Kalda stríðið var í raun ekki alltaf kalt. Robert McNamara, sem var varnarmálaráðherra Bandaríkjanna 1961 – 1968, sagði reyndar eitt sinn að það hefði á köflum verið alveg sjóðandi heitt. Sérstaklega var ástandið viðsjárvert í Kúbu-deilunni í október 1962. Hér verður rakin saga tveggja manna sem komu við sögu í kalda stríðinu og hvernig ákvarðanir þeirra höfðu áhrif á gang veraldarsögunnar. Nöfn þessara manna eru lítt þekkt meðal almennings en aðrir sem tóku virkan þátt í kjarnorkukapphlaupi stórveldanna hafa nefnt þá, og gjörðir þeirra, sem mikilvægan þátt í að afstýra kjarnorkustyrjöld. Arthur Schlesinger, einn af ráðgjöfum John F. Kennedy, sagði eitt sinn að það væri ekki alls kostar rétt að Kúbu-deilan hefði verið hættulegasta stund kalda stríðsins, nær væri að segja að þetta hefði verið hættulegasta stund í gjörvallri mannkynssögunni.
Bandaríkin höfðu sett upp skotpalla fyrir kjarnaflaugar á Ítalíu og Tyrklandi, nokkuð sem Sovétríkin gátu illa sætt sig við enda ógnaði það öryggi þeirra verulega. Sovétmenn brugðust við þessu með því að að setja upp skotpalla í bakgarði Bandaríkjanna, á Kúbu. Það hleypti öllu í bál og brand í Washington. Kennedy ákvað að ráðast ekki inn í Kúbu, þrátt fyrir að í skrifstofu hans væru öllum stundum froðufellandi herforingjar sem heimtuðu aðgerðir. Þess í stað var flotinn látinn umkringja eyjuna til að varna sovéskum skipum að komast áleiðis með sinn hættulega farm. Í Moskvu þurfti Kruschev einnig að eiga við bálreiða herforingja í vígahug og aðra sem vildu hófsamari leiðir. Á endanum ákváðu Bandaríkin að fjarlægja kjarnaflaugar sínar frá Tyrklandi og Sovétmenn fjarlægðu sínar frá Kúbu. En ráðamönnum stórveldanna var ókunnugt um að á meðan á þessu stóð voru alvarlegir hlutir að eiga sér stað rétt hjá Bandaríkjunum, djúpt undir yfirborði sjávar.
Vasili Arkhipov var foringi í sovéska kjarnorkukafbátnum B-19 sem var staðsettur í Karíbahafi. Bandaríski flotinn hafði fundið kafbátinn og kastað djúpsprengjum í þeirri von að hann myndi koma upp á yfirborðið svo hægt væri að bera kennsl á hann. Þetta voru ekki djúpsprengjur sem ollu skaða en þær ollu skelfingu meðal kafbátsmanna. Það sem verra var, B-19 hafði ekki verið í sambandi við Moskvu dögum saman og bátsverjar höfðu ekki hugmynd um þá þróun sem hafði átt sér stað í samskiptum stórveldanna undanfarið. Sumir töldu að styrjöld hefði að öllum líkindum þegar brotist út. Til að auka á skelfingu og dómgreind áhafnarinnar, þá var loftræstingin biluð , loft var heitt og daunillt og aðstæður um borð því vægast sagt óþægilegar. Kafbáturinn var ekki með kjarnaflaugar um borð en hann var útbúinn öðru skelfilegu vopni: 10 kílótonna kjarnatundurskeyti. Yfirmenn kafbátsins höfðu heimild til að skjóta því án þess að þurfa grænt ljós frá Morskvu. Kafbátsforinginn Savitsky vildi skjóta því og allir hinir foringjarnir voru sammála honum, allir nema Vasili Arkhipov.
Samkvæmt reglum urðu þrír æðstu foringjar að vera sammála um þetta en Arkhipov stóð fastur á sínu. Áhættan og óvissan var of mikil, taldi hann. Þeir yrðu að komast að því hvað væri á seyði á yfirborðinu áður en þeir gerðu eitthvað sem mögulega gerði bara illt miklu verra. Nærri kom til handalögmála í kafbátnum vegna þessa en Arkhipov gaf sig ekki. Hann var frekar óframfærinn rólyndismaður en þeir eiginleikar voru hans styrkur núna í þessum aðstæðum. Það hjálpaði einnig að Savitsky bar ákveðna virðingu fyrir Arkhipov, því Arkhipov hafði áður verið í erfiðum aðstæðum en hann var foringi um borð í kafbátnum K-19 sem hafði lent í miklum vandræðum árið áður. Það er saga út af fyrir sig og má benda lesendum á kvikmyndina K-19: The Widowmaker frá 2002 með þeim Harrison Ford og Liam Neeson í aðalhlutverki og bregður þar einnig fyrir íslenska leikaranum Ingvari Sigurðssyni.
