Flugslysin í Indónesíu, 29. október, og í Eþíópíu, 13. mars síðastliðinn, hafa dregið mikinn dilk á eftir sér fyrir flugiðnaðinn sem ekki sér fyrir endann á ennþá. Allir um borð í 737 Max vélum Lion Air og Ethiopian Airlines, sem hröpuðu létust. Samtals 346.
Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing er nú að glíma við verstu og erfiðustu vandamál sem félagið hefur glímt við í seinni tíma sögu fyrirtækisins, sem spannar 103 ár. Framleiðslan hjá Boeing er í Renton í útjaðri Seattle, þar sem félagið var stofnað.
Hjá fyrirtækinu starfa tæplega 80 þúsund starfsmenn á svæðinu og er talið að með margfeldisáhrifum félagsins á svæðinu séu allt að 250 þúsund störf tengd starfsemi Boeing. Það er stærsti vinnuveitandinn og skákar þar 56 þúsund manna herstöð, og síðan risavöxnum höfuðstöðvum Amazon og Microsoft, þar sem í dag starfa samtals yfir 90 þúsund manns.
Alvarleg staða
Frumniðurstöður í rannsóknum á flugslysunum benda til þess að galli hafi verið í hugbúnaði í vélunum, sem tengist svonefndu MCAS-kerfi, sem á að sporna gegn ofrisi.
Flugmálayfirvöld í Indónesíu kynntu frumniðurstöður - með fyrirvara um að rannsókn væri ekki lokið - í síðustu viku, og kom þá fram að flugmenn hefðu brugðist rétt við, og reynt að vinna gegn því að flugvélin hefði togast niður. Allt kom fyrir ekki.
Þrátt fyrir að Boeing telji sig vita hvað kom upp, og hafi uppfært hugbúnað og sé með framleiðsluferla til ítarlegrar skoðunar, þá er komin upp verulega alvarleg staða fyrir öll félög sem notast við Boeing vélar.
Í stuttu máli lýsir vandinn, sem kominn er upp sér svona:
- Flugslysin hafa leitt til þess að Boeing er til rannsóknar, meðal annars af alríkislögreglunni FBI og bandaríska dómsmálaráðuneytinu. Kafað er ofan í minnstu smáatriði í framleiðsluferlinu, sem gætu hafa leitt til þess að vélarnar hröpuðu. Meðal annars er nú verið að rannsaka skoðun á vélunum á starfstöð í Flórída, en þar gæti eitthvað hafa misfarist, samkvæmt skjölum sem flugmálayfirvöld í Indónesíu hafa birt, sem leiddi til þessara hörmulegu slysa.
- Alvarlegustu hliðarverkanir slysanna - fyrir utan dauðsföllin og áhrif á aðstandendur þeirra sem létust - er mikið högg í framleiðslu hjá Boeing. Þegar mest var í fyrra, þá komu 57 vélar úr framleiðslukerfum Boeing í mánuði þar sem Max vélarnar urðu til, en framleiðslan er nú komin niður í 42. Ástæðan er bann við notkun á Max vélunum og kyrrsetning þeirra, og óvissa um hvenær (og hvort) Max vélarnar geti komist í notkun hjá flugfélögum. Mörg flugfélög hafa veðjað á Max vélarnar í sínum leiðakerfum, og er Icelandair meðal annars eitt þeirra.
- Vonir standa til þess að Max vélar geti komist í notkun síðar á árinu, og að banni verði aflétt, en það er óvissa sem ríkir um það. Þetta þýðir að flugfélög þurfa að leita annarra leiða til að fylla upp í flota sinn. Mikil eftirspurn hefur myndast eftir leiguvélum og fyrirsjáanlegt að hún muni vaxa mikið á næstu mánuðum. Þannig eru mörg flugfélög í kappi við tímann, um að útvega vélar í flota sína til að geta staðið við þjónustuna sem í boði er samkvæmt skipulögðu leiðakerfi.
- Boeing stendur frammi fyrir því að geta ekki afhent vélar, eins og um hefur verið samið, við fjölda flugfélaga. Hvort félagið muni þurfa að greiða bætur vegna þessa, á eftir að koma í ljós. Fyrir hagkerfi þar sem ferðaþjónusta er stór atvinnuvegur, sem jafnvel hefur kerfislægt mikilvægi, þá getur þessi vandi Boeing verið verulegt áhyggjuefni. Á Íslandi er ferðaþjónusta langstærsti útflutningsgeirinn með um 43 prósent gjaldeyristekna, og ljóst að mikilvægt verður fyrir Icelandair að leysa úr þessum vanda sem upp er kominn.
