Upprisa hins illa
Jacinda Ardern forsætisráðherra Nýja-Sjálands hefur tekist á við myrkasta tíma í sögu landsins með því að reyna að setja sig í spor fórnarlamba mannskæðustu skotárásar í sögu landsins. Hún hefur upphafið fjölmenningarlegt samfélag og sagt árásina vera hryðjuverkaárás beint í hjarta samfélagsins, þar sem múslimaandúð er miðpunkturinn í hatursfullum glæp. Árásin dregur fram mikinn vöxt hatursglæpa víða á vesturlöndum. Hvernig er hægt að takast á við þessa hatursbylgju? Kemur hún okkur við? Hvernig varð hún til?
Nýja-Sjáland, eyríki úti fyrir hinni risavöxnu Ástralíu. Þar búa 4,7 milljónir manna, litlu færri en í Noregi (5,2 milljónir). Á Nýja-Sjálandi hefur á undanförnum árum byggst um sterkur efnahagur og framþróun verið mikil, ekki síst vegna þess að innflytjendur hafa hjálpað fyrirtækjum að stækka og verða stöndugri. Landbúnaður í landinu er framsækinn og í vaxandi mæli hefur landið notið góðs af stækkun millistéttarinnar í Asíu - sem vex um meira en 50 milljónir á ári hverju, með tilheyrandi margfeldisáhrifum á eftirspurn eftir hinum ýmsum vörum og þjónustu sem flutt er út frá Nýja-Sjálandi.
Fjölmenningin
Undanfarin tíu ár hafa markast af þessu skeiði: Landið hefur opnast meira en það gerði áður og farið úr því að vera fremur einsleitt í það vera með fjölbreyttara mann- og efnahagslíf. Ekki ósvipað því sem hefur verið að gerast á Íslandi á undanförnum árum, þar sem útlendingar hafa komið til Íslands til að vinna og lagt mikið til á miklum uppgangstíma í efnahagslífinu. Um tíu prósent skattgreiðenda á Íslandi eru nú af erlendu bergi brotnir. Árið 2015, þegar efnahagslífið tók mikinn kipp upp á við, ekki síst vegna ferðaþjónustu, þá voru tæplega 75 prósent af nýjum skattgreiðendum erlendir ríkisborgarar, innflytjendur. Sambærileg hlutföll hafa fyrir hendi undanfarin ár.
Nýja-Sjáland er eins og öll önnur lönd, ekkert eyland í alþjóðavæddum heimi. Þar hefur verið nokkuð hörð umræða um innflytjendur og upprisa öfgahópa - ekki síst þeirra sem telja að hvíti maðurinn sé æðri öðrum - hefur verið þó nokkur. Um 16 prósent aukning hefur verið á hatursglæpum frá 2015 til 2017, samkvæmt því sem breska ríkisútvarpið tók saman, sem er sambærilegt við aukninguna í Bandaríkjunum. Þetta er mikil aukning í sögulegu samhengi.
Hugmyndafræði í farteskinu
Enginn bjóst við því að landið yrði vettvangur hinnar skelfilegu árásar á moskuna í Christchurch, þar sem 50 lét lífið og tugir særðust. Glæpurinn minnti að því leytinu til á fjöldamorð Anders Breivik í Noregi, 22. Júlí 2011, þegar hann drap 77 í þaulskipulagðri árás á stjórnsýsluna í Osló og samkomu ungmenna í Útey. Maðurinn, Ástralinn Brenton Tarrant, sem réðst gegn múslimum í tveimur moskum - þar sem meðal annars þriggja ára barn, sem kom hlaupandi að byssumanninum skelfingu lostið, var meðal fórnarlamba - átti eitt atriði sameiginlegt með Breivik.
Hann var með hugmyndafræðilegan tilgang í farteskinu, stefnuyfirlýsingu, sem var eins konar útskýring hans á því hvers vegna hann framdi glæpinn. Yfirlýsingin var send til Jacindu Ardern, forsætisráðherra, og gerð opinber á internetinu.
Í frekar illa skrifuðu 74 síðna stefnuyfirlýsingu sinni, rekur hann hvernig fjölmenningarsamfélagið - ekki síst fjölgun múslima - grefur undan því samfélagi sem hann virðist aðhyllast, þar sem hvíti maðurinn er æðstur allra, í þjóðernislegri upphafningu.
Auðvelt er að segja, að þessi maður hafi staðið algjörlega einn að verknaðinum og það sé ekki hægt að gera honum það til geðs, að reyna að útskýra glæpinn út frá hugmyndafræðilegri upprisu haturs og sundurlyndis.
