Lars Løkke barst bréf

Danski forsætisráðherrann fær mörg bréf. Meðal þeirra sem hann fékk í síðustu viku var harðort bréf frá Sameinuðu þjóðunum. Í því er danska stjórnin sökuð um brot á mannréttindum.

myndininin.jpg
Auglýsing

Bréfið barst Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur sl. mánudag, 25. mars. Það var undirritað af Leilani Farha, hún er sérlegur skýrslugjafi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, varðandi réttinn til íbúðarhúsnæðis (special rapporteur on the right to housing). Leilani Farha og starfsfólk hennar hefur í mörg horn að líta og þótt iðulega sé þess getið á hátíðastundum að ástandið í heiminum fari skánandi getur Leilani Farha ekki að öllu leyti tekið undir það. Í blaðaviðtali fyrir skömmu sagði hún að ekki fari framhjá þeim sem fylgjast með fréttum að mikið skorti á að allir íbúar heimsins hafi þak yfir höfuðið og því miður sé það fjarlægur draumur að svo verði. En bréf hennar til dönsku ríkisstjórnarinnar fjallar ekki um fólk sem hrakið hefur verið frá heimilum sínum vegna stríðsátaka.

Dönsk lög heimila brot á mannréttindum

Í áðurnefndu bréfi gagnrýnir Leilani Farha dönsku ríkisstjórnina fyrir að hafa sett lög ,,sem gera það mögulegt að nota ótakmarkað erlent fjármagn til kaupa á dönsku íbúðar- og atvinnuhúsnæði, í þeim tilgangi einum að auka ríkidæmi kaupandans.“Í bréfinu segir að ,,þetta stríði gegn alþjóðlegu samkomulagi, nánar tiltekið Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Danir hafa undirritað.“ Í Mannréttindasáttmálanum er kveðið á um réttinn til þess að hafa þak yfir höfuðið, en lögin sem gilda í Danmörku hafa í raun ógilt þessar alþjóðlegu skuldbindingar. ,,Og afleiðingarnar blasa við“ segir í bréfinu, ,,árið 2017 keyptu erlend fjárfestingafyrirtæki 71% alls húsnæðis sem skipti um eigendur í Kaupmannahöfn.“ 

Blackstone

Bandaríska fyrirtækið Blackstone er lang umsvifamest þessara erlendu fyrirtækja og hefur á síðastliðnum tveimur árum keypt um það bil 140 húseignir í Kaupmannahöfn, samtals um tvö þúsund  íbúðir. Þessar húseignir hefur Blackstone keypt í gegnum danskan samstarfsaðila, North 360.

Auglýsing

Blackstone, sem var stofnað árið 1985 í Bandaríkjunum, er í hópi stærstu fjárfestingafyrirtækja heims. Það er umdeilt, eins og títt er um slík fyrirtæki og umtalað fyrir harðdrægni í viðskiptum. Á allra síðustu árum hefur fyrirtækið í auknum mæli horft til fjárfestinga í Evrópu, ekki síst á Norðurlöndum. Nefna má að árið 2017 bauð Blackstone 11 milljarða króna í 30% eignarhlut í Bláa Lóninu. Ekki varð af þeim viðskiptum því fulltrúar lífeyrissjóða í eigendahópi Bláa Lónsins beittu neitunarvaldi. Blackstone hefur reyndar víðar komið við sögu á Íslandi en það verður ekki rakið hér.

Af hverju Kaupmannahöfn? 

Ástæður þess að Blackstone hefur látið jafn mikið til sín taka í Kaupmannahöfn og raun ber vitni eru tvær. Önnur ástæðan er áðurnefnd lög. Hin er sú staðreynd að í Kaupmannahöfn er mikið um gamalt íbúðarhúsnæði þar sem leigan er lág. Í slíkum íbúðum býr í mörgum tilvikum fólk sem ekki hefur mikið handa á milli en er sátt við sitt. Sátt við öryggið sem fylgir því að eiga samastað og þurfa ekki að óttast að missa húsnæðið. Minna máli skiptir þótt baðherbergið sé ekki samkvæmt nýjustu tísku og eldhúsinnréttingin komin til ára sinna. Allstór hluti íbúðahúsnæðis í Kaupmannahöfn er í eigu  sjálfseignarstofnana, sem ráða yfir takmörkuðu fjármagni til endurbóta og viðhalds, sem skýrist meðal annars af lágri leigu.

Það er húsnæði eins og það sem hér hefur verið lýst sem Blackstone beinir sjónum sínum að. Fyrirtækið kallar slíkt húsnæði ,,vanmetið“ og gerir tilboð, sem eigendum þykir freistandi. Ef samningar takast er ráðist í endurbætur (iðulega sýndarendurbætur að mati Leilani Farha), leigjandanum býðst að vera áfram í íbúðinni en leigan hefur hækkað, í mörgum tilvikum tvöfaldast eða jafnvel meira. Þetta ræður fólkið sem áður bjó í íbúðinni ekki við og hrökklast burt. Í sumum tilvikum borgar Blackstone þeim sem áður bjuggu í húsinu fyrir að flytja. ,,Allt til að geta svo hækkað leiguna. Þetta er fyrirlitlegt“ segir í bréfinu til dönsku ríkisstjórnarinnar.

