Einstaklingar á Íslandi erfðu alls 46,9 milljarða króna á árinu 2017. Árið 2016 erfðu þeir 40,5 milljarða króna og árið 2015 33,7 milljarða króna. Skattskyldur arfur einstaklinga sem greiddur var út jókst því um 39 prósent milli áranna 2015 og 2017.
Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn frá Jóni Steindóri Valdimarssyni, þingmanni Viðreisnar, sem birt var á vef Alþingis á laugardag.
Af þeim 121,1 milljarði króna sem Íslendingar erfðu á þessum þremur árum fóru 8,8 milljarðar króna til einstaklinga sem erfðu yfir 100 milljónir króna. Stærsti hlutinn fór til þeirra sem erfðu yfir 6,5 milljónir króna en undir 50 milljónir króna, eða 80 milljarðar króna. Það þýðir að tvær af hverjum þremur krónum sem greiddar voru í arf á tímabilinu voru á því bili.
Upplýsingar um árið 2018 liggja ekki fyrir þar sem Ríkisskattstjóri vinnur nú úr skattframtölum einstaklinga.
Samkvæmt lögum um erfðafjárskatt er ekki greiddu slíkur á fyrst 1,5 milljón króna í skattstofni hvers dánarbús og njóta erfingjar skattfrelsisins í hlutfalli við arf sinn. Erfðafjárskattur er að öðru leyti tíu prósent af skattstofni dánarbús. Á árinu 2017, þegar alls 46,9 milljarðar króna erfðust, voru tekjur ríkissjóðs af erfðafjárskatti 4,3 milljarðar króna.
Gríðarleg aukning eigin fjár
Íslenskur almenningur í heild hefur aukið auð sinn mikið á undanförnum árum. Þannig hefur eigið fé landsmanna aukist um 162 prósent í krónum talið frá lokum árs 2010 og til loka árs 2017, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Alls nam eigið fé, sem eru eignir landsmanna að frádregnum skuldum, 4.103 milljörðum króna í lok árs 2017 en 1.565 milljörðum króna í lok árs 2010.
Þessi mikla eignaaukning heildarinnar er því fyrst og síðast drifin áfram að hækkun á húsnæðisverði og betri skilyrðum landsmanna til að greiða niður lán sín. Raunverð íbúða hækkaði um 56 prósent frá árinu 2010 og út september 2018. Það er næst mesta hækkun í heiminum á tímabilinu. Einungis í Indlandi hefur húsnæðisverð hækkað meira að raunvirði Á sama tímabili rúmlega tvöfaldaðist húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu í krónum talið.
Á þessum árum hefur líka ríkt umtalsverður stöðugleiki í verðbólgu og hún haldist undir eða við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands þorra hans. Þá hafa stjórnvöld gripið til ýmissa fjárútláta sem hafa nýst eignarfólki á borð við Leiðréttinguna og nýtingu séreignarsparnaðar til skattfrjálsrar niðurgreiðslu á húsnæðislánum. Að auki hafa vextir húsnæðislána lækkað hratt. Nú eru til að mynda lægstu breytilegu verðtryggðu vextir 2,15 prósent.
Ríkustu tíu prósent þjóðarinnar
Líkt og áður sagði fóru 8,8 milljarðar króna af því sem erfðist á árinu 2017 til hóps sem var að erfa yfir 100 milljónir króna á árunum 2015 til 2017. Það er einungis þau tíu prósent þjóðarinnar sem eiga mest eigið fé sem eiga slíkar fjárhæðir til að láta renna til ættingja sinna að sér gengnum.
Eignir hópsins eru reyndar vanmetnar í tölum Hagstofu Íslands,þar sem eign í hlutabréfum er færð til eignar á nafnvirði, ekki markaðsvirði, sem er vanalega miklu hærra.
Efsta lag landsmanna á nær öll verðbréf sem eru í eigu einstaklinga hérlendis. Ríkustu tíu prósent þeirra eiga til að mynda 87 prósent allra slíkra verðbréfa. Vert er að taka fram að lífeyrissjóðir landsins eru langstærstu eigendur verðbréfa – þeir eiga tæplega 70 prósent markaðsskuldabréfa og víxla hérlendis – og eign þeirra er ekki talin með í ofangreindum tölum.
Þá vantar líka inn í tölurnar allar þær eignir sem Íslendingar eiga erlendis, og eru ekki taldar fram til skatts hérlendis. Í skýrslu sem unnin var fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið, og birt var í janúar 2017, kom meðal annars fram að aflandsfélagavæðing íslensks fjármálakerfis hefði haft tugi milljarða króna af íslenskum almenningi í vangoldnum skattgreiðslum og búið til gríðarlegan aðstöðumun þeirra sem hafa, bæði löglega og ólöglega, getað falið fé í erlendum skattaskjólum.