Skráð hlutafé Arion banka verður lækkað um 186 milljón hluti frá og með morgundeginum, 17. apríl. Um er að ræða 9,3 prósent af útgefnu hlutafé í bankanum sem er í eigu hans sjálfs sem stendur. Virði þess hlutar, miðað við gengi bréfa í Arion banka í dag, er um 14,2 milljarðar króna.
Eftir breytinguna mun útgefið hlutafé í Arion banka ekki lengur vera tvær milljónir hlutir heldur 1.814 milljónir hlutir. Það þýðir að hlutfallsleg eign annarra hluthafa eykst. Eftir breytinguna mun Kaupþing ehf., sem í dag á 18,14 prósent hlut í bankanum, til dæmis eiga 20 prósent hlut og Taconic Capital, næst stærsti eigandinn, sjá hlutfallslega eign sína fara úr 14,5 prósentum í 16 prósent. Stoðir, stærsti innlendi fjárfestirinn í Arion banka sem bætti verulegum eignarhlut við sig í síðustu viku, fer úr 4,2 prósent eignarhlut í 4,6 prósent.
Átti 200 milljarða í eigið fé
Lækkunin á hlutafé Arion banka var samþykkt á aðalfundi hans sem fram fór 20. mars síðastliðinn. Á þeim sama fundi var Brynjólfur Bjarnason kjörinn stjórnarformaður bankans og tók við þeirri stöðu af Evu Cederbalk. Á sama aðalfundi var samþykkt að greiða út tíu milljarða króna í arð vegna síðasta árs þrátt fyrir að hagnaður á árinu 2018 hafi einungis verið 7,8 milljarðar króna, um helmingur þess sem hann var árið áður.
Lækkar eigið fé til að ná upp arðsemi
Ekkert af ofangreindu ætti að koma á óvart. Í aðdraganda þess að Arion banki var skráður á markað í fyrra var birt tilkynning um að bankinn ætlaði sér að vera með arðsemi eigin fjár sem sé yfir tíu prósent. Hann var fjarri því í fyrra þegar arðsemi eigin fjár hans var einungis 3,7 prósent samanborið við 6,6 prósent árið áður.
Til að ná þessu markmiði þurfti að breyta fjármögnun bankans mjög með því að greiða út eigin fé og sækja víkjandi lán. Þær aðferðir myndu minnka eiginfjárhlutfall bankans umtalsvert og gera hlutfallslega arðsemi auðveldari. Arion banki gaf út víkjandi skuldabréf í nóvember í fyrra og í tilkynningu vegna þess kom fram að sú útgáfa, upp á 500 milljónir sænskra króna, væri „áfangi í vegferð hans að ná fram hagkvæmari skipan eiginfjár.“ Í febrúar gaf Arion banki svo út víkjandi skuldabréf í evrum upp á fimm milljónir evra í sama tilgangi.
Bankastjórinn hætti og miklar breytingar á eignarhaldi
Miklar hræringar hafa verið innan Arion banka undanfarnar vikur og mánuði. Höskuldur H. Ólafsson, sem hefur verið bankastjóri í níu ár, tilkynnti skyndilega að hann væri að hætta 12. apríl síðastliðinn. Höskuldur hefur neitað því að hann hafi verið rekinn eða að það hafi verið þrýst á hann að hætta. Arion banki hefur verið í sviðsljósinu vegna þess að þrír stórir viðskiptavinir sem bankinn hafði lánað fé höfðu ratað í þrot á skömmum tíma með tilheyrandi útlánatöpum. Um er að ræða United Silicon, Primera Air og WOW air.
Í vikunni áður en Höskuldur tilkynnti um afsögn sína ákvað Kaupþing ehf., stærsti eigandi bankans, að selja tíu prósent hlut í honum í lokuðu útboði. Stoðir, sem einu sinni hétu FL Group, keyptu stóran hluta af því hlutafé auk þess sem Íslandsbanki keypti umtalsverðan hlut fyrir viðskiptavini sína í framvirkum samningum.
Til viðbótar við þessi tíu prósent seldi Kaupþing ehf., félag utan um eftirstandandi eignir þrotabús bankans sem féll með látum í október 2008, einnig fimm prósent hlut til vogunarsjóðsins Taconic Capital á 6,5 milljarða króna.