Á endanum sigraði Arkhipov þetta taugastríð, kafbáturinn fór upp á yfirborðið og komust bátsverjar þá að því að styrjöld var ekki skollin á, þvert á móti. Flestir eru nú sammála um að það hefði haft hræðilegar afleiðingar ef kafbáturinn hefði skotið kjarnaskeytinu og verið þungt vatn á myllu froðufellandi herforingjanna í skrifstofu Bandaríkjaforseta. Árið 2002 var haldin ráðstefna um þetta atvik í Washington og í lok hennar sagði Thomas Blanton, yfirmaður skjalasafns sem geymir skjöl tengd þjóðaröryggi (National Security Archives) þessi fleygu orð: „Hvað gerðist í raun? Það er einfalt. Náungi sem hét Vasili Arkhipov bjargaði heiminum.“
Stanislav Petrov
Á níunda áratug síðustu aldar voru Sovétríkin í vanda stödd. Efnahagur landsins hafði versnað og tök þeirra á leppríkjum sínum í Evrópu minnkað verulega. Í Hvíta húsið í Washington var kominn fyrrverandi Hollywood-leikari, Ronald Reagan, og hann tók harða afstöðu gegn Sovétríkjunum. Í september 1983 skaut sovésk orrustuþota niður kóreska farþegaþotu sem hafði villst af leið, með þeim afleiðingum að 269 farþegar týndu lífinu.
Bandaríkin og fleiri ríki fordæmdu Sovétríkin en í Moskvu brugðust menn ókvæða við og lýstu því yfir að kóreska vélin hefði verið í njósnaflugi. Samskipti stórveldanna höfðu sjaldan verið jafn slæm og mörgum fannst sem það mætti lítið út af bera til að allt færi í bál og brand. Kalda stríðið var sannarlega kalt á þeim tíma. Margir óttuðust upplausn í Sovétríkjunum. Þar voru enn við völd menn sem héldu dauðahaldi í gamla kommúnismann og virtust ekkert ætla að gefa eftir í kjarnorkukapphlaupinu við Bandaríkin. Óttinn við kjarnorkustyrjöld var verulegur á þessum árum og höfðu ýmsir áhyggjur af því að það gæti jafnvel orðið fyrir mistök, annað hvort mannleg eða tæknileg, eða hvort tveggja. Reyndar urðu mistök og heimurinn var sekúndubroti frá því að steypast í ófriðarbál en eins og með Arkhipov rúmum tveimur áratugum áður, þá var það rósemi og varkárni eins manns sem kom í veg fyrir það.
Þann 26. september 1983, um þremur vikum eftir að kóreska flugvélin var skotin niður, var undirofurstinn Stanislav Petrov á vakt sinni við loftvarnareftirlit Sovétríkjanna. Hann var staðsettur í neðanjarðarbyrgi rétt fyrir utan Moskvu. Allt virtist með kyrrum kjörum. Hlutverk Petrovs var að fylgjast með gervihnöttum sem áttu að tilkynna samstundis ef kjarnorkuárás væri yfirvofandi. Ef slíkt ætti sér stað, átti Petrov samstundis að tilkynna það yfirmönnum í Moskvu svo hægt væri að svara fljótt í sömu mynt. Skömmu eftir miðnætti dró til tíðinda. Skyndilega kviknuðu aðvörunarljós sem tilkynntu að kjarnorkuflaug hefði verið skotið frá Bandaríkjunum og hún stefndi á Sovétríkin. Petrov féll allur ketill í eld og til að bæta gráu ofan á svart þá tilkynnti tölvan aftur að fjórum öðrum flaugum hefði verið skotið á loft. Augnablikið sem allir óttuðust var komið, Bandaríkin höfðu ráðist á Sovétríkin.
Petrov varð að tilkynna það strax og Sovétríkin myndu snarlega bregðast við með gagnárás. Hann lyfti upp símtólinu en eitthvað fékk hann til að hika, hann hreinlega trúði því ekki að þetta væri að gerast og það var einmitt þá sem rósemi og varfærni tók yfirhöndina: Petrov varð sannfærður um að þetta hlyti að vera bilun. Ef Bandaríkin ætluðu sér að ráðast á Sovétríkin, þá myndu þau ekki láta fimm flaugar duga heldur yrði öllum vopnum hleypt af í einu. Auk þess var varnarkerfið nýtt og hafði bilað áður, þó ekki á þennan máta. Petrov horfði á tölvuna sem sagði honum að kjarnaflaugar stefndu í átt að heimalandi hans. Síðan hringdi hann í aðalstöðvar hersins og tilkynnti að bilun hefði átt sér stað í kerfinu.
Er hann lagði tólið á þá varð honum hugsað til þess hvað væri í húfi. Ef hann hefði rangt fyrir sér þá myndu flaugarnar skella á Sovétríkjunum innan hálftíma. Mínúturnar liðu og rauða ljósið logaði en ekkert gerðist. Petrov hafði haft rétt fyrir sér. Það voru engar flaugar á leiðinni. Hann hafði vissulega óhlýðnast skipunum en var ekki refsað fyrir það, ekki var honum þó heldur hrósað fyrir yfirvegun sína.
Lengi vel hafði enginn á Vesturlöndum hugmynd um að þessa septembernótt hafði yfirvegun eins manns bjargað heiminum frá glötun. Það var ekki fyrr en eftir fall Sovétríkjanna nærri áratug síðar sem það varð opinbert. Bæði rússneskir og bandarískir sérfræðingar eru flestir sammála um að mjög líklega hefðu sovésk stjórnvöld brugðist harkalega við ef Petrov hefði tilkynnt þetta atvik eins og honum bar skylda til. Sem betur fer þá ákvað Petrov frekar að treysta eigin innsæi en fylgja handbókinni í blindni, annars hefði veraldarsagan mjög líklega tekið allt aðra stefnu.