Raunverð fasteigna hefur nær alveg staðið í stað á undanförnu ári en hækkunin nemur 1,3 prósent á undanförnum tólf mánuðum, sé horft til stöðunnar eins og hún var í þessum mánuði.
Dramatísk breyting hefur orðið á verðþróun fasteigna á undanförnum tveimur árum, en raunverðshækkunin mældist 23,5 prósent vorið 2017. Það var þá mesta árshækkun í heiminum, og skákaði höfuðborgarsvæðið þar hávaxtarsvæðum eins og Seattle og San Francisco.
Allt annað er uppi á teningnum núna og gera flestar spár greinenda ráð fyrir að fasteignaverð muni annað hvort hækka lítið sem ekkert á næstu tólf mánuðum, eða lækka.
Fimm atriði má sérstaklega telja til, sem sýna að breytt staða er nú uppi á markaðnum.
1. Framboð af húsnæði er að aukast hratt. Á undanförnum árum hefur framboðsskortur verið mikið vandamál, þar sem sár skortur hefur verið á íbúðum, ekki síst litlum og á meðalstórum, á sama tíma og eftirspurn jókst stöðugt. Búast má við því að um 5 þúsund nýjar íbúðir komi út á fasteignamarkaðinn á næstu 18 til 24 mánuðum.
2. Kólnandi hagkerfi. Eftir fall WOW air má segja að nýtt skeið hafi hafist í íslenska hagkerfinu, þar sem sókn var snúið í vörn. Til skamms tíma virðist augljóst að mun meiri slaki er í íslenska hagkerfinu heldur en verið hefur á undanförnum árum. Hagvöxtur á þessu ári verður hóflegur, á bilinu 1 til 2 prósent, samkvæmt flestum spám, en þær svartsýnustu gera þó ráð fyrir lítilsháttar samdrætti.
3. Atvinnulausum hefur fjölgað nokkuð að undanförnu, en atvinnuleysi er þó enn lítið í sögulegu samhengi og alþjóðlegum samanburði. Samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar var fjöldi fólks á vinnumarkaði 210.900 í mars 2019. Árstíðarleiðrétt atvinnuþátttaka var 82,7 prósent, sem er 1,9 prósentustigi meira en í febrúar. Samkvæmt árstíðaleiðréttingu voru atvinnulausir 6.200 í mars, eða 2,9 prósent.
4. Mikilvægur þáttur í því að halda uppi hagvexti á undanförnum árum hefur verið framlag innflytjenda. Á undanförnum fjórum árum hafa þeir verið um 75 prósent af nýjum skattgreiðendum á vinnumarkaði, en þeir hafa ekki síst komið til starfa í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Nú er annað uppi á teningnum. Færri eru farnir að koma til landsins að vinna en áður. Það getur svo leitt til þess að minni eftirspurn verði á fasteignamarkaði frá þessum hópi, en sá mikli straumur vinnandi fólks erlendis frá, sem verið hefur á undanförnum árum, hefur haft mikil áhrif á eftirspurn eftir íbúðum, eins og gefur að skilja.
5. Sé litið yfir íslenska hagsögu þá hefur alltaf verið mikil fylgni á milli þróun fasteignaverðs og kaupmáttar launa. Nýlega samþykktir Lífskjarasamningar gera ráð fyrir hóflegum launahækkunum á næstu árum, en mestar verða hækkanirnar hjá þeim sem hafa lægstu launin, það er undir 400 þúsund á mánuði, þar sem ákveðið var að einblína á krónutöluhækkanir. Horfur á markaðnum munu alltaf fara mikið eftir því hvernig laun og kaupmáttur launa þróast. Þar hefur verðbólga mikil áhrif, en hún mælist 2,9 prósent þessi misserin og benda spár til þess að hún aukist á næstu misserum, ekki síst vegna hækkandi flugfargjalda.
Fleiri þættir geta einnig komið til, sem hafa áhrif á horfur á fasteignamarkaðnum. Þar á meðal hvernig vaxtakjör þróast, bæði hjá fjármálstofnunum og lífeyrissjóðum, sem hafa í vaxandi mæli tekið til sín hlutverk lánveitanda í fasteignaviðskiptum.