröfur þurfti að gera til allra, bæði fjármálafyrirtækjanna sjálfra og eftirlitsaðila, um að koma í veg fyrir að peningaþvætti ætti sér stað, enda kolólöglegt og samfélagslegskaðandi.
Alþjóðlegu samtökin Financial Action Task Force (FATF) hafa lengi haft það hlutverk að móta aðgerðir til að hindra að fjármálakerfið sé misnotað í þeim tilgangi að koma illa fengnu fé aftur í umferð. Þau hófu eftirlit með Íslandi á árunum fyrir hrun og skiluðu fyrstu skýrslu sinni um ástandið hér í október 2006. Í niðurstöðunum var því lýst yfir að samtökin hefðu áhyggjur af virkni eftirlits með peningaþvætti á Íslandi.
Bæði Fjármálaeftirlitið og embætti ríkislögreglustjóra fengu athugasemdir fyrir að hafa ekki veitt nægilegum kröftum í málaflokkinn.
Brugðist var við með því að setja á fót peningaþvættisskrifstofu ríkislögreglustjóra. Á henni starfaði lengst af einn maður sem sinnti nær engri frumkvæðisskyldu heldur treysti á tilkynningar frá bönkum og öðrum aðilum um að viðskiptavinir þeirra væru mögulega að stunda þvætti. Auk þess ætlaði Fjármálaeftirlitið að framkvæmda reglulegri og ítarlegri úttektir á fjármálafyrirtækjum vegna þessa. Þær úttektir beindust fyrst og síðast að stóru bönkunum þremur: Kaupþingi, Landsbanka Íslands og Glitni.
Alvarlegar athugasemdir við eftirlit Glitnis
Þann 12. desember 2006 sendi Fjármálaeftirlitið bréf til Glitnis þar sem bankanum var tilkynnt um að það ætlaði að framkvæma athugun á því hvernig Glitnir stæði að aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í júlí 2007 lágu fyrir drög að skýrslu um niðurstöðu þeirrar úttektar. Fjármálaeftirlitið var tilbúið að afhenda Kjarnanum hluta hennar en synjaði aðgengi að þorra skýrslunnar. Kjarninn hefur hins vegar skýrsluna í heild sinni undir höndum.
Sama gilti um útibú Glitnis í London. Fjármálaeftirlitið hóf athugun á því í apríl 2007. Þeirri athugun lauk ekki með formlegri niðurstöðu. Drög að niðurstöðu liggja ekki einu sinni fyrir.
Í útgáfunni af skýrsludrögunum sem Fjármálaeftirlitið afhenti Kjarnanum var búið að fjarlæga 20 blaðsíður. Þar á meðan niðurstöðukaflann þar sem varnir Glitnis gegn peningaþvætti fá falleinkunn eftirlitsins.
Lítill hluti úr skýrslu um Landsbankann afhentur
Sömu sögu er að segja um skýrsludrög vegna skoðunar á Landsbanka Íslands. Fjármálaeftirlitið hóf athugun á honum í mars 2007 og í september sama ár lágu fyrir drög að niðurstöðu sem send voru til bankans.
Kjarninn óskaði eftir því að fá umrædd drög afhent en fékk þau einungis að litlum hluta. Búið er að strika yfir stóran hluta þeirra blaðsíðna sem afhentar voru auk þess sem sem blaðsíður 7-34 höfðu verið fjarlægðar, þar á meðal niðurstöðuhluti þeirra.
Í svari Fjármálaeftirlitsins við fyrirspurn Kjarnans kom fram að ekki hafi náðst að ljúka skoðun á Landsbanka Íslands „vegna starfsmannaskorts og sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði.
Fjármálaeftirlitið hóf einnig athugun á útibúi Landsbanka Íslands í London í apríl 2007, en lauk henni hvorki með drögum né formlegri niðurstöðu.
Viðunandi en samt gerðar athugasemdir
Eini bankinn sem Fjármálaeftirlitið lauk athugun á með formlegri niðurstöðu var Kaupþing. Eftirlitið hóf athugun á innra eftirliti og starfsaðgerðum bankans í mars 2007 sem „miðuðu að því að koma í veg fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka“. Athuguninni lauk með formlegri niðurstöður og sendi Fjármálaeftirlitið bankanum lokaskýrslu í júní 2008.
Kjarninn fékk þá skýrslu afhenta að hluta en synjaði miðlinum um aðgang að öðrum hlutum hennar, meðal annars viðauka sem inniheldur nöfn tiltekinna viðskiptamanna bankans sem skoðaðir voru. Í skýrslunni er búið að sverta þá hluta hennar sem Fjármálaeftirlitið taldi sér óheimilt að afhenda.
Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins í skýrslunni var sú að Kaupþing hefði stigi mikilvæg skref í átt að því að efla varnir gegn peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka með „ítarlegum reglum og verkferlum, framkvæmd áreiðanleikakannana og átaki í fræðslumálum fyrir starfsmenn“. Þar segir enn fremur að Fjármálaeftirlitið telji ljóst hafi verið „að skilningur á mikilvægi þessara aðgerða og stuðningur við þær nær til æðstu stjórnenda bankans og bankaráðs sem er mjög mikilvægt.“
Kaupþing fékk einkunnina „Viðunandi“ í öllum flokkum vegna aðgerða bankans. Í niðurstöðukaflanum segir hins vegar að í skýrslunni séu „gerðar athugasemdir við tiltekin atriði í framkvæmd bankans á áreiðanleikakönnunum vegna nýrra viðskiptavina[...]Einnig eru í skýrslunni gerðar athugasemdir við stöðu ábyrgðarmanns.“ Í þeim hluta skýrslunnar sem er ekki svertur er hægt að sjá að niðurstaða úrtaks sem framkvæmt var vegna áreiðanleikakannanna hafi komið í ljós að áreiðanleikakönnun Kaupþings hafi reynst vera ófullnægjandi í átta prósent tilvika.
Peningaþvætti víða á Norðurlöndunum
Kjarninn fór í byrjun árs 2019 fram á að fá aðgang að þeim úttektum sem Fjármálaeftirlitið gerði á bönkunum þremur varðandi varnir gegn peningaþvætti frá árinu 2006 og fram að hruni. Auk þess var óskað eftir því að fá allar aðrar skýrslur, drög eða úttektir sem gerðar voru um saman efni.
Ástæðan var tvíþætt. Í fyrsta lagi hafa þær upplýsingar sem fram hafa komið um starfsemi Kaupþings, Landsbanka Íslands og Glitnis á síðustu árum; í rannsóknarskýrslum, dómsmálum og fjölmiðlaumfjöllun, sýnt að þótt íslensku bankarnir þrír hefðu allir á sér yfirbragð faglegra fyrirtækja var umsjón og eftirlit með útlánum lélegt og ófaglegt. Í raun má segja að hvatinn til að vaxa hafi verið miklu sterkari en hvatinn til að byggja upp stöndug fyrirtæki. Því var til staðar freistnivandi um að hefja viðskipti við viðskiptavini sem ekki störfuðu að öllu leyti löglega.Í öðru lagi hafa nokkrir stórir bankar í nágrenni Íslands verið bendlaðir við stórfellt peningaþvætti. Í fyrra var það Danske Bank og þvætti í gegnum eistneskt útibú bankans á árunum 2007 til 2015. Hinn sænski Swedbank átti einnig aðild að því máli. Svo var framkvæmd húsleit í höfuðstöðvum Deutsche Bank í nóvember í fyrra vegna grunsemda um peningaþvætti, en sá banki var í miklu samkurli við íslenska banka fyrir hrun og hefur auk þess leikið stórt hlutverk á meðal kröfuhafa föllnu bankanna síðastliðinn áratug. Nýjasta hneykslið snýr svo að Nordea bankanum í Danmörku, sem á að hafa notað auðmannaútibú sitt í Vesterport til að þvætta peninga.
