Eitt helsta átakamál í dönskum stjórnmálum um langt árabil var sú ákvörðun ríkisstjórnar Jafnaðarmanna (2011 – 2015) undir forsæti Helle Thorning-Schmidt að selja hluta orkufyrirtækisins DONG til bandaríska fjárfestingarbankans Goldman Sachs. DONG, sem nú heitir Ørsted, var stofnað árið 1972 og er lang stærsti orkuframleiðandi Danmerkur. Hugmyndin um söluna var ekki ný. Árið 2004, í valdatíð Anders Fogh Rasmussen (Venstre), náðist samkomulag milli stjórnarinnar og tveggja flokka utan stjórnarinnar um að skrá DONG á markað og undirbúa sölu á hluta fyrirtækisins, en ríkið skyldi áfram vera meirihlutaeigandi. Sá undirbúningur var kominn á lokastig þegar fjármálahrunið varð, árið 2008, en var þá frestað.
Árið 2012 gekk rekstur DONG illa, og þá var rykið dustað af söluhugmyndunum frá 2004. Jafnaðarmenn voru þá í stjórnarforystu en auk þeirra áttu Radikale Venstre (RV) og Sósíalíski þjóðarflokkurinn (SF) aðild að stjórninni. Bjarne Corydon, fjármálaráðherra Jafnaðarmanna, barðist hart fyrir því að selja hluta DONG en ákafar deilur voru um málið innan stjórnarinnar og á þinginu.
Innan SF var hart deilt um söluna, sem formaðurinn Annette Vilhelmsen studdi. Svo fór að flokkurinn gekk úr stjórninni, formaðurinn sagði af sér og fyrrverandi ráðherrar sögðu sig úr flokknum, sem tapaði miklu fylgi í kosningnum árið 2015.
Goldman Sachs
30. janúar 2014 var undirritaður samningur um kaup Goldman Sachs á nítján prósenta hlut í DONG. Fyrir hlutinn greiddi fjárfestingabankinn 8 milljarða danskra króna (144 milljarða íslenska). Að mati margra sérfræðinga var verðið alltof lágt, Goldman Sachs fengi hlutinn á spottprís, en Bjarne Corydon fjármálaráðherra þvertók fyrir að svo væri. Margir héldu því fram að Goldman Sachs ætlaði sér ekki að eiga hlutinn í DONG til frambúðar, fyrirtækið hugsaði bara um eitt: Að græða mikið.
Goldman Sachs seldi hlut sinn árið 2017, fékk þá fyrir hann 20 milljarða danskra króna (360 milljarða íslenska) og hafði sannarlega hagnast vel á kaupunum. Þá skipti fyrirtækið jafnframt um nafn, fékk nafnið Ørsted, eftir hinum þekkta danska vísindamanni Hans Christian Ørsted. Hin opinbera skýring var að fyrirtækið væri ekki lengur með samskonar starfsemi og í upphafi en DONG var skammstöfun á Dansk Olie og NaturGas. Nokkrir danskir fjölmiðlar gátu sér þess til að DONG nafnið kallaði fram minningar um „mesta klúður danskrar viðskiptasögu“ eins og komist var að orði og þess vegna hefði verið æskilegt að finna annað nafn.
Radius
Í ársbyrjun 2016 tilkynntu stjórnendur DONG (einsog fyrirtækið hét þá) að dreifingarhluti fyrirtækisins yrði skilinn frá framleiðsluhlutanum og fengi nafnið Radius. Þessi breyting tók gildi 1. apríl sama ár. Radius annast flutning og dreifingu raforku og gass á Kaupmannahafnarsvæðinu, Norður-Sjálandi og hluta Mið-Sjálands. Dreifingarnetið (kaplarnir) eru samtals um 19 þúsund kílómetra langir, raforkukaupendur um það bil 1 milljón og kaupendur gass tæplega 100 þúsund. Auk þess annast fyrirtækið rekstur um það bil 160 þúsund götuljósa á Sjálandi.
Radius til sölu
Í júní í fyrra, 2018 tilkynnti Ørsted að Radius væri til sölu. Nokkrir erlendir aðilar sýndu kaupunum áhuga en margir Danir fengu gæsahúð þegar þeir fréttu af þessum fyrirætlunum (orðalag Politiken) og varð hugsað til sölunnar á DONG. Margir þingmenn lýstu strax mikilli andstöðu við að selja Radius og þótt Kristian Jensen fjármálaráðherra hafi lýst yfir að „vel yrði fylgst með rekstrinum“ sögðu þingmenn að slíkar yfirlýsingar væru algjörlega marklausar. Erlendir kaupendur myndu fyrst og fremst hafa áhuga á að hagnast sem mest „sporin frá DONG hræða“ sagði Pelle Dragsted talsmaður Einingarlistans í viðtali við Politiken. Nokkrir þingmenn lýstu yfir að þeir myndu berjast gegn sölunni á Radius með kjafti og klóm.
Frede Hvelplund prófessor við Háskólann í Álaborg , sérfræðingur í orkumálum sagði í viðtali við dagblaðið Berlingske að einkavæðing orkufyrirtækja hefði víða gefist illa og þess væru mörg dæmi að opinberir aðilar væru að kaupa slík fyrirtæki til baka (afprivatisere). Þeir sem kaupa orkufyrirtækin eru iðulega sjóðir sem hugsa fyrst og fremst um ágóðann en hirða minna um viðhald og uppbyggingu. Þegar allt er komið í hönk neyðast opinberir aðilar, sem bera ábyrgð á öllu saman, til að hlaupa undir bagga og punga út stórfé. Stjórn Ørsted hefur setið fast við sinn keip og nýlega lýsti stjórnarformaðurinn því yfir að ætlunin væri að selja Radius á þessu ári. Salan er hins vegar háð samþykki þingsins og ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen er minnihlutastjórn og getur þess vegna ekki farið sínu fram að vild.
Þingmenn vilja koma í veg fyrir söluna
Pelle Dragsted, þingmaður Einingarlistans, hefur ákaft barist gegn því að Radius fyrirtækið verði selt. Fyrir nokkrum dögum greindi hann frá því að Einingarlistinn, Danski þjóðarflokkurinn, Jafnaðarmenn og Sósíalíski þjóðarflokkurinn hafi tekið höndum saman og uppálagt stjórninni að sjá til þess að nauðsynleg grunnþjónusta verði í meirihlutaeigu hins opinbera eða sameignarfélags notenda. Þetta þýðir að Radius verður ekki selt.
Pelle Dragsted sagði í viðtali við dagblaðið Politken að þetta væri mikilvæg stefnubreyting. „Hér hefur það verið lenska um langt árabil að einkavæða alla skapaða hluti, árangurinn hefur í flestum tilfellum ekki verið til hagsbóta fyrir borgarana. Það er tími til kominn að snúa af þessari braut.“