Óhófleg fatakaup Íslendinga draga dilk á eftir sér
Fatasóun Íslendinga hefur aukist verulega á síðustu árum. Árið 2016 henti hver íbúi að meðaltali 15 kílóum af textíl og skóm yfir árið, það er nærri því tvöfalt meira magn en fjórum árum áður. Meirihluti þess úrgangs fer í urðun en auk þess voru yfir 3000 tonn send frá Íslandi til annarra landa í endurvinnslu árið 2018. Umhverfisráðuneytið stefnir á að draga úr fatasóun á hvern íbúa um fimm kíló en umhverfisspor hverrar flíkur er gífurlegt, allt frá framleiðslu til förgunar.
Vitundarvakning hefur orðið um umhverfismál hér á landi á undanförnum árum. Í nýlegri umhverfiskönnun Gallups sögðust tveir af hverjum þremur Íslendingum hafa breytt hegðun sinni til þess lágmarka áhrif á umhverfi og loftslagsbreytingar. Í neyslusamfélagi nútímans er hægt að breyta mörgu í þeirri von að draga úr umhverfisfótsporinu. Fólk hefur meðal annars verið hvatt til að breyta ferðavenjum sínum, flokka meira, breyta mataræði og kaupa minna.
Stjórnvöld hafa einnig aukið aðgerðir í umhverfismálum en núverandi ríkisstjórnin hefur meðal annars kynnt aðgerðaáætlun í loftlagsmálum til næstu 12 ára. Ríkisstjórnin hefur einnig sett sér stefnu þegar kemur að draga úr myndun úrgangs á Íslandi og þar með draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í úrgangsstefnu umhverfisráðuneytisins fyrir næstu sex ár verða ákveðnir úrgangsflokkar í brennidepli en þar á meðal er textílsóun. Á síðustu árum hefur orðið mikil aukning í fatasóun hér landi en árið 2016 hentu Íslendingar rúmum 5700 tonnum af textíl og skóm.
Hver Íslendingur hendir 15 kílóum af fötum
Árið 2016 henti hver Íslendingur að meðaltali 15 kílóum af textíl og skóm yfir árið, samkvæmt samantekt umhverfisráðuneytisins. Það er nærri því tvöfalt meira magn en hver Íslendingur henti árið 2012 en þá henti hver íbúi að meðaltali rúmum 8 kílóum á ári. Það er því gríðarleg aukning á fjórum árum. Innifalið í þessum fimmtán kílóum er bæði magnið sem fer til endurnýtingar og magnið sem ratar í blandaðan úrgang og endar í flestum tilfellum í urðun. Samkvæmt Umhverfisstofnun fer 60 prósent af vefnaðarvöru á Íslandi í ruslið og endar annað hvort í urðun eða brennslu. Aðeins 40 prósent fer í endurnotkun og endurnýtingu.
3000 tonn send úr landi á hverju ári
Rauði krossinn sér um að flokka og endurvinna vefnaðarvöru hér á landi en fatasöfnun er eitt mikilvægasta fjáröflunarverkefni samtakanna. Á höfuðborgarsvæðinu eru yfir 90 Rauða kross gámar sem taka við fötum og öðrum textíl. Fatnaður er síðan flokkaður og gefinn þurfandi hér á landi sem og erlendis en samtökin úthluta fatnaði til 1.500 einstaklinga á Íslandi á ári hverju, þar á meðal til Frú Ragnheiðar, til hælisleitanda og annarra einstaklinga sem á þurfa að halda.
Auk þess selur Rauða krossinn fatnað í verslunum sínum víðs vegar um landið á lágu verði. Langstærsti hlutinn af textílnum sem safnaðist í fatasöfnun Rauða Krossins er þó sendur í flokkunarstöðvar erlendis. Þaðan er textílnum síðan dreift til endursöluaðila eða settur í endurnýtingu en ágóðinn rennur í hjálparsjóð Rauða krossins.
Á síðasta ári sendi Rauði krossinn 3000 tonn af textíl erlendis, samkvæmt flokkunarstöð Rauða Krossins. Það er um 230, fjörtíu feta, gámar á hverju ári, eða að meðaltali fjórir og hálfur gámur í hverri viku.
Sprenging í netverslun Íslendinga
Framboð á ódýrum fatnaði hefur aukist til muna hér á landi en undanfarin ár hafa fleiri verslunarkeðjur opnað á Íslandi sem þekktar eru fyrir framleiðslu sem á ensku er kölluð „fast fashion“ og þýða mætti sem „einnota tísku“. Má þar nefna fatakeðjurnar Lindex og H&M en slíkar verslanir selja fatnað á lægra verði og gríðarleg velta er á fataúrvali í búðunum í hverjum mánuði.
Á svipuðum tíma hefur orðið gífurleg aukning í netverslun Íslendinga og þá sérstaklega kaup á vörum frá útlöndum í gegnum alþjóðlegar vefverslanir. Í viðtali við tímaritið Umræðan sagði Vésteinn Viðarsson, fyrrum vörustjóri pakkasendinga hjá Íslandspósti, að vatnaskil hafi orðið árið 2013 þegar Íslendingar uppgötvuðu kínversku netverslunina AliExpress og í framhaldinu aðrar sambærilegar vefverslanir. Frá árinu 2013 til ársins 2017 sjöfölduðust sendingar til landsins frá útlöndum en árið 2017 keyptu Íslendingar vörur frá erlendum netverslunum fyrir 4,3 milljarða króna, samkvæmt tollskráningu frá Embætti tollstjóra og tollafgreiðslu Íslandspósts. Samanborið við kaup frá innlendum netverslunum fyrir 8,8 milljarða á sama tíma.
Í skýrslu Rannsóknarseturs verslunar um íslenska netverslun kemur fram að sá vöruflokkur sem Íslendingar keyptu mest af frá erlendum netverslunum 2017 voru föt og skór. Á milli ára jukust fatakaup frá erlendum fataverslunum um 31,4 prósent, ef bornir eru saman síðustu ársfjórðungar 2016 og 2017. Í skýrslunni kemur einnig fram að Íslendingar kaupa mest af fötum frá Bretlandi en á síðustu árum hefur breska vefverslunin ASOS notið gríðarlega vinsælda um allan heim.Umhverfismengun fataiðnaðarins
Óhófleg fatakaup og þá sérstaklega kaup á endingarlitlum fatnaði dregur dilk á eftir sér. Nánast hver einasta flík sem keypt er á Íslandi, hvort sem hún endar í endurvinnslu eða urðun, fylgir gríðarlegt umhverfisspor. Því fylgir talsverð losun gróðurhúsalofttegunda að ferja fatnað til landsins en kolefnisfótspor flíkarinnar hefst miklu fyrr.
Umhverfisvandamál tengd fataiðnaðinum eru margskonar því flíkur eru búnar til úr ólíkum efnum, bæði náttúrulegum efnum og tilbúnum efnum sem framleidd eru úr hráolíu eins og akrýl, nælon og pólýester. Bómull er náttúrlegt efni sem er notað í næstum helming allra flíka sem framleiddar eru í heiminum en ræktun bómullar er jafnframt ein sú ósjálfbærasta í heiminum í dag. Framleiðsla á aðeins einum bómullar stuttermabol þarfnast tæplega 2700 lítra af vatni en það er sama magn og meðal manneskja drekkur á 900 dögum.
Bómullarplantan er ekki aðeins frek á vatn heldur er efnanotkun í kringum ræktun hennar mikil en áburðarnotkun í bómullarræktun ein sú mesta sem gerist í landbúnaði og um 12 prósent allrar notkunar á skordýraeitri í landbúnaði er vegna bómullarræktar. Auk þess þarf ýmis eiturefni og vatn til að lita flíkina en afganginum af litnum er skolað í burtu og vatnasvæði taka við óhreinsuðu skólpi frá verksmiðjum með tilheyrandi áhrifum á lífríki og íbúa svæðanna í kring.
Einnota tíska hefur rutt sér rúms í heiminum á síðustu áratugu í kjölfar alþjóðlegra verslunarkeðja sem bjóða upp á skuggalega ódýrar flíkur og stöðugt framboð. Þeirri tísku fylgir krafa um mjög ódýra og hraða framleiðslu og því neyðast verksmiðjur til draga úr öllum auka kostnaði sem getur haft þær afleiðingar að ekki er hugað að umhverfisáhrifum. Framleiðsla ódýrra fata er ekki aðeins mengandi heldur veldur þetta gríðarlega framboð því að fólk kaupir mun meira af endingarlitlum fatnaði og hendir þeim í kjölfarið hraðar.
Á Íslandi er talið að um 60 prósent af textíl endi í urðun en þegar föt úr náttúrulegum trefjum eins og bómull og silki enda í landfyllingu þá myndast metangas sem veldur auknum gróðurhúsaáhrifum. Þar sem þessi föt eru einnig oft stútfull af eitruðum litarefnum þá henta þau ekki í moltugerð og geta mengað grunnvatn ef landfyllingin er ekki einangruð almennilega. Við brennslu geta þessi eiturefni líka losnað út í andrúmsloftið. Auk þess eru föt sem búin eru til úr hráolíu eins og pólýester og nælon í raun plast og því alls óvíst hvort þau brotni yfirhöfuð niður. Hin 40 prósentin sem enda í endurvinnslu og eru flokkuð hjá Rauða krossinum eru jafnframt að langstærstum hluti send aftur út úr landi til endurflokkunar og sölu.
Fyrir utan þá margs konar mengun sem framleiðsla á fötum veldur, þá á framleiðslan sér einnig fleiri skuggahliðar. Í nýlegri heimildarmynd New York Times, Invisible hands, er greint frá því hvernig fataframleiðsla hefur meðal annars ýtt undir mansal og barnaþrælkun. Auk þess hefur verið fjallað um á hræðilegar vinnuaðstæður fólks í verksmiðjum víða um heim í fjölmiðlum og fjölmörg dæmi þess að verksmiðjur stórra alþjóðlegra verslunarkeðja hafa hrunið og fjöldi fólks dáið.
Markmiðið að draga úr fatasóun á hvern íbúa
Íslensk stjórnvöld hafa sett sér stefnu um myndun úrgangs um landið allt til tólf ára í senn. Markmið stefnunnar er að draga úr úrgangi og draga þar með úr losun gróðurhúsalofttegunda. Auk þess er markmiðið að bæta nýtingu auðlinda, meðal annars með því að leggja áherslu á græna nýsköpun. Núverandi úrgagnsstefna stjórnvalda, Saman gegn sóun, er stefna stjórnvalda fyrir tímabilið 2016 til 2027. Í stefnuyfirlýsingunni eru ákveðnir úrgangsflokkar í brennidepli á hverju ári og ráðgert er að verkefni sem heyri undir þessa flokka verði til úti í samfélaginu og á meðan hver flokkur er í forgangi þá sé mögulegt að sækja um verkefnastyrki til ráðuneytisins.
Í stefnuyfirlýsingunni segir að úrgangsforvarnir stjórnvalda snúa í ríkara mæli að sjálfbærri neyslu. Að allir geti sem neytendur lagt sitt til úrgangsforvarna með því að staldra við og hugsa hvort ekki sé hægt að nýta hluti lengur, gera við þá eða gefa þá, svo þeir hljóti lengra líf. Á sama hátt geti framleiðendur og dreifingaraðila lagt sitt af mörkum við að markaðssetja vörur sem hafa ásættanlegan endingartíma og mögulegt er að gera við.
Textíl úrgangur verður í brennidepli á næsta ári, samkvæmt stefnuyfirlýsingunni. Í yfirlýsingunni kemur fram að á síðustu árum hafi orðið vitundarvakning í fataiðnaði um efnainnihald í fatnaði og aðra umhverfislega ábyrgð iðnaðarins. Þá sjái umhverfisráðherra sér tækifæri í því að styðja við enn frekari framfarir og auka áhuga almennings á málefninu. Í viðauka stefnuyfirlýsingarinnar kemur fram að markmiðið stjórnvalda sé að draga úr magni textíls og skófatnaðar á hvern íbúa í tíu kíló á hvern íbúa. En líkt og greint var frá hér að ofan þá henti hver íbúi 15 kílóum af textíl og skóm árið 2016.
Ráðuneytið þegar lagst í ráðstafanir
Í svari umhverfisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um hvernig ráðuneytið hyggst draga úr magni textíls og skófatnaðar um fimm kíló á hvern íbúa, segir að ráðuneytið hafi nú þegar lagst í nokkar ráðstafanir til að draga úr magni textílúrgangs. Þar á meðal séu fatasafnanir um land allt, auk þess hafi málfundur verið haldinn um sjálfbærni í tískuiðnaði og íslensk stjórnvöld hafi tekið þátt í norrænu verkefni um textíl úrgangi. Í svarinu segir að frekari ráðstafanir til draga úr fatasóun hvers íbúa liggi ekki fyrir á þessari stundi en gera megi ráð fyrir að frekar ráðstafanir feli meðal annars í sér aukna fræðslu og annan stuðning við frekari endurnotkun fatnaðar en samkvæmt ráðuneytinu mun það skýrist betur á næsta ári hvernig verður tekist á við þessa tegund úrgangs.
Í byrjun árs fékk Kvenfélagasambands Íslands 1.325.000 króna styrk frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fyrir verkefnið sitt, Vitundarvakning gegn sóun. Á heimasíðu Kvenfélagssambandsins segir að með styrk ráðuneytisins muni sambandið halda áfram að hvetja kvenfélagskonur og almenning að taka þátt í að minnka fatasóun. Áfram verði vakin athygli á umhverfisáhrifum fatasóunar með fyrirlestrum, viðburðum og greinum í Húsfreyjunni og á vef Leiðbeiningastöðvar heimilanna. Auk þess verði næsti Umhverfisdagur haldinn á Hallveigarstöðum þann 23. mars næstkomandi en þar verður fræðsla, fataskiptimarkaður, boðið upp á fataviðgerðir og fleira tengt sóun.
Ef draga á úr sóun, þarf að draga úr kaupum
Það er fagnaðarefni að fatasóun sé komin á dagskrá stjórnvalda en því getur fylgt vitundarvakning um fatasóun hjá almenning og fyrirtækjum. Á hinn bóginn er ljóst að stórtækari breytinga er þörf af hendi stjórnvalda ef draga á verulega úr sóun Íslendinga. Í febrúar á þessu ári greindi BBC frá því að breskir þingmenn hafi lagt til að þeir sem framleiða og selja föt verði látnir greiða 1 penní eða um 1,5 krónur fyrir hverja flík sem seld er svo fjármagna megi endurvinnslu og förgun þar í landi. Auk þess hefur verið lagt til þar í landi að viðgerðir á fötum verði niðurgreiddar og sjálfbær framleiðsla styrkt.
Í stefnuyfirlýsingu umhverfisráðherra er lagt til að skoðaður verði grundvöllur fyrir samstarfsverkefni með kaupmönnum um að auka markaðshlutdeild fatnaðar sem ber merkingar um vistvæna framleiðslu eða lágt innihald skaðlegra efna, merkingar líkt og Svanurinn, GOTS19 og Tiltro til tekstiller20.
Ábyrgð stjórnvalda er mikil þegar kemur að umhverfismálum en einnig geta einstaklingar lagt sitt að mörkum til að draga úr sinni eigin fatasóun og þar með umhverfisfótspori sínu. Á vef Umhverfisstofnunar segir að hver Íslendingur kaupi sautján kíló af nýjum fötum á ári hverju, það er þrisvar sinnum meira en meðal jarðarbúi. Því er ljóst að Íslendingar þurfa að draga úr fatakaupum ef draga á úr fatasóun.
Í leiðbeiningum frá Umhverfisstofnun er fólk hvatt til að kaupa flíkur úr betri gæðum í stað þess að kaupa ódýr og endingarlítil föt. Auk þess sé nú orðið mun auðveldra að kaupa notuð föt hér á landi en á síðustu árum hafa fatamarkaðir sprottið upp um land allt. Að lokum leggur Umhverfisstofnun einnig mikla áherslu á að fólk fari með allan textíl, líka það sem er ónýtt, blettótt eða með götum í endurvinnslu.