Fyrsta efnislegt svar Fjármálaeftirlitsins barst 24. janúar. Í því er farið yfir þær athuganir sem eftirlitið framkvæmdi á hverjum banka fyrir sig á árunum fyrir hrun hvort þær hafi í raun verið kláraðar svo hægt væri að ganga úr skugga um að áhyggjur FATF væru raunverulegar. Og ef svo væri, hvað þyrfti þá að gera til að bæta úr því. Þá var skýrsla Fjármálaeftirlitsins um Kaupþing afhent að hluta en drög að skýrslu um Glitni og Landsbanka Íslands ekki að svo stöddu.
Kjarninn fór fram á að fá fleiri gögn afhent og barst annað svar 19. febrúar 2019. Með því fylgdi hluti af drögum að skýrslum um frammistöðu Glitnis og Landsbanka Íslands við að verjast peningaþvætti.
Miklum fjárhæðum komið undan á aflandseyjur
Þeir þrír bankar sem fjallað er um hér að framan hrundu síðan auðvitað allir snemma í október 2008. Og sett voru upp fjármagnshöft nokkrum vikum síðar sem voru ekki að fullu afnumin fyrr en í síðustu viku, rúmum áratug eftir að þeim var komið á.
En við hrunið lá þó fyrir að mörg hundruð milljarða króna hið minnsta hafði verið komið fyrir í aflandsfélögum. Fyrir liggur að hluti þess fjár er annað hvort fé sem leynt hefur verið frá réttmætum kröfuhöfum eða ávinningur af skattsvikum. Skattalagabrot fyrnast á sex árum og því eru flestir þeirra sem komust hjá því að greiða háar fjárhæðir til samneyslunnar hérlendis með því að fela peninganna sína í skattaparadísum fyrir haustið 2008 sloppnir frá ákæru vegna slíkra. Sama gildir hins vegar ekki um peningaþvætti, en til dæmis öll tilfærsla á peningum sem eru ávinningur af skattalagabrotum fellur undir þá skilgreiningu.
Dæmi um þetta er mál Júlíusar Vífils Ingvarssonar, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem var opinberaður í Panamaskjölunum. Hann viðurkenndi við rannsókn málsins að hafa framið skattalagabrot með því að gefa ekki upp til skatts tekjur sem hann geymdi á aflandsreikningi, en áttu að skattleggjast á Íslandi. Það brot var hins vegar fyrnt þegar játningin kom fram. Júlíus Vífill var þess í stað ákærður fyrir peningaþvætti. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi hann í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brotið 18. desember síðastliðinn. Þeim dómi hefur verið áfrýjað til Landsréttar. Niðurstaðan þar getur verið fordæmisgefandi gagnvart mörgum annarra sem yfirvöld telja að hafi gerst sekir um nú fyrnd skattalagabrot, og voru opinberaðir í Panamaskjölunum.
Aðrir sem átt hafa bólgna reikninga á aflandseyjum hafa getað nýtt sér þær leiðir sem Seðlabanki Íslands hefur boðið upp á á haftaárunum til að koma peningum aftur til Íslands og láta þá öðlast ótvírætt lögmæti. Frægust þeirra leiða er fjárfestingarleið Seðlabankans. Það á bæði við um innlenda og erlenda aðila og viðmælendur Kjarnans sem störfuðu við að aðstoða slíka við að nýta sér þessa leið segja að lítið hafi verið um að áreiðanleiki viðskiptavinananna og uppruni fjármunanna sem til stóð að ferja inn í landið hafi verið kannaður.
Þau orð ríma ágætlega við það sem Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari sagði í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut 3. október síðastliðinn þegar hann var spurður hvort aðgerðir Íslendinga til að koma í veg fyrir að peningaþvætti hefðu verið viðunandi á undanförnum árum. „Þessu eru auðsvarað,“ sagði Ólafur, „nei það er það ekki.“
Ísland fær falleinkunn
Þrátt fyrir að legið hafi fyrir frá árinu 2007 hið minnsta, samkvæmt úttektum Fjármálaeftirlitsins sem hér hefur verið fjallað um, að eftirlit með peningaþvætti hafi verið verulega ábótavant þá var lítið að gert hérlendis árum saman.
Raunar rönkuðu yfirvöld ekki við sér af alvöru fyrr en í apríl 2018 þegar FATF skilaði af sér úttekt á Íslandi þar sem niðurstaðan var sú að varnir landsins gegn peningaþvætti fengu falleinkunn. Sérstaklega var þar fjallað um fjármagnshöftin sem voru við lýði á Íslandi frá nóvember 2008 og fram í mars 2017. Í skýrslu FATF sagði: „Þessum höftum var lyft í mars 2017 og yfirvöld hafa ekki tekið tillit til þeirra áhrifa sem það geti haft á áhættu vegna peningaþvættis/fjármögnun hryðjuverkasamtaka í landinu.“
Íslandi var gefið fram á mitt ár 2019 til að bregðast við. Ef úrbætur yrðu ekki nægjanlegar, og Ísland færi á lista FATF yfir ósamvinnuþýð ríki myndi það, að mati innlendra hagsmunaaðila, leiða til þess að orðstír og trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi biði verulegan hnekki.
Ef Ísland yrði sett á slíkan lista myndi það einnig leiða til þess að gerðar yrðu strangari kröfur til landsins og aðila sem þar búa um hvers konar fjármálastarfsemi, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa og jafnvel útgáfu aðvarana um að viðskipti við íslenska aðila sem gætu falið í sér hættu á peningaþvætti.
Skýrsla FATF ýtti verulega við málum hérlendis. Það þurfti að bregðast við þessum athugasemdum hratt, auk þess sem fyrir lá að fjórða peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins yrði tekin upp í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) í desember 2018.
Starfshópur á vegum dómsmálaráðherra var því settur í að semja frumvarp um heildarendurskoðun á lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Sú vinna skilaði því að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp um ný heildarlög 5. nóvember síðastliðinn. Málið var afgreitt frá efnahags- og viðskiptanefnd 12. desember og síðari tvær umræður kláraðar daginn án annarra ræðuhalda en Brynjars Níelssonar, sem mælti fyrir nefndaráliti um málið sem fulltrúar alla flokka skrifuðu undir.
Frumvarpið varð að lögum með öllum greiddum atkvæðum þingmanna þann sama dag. Þau tóku gildi þann 1. janúar 2019.
Í greinargerð með frumvarpinu sagði að nauðsynlegt yrði að fara í heildarendurskoðun á gildandi lögum þar sem gera þarf verulegar úrbætur á lögunum til að uppfylla þær lágmarkskröfur sem gerðar eru á alþjóðavettvangi.
Nú er unnið að því víða í stjórnsýslunni að sýna FATF fram á að hérlendis séu varnir gegn peningaþvætti nægjanlegar. Fjölgað hefur mjög á því sem áður hét peningaþvættisskrifstofa héraðssaksóknara en heitir nú skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, fjármunir hafa verið settir í að kaupa upplýsingakerfi til að taka á móti og halda utan um tilkynningar um peningaþvætti og eftirlit með starfsemi innan bankanna sjálfra hefur verið eflt. „Það er í raun og veru allt kerfið undir þegar við erum að tala um þessa úttekt,“ sagði Ólafur Þór í áðurnefndum sjónvarpsþætti.
Í sumar, nánar tiltekið í júní, mun koma í ljós hvort að viðbrögð Íslands hafi verið nægjanleg til að sleppa við afleiðingar af hendi FATF. Fyrir liggur þó, hvernig sem fer, að ekki var brugðist við því að hér væru lélegar varnir gegn peningaþvætti í meira en áratug eftir að staðfesting á því kom fram í úttektum Fjármálaeftirlitsins.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði