Mikill kostnaður vegna starfsloka framkvæmdastjóra, gjaldþrot WOW air, kjarasamningar, óhagstætt gengi og söluhagnaður vegna sameiningar dótturfélags eru allt þættir sem hafa mikil áhrif á uppgjör fjarskipta- og fjölmiðlafélagsins Sýnar fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins.
Uppgjörið var birt í Kauphöll Íslands í dag.
Hagnaður Sýnar nam 670 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi, sem er hækkun um 619 milljónir króna milli ára. Lykilástæða þess að Sýn skilaði hagnaði á ársfjórðungnum er vegna þess að bókfærður söluhagnaður vegna samruna P/F Hey, dótturfélags Sýnar hf. í Færeyjum og Nema, dótturfélag Tjaldurs, gekk í gegn á fjórðungnum og er 49,9 prósent hlutur Sýnar hf. í nýju sameinuðu félagi færður samkvæmt hlutdeildaraðferð og því ekki hluti af samstæðureikningsskilum Sýnar hf. frá byrjun þessa árs. Alls nemur bókfærður söluhagnaður vegna þessa 817 milljónum króna. Án hans hefði verið tap á rekstri Sýnar á ársfjórðungnum.
Tekjur Sýnar samanstanda úr nokkrum stoðum. Sú eina þeirra sem skilaði meiri tekjum í ár en á sama ársfjórðungi 2018 var sala á internetþjónustu. Tekjur vegna fjölmiðlunar, farsíma, fastlínu og vörusölu drógust allar saman.
Í fjárfestakynningu Sýnar vegna uppgjörsins kemur fram að óhagstæð þróun gengis hafi haft neikvæð áhrif á uppgjörið miðað við sama tímabil í fyrra. Þá hafi gjaldþrot WOW air og kjarasamningar haft neikvæð áhrif á auglýsingatekjur á ársfjórðungnum.
Kostaði 137 milljónir að skipta um stjórnendur
Miklar sviptingar hafa verið hjá Sýn undanfarin misseri, en kaupin á fjölmiðlunum hafa ekki skilað þeim árangri sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Hagnaður félagsins í fyrra var til að mynda 473 milljónir króna, sem var langt undir væntingum. Ekkert félag í Kauphöllinni lækkaði meira í virði en Sýn á síðasta ári, en virði bréfa þess fór niður um 38,3 prósent.
Þá misstu fjölmiðlar Sýn réttinn af einni af sínum vinsælustu vörum, Enska boltanum, í lok árs í fyrra og færast sýningar á honum yfir til Símans frá og með næsta hausti.
Þrír stjórnendur Sýnar hafa verið látnir fara á þessu ári. Í lok febrúar, rúmum tveimur mínútum eftir að uppgjör félagsins vegna ársins 2018 var birt, barst tilkynning um að Stefán Sigurðsson, forstjóri félagsins, hefði náð samkomulagi um að hætta störfum.
Í byrjun árs voru tveir aðrir reknir, þar á meðal Björn Víglundsson, sem var yfir miðlum félagsins. Hans hlutverk hafði sérstaklega verið að leiða samþættingu fjölmiðlahluta Sýnar við aðrar einingar Fjarskipta og vinna að vöruþróun.
Í ársuppgjörinu kemur fram að áhrif starfsloka stjórnenda hjá Sýn á fyrsta ársfjórðungi hafi numið 137 milljónum króna.
Nokkrum dögum síðar var greint frá því að Þórhallur Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Kastljóss, hefði verið ráðinn sem framkvæmdastjóra Miðla hjá fyrirtækinu. Hann tekur við starfinu 22. maí næstkomandi en undir sviðið heyra meðal annars fjölmiðlarnir Stöð 2, Stöð 2 sport og útvarpsstöðvarnar Bylgjan, FM957 og Xið977 auk Vísis.
Á sama tíma var Signý Magnúsdóttir ráðin fjármálastjóri Sýnar frá og með 1. júní næstkomandi.
Ítarleg kynning á stefnumótun í næsta uppgjöri
Í fjárfestakynningu félagsins kemur fram að nýtt ferli sé hafið í stefnumótum hjá Sýn og að því verði lokið snemma sumars. Von er á ítarlegri kynningu á þeirri stefnumótun í milliuppgjöri félagsins.
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, segir að þeir sem nú komi inn í framkvæmdastjórn Sýnar hafi unnið áður sem ráðgjafar fyrir félagið og þekki það vel sem gerir það að verkum að þeir þurfi ekki tíma til aðlögunar. „Ég tel félagið einstaklega heppið með samsetningu hinnar nýju framkvæmdastjórnar og hlakka til að taka slaginn á markaði með þessum úrvalshópi. Félagið mun klára stefnumótun og skerpa á rekstrinum strax í júní. Við ætlum að veita viðskiptavinum okkur úrvals þjónustu og vera í fararbroddi með nýjungar. Vegna árstíðasveiflu í rekstri verða næstu fjórðungar ársins betri. Við erum enn vissari um að horfur ársins náist og horfum björtum augum fram á við."