Í nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands, sem birt var í morgun, er því spáð að verg landsframleiðsla dragist saman um 0,2 prósent í ár. Það er umtalsverð breyting frá síðustu spá stofnunarinnar, sem birtist í febrúar, og gerði ráð fyrir 1,7 prósent hagvexti á árinu 2019.
Gangi spáin eftir er það staðfest að Ísland er að lenda eftir mikið efnahagslegt háflug undanfarinnar ára.
Íslenskt hagkerfi hefur gengið í gegnum eitt sitt lengsta hagvaxtarskeið í sögunni á undanförnum árum. Mikill og stöðugur hagvöxtur hefur verið á hverju ári frá árinu 2011. Mestur varð hann árið 2016 þegar landsframleiðsla jókst um 6,6 prósent á einu ári.
Í fyrra var hagvöxturinn 4,6 prósent og viðsnúningurinn á milli ára því 4,8 prósentustig. Síðast þegar hagvöxtur dróst saman á Íslandi var á árunum 2009 (-6,8 prósent) og 2010 (-3,4 prósent).
Spáin gerir ráð fyrir því að Ísland nái sér aftur á strik strax á næsta ári og að hagvöxtur þá verði 2,6 prósent.
WOW air og loðnubrestur
Meginástæða þess að hér verður samdráttur í ár er vegna þess að útflutningur mun dragast saman um 2,5 prósent milli ára, samkvæmt spánni.
Í henni segir að útflutningshorfur hafi enda versnað umtalsvert með gjaldþroti WOW air og staðfestingu á því að enginn loðnukvóti verði fyrir fiskveiðiárið. Reikna má með að framboðsskellurinn í þjónustuútflutningi verði tímabundinn þar sem gert er ráð fyrir að enn sé eftirspurn eftir Íslandi sem áfangastað ferðamanna. Reiknað er með hóflegum bata útflutnings á næstu árum og er útlit fyrir 2,5 prósent vöxt á næsta ári.“
Vænta má þess, samkvæmt spánni, að einkaneysla dragist saman milli ára og að vöxtur hennar verði 2,4 prósent í ár.
Þá er búist við því að fjárfesting dragist saman um 5,7 prósent á árinu, aðallega vegna samdráttar í fjárfestingu á skipum og flugvélum, en að áfram verði mikill og kröftugur vöxtur í íbúðarfjárfestingu sem reiknað er með að aukist um 16,2 prósent milli ára.
Vert er þó að taka fram að hlutfall fjárfestinga af landsframleiðslu á árinu 2018 var 22,2 prósent á árinu 2018, og hafði ekki verið jafn hátt síðan á árinu 2008, eða fyrir bankahrun.
Meiri verðbólga og aukið atvinnuleysi
Hagstofan gerir ráð fyrir því að verðbólga muni verða meiri næstu misserinn en hún hefur verið undanfarin ár. Verðbólga hérlendis mældist enda undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands frá febrúar 2014 og fram á haustmánuði 2018, og hefur haldist í kringum þrjú prósent síðan þá. Hún mælist nú 3,3 prósent.
Hagstofan gerir ráð fyrir því að verðbólgan verði á þeim slóðum á þessu ári og að ársmeðaltal hennar verði 3,4 prósent, en 3,2 prósent á árinu 2020. Eftir þann tíma er búist við því að verðbólgan nálgist verðbólgumarkmiðið aftur.
Samkvæmt spánni mun spenna á vinnumarkaði minnka og atvinnuleysi aukast á þessu ári, aðallega vegna gjaldþrots WOW air og áhrifa þess á þjónustuútflutning. „Áætlað er að hægja muni á innflutningi erlends vinnuafls næstu árin vegna minni efnahagsumsvifa. Atvinnuleysi var 3 prósent að meðaltali á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar, en áætlað er að yfir 1.600 manns hafi orðið atvinnulausir í lok mars. Búist er við því að atvinnuleysi verði um 3,7 prósent að meðaltali í ár og 3,8 prósent árið 2020.“
Kaupmáttur heldur áfram að aukast
Í þjóðhagsspánni er fjallað um kjarasamninga launþega á almennum vinnumarkaði, sem voru samþykktir í apríl, og áhrif þeirra á spánna. Þar segir að niðurstöður samninganna gefi til kynna að launaþróun á spátímabilinu í heild verði í meginatriðum í samræmi við síðustu þjóðhagsspá. „Laun verða hækkuð um fasta krónutölu til að jafna hlut launþega og á þeim forsendum að hófsamar launahækkanir muni stuðla að auknum verðstöðugleika og lægra vaxtastigi til að viðhalda raunhækkun launa.“
Það megi því búast við að kaupmáttur launa hækki um 2,1 prósent á þessu ári, um 2,2 prósent árið 2020 og 3,2 prósent árið 2021.
Samningar fjörutíu og fimm félaga opinberra starfsmanna losnuðu í byrjun apríl. Í þjóðhagsspánni er gert ráð fyrir að launahækkanir þeirra verði í takt við þær línur sem lagðar eru í fjármálaáætlun hins opinbera sem lögð var fyrir Alþingi í mars síðastliðnum.