Úr safni

Mikil verðmæti í fangi almennings

Eftir hrun fjármálakerfisins hefur átt sér stað mikil umbreyting á íslenska hagkerfinu. Eitt af því sem gerst hefur, er að eignir íslenska ríkisins – þar með talið eignarhlutir í fyrirtækjum – hafa margfaldast. Fyrirsjáanlegt er að arðgreiðslur muni vaxa verulega á næstu árum. Fylgja þessu einhver vandamál? Hvaða stefnu hafa stjórnmálafokkarnir? Hverju hafa arðgreiðslur skilað?

Óhætt er að segja að miklar breyt­ingar hafi orðið á íslenska hag­kerf­inu frá því það stóð á bjarg­brún­inni haustið 2008, þegar því var bjargað með neyð­ar­laga­setn­ingu á síð­ustu stundu. Fjár­magns­höft voru svo sett á í nóv­em­ber 2008 og við tók end­ur­reisn.

Eftir að hafa tekið út mikla dýfu í efna­hags­líf­inu árið 2009 og fram á árið 2010, þá hefur verið við­stöðu­laust hag­vaxt­ar­skeið. Eitt af því sem hrun­ið, aðgerðir í kjöl­farið og hag­felld efna­hags­þróun und­an­farin ár, hafa leitt af sér, er að íslenska ríkið hefur jafnt og þétt verið að eign­ast mikil verð­mæti í formi hluta­bréfa í fyr­ir­tækj­um.

Þar munar mikið um bank­anna tvo, Íslands­banka og Lands­bank­ann, en ríkið á Íslands­banka að öllu leyti og Lands­bank­ann sömu­leið­is, eða um 99 pró­sent hluta­fjár, þegar tekið er með í reikn­ing­inn hlutur bank­ans í eigin bréf­um.

Ný og kald­ari staða

Á fyrr­nefndu hag­vaxt­ar­skeiði hefur mikil kúvend­ing orðið á íslenska hag­kerf­inu. Skuldir heim­ila hafa minnkað veru­lega, skuldir hins opin­bera – ríkis og sveit­ar­fé­laga – sömu­leið­is, og almennt hefur hagur fyr­ir­tækja vænkast. Atvinnu­leysi hefur verið lítið sem ekk­ert, lengst af á bil­inu 2 til 3 pró­sent, og mikil vöntun verið á starfs­fólki í mörgum atvinnu­grein­um.

Íslenskur vinnu­mark­aður telur nú um 203 þús­und ein­stak­linga og hefur hann stækkað ört, ekki síst vegna upp­gangs í ferða­þjón­ustu og bygg­ing­ar­iðn­aði.

Eftir fall WOW air – og um 20 pró­sent geng­is­fall krón­unnar gagn­vart Banda­ríkja­dal og evru á und­an­förnu ári – er komin upp ný staða. Grein­endur eru farnir að spá kólnun í hag­kerf­inu. Í einni sviðs­mynd­inni, hjá grein­ing­ar­deild Arion banka, er því spáð að sam­dráttur verið í lands­fram­leiðslu á þessu ári, allt að 2 pró­sent.

Eftir fall WOW air – og um 20 prósent gengisfall krónunnar gagnvart Bandaríkjadal og evru á undanförnu ári – er komin upp ný staða.
Isavia

Það á eftir að koma í ljós hvernig mál þróast, en ef svo væri að það yrði sam­dráttur í lands­fram­leiðslu, þá yrði það mikið áfall. Seðla­banki Íslands spáir ekki í sam­drætti á þessu ári, og hefur komið fram í grein­ingum hans - bæði í Fjár­mála­stöð­uð­ug­leika og Pen­inga­málum - að hag­kerfið hafi nú þegar gengið í gegnum ákveðna aðlög­un, sem hefur komið fram í veik­ingu á gengi krón­unnar og fækkun ferða­manna. Þetta eigi ekki að leiða til mik­illa erf­ið­leika.

Hag­töl­urnar segja ekki alla sög­una og lík­lega er það krefj­andi fyrir mörg fyr­ir­tæki - ekki síst þau minni í ferða­þjón­ustu - að halda uppi öfl­ugu sölu- og mark­aðs­starfi, sem síðan skilar sér í auknum umsvifum með ráðn­ingum starfs­fólks.

Þegar það kreppir að í atvinnu­grein eins og ferða­þjón­ustu þá koma höggin hratt, með afbók­un­um. Það mun því vafa­lítið reyna á mörg félög, að halda uppi góðri þjón­ustu fyrir rétt verð. Jafn­vel þó hag­vaxt­ar­töl­urnar falli ekki svo mik­ið, þá verður það krefj­andi að halda uppi góðri þjón­ustu í harðri sam­keppni.

Sam­kvæmt því sem fram kemur í Fjár­mála­stöð­ug­leika þá gæti sæta­fram­boð í flugi til Íslands dreg­ist saman um 28 pró­sent á þessu ári, sam­an­borið við síð­asta ár. Samt er nokkuð erfitt að segja til um þró­un­ina þar sem erlend flug­fé­lög munu ráða því hversu vel mun ganga að fylla upp í skarðið sem fall WOW air skildi eft­ir. Nú þegar hafa erlend flug­fé­lög brugð­ist við með fjölgun ferða, en fleiri þættir koma til.

Mik­ill ávinn­ingur af eignum

Eigið fé fyr­ir­tækja í eigu rík­is­ins hefur vaxið mikið á und­an­förnum árum. Ekk­ert fyr­ir­tæki í rík­i­s­eigu er með meira eigið fé en Lands­virkjun en það nam rúm­lega 2,1 millj­arði Banda­ríkja­dala í lok árs, eða sem nemur um 245 millj­örðum króna.

Þar á eftir kemur Lands­bank­inn en eigið fé þess bank­ans var 239,6 millj­arðar króna í árs­lok. Íslands­banki var með 176,4 millj­arða króna í eigið fé í lok árs í fyrra og hjá Isa­via, sem rekur flug­velli í land­inu, þá var eigið féð 35,2 millj­arðar króna. Sam­an­lagt eigið fé þess­ara fyr­ir­tækja, sem öll eru í rík­i­s­eigu, nam 696,2 millj­örðum króna í árs­lok.

Það er þó aðeins bók­fært virði, en lík­legt má telja að virði t.d. Lands­virkj­unar sé mun hærra en sem nemur bók­færðu eigið fé. Fyr­ir­sjá­an­legt er að fyr­ir­tækið muni í fram­tíð­inni skila 10 til 20 millj­arða arð­greiðslum til ríks­ins - eða í Þjóð­ar­sjóð, eftir því hvernig ákveðið verður að ráð­stafa fénu - á hverju ári. Og halda áfram að borga niður skuld­ir.

Sé miðað við tvö­f­ald til þrefalt eigið fé fyr­ir­tæk­is­ins, sem verð­miða, þá er virði þess allt að 735 millj­arðar króna. Sé mið tekið af því þá er virði eigna rík­is­ins, í þessum fjórum fyr­ir­tækj­um, 1.186,2 millj­arðar króna. Það er örlítið hærri upp­hæð, en sem nemur mark­aðsvirði allra skráðu félag­anna á aðal­mark­aði Nas­daq kaup­hallar Íslands. Það er einnig svipuð upp­hæð og sem nemur virði allra afla­heim­ilda í íslenskri lög­sögu, sé litið til algengs virðis í við­skiptum með kvóta.

Þetta eru því mikil verð­mæti sem íslenskur almenn­ingur á í þessum fyr­ir­tækj­um. Frá því árið 2013 hafa þau skilað rík­is­sjóði meira en 170 millj­örðum í arð­greiðsl­ur, og þar af hafa komið 142 millj­arðar frá Lands­bank­an­um.

Miklar eignir líf­eyr­is­sjóða

Íslenskur almenn­ingur á um helm­ing allra skráðra bréfa á hluta­bréfa­mark­aðn­um, í gegnum eign­ar­að­ild líf­eyr­is­sjóð­anna. Eignir líf­eyr­is­sjóð­anna hafa aldrei verið meira og hafa þær vaxið mikið á und­an­förnum árum. Eignir líf­eyr­is­sjóða námu 4.451 millj­örðum króna í lok febr­úar og hækk­uðu um 63 millj­arða eða 1,4 pró­sent frá mán­uð­inum á und­an. Þar af voru eignir sam­trygg­inga­deilda 4.002 millj­arðar og sér­eigna­deilda 448 millj­arð­ar.

Í lok febr­úar námu inn­lendar eignir líf­eyr­is­sjóða 3.226 millj­arðar króna. Þar af voru inn­lán í inn­lendum inn­láns­stofn­unum 159 millj­arðar og inn­lend útlán og mark­aðs­verð­bréf 2.951 millj­arð­ar. Erlendar eignir líf­eyr­is­sjóða voru 1.225 millj­arðar í lok febr­ú­ar.

Er stefnan að losa um þessar eign­ir?

Sé horft til stefnu stjórn­mála­flokk­anna, þá er ekki mik­ill áhugi hjá þeim á því að selja eignir í þessum fyrr­nefndu rík­is­fyr­ir­tækja, þá þá helst hjá Sjálf­stæð­is­flokknum og Við­reisn. Aðrir flokkar hafa ekki haft það að stefnu að selja eign­ar­hluti í þessum fyrr­nefndu fyr­ir­tækj­um, hvorki bönk­unum né öðr­um.

Hins vegar er það engu að síður á stefnu­skrá rík­is­stjórn­ar­inn­ar, sam­kvæmt stjórn­ar­sátt­mála, að minnka eign­ar­hluti rík­is­sjóðs í bönk­un­um.

Horft hefur verið til þess að selja Íslands­banka að öllu leyti og að ríkið geti haldið eftir 30 til 40 pró­sent eign­ar­hlut í Lands­bank­an­um, en sölu­ferli er ekki komið af stað og ólík­legt að það ger­ist á þessu kjör­tíma­bili úr þessu.

Þó geta hlut­irnir hreyfst hratt ef það finnst ein­hver áhuga­samur kaup­andi, eins og t.d. einn stóru bank­anna á Norð­ur­lönd­un­um.

Í Evr­ópu hafa bankar ekki mikið verið að kaupa aðra banka og stækka þannig, þessi miss­er­in, og hingað til hefur ekki verið auð­velt að fá erlenda fjár­festa að íslenska banka­kerf­inu.

Þrátt fyrir að tví­hliða skrán­ing Arion banka, á Íslandi og í Sví­þjóð, hafi heppn­ast að mörgu leyti vel, þá er samt ljóst af þeirri reynslu að und­ir­búa þarf vel sölu á bönk­unum ef það á að gera það í gegnum skrán­ingu á mark­að, og það er ekki heldur auð­velt að selja of mikið í einu með þeim hætti, þar sem hætta er á því að það bitni á verð­inu. Mark­aðsvirði Arion banka hefur frá skrán­ingu verið tölu­vert fyrir neðan eigið fé, svo dæmi sé tek­ið, en það er nú um 150 millj­arðar en eigið féð var í árs­lok 200,9 millj­arðar króna.

Pól­tískt er því ekki mik­ill áhugi á því að losa um eign­ar­hluti rík­is­ins í þessum fyrr­nefndu fyr­ir­tækj­um, jafn­vel þó áhugi sé á því innan Sjálf­stæð­is­flokks­ins og Við­reisna, en áhug­inn er þó helst bund­inn við bank­anna.

Til þess að það geti orðið að veru­leika þarf sam­þykki ann­arra flokka til, og eins og mál standa nú er sala á eignum ekki á for­gangs­lista Mið­flokks­ins, Fram­sókn­ar­flokks­ins, Pírata, Sam­fylk­ing­ar­innar og Vinstri grænna.

Mun reyna á þanþol opinberra fjármála

Fjármálaráð hefur skila umsögn sinni um fjármálaáætlun 2020 til 2024, en í henni er farið yfir horfurnar í ríkisrekstrinum, útfrá tilteknum forsendum. Þrátt fyrir sterka stöðu ríkissjóðs, mun reynast nokkuð krefjandi að ná meginmarkmiðunum í fjármálaætlunarinnar, samkvæmt umsögn fjármálaráðs sem birtist fyrr í vikunni. Í því sitja Axel Hall, Ásgeir Brynjar Torfason, Gunnar Haraldsson og Þórhildur Hansdóttir Jetzek.

Þrjár grundvallarreglur eru fyrirliggjandi við gerð fjármálaáætlunar.

Afkomuregla: Að heildarjöfnuður yfir fimm ára tímabil sé ávallt jákvæður og árlegur halli ávallt undir 2,5% af vergri landsframleiðslu.

Skuldaregla: Að heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum séu lægri en nemur 30% af vergri landsframleiðslu.

Skuldalækkunarregla: Ef skuldahlutfallið er hærra en 30% af vergri landsframleiðslu skal sá hluti sem umfram er lækka að meðaltali á hverju þriggja ára tímabili um a.m.k. 5% (1/20).

Í umsögninni eru samandregnar ábendingar ráðsins.

Þær eru orðaðar svo:

Að venju tekur álit fjármálaráðs á mörgum þáttum framlagðrar fjármálaáætlunar. Hér verður stiklað á stóru um helstu ábendingar ráðsins, en bent á að fleiri ábendingar er að finna í einstökum köflum álitsins.

Samkvæmt lögum skal í fjármálaáætlun staðfest að hún sé í samræmi við gildandi fjármálastefnu. Samkvæmt framlagðri fjármálaáætlun næst afkomumarkmið stefnunnar fyrir opinbera aðila í heild ekki, þótt afkomumarkmið fyrir A-hluta ríkissjóðs og A-hluta sveitarfélaga náist.

Við breyttar aðstæður reynir á þanþol umgjarðar opinberra fjármála með öðrum hætti en áður. Núgildandi fjármálastefna byggir m.a. á efnahagsspá sem horfir fimm ár fram í tímann. Sú spá hefur að undanförnu ekki að öllu leyti gengið eftir. Spáð hefur verið minni hagvexti en reyndin varð á undanförnum árum sem einkennst hafa af kröftugum vexti. Af þeim sökum hafa tekjur hins opinbera verið meiri en gert var ráð fyrir í áætlunum og því ekki reynt á lögin um opinber fjármál hvað varðar afkomu. Nú virðist sem þessi þróun sé að einhverju leyti að snúast við á þann hátt að hagvöxturinn er minni en ráð var fyrir gert þótt óvissa um slíkt sé enn til staðar. Ætla má að við slíkar aðstæður reyni á aðra þætti í hagstjórninni en hingað til og að gæta verði meiri varfærni en áður.

Frekar reynir á bresti í verklagi hagstjórnar og áætlanagerðar við samdrátt en í efnahagsuppsveiflu. Þá er vert að hafa í huga að afleiðingar spáskekkju í líkönum þeim er liggja til grundvallar áætlanagerðinni eru ekki samhverfar vegna þess hvernig töluleg markmið eru sett fram. Þegar stefnumið stjórnvalda eru við gólf eða þök þá hafa spáskekkjur ólík áhrif eftir því hvort þær ofspá eða vanspá hagvexti.

Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja. Það er umhugsunarvert að eftir samfellt hagvaxtarskeið og á tíma þegar enn er gert ráð fyrir hagvexti til lengri tíma litið skuli stjórnvöld alltaf hafa verið í gólfi afkomumarkmiðs stefnu sinnar. Spennitreyjan, sem fjármálaráð hefur ítrekað varað við, hefur þannig raungerst. Sú staðreynd bendir til að varfærni hafi ekki verið höfð að leiðarljósi hvað varðar þennan hluta áætlana í opinberum rekstri. Einnig má ætla að framkvæmd áætlanagerðarinnar hafi leitt til þessarar niðurstöðu.

Óvissa mun alltaf verða til staðar í efnahagslífinu en í ljósi grunngildis um varfærni hefði mátt og mætti hafa meira borð fyrir báru hvað varðar áætlanir um afkomu hins opinbera í ljósi þeirra tölulegu markmiða sem fjármálastefnan kveður á um.

Fjölbreytt efnahags- og atvinnulíf er stöðugra og minna útsett fyrir sveiflum en einhæfari hagkerfi. Því ber að fagna áætluðum aðgerðum sem ætlað er að efla fjölbreytileikann og renna fleiri stoðum undir efnahagslífið. Það er á margan hátt eftirsóknarvert út frá efnahagslegu tilliti að draga úr sveiflum. Möguleikar stjórnvalda til sveiflujöfnunar eru ýmsir, en varasamt er að treysta um of á sveiflujöfnunarmátt opinberra fjármála umfram virkni sjálfvirkra sveiflujafnara. Stjórnvöld ættu að huga að því að efla þá frekar en veikja.

Þá er samræming fjármálastjórnar hins opinbera og peningastjórnar ekki síður mikilvæg. Slíkt verður ekki gert nema með auknu samtali og samráði að teknu tilliti til takmarkana þeirra stjórntækja sem til staðar eru og samspili þeirra. Tilhneiging virðist vera til að útgjalda- og tekjuráðstafanir séu framhlaðnar í tíma en markmið til lengri tíma séu framreikningur frekar en afleiðingar stefnu og ákvarðana. Þetta verður að skoða í ljósi þess hvernig áætlanir taka mið af hagspá og hvernig hagspár til lengri tíma leita í langtímajafnvægi.

Við þetta má bæta að svo virðist sem að í áætlunum sé almennt gefið eftir í aðhaldi til skamms tíma en til lengri tíma sé aðhaldið aukið. Sá tímapunktur getur legið utan tímabils gildandi fjármálastefnu þegar aðhald hennar er ekki til staðar.

Í framlagðri fjármálaáætlun ríkir ekki nægilegt gagnsæi varðandi þær breytingar á tekju- og útgjaldaráðstöfunum sem átt hafa sér stað milli áætlana og þær settar í samhengi við boðuð áform stjórnvalda. Boðuð áform og áherslur eru víða í texta áætlunarinnar en tenging þeirra við tölur í töflum mætti vera skýrari. Í áliti þessu er gerð grein fyrir ýmsum brestum í verklagi og framsetningu. Séu þeir tilkomnir vegna tímaskorts kallar það á að rýmri tími sé gefinn til verksins.

Opinber útgjöld hafa aukist, en umfang þeirrar aukningar er álitmál. Það að staðvirða upphæðir opinberra útgjalda með vísitölu neysluverðs getur gefið aðra mynd en ef aðrar verðvísitölur eru notaðar við samanburð upphæða og þróun þeirra yfir tíma. Þá skiptir máli að huga að samspili launaþróunar og framleiðni annars vegar og almennri launaþróun hins vegar. Til að tryggja sjálfbærni í launaþróun er nauðsynlegt að breytingar í framleiðni leiði launaþróun til lengri tíma litið í stað höfrungahlaups launahækkana milli ólíkra aðila á vinnumarkaði.

Skuldir hins opinbera eru komnar undir þau mörk sem tiltekin eru í skuldareglu laga um opinber fjármál. Skuldahlutfall hins opinbera er nokkuð undir stefnumiði gildandi fjármálastefnu og ef svo fer fram sem horfir er stutt í að það nái lokastefnumiði fjármálastefnunnar. Áætlanir stjórnvalda um skuldaþróun á tímabili áætlunarinnar, sem nær tvö ár út fyrir gildistíma fjármálastefnunnar, eru háðar mikilli óvissu vegna þess hve þróunin ræðst af efnahagsframvindunni.

Samvinna ríkis og sveitarfélaga varðandi áætlanagerð opinberra fjármála hefur aukist en áætlanir varðandi afkomu sveitarfélaganna hafa ekki gengið eftir sem skyldi. Stjórnvöld hafa boðað að verið sé að móta fjárhagslíkan til að meta afkomu og áætlanir sveitarfélaga og opinberra fyrirtækja. Miklu skiptir að sú vinna þróist áfram og skili sér í gagnsærri og traustari áætlanagerð en nú er. Aukið samráð og samtal opinberra aðila þarf til að tryggja samfellu í áætlunum og aðgerðum.

Þá er mikilvægt að fram fari mat á fjárfestingarþörf opinberra aðila og gefin verði forskrift um hvernig forgangsröðun þeirra skuli háttað. Gildir það jafnt um ríki, sveitarfélög og fyrirtæki í þeirra eigu.

Nýjar aðstæður kalla á nýjar áskoranir. Þegar óvissa eykst er aðkallandi að sýna varfærni og gagnsæi í áætlanagerð sem leiðir til festu. Opinskátt þarf að fjalla um þær áskoranir sem staðið er frammi fyrir og veikleikana, séu þeir einhverjir. Þegar stefnumið setja ákvörðunum stjórnvalda skorður er mikilvægt að gagnsæi sé viðhaft varðandi áform stjórnvalda í hagstjórn og að óvænt framvinda leiði ekki til þess að festu í stefnu og áætlunum sé kastað fyrir róða. Það er mjög til bóta að í framlagðri fjármálaáætlun er lögð fram fráviksspá.

Slíkt eykur gagnsæi auk þess sem það stuðlar að stöðugleika og festu áætlana. Sama á við um rammagreinar þar sem fjallað er um afmörkuð atriði. Engu að síður er mikilvægt að niðurstöður slíkra greininga séu ekki einungis til upplýsingar heldur þurfa þær að hafa áhrif á áætlanagerðina. Umfjöllun um slíkt verður að vera gagnsæ í áætluninni. Þá mætti beita næmnigreiningum í ríkari mæli til að slá máli á áhrif óvissu undirliggjandi þátta í greiningunum á niðurstöður þeirra.

Grunngildi þau er birtast í lögum um opinber fjármál eru leiðarstef í stefnumótun og áætlunum stjórnvalda. Þau eru í eðli sínu opin og túlkun þeirra þarf ekki endilega að vera greypt í stein í öllum tilfellum heldur getur hún breyst eftir aðstæðum og yfir tíma. Reynslan hefur sýnt að oft styðja grunngildin hvert annað en þau geta líka rekist á og stundum þarf að feta einstigi á milli þeirra og leggja meiri áherslu á sum en önnur, allt eftir því hvernig aðstæður breytast. Af þessum sökum er nauðsynlegt að vinna stöðugt með grunngildin og hlúa að þeim.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar