Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um lækka meginvexti bankans úr 4,5 prósent í 4 prósent kom fjárfestum ekki mikið á óvart, en greinendur höfðu spáð því að lækkunin yrði ýmist um 0,25 prósentur eða 0,5 prósentur, eins og varð raunin.
Verðbólga mælist nú 3,3 prósent, en í máli Más Guðmundssonar seðlabanakstjóra, á kynningarfundi vaxtaákvörðunarinnar, kom fram að erlendir seðlabankar hafi í gegnum tíðina getað sveiflað sínum raunstýrivöxtum meira en raunin hefur verið hér á landi en staðan nú væri breytt miðað við það sem áður hefur verið.
Þannig hafa raunvextir oft verið neikvæðir, tímabundið, á erlendum mörkuðum. Greiningardeild Arion banka, sem spáði lækkun meginvaxta niður í 4 prósent, segir í greiningu sinni á vaxtaákvörðuninni að túlka megi orð Más um vaxtahorfurnar á þá leið, að vextir gætu lækkað enn meira. „Því má túlka orð bankastjórans á þá leið að þegar verðbólguvæntingar eru tryggari, þá geta seðlabankar brugðist við efnahagsþrengingum með vaxtalækkunum sem jafnvel leiða til neikvæðra stýrivaxta. Það gæti orðið raunin nú þó full snemmt sé að svara þeirri spurningu. Aftur á móti ef krónan helst stöðug, efnahagsumsvif minnka, verðbólga fer ekki úr böndunum og kjölfesta verðbólguvæntinga heldur, þykir okkur alls ekki ólíklegt að sjá tímabundið neikvæða raunstýrivexti,“ segir í greiningunni.
Erfiðleikar eftir uppgang
Í Peningamálum Seðlabanka Íslands birtist allt önnur mynd af stöðu mála í hagkerfinu en hefur verið uppi undanfarin ár. Samkvæmt bráðabirgartölum Hagstofu Íslands var hagvöxtur í fyrra 4,6 prósen, en spá Seðlabankans nú gerir ráð fyrir að samdráttur verði í landsframleiðslu um 0,4 prósent.
Ástæðan er fyrst og fremst almennur efnahagslegur samdráttur eftir fall WOW air og samdrátt í ferðaþjónustu, en gert er ráð fyrir því í spánni sem birtist í Peningamálum að ferðamönnum muni fækka um 10 prósent á þessu ári, miðað við í fyrra. Það er nokkuð minni samdráttur en aðrir greinendur á markaði hafa reiknað með, en spár hafa gert ráð fyrir á bilinu 15 til 18 prósent samdrætti á þessu ári.
Útlit er fyrir að árið 2019 verði tímamótaár í einu tilliti. Ef spár ganga eftir þá verður í fyrsta skipti frá árinu 2006 samdráttur í útflutningi. Samdrátturinn verður um 3,7 prósent, samkvæmt spá bankans.
Það er ekki aðeins samdráttur í ferðaþjónustu heldur einnig í sjávarútvegi, þar sem loðnubrestur vegur þungt. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hefur verðmæti loðnuafla verið á bilinu 18 til 30 milljarðar á ári, á undanförnum áratug.
Spáin gerir einnig ráð fyrir að atvinnuleysi fari vaxandi á næstunni og að störfum fækki í hagkerfinu á næstu mánuðum. Í ítarlegri kynningu Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands, var farið yfir helstu atriði, sem til umfjöllunar eru í Peningamálum, sem komu út í dag.