Frumkvæði Sameinuðu þjóðanna

Það að fjárfestar og byggingaspekúlantar beini sjónum sínum að tilteknum hverfum, oftast gamalgrónum í borgum og bæjum í því skyni að ,,endurnýja“ í hagnaðarskyni er ekki ný bóla. Sameinuðu þjóðirnar höfðu fyrir nokkru frumkvæði að óformlegum samtökum, sem hafa að markmiði að viðurkennt sé að íbúðarhúsnæði sé félagslegur réttur en ekki verslunarvara peningamanna.  Borgarstjórinn í Malmö staðfesti fyrir tveim vikum þátttöku borgarinnar í þessari hreyfingu en meðal þeirra borga sem staðfest hafa  þátttöku eru Amsterdam, Montreal, Barcelona og Berlín. Aðspurður sagði borgarstjórinn í Malmö ástæðuna fyrir þátttöku borgarinnar væri sú sama og víða annarsstaðar: tilkoma fjárfesta leiðir til hærra leigu- og kaupverðs, borgarmyndin breytist, verður einsleitnari þar sem fjölskyldufólk og þeir efnaminni, ásamt smáfyrirtækjum, hrekjast á brott. 

PUSH

Í síðustu viku var kvikmyndin PUSH frumsýndi í Kaupmannahöfn. Framleiðandi og leikstjóri myndarinnar er Svíinn Frederik Gertten. PUSH fjallar um hvernig húsnæðisverð rýkur upp í stórborgum, fjölskyldufólk er neytt til að flytja og andlitslausir eigendur (orðalag úr kvikmyndinni) taka yfir húseignirnar. Myndin vakti mikið umtal meðal Dana, fjölmiðlar fjölluðu um myndina, sem hefur beina skírskotun til þess sem er að gerast í Kaupmannhöfn. Nýlegt dæmi um kaup andlitslausu eigendanna þar í borg er þekkt bygging við miðborgina.

Leilani Farha.

Holckenhus

Í júní í fyrra greindu margir danskir fjölmiðlar frá því að Blackstone hefði fest kaup á stórri byggingu skammt frá miðborginni. Hús þetta nefnist Holckenhus og stendur við H.C Andersens Boulevard, Vester Voldgade, Stormgade og Dantes Plads, en þar var íslenska sendiráðið  lengi til húsa.

Holckenhus var byggt á árunum 1891 -93. Á jarðhæðinni eru fyrirtæki, á fjórum hæðum þar fyrir ofan eru íbúðir en á efstu hæðinni 11 vinnustofur þar sem 13 listamenn starfa. Þar hafa margir af þekktustu myndlistarmönnum Dana haft vinnuaðstöðu og hinn virti myndlistarskóli Kristian Zahrtmann (1843 – 1917) var í húsinu um árabil. Vinnustofurnar eru óbreyttar frá upphafi og sama gildir um margar íbúðir, burtséð frá hita, vatns - og rafmagnslögnum. 

Þegar fréttist af kaupum Blackstone á Holckenhus fóru listamennirnir, sem hafa aðstöðu í gömlu vinnustofunum að spyrjast fyrir. ,,Þegar við fréttum hver kaupandinn væri fórum við að skjálfa á beinunum“ (begyndte vi at ryste i bukserne) sagði  Maria Wandel talsmaður listamannanna. Svörin sem fengust voru að North 360 hafði sótt um leyfi til að breyta vinnustofunum í íbúðir. Þegar íbúarnir og listamennirnir sneru sér til borgarinnar voru svörin þau að þar eð húsið væri ekki friðað (nema að utan) væri erfitt að bregðast við. Eftir mikla og harða gagnrýni lýsti talsmaður North 360 því yfir að fyrirtækið vildi finna lausn í samstarfi við listamennina. Maria Wendel sagðist í viðtali, í dagblaðinu Politiken fyrir nokkrum dögum,ekki gefa mikið fyrir slíka yfirlýsingu. ,,Þetta er einskonar haltu kjafti brjóstsykur (hold kæft-bolsje) til að þagga niður í okkur“. 

Íbúarnir í Holckenhus eru sömuleiðis áhyggjufullir. Meðal þeirra sem í húsinu búa er hinn þekkti leikari Jesper Langberg. Þegar hann var spurður álits á hinum nýju eigendum sagði hann ekkert en gaf puttann (löngutöng).

Á þessari stundu er óljóst hvert framhaldið verður, bæði varðandi íbúðirnar og vinnustofurnar í Holckenhus.

Sameinuðu þjóðirnar orðnar pólitískar

Leilani Farha hefur ekki fengið svar frá dönsku ríkisstjórninni, en sagði í viðtali við danska fjölmiðla að hún myndi innan tíðar ýta á eftir viðbrögðum. Danski forsætisráðherrann hefur ekki tjáð sig um bréfið, né innihald þess. Ole Birk Olesen ráðherra húsnæðismála sagðist í blaðaviðtali vera undrandi á því að Sameinuðu þjóðirnar telji það mannréttindabrot að erlend fyrirtæki, í þessu tilviki, Blackstone fái að kaupa húseignir í stórum stíl í þeim tilgangi að þrýsta upp leiguverði. Ráðherrann sagði það athyglisvert að Sameinuðu þjóðirnar skuli með þessum hætti blanda sér í málin, og horfa á það með pólitískum gleraugum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Hólmfríður Árnadóttir menntunarfræðingur og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi skipa 1. og 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Þjórsáin okkar allra
Kjarninn 25. júlí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina ræða málin í þaula og hafa verið í meginatriðum samstíga um aðgerðir í faraldrinum hingað til.
Stjórnmálin falli ekki í þá freistni að gera sóttvarnir að „pólitísku bitbeini“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samstöðu í ríkisstjórn um þær hertu aðgerðir sem tóku gildi í dag. Hún segist vilja forðast að sóttvarnir verði að pólitísku bitbeini fyrir kosningar og telur að það muni reyna á stjórnmálin á næstu vikum.
Kjarninn 25. júlí 2021
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar