Ísland er með sjöundu hæstu útgjöld til rannsókna og þróunarstarfs í Evrópu þegar horft er á þau útgjöld út frá vergri landsframleiðslu. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands sem birtar voru í morgun og byggja meðal annars á bráðabirgðatölum frá Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins.
Ísland eyddi að meðaltali 2,1 prósent af landsframleiðslu í rannsóknir og þróun á árinu 2017 sem er rétt yfir meðaltali 28 landa Evrópusambandsins, Íslands og Noregs, sem er 2,07 prósent. Svíþjóð eyðir mestu, eða 3,4 prósent af landsframleiðslu, og þar á eftir koma Austurríki (3,16 prósent),, Danmörk (3,05 prósent), Þýskaland (3,02 prósent), Finnland (2,76 prósent) og Belgía (2,58 prósent).
Vert er að taka fram að Ísland er fámennasta ríkið á listanum og því um mun hærri heildarfjárhæðir að ræða hjá flestum ríkjunum sem raðast í kringum Ísland á honum. Þau þrjú ríki Evrópusambandsins sem eru með færri en eina milljón landsmenn: Eistland (1,29 prósent) Lúxemborg (1,26 prósent) og Malta (0,54 prósent), eru þó öll að eyða umtalsvert lægra hlutfalli af landsframleiðslu í landsframleiðslu í rannsóknir og þróun en Ísland.
Útgjöld vaxið um tæpa 22 milljarða
Útgjöld vegna rannsókna og þróunar hafa vaxið hrátt hérlendis á fáum árum. 2013 voru þau 33,3 milljarðar króna en hafa síðan vaxið upp í að vera 55,1 milljarður króna á árinu 2017. Það þýðir að þau hafa aukist um 65 prósent í krónum talið.
Sem hlutfall af landsframleiðslu náðu útgjöldin hámarki árið 2015, þegar þau voru 2,2 prósent. Þótt að útgjöldin hafi í krónum talið aukist um 4,6 milljarða króna síðan þá voru þau lægra hlutfall af landsframleiðslu árið 2017. Ástæðan er auðvitað sú að landsframleiðsla jókst umfram það sem útgjöld vegna rannsókna og þróunar hækkuðu.
Langmesta aukningin í útgjöldum til rannsókna og þróunar á síðustu árum hefur átt sér stað hjá fyrirtækjum landsins. Árið 2013 eyddu þau 18,6 milljörðum króna í slíkt en 35,4 milljörðum króna í fyrra. Það er aukning um 90 prósent í krónum talið á tímabilinu. Eyðsla fyrirtækja í rannsóknir og þróun hefur líka hækkað umtalsvert sem hlutfall af landsframleiðslu, úr 0,99 prósent árið 2013 í 1,35 prósent árið 2017. Hæst stóð það hlutfall árið 2015 þegar það var 1,45 prósent.
Háskólastofnanir eyða 0,65 til 0,66 prósent af landsframleiðslu á ári í rannsóknir og þróun. Ef landsframleiðsla hækkar þá fjölgar krónunum sem fara í slíkt. Því hefur krónutölufjöldinn sem háskólastofnanir veita til rannsókna og þróunar farið úr 12,5 milljörðum króna árið 2013 í 17,3 milljarða króna árið 2017.
Aðrar opinberar stofnanir utan háskólanna hafa staðið í stað í sinni eyðslu til málaflokksins og raunar var samdráttur á krónum sem runnu til hans milli áranna 2016 (2,5 milljarðar króna) og 2017 (2,3 milljarðar króna).
Ætluðu að afnema þakið en hækkuðu það í staðinn
Mikil áhersla hefur verið lögð á það að auka framlög til rannsókna og þróunar hérlendis á undanförnum árum, meðal annars með því að láta ríkið endurgreiða hluta þess kostnaðar sem fer í slíkt.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sem mynduð var í lok árs 2017, var fjallað sérstaklega um nýsköpun og rannsóknir og málaflokkurinn tilgreindur þar sem ein af megináherslum hennar. Orðið nýsköpun kemur raunar fyrir 18 sinnum í stjórnarsáttmálanum. Þá var kveðið á um að ríkisstjórnin ætli, til að bæta alþjóðlega samkeppnishæfni landsins, að endurmeta fyrirkomulag á endurgreiðslu kostnaðar vegna rannsókna og þróunar í því skyni að afnema þak sem verið hefur á slíkum endurgreiðslum.
Í desember 2018 var samþykkt frumvarp fjármála- og efnahagsmálaráðherra sem fól í sér að hámark á þeim kostnaði sem fellur til vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar, og leyfilegt verður að draga frá skatti, hækkaði úr 300 milljónum króna í 600 milljónir króna. Ef um samstarfsverkefni er að ræða eða verkefni sem útheimta aðkeypta rannsóknar- og þróunarvinnu hækkaði hámarkið úr 450 milljónum króna í 900 milljónir króna. Þakið var því ekki afnumið, en hækkað umtalsvert.
Endurgreiðsla á rannsóknar- og þróunarkostnaði er ætlað að efla nýsköpun í landinu. Samkvæmt lögum er eingöngu heimilt að telja fram beinan kostnað við verkefni og annarra aðfanga sem notuð hafa verið við vinnslu þess þegar sótt er um endurgreiðslu. Með öðrum orðum þá verða fyrirtæki að aðskilja allan annan rekstur sinn frá því verkefni sem um ræðir þegar lagðar eru fram kostnaðartölur við vinnslu þess.
Til þess að fá endurgreiðslu á kostnaði vegna rannsóknar og þróunarverkefna þarf að gera sérstaklega grein fyrir verkefninu í rafrænni skráningu umsóknar á heimasíðu Rannís. Með þarf að fylgja stutt viðskiptaáætlun og ef um samstarfsverkefni er að ræða þá þarf samstarfssamningur líka að berast til Rannís. Þá á að fylgja með lýsing á verkefninu ásamt verk- og kostnaðaráætlun.
Um 2,9 milljarðar á árinu 2017
Heildarafsláttur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar var samtals um 2,94 milljarðar króna á árinu 2017, sem er aðeins meira en árið 2016, þegar hann nam 2,8 milljörðum króna. Afslátturinn virkar þannig að hann gengur upp í álagðan tekjuskatt ef fyrirtækið sem á rétt á honum er rekið í hagnaði og greiðir slíkar. Alls jókst skuldajöfnun á móti tekjuskatti úr 438 milljónum króna í 624 milljónir króna. Þorri afsláttarins er þó enn í formi beinnar endurgreiðslu. Rúmlega 2,3 milljarður króna fór til fyrirtækja sem þáðu slíka vegna rannsókna og þróunar.
Athygli vekur að þeim fyrirtækjum sem fengu afsláttinn í fyrra fjölgaði einungis um eitt milli ára. Þau voru 143 árið 2016 en 144 ári síðar.
Endurgreiðslurnar hafa vaxið mikið á undanförnum árum. Milli áranna 2016 og 2017 jukust þær til að mynda um 800 milljónir króna. Ástæðan fyrir þeirri miklu aukningu var sú að hámarksupphæð sem nýta mátti í rannsóknir og þróun og draga má frá skatti var hækkuð úr 100 milljónum króna í 300 milljónir króna með lagabreytingu sem samþykkt var í byrjun júní 2016. Ef um er að ræða samstarfsverkefni eða sem útheimta aðkeypta rannsóknar- eða þróunarvinnu hækkar hámarkið í 450 milljónir króna. Endurgreiðslan gat þó að hámarki numið 20 prósent af samþykktum kostnaði.
Upphæðin sem hægt er að fá í endurgreiðslu var síðan tvöfölduð í desember í fyrra.