Keahótel hafa ekki hug á því að koma að fjárfestingu í endurreistu WOW air. Fulltrúi félagsins, sem í 75 prósent eigu dótturfélaga bandaríska eignastýrtingafyrirtækisins Pt Capital, var á meðal hóps manna sem funduðu með Skúla Mogensen og Arctica Finance, ráðgjafa Skúla, fyrir viku síðan á skrifstofu Arctica Finance en sá fundur var haldinn að undirlagi þeirra síðastnefndu. Um var að ræða upplýsingafund.
Hugh Short, forstjóri Pt Capital setti hins vegar færslu á LinkedIn-síðu sína í gær þar sem hann sagði að fyrirtækið væri ekki í viðræðum um að endurreisa WOW air. Fréttir íslenskra miðla af því um helgina væru rangar. Þar vísar hann til fréttar sem sögð var á RÚV í gær, og tekin upp af nokkrum öðrum íslenskum miðlum, um fundarhöld milli Skúla og fulltrúa Keahótela. Hana er hægt að lesa hér.
Pt Capital á hlut í tveimur fyrirtækjum á Íslandi. Annars vegar á það hlut í fjarskiptafyrirtækinu Nova og hins vegar 75 prósent hlut í Keahótelum sem keyptur var í gegnum dótturfélög á 5,5 milljarða króna sumarið 2017. Þetta eignastýringarfyrirtæki með höfuðstöðvar í Alaska á því ýmislegt undir því að vel gangi hérlendis.
Tilgangur fundarins var að reyna að koma saman hópi sem gæti komið að því að fjárfesta í endurreisn WOW air. Þeim sem á hann var boðið gerðu slíkt án nokkurra skuldbindinga um þátttöku í þeirri endurreisn.
Vilja endurreisa WOW air
Á meðan að WOW air lifði var mikið reynt að fá flesta þá erlendu fjárfesta sem eiga eitthvað undir á Íslandi til að koma að björgun flugfélagsins, sérstaklega eftir að Icelandair sleit viðræðum um kaup á WOW air sunnudaginn 24. mars síðastliðinn. Þær umleitanir voru meðal annars á vegum Arion banka, eins stærsta kröfuhafa WOW air.
Það skilaði ekki árangri og á endanum fór WOW air í þrot fimmtudaginn 28. mars 2019. Fljótlega eftir að gjaldþrotið var staðfest spurðist út að Skúli Mogensen, stofnandi, eigandi og forstjóri WOW air, væri að vinna að endurreisn flugfélagsins.
Í viðskiptaáætlun sem er dagsett 3. apríl, og hefur verið dreift víða innan íslensks viðskiptalífs í von um að einhverjir með fjármuni á milli handanna hafi áhuga á að taka þátt í verkefninu, sem stýrt ef af Skúla og nokkrum fyrrverandi lykilstjórnendum WOW air, er rakið hvað myndi felast í slíkri endurreisn og það sem aflaga fór síðast með þeim afleiðingum að WOW air fór í þrot.
Upprunalega á að gera þetta með því að nota fimm Airbus-vélar en strax á næsta ári á þeim að fjölga í sjö og svo í tíu vorið 2021. Samkvæmt áætlun á hið nýja WOW air að geta flutt tæplega 600 þúsund farþega á síðari helming þessa árs, um 1,5 milljónir á næsta ári og rúmlega tvær milljónir árið 2021. Til samanburðar flutti WOW air 3,5 milljónir farþegar í fyrra.
Vantar tæpa fimm milljarða
Til þess að láta þessa hugmynd ganga upp þá hafa Skúli og teymið hans, ásamt fulltrúum frá Arctica Finance, verið að funda með fjölmörgum fjárfestum síðustu vikurnar. Þeim vantar nefnilega 40 milljónir dali, um 4,8 milljarða króna, til að láta dæmið ganga upp. Ef einhver er tilbúinn að leggja þeim til það fé eru Skúli og lykilstjórnendurnir tilbúnir að láta viðkomandi eftir 49 prósent í endurreistu flugfélagi á móti 51 prósent hlut Skúla og hópsins í kringum hann. Sá hópur skuldbindur sig líka til að taka á sig 30 prósent launalækkun frá því sem áður var. Væntanlegir fjárfestar fá einnig svokallaðan „fyrstur inn, fyrstur út“ fyrirvara, sem þýðir að þeir fá fjárfestingu sína endurgreidda að fullu áður en að hlutafénu verður skipt upp milli þeirra og WOW-hópsins.
Stór hluti kynningarinnar, sem Kjarninn hefur undir höndum, snýst um að tíunda þau mistök sem WOW air gerði síðustu árin í rekstri sínum og skiluðu því að rekstrartap félagsins var 176 milljónir dala í fyrra, eða um 21,1 milljarður króna á gengi dagsins í dag.
Auk þess kemur fram í henni að ef áætlunin gangi eftir þá verði hægt að tryggja fjárfestum útgönguleið innan þriggja ára, mögulega í gegnum hlutafjárútboð.
Viðmælendur Kjarnans úr fjármálageiranum segja að endurreisnin þurfi helst að klárast fyrir páska ef hún á að eiga einhverja von. Mun minni líkur séu á því en meiri að svo verði og að þær líkur versni með hverjum deginum.