Samdráttur - ekki sókn
Samkvæmt uppfærði flugáætlun Icelandair miðar hún við að Boeing 737 MAX flugvélar félagsins verði kyrrsettar til 16. júní næstkomandi. Það verður að koma í ljós, hvort kyrrsetning vélanna mun falla úr gildi á þeim degi eða fyrr, en sú sviðsmynd er allt eins líkleg að vélarnar verði kyrrsettar lengur. Vandi er um slíkt að spá.
Í tilkynningu félagsins frá því í gær, segir að „með þeim mótvægisaðgerðum sem gripið hefur verið til með því að bæta leiguvélum við flota félagsins hefur tekist að takmarka áhrifin á leiðarkerfið verulega.“
Félagið gekk frá leigu á tveimur Boeing 767 breiðþotum sem tilkynnt var um þann 1. apríl síðastliðinn, og tilkynnti síðan um leigu á þriðju vélinni af gerðinni 757-200, en hún er 184 sæta. Hún verður í rekstri frá 15. maí fram í lok september 2019.
Á tímabilinu 1. apríl – 15. júní mun félagið fella niður um 3,6% af flugferðum sínum sem samsvarar rúmlega 100 ferðum á tímabilinu, en rekja má þennan samdrátt til vandans sem skapast hefur vegna Max vélanna.
„Í flestum tilfellum er um að ræða flug til áfangastaða þar sem fleiri en eitt flug eru í boði sama dag. Þrátt fyrir þessar ráðstafanir helst sætaframboð félagsins nánast óbreytt þar sem notast verður við Boeing 767 flugvélar sem eru stærri en Boeing 737 MAX vélarnar. Af þeim sökum er gert ráð fyrir óverulegum áhrifum á heildarfjölda fluttra farþega á tímabilinu,“ segir í tilkynningunni.
Þá hefur Icelandair ákveðið að hætta við flug til Cleveland í Bandaríkjunum og Halifax í Kanada á þessu ári. Það skýrist að hluta til af kyrrsetningu MAX vélanna en jafnframt hafði áhrif á ákvörðunina að stór hluti farþega á framangreinda staði eru skiptifarþegar sem eru að ferðast milli N-Ameríku og Evrópu. Ákveðið var að færa framboðið yfir á áfangastaði þar eftirspurn er meiri eftir ferðum til og frá Íslandi, segir í tilkynningu félagsins frá því í gær.
Veðjað á Max vélarnar - Verður Airbus inn í myndinni?
Icelandair hefur miðað sína þjónustu við notkun á Boeing vélum, og segir meðal annars á vefsíðu félagsins, að Max vélarnar falli vel að skipulagningu félagsins. „Eftir að 16 737 MAX 8 og 9 vélar bætast í hópinn – en þær fyrstu munu koma til landsins snemma árs 2018 – verður flugfloti Icelandair sérstaklega vel til þess fallinn að þjónusta bæði Evrópu og Norður-Ameríku um einstaka staðsetningu okkar á Íslandi,“ segir á vef félagsins.
Icelandair er að vissu leyti í kappi við tímann um að útvega vélar til að geta staðið við þá þjónustu sem félagið selur, miðað við leiðakerfið. Þó Boeing og Icelandair hafi lengi átt í farsælu viðskiptasambandi, þá gæti verið komin upp staða, þar sem félagið þarf að horfa annað - og þá helst til Airbus - eftir flugvélum.
Í tilkynningum Icelandair til kauphallar sést að félagið er að reyna að leysa úr þessum vanda sem upp er kominn, eftir slysin hörmulegu í Indónesíu og Eþíópíu, með aðeins fimm mánaða millibili.
Í lok árs í fyrra var eigið fé Icelandair um 55 milljarðar króna en heildarskuldir námu rúmlega 900 milljónum Bandaríkjadala, eða um 110 milljörðum króna. Markaðsvirði Icelandair hefur sveiflast mikið, frá degi til dags, á undanförnum mánuðum, en það nemur nú um 46 milljörðum króna.
Boeing er risi í bandarísku efnahagslífi, en markaðsvirði þess nemur nú um 207 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 25 þúsund milljörðum króna. Til samanburðar nemur heildarvirði alls íslenska hlutabréfamarkaðarins um 1.200 milljörðum króna.