Þjóðskrá mun í nánustu framtíð fara fram á það að þeir sem flytja af landi brott verði látnir veita upplýsingar um hver menntun þeirra er. Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur fundað með forsvarsmönnum Hagstofu Íslands um að halda utan um og vinna úr þeim upplýsingum.
Fleiri Íslendingar fluttu frá Íslandi á síðasta ári en komu aftur heim. Brottfluttir íslenskir ríkisborgarar voru 65 fleiri en þeir sem fluttu til landsins, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Það gerðist þrátt fyrir gott árferði, nær ekkert atvinnuleysi, stóraukinn kaupmátt og fordæmalausa efnahagslega stöðu þjóðarbúsins. Alls fluttu 2.738 Íslendingar til landsins á árinu 2018 en 2.803 frá því.
Frá árinu 2008, þegar bankahrunið varð, hefur það einungis gerst einu sinni að fleiri Íslendingar flytji heim en burt innan almanaksárs. Það gerðist 2017 þegar 352 fleiri flutti til landsins en frá því. Í fyrra snerist sú þróun aftur við.
Getgátur um hverjir fari
Í nóvember 2015 birtist viðtal við Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu, í kjölfar þess að blaðið hafði fjallað um neikvæðan flutningsjöfnuð á meðal íslenskra ríkisborgara á fyrstu níu mánuðum þess árs.
Hann sagði að það virtist eitthvað djúpstæðara á ferðinni en vanalega og að vísbendingar væru um að margt háskólafólk flytti úr landi. Batinn á vinnumarkaði, sem átt hefði sér stað á undanförnum árum, hefði ekki skilað sér til menntaðs fólks nema að takmörkuðu leyti. Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, sagði svipaða sögu við Morgunblaðið. Vísbendingar væru um að margir finni ekki atvinnu sem henti námi þeirra og bakgrunni.
Þess vegna væru vísbendingar uppi um svokallaðan spekileka. Þ.e. að vel menntað fólk frá Íslandi, sem íslenska ríkið hefði fjárfest verulega í með fjárframlögum til menntunar, væri að fara frá landinu þrátt fyrir að efnahagslífið væri á fleygiferð upp á við. Ísland væri einfaldlega ekki að búa til réttu störfin sem unga fólkið okkar væri að mennta sig fyrir.
Fólks sem sættir sig ekki við góðar fréttir
Þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, og aðstoðarmenn hans héldu því fram í opinberri umræðu að það væri rangt að fjöldi brottfluttra væri óeðlilega mikill.
Forsætisráðherrann fyrrverandi gerði málið m.a. að umtalsefni í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu og sagði hlutfall brottfluttra undir 40 ára á árinu 2015 lágt í samanburði við liðin ár og áratugi. Það væri afmarkaður en hávær hópur fólks, sem ætti erfitt að sætta sig við góðar fréttir, sem héldi hinu gagnstæða fram. Jákvæð þróun veki hjá hópnum gremju, hún sé litin hornauga og tortryggð á allan mögulegan hátt. Þetta sé sá hópur fólks sem getur ekki sætt sig við að jákvæðir hlutir gerist ef þeir gerast ekki í krafti hinnar einu „réttu“ hugmyndafræði.
Í byrjun janúar 2016 birti Alþýðusamband Íslands (ASÍ) greiningu á brott- og aðflutningi til Íslands síðustu 50 árin. Þar kom fram að þrátt fyrir bætt efnahagsleg skilyrði hefur brottflutningur íslenskra ríkisborgara frá Íslandi aukist árin á undan. Fleiri Íslendingar flyttu frá landinu en til þess.
Frá árinu 1961 hafa verið átta tímabil þar sem brottflutningur á hverju ári hefur verið yfir meðaltali áranna 1961 til 2015. Sjö þeirra tímabila hafa verið í tengslum við öfgar í efnahagslífi þjóðarinnar á borð við brotthvarf síldarinnar, mikla verðbólgu eða hátt atvinnuleysi.
Ráðherra kallar eftir gögnum til að byggja umræðuna á
Þrátt fyrir að tekist hafi verið á um það hvort að spekileki væri að eiga sér stað, og að þau átök byggðu fyrst og síðast á getgátum, þá hefur ekki verið ráðist í að safna upplýsingum um menntunarstig þeirra sem flytja burt. Það er fyrr en nú.
Lilja D. Alfreðsdóttir var gestur í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í mars þar sem hún ræddi meðal annars áform um nýtt stuðningskerfi fyrir námsmenn.
Þar sagði Lilja að leiðarljósið í því kerfi yrði í fyrsta lagi að fólk geti sótt sér nám óháð efnahag og búsetu og í öðru lagi að Ísland sé með þannig stuðningskerfi að það sé samanburðarhæft við hin Norðurlöndin.
Hún bætti við að verið væri að vinna í því að meta hver staðan væri á aðfluttum og brottfluttum frá landinu út frá menntunarstigi. „Ég hef kallað eftir þessu meðal annars til þess að byggja grunninn að þessu nýja kerfi sem við erum að fara að kynna.“