En það er engu að síður farvegurinn sem árásin sprettur upp úr. Og það er táknrænt fyrir það hvernig hann nálgast verknaðinn í skipulagningu sinni, að hann hafi verið sýndur í beinni útsendingu á Facebook. Hann vildi sýna umheiminum árásina, hámarka hugmyndafræðileg áhrif.
Í stefnuyfirlýsingu sinni vitnar hann til áhrifavalda hægri manna í Bandaríkjunum og orða sem þeir hafa látið frá sér á opinberum vettvangi samfélagsmiðla.
Margt sem kemur fram myndi ekki fá háa einkunn fyrir greiningu á orsök og afleiðingu í texta. Orðin standa oft í samhengislausu rausi þar sem bersýnilegt hatur kemur fram, einkum á fjölmenningarsamfélaginu. Alveg sambærilegt við það sem kom fram í orðum Breiviks eftir árásina í Noregi.
En þó þessir tveir skelfilegu glæpir standi upp úr, í sitt hvoru landinu, sem þeir skelfilegustu í sögu landanna, þá er glæpirnir hluti af alþjóðlegu samhengi, þar sem öfgahugsun sprettur upp hjá fólki sem finnst sem fjölmenningin sé að ógna stöðu þess.
Minnst á Ísland
Í stefnuyfirlýsingu Tarrants kemur Ísland fyrir á einum stað, þar sem hann fjallar um skjól sé hvergi að finna. Ísland er þar nefnt með Póllandi, Argentínu og Nýja-Sjálandi.
Embætti ríkislögreglustjóra hefur atriði er tengjast þessum ferðum til rannsóknar en gögn benda til þess að Tarrant hafi verið hér á landi árið 2017. Nýsjálensk yfirvöld hafa verið í sambandi við embætti ríkislögreglustjóra vegna upplýsinganna, að því er staðfest hefur verið, en að öðru leyti verst embætti ríkislögreglustjóra frétta af málinu.
Í takt við það sem hryðjuverkamenn eins og Tarrant vilja, þá teygja atburðirnir sig um allan heim - til Íslands eins og annarra landa. Áhrifin sitja eftir, umræða um hvernig svona getur gerst og hvort það sé hægt að kæfa niður hatrið sem að baki verknaðinum liggur.
Í stefnuyfirlýsingunni er talað um að nú þurfi að rísa upp gegn múslimum og berjast gegn fjölmenningu.
FBI hefur áhyggjur
Bandaríska alríkislögreglan hefur miklar áhyggjur af fjölgun hatursglæpa, meðal annars gyðingahatri og uppgangi öfgahópa hvítra í Bandaríkjunum, en þeir eru í vaxandi mæli að fremja ofbeldisverk og hvetja til þeirra, ekki síst gagnvart svörtum.
Á árinu 2017 var fjölgunin 17 prósent og árið þar á undan var fjölgunin 15 prósent, að því er fram kemur í skýrslu FBI sem kom út í nóvember í fyrra. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um hatursglæpi og þeir flokkaðir niður eftir tegund og að hverju hatrið beinist. Mesta fjölgunin hefur verið í glæpum sem tengjast gyðingahatri. Þeim hefur fjölgað um meira en 40 prósent á þremur árum og voru um 58,1 prósent allra hatursglæpa á árinu 2017.
„Vel gert”
Fordómar kom oft upp á yfirborðið þegar hryðjuverkaárásir, sem beinast að afmörkuðum hópum, eiga sér stað. Það mátti sjá þetta í athugasemdakerfum íslenskra fjölmiðla þegar árásin var gerð í Nýja-Sjálandi.
Þá komu fljótlega fram athugasemdir frá Íslendingum, sem sögðu: „Vel gert”, „Gott” og þar fram eftir götunum. Fögnuðu árásinni. Ritstjórn Vísis tók þá ákvörðun að taka athugasemdirnar fljótlega út af internetinu, enda hatursorðræða bönnuð.Algengt er að hryðjuverkaárásir ýti af stað hatursorðræðu og jafnvel magni upp líkur á fleiri árásum, fljótlega á eftir. Þetta er vandmeðfarið þar sem miklar tilfinningar eru oft ríkjandi í kringum skelfilegar árásir á saklaust fólk. Samfélagsmiðlarnir gefa fólki gjallarhorn til að tala í við umheiminn og koma þannig meiningum sínum á framfæri.
Hefðbundnir fjölmiðla þurfa í þessum aðstæðum að feta þann slóða, að halda sig við að svara mikilvægum spurningum, draga fram upplýsingar sem skipta máli og setja hlutina í samhengi. Það er ekki hægt að halda óþægilegum atriðum frá almenningi í slíkri vinnu, heldur frekar að setja þau þannig fram, að fólk átti sig á alvarleikanum sem sprottið getur upp úr hatursorðræðunni.
