„Við getum ekki haldið kjafti lengur,“ sögðu alsírskar konur sem á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann áttunda mars, flykktust út á götur í Alsír og hófu upp raust sína innan um aðra mótmælendur. Ólíkt fyrri baráttudögum kvenna í Alsír voru engir söngvarar á veitingastöðum, og engin blóm gefin til viðskiptavina. „Í dag munu konurnar ekki dansa heldur láta málstað sinn heyrast,“ sagði hin 24 ára Malia við blaðamann Le Monde þar sem hún sat með móður sinni, Malika, á gangstétt. Báðar voru þær með bros á vör. Souhila, sem var mætt með tveimur dætrum sínum segist spyrja sig hvernig samfélag hún vilji skilja eftir fyrir dætur sínar.
Þetta var vísir að því sem koma skyldi í mótmælunum sem hófust þegar Abdelaziz Bouteflika forseti Alsír tilkynnti að hann myndi bjóða sig fram í fimmta sinn. Mótmæli kvennana eru til marks um samheldni mótmælenda sem sýna ekki á sér neitt fararsnið þó að Bouteflika hafi nú sagt af sér. Fólkið sem safnast nú saman á götum Alsír krefst bæði stjórnar- og samfélagsbreytinga. En þó að mótmælin hafi að mestu leyti farið friðsamlega fram leynist undir niðri ótti sem fáir vilja ljá orðs á. Mestallan tíunda áratuginn og fram yfir aldamót geisaði blóðug borgarastyrjöld í landinu og margir eru hræddir að mótmælin muni leiða til átaka. „Óttinn er enn til staðar,“ segir Malika en bætir því við að það veiti fólki von að sjá hversu friðsamleg mótmælin hafa verið.
Mótmælin halda áfram
Eftir að mótmælin hófust reyndi Bouteflika að lægja öldurnar með því að draga framboð sitt til baka en frestaði um leið kosningunum sem fara áttu fram nú í apríl en það fór illa í almenning sem hélt ótrauður áfram að mótmæla. Annan apríl síðastliðinn sagði hann svo óvænt af sér, en allt hefur komið fyrir ekki og mótmælin hafa haldið áfram. Nú er talið líklegast að Abdelkadir Bensalah, forseti efri deildar alsírska þingsins muni taka við sem bráðabirgðaforseti. Það verður þó að teljast ólíklegt að það muni slá á óánægju þjóðarinnar.
Það er kannski til marks um trú alsírks almennings á að stjórnvöld muni gera breytingar að á Twitter gengur sá brandari að Bouteflika sé nú í óða önn að semja við bræður sína um það hver muni taka við forsetastólnum. Samkvæmt lögum verður þó að kjósa nýjan forseta innan þriggja mánaða frá því að forseti segir af sér en enn hefur ekki verið boðað til kosninga. En það er ljóst að eftir hátt í 60 ár af sjálfstæði er ljóst að alsírska þjóðin hefur loks komist að því hvernig stjórnkerfi hún vill og mun ekki slá af kröfum sínum.
Viðkvæm staða
Mörgum Alsíringum hefur þótt þögn hersins og aðgerðaleysi hans í mótmælunum vera hávær, og óttast að mótmælin muni leiða af sér átök milli hópa með ólíka framtíðarsýn landsins. Þeir telja þögn hersins vera til marks um að hann ætli að leyfa ástandinu í landinu að versna í þeim tilgangi að geta tekið yfir stjórn landsins.
Það er eðlilegt að Alsíringar óttist margir að mótmælin muni leiða til átaka. Landið var stærstan hluta tíunda áratugarins og fram á 21. öldina þjakað af borgarastyrjöld þar sem her landsins barðist gegnum íslömskum öfgahópum. Eftir arabíska vorið, sem átti að sá fræjum frelsis og lýðræðis í arabaheiminu, haustaði einnig snemma í Sýrlandi og nágrannalandinu Líbýu eftir að arabíska vorið hófst, þó að lýðræði hafi að einhverju leyti náð að skjóta rótum í Túnis.
Leiða má að því líkum að einhverjum strangtrúarmönnum á Alsír svíði enn þá tapið í borgarastyrjöldinni og muni nýta sér mótmælin og mögulegar samfélagsbreytingar sem skálkaskjól til að við sig fylgi. Það gerðist til að mynda í Túnis þar sem þúsundir gengu til liðs við Íslamska ríkið í kjölfar arabíska vorsins.
Þó að kröfur bókstafstrúarfólks hafi ekki verið háværar í mótmælunum hafa þau verið nátengd trúarsamfélaginu. Flest mótmælin hafa átt sér stað eftir föstudagsbænir og klerkar hafa hvatt sóknarfólk sitt til að mótmæla stjórnvöldum. Þá hafa fámennir hópar meðal mótmælenda kallað eftir því að í landinu verði tekin upp íslömsk sjaría-lög.
Stjórnmálamenn voru einnig óhræddir við að nota stríðið í Sýrlandi og önnur átök í kjölfar arabíska vorsins til að hræða mótmælendur. Ahmed Ouyahia, þáverandi forsætisráðherra sem sagði af sér skömmu eftir að mótmælin hófust, reyndi að hræða mótmælendur með því að stríðið í Sýrlandi hefði líka byrjað með friðsamlegum mótmælum.
Almenningur hefur hinsvegar látið þann áróður sem vind um eyru þjóta og flykkist enn út á götur landsins. Saga landsins og návígi þess við sterk vígi íslamskra öfgamanna í Líbýu, Malí og Túnis gera það hinsvegar að verkum að lítið má út af bregða. Leiði mótmælin til átaka getur landið orðið að prófsteini á það hvort að ISIS samtökin standi jafn höllum fæti og sagt er. En hvernig sem fer er ljóst að Alsír er statt á mjóum fjallshrygg og á honum getur það ekki staðið til langs tíma.