Þar á eftir koma hatursglæpir sem beinast að múslimum, en á þremur árum fram að árinu 2018 hefur þeim fjölgað um 30 prósent. Á árinu 2016, sem var kosningaár í Bandaríkjunum, fjölgaði þeim um 24,1 prósent miðað við árið á undan. Þessi fjölgun hatursglæpa, sem beinast að hinum ýmsu hópum, á sér varla fordæmi í nútímasögu Bandaríkjanna, séu frá talin árin tvö á eftir árásunum á tvíburaturnanna í New York 11. september 2011. Þá opnuðust flóðgáttir fyrir hatursglæpum víða í Bandaríkjunum.
Í skýrslu FBI er sérstaklega vikið að því að eitt af því sem skýri það hvers vegna ógnin af hatursglæpum og öfgahópum - sem síðan geta orðið að jarðvegi hryðjuverka - er jafn mikil nú að raun ber vitni, sé auðveldari leiðir til að koma boðskap á framfæri. Þar eru samfélagsmiðlar miðpunktur hugmyndafræðilegrar útbreiðslu þeirra sem séu líklegir til að fremja hatursglæpi og í versta falli standa fyrir hryðjuverkaárásum.
Áherslan verið önnur
Hjá yfirvöldum í Bandaríkjunum hefur meiri áhersla verið lögð á ógnir frá öfgahópum í Mið-Austurlöndum heldur en innanlands, en í skýrslu FBI segir þó, að vel sé fylgst með þróun innanlands. Mikil þörf sé á því að greina hvernig hatursáróður hefur áhrif á glæpatíðni og hvað það sé sem færi þeim sem tilbúnir eru að fremja ofbeldisglæpi, í þágu málstaðar sem þeir trúi á.
Í skýrslu embættis ríkislögreglustjóra um hryðjuverkaógn á Ísland er þetta atriði gert að umtalsefni. Það er að sífellt sé orðið mikilvægara að eiga alþjóðlegt samstarf um eftirlit með hryðjuverkaógn. Hún getur komið upp í jarðvegi haturs víða og eitt af því sem gefi vísbendingar um hana, er framgerði á opinberum vettvangi, svo sem á samfélagsmiðlum, en þeir eru notaðir til að halda áróðri og sjónarmiðum haturs á loft og senda skilaboð til þeirra sem tilheyra hópum um sameiginlega sýn og gildi. „Ógnin getur fyrirvaralaust tekið breytingum og gengið þvert á fyrirliggjandi greiningar hvað varðar mynstur, aðferðir og skotmörk,” segir meðal annars í skýrslunni.
Hatursglæpir og hryðjuverkaógn eru flókin fyrirbæri, hvað þetta varðar. Erfitt getur verið að greina hvenær erum ógn er að ræða og hvenær ekki. Þá veit enginn fyrir víst hvert skotmark í árásum, þegar fólk er að komið á þann stað í hugsun að vera tilbúið að ráðast á saklausa borgara með það að markmiði að valda sem mestu tjóni.
Hatursglæpir og hryðjuverkaógn eru flókin fyrirbæri, hvað þetta varðar. Erfitt getur verið að greina hvenær erum ógn er að ræða og hvenær ekki. Þá veit enginn fyrir víst hvert skotmark í árásum, þegar fólk er að komið á þann stað í hugsun að vera tilbúið að ráðast á saklausa borgara með það að markmiði að valda sem mestu tjóni.
Hvernig lærum við?
Jacinda Ardern hefur sagt í eftirleik árásarinnar í Nýja-Sjálandi að hún ætli sér ekki að minnast á árásarmanninn með nafni, til að gefa honum ekki þá frægð sem hann leitar að. Jafnframt hefur hún lagt áherslu að svör við erfiðum spurningum - um jarðveg hatursins - séu dregin fram með rannsóknum og öllum steinum verði velt við. Eitt það fyrsta sem hún sagðist vilja gera var að herða byssulöggjöfina og banna manndrápstól eins og sjálfvirka og hálfsjálfvirka riffla. Með þeim er hægt að skjóta til bana fjölda manns enda vopnin hönnun til að drepa fólk í einu skoti. Ardern sagði að lögreglan myndi einnig kafa ofan í hvernig á því stóð að engin viðvörunarljós fóru í gang í aðdraganda árásarinnar.
En ofar öllu hefur hún sagt, í atburði sem þessum þurfi samfélög að sýna samstöðu með fórnarlömbum og aðstandendum. Gildin sem ráðist er í svona árás muni lifa af og samfélögin verða sterkari eftir. Uppspretta hatursins er það sem þarf að rannsaka til að hindra að svona geti gerst og svara því hvernig hún varð til.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars