Það gengur á með kosningum í Danmörku. Þar fara kosningar til Evrópuþingsins fram í dag, 26. maí, og þingkosningar 5. júní. Evrópuþingskosningarnar voru löngu ákveðnar en Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra dró það fram á síðustu stundu að boða til þingkosninganna. Fyrir fjórum árum var kjördagurinn 18. júní og lögum samkvæmt yrðu kosningarnar nú að fara fram eigi síðar 17. júní. Ástæða þess að forsætisráðherrann dró svo lengi að ákveða, og tilkynna, kjördag er vafalítið sú að flokkur ráðherrans, Venstre, hefur um langa hríð komið illa út úr skoðanakönnunum. Það er alþekkt í Danmörku, og víðar, að sá sem hefur vald til að ákveða kjördag vill helst gera það þegar byrlega blæs.
Litið til baka, og kosningarnar 2015
Ríkisstjórn Jafnaðarmanna undir forystu Helle Thorning-Schmidt tók við völdum eftir kosningarnar árið 2011. Auk jafnaðarmanna, Socialdemokratiet, áttu aðild að stjórninni Sosialistisk Folkeparti og Radikale Venstre. Á ýmsu gekk í stjórnarsamstarfinu, einkum vegna fyrirætlana um sölu 19% hlutar ríkisins í orkufyrirtækinu DONG. Bjarne Corydon þáverandi fjármálaráðherra (úr flokki forsætisráðherrans) lagði ofuráherslu á söluna og hafði sitt fram. Kaupandinn var bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs. Síðar kom í ljós að danska ríkið fékk allt of lítið fyrir hlutinn og nú er iðulega talað um söluna sem ein stærstu efnahagsmistök í sögu Danmerkur. Vegna sölunnar sagði Sosialistisk Folkeparti skilið við stjórnina og Annette Vilhelmsen formaður flokksins sagði af sér.
Þingkosningar árið 2015 fóru fram 17. Júní. Úrslitin einkenndust af miklum sveiflum. Jafnaðarmannaflokkurinn undir stjórn Helle Thorning bætti við sig 3 þingmönnum frá kosningunum 2011 og hafði nú 47 fulltrúa á þingi. Hinn stjórnarflokkurinn Radikale Venstre fékk 8 þingmenn, tapaði 9, Sosialistisk Folkeparti, sem hafði sagt sig úr stjórninni, tapaði líka 9 mönnum og fékk 7 menn kjörna. Þessi úrslit þýddu að rauða blokkin svonefnda (miðju- og vinstri flokkar) gátu ekki myndað meirihlutastjórn en þingmenn á danska þinginu, Folketinget, eru samtals 179.
Venstre flokkur Lars Løkke Rasmussen tapaði 13 og hafði nú 34 þingmenn.
Litla minnihlutastjórnin
Þrátt fyrir þetta mikla tap tókst Lars Løkke Rasmussen að mynda stjórn, litla minnihlutastjórn, eins og fjölmiðlar komust að orði. Síðar gengu Liberal Alliance og de Konservative til liðs við stjórnina. Samtals höfðu þessir flokkar, bláa blokkin svonefnda, (miðju og hægri flokkar) 53 þingmenn. Það sem mestu skipti fyrir Lars Løkke var stuðningur Dansk Folkeparti, sem vildi þó ekki eiga beina aðild að ríkisstjórninni.
Innflytjendur og hælisleitendur
Fyrir tveim vikum birti Danska útvarpið, DR, lista yfir þau mál sem oftast og mest hefur verið fjallað um í dönskum fjölmiðlum á kjörtímabilinu sem er að ljúka. Í öllum stærstu fjölmiðlum landsins hafa málefni flóttafólks og hælisleitenda verið lang fyrirferðarmest öll árin og eru það líka nú, í aðdraganda þingkosninganna. Í upphafi kjörtímabilsins, árið 2015 náði straumur hælisleitenda hámarki, rúmlega 21 þúsund manns, straumurinn stríðastur á haustmánuðum. Margir þeirra sem komu til Danmerkur hugðust halda áfram til Svíþjóðar, Danmörk væri bara áfangastaður. Í ársbyrjun 2016 tóku sænsk yfirvöld upp strangt landamæraeftirlit og nokkrum dögum síðar komu Danir á gæslu við landamærin að Þýskalandi. Gæslan var í upphafi sögð tímabundin en hefur síðan verið framlengd, oftast til þriggja mánaða í senn. Kostnaðurinn við gæsluna hefur verið umtalsverður og vegna margra ára niðurskurðar í lögreglunni hefur reynst nauðsynlegt að fá herinn til aðstoðar. Nú hefur hinsvegar hægt mjög á straumnum en umræðan heldur áfram og nú snýst hún ekki hvað síst um aðbúnað þeirra sem ekki fá landvistarleyfi í Danmörku en búa tímabundið í sérstökum búðum (udrejsecentre) áður en fólkið fer úr landi. Slík dvöl getur varað árum saman.
Eins og fram kom hér að framan jókst fylgi Danska þjóðarflokksins mikið í kosningunum 2015. Því olli ekki síst hörð og afgerandi stefna flokksins í málefnum flóttafólks og innflytjenda. Nú hefur fylgi Danska þjóðarflokksins hins vegar hrunið og ef niðurstaða kosninganna verður í samræmi við kannanir geldur flokkurinn afhroð. Fylgi jafnaðarmanna hefur aukist, stjórnmálaskýrendur telja hluta þeirrar aukningar vera á kostnað Danska þjóðarflokksins. Jafnaðarmenn hafa nefnilega boðað harðari og ákveðnari stefnu í málefnum hælisleitenda og flóttafólks en flokkurinn hefur áður fylgt. Mette Frederiksen, formaður flokks jafnaðarmanna, hefur þó ekki, enn sem komið er, viljað útlista nákvæmlega breytta stefnu flokksins í þessum málum. Nýlega hafa svo komið til sögunnar tveir flokkar yst til hægri, og þeir taka, að mati stjórnmálaskýrenda, fylgi frá DF og stjórnarflokknum Venstre.
Áhyggjur sérfræðinga
Síðastliðinn fimmtudag (23. maí) birti dagblaðið Berlingske langa grein sem 58 manna hópur sérfræðinga frá átta löndum skrifaði. Í greininni benda sérfræðingarnir á rannsóknir, sem Rauði Krossinn og fleiri samtök hafa gert á börnum sem dvelja í tímabundnum búðum í Sjælsmark á Norður-Sjálandi. Sérfræðingarnir segja niðurstöðurnar áhyggjuefni en 90 börn dveljast í búðunum ásamt öðru foreldri sínu eða báðum. Nær öll börnin þrífast illa, þau eru hrædd og óörugg og vita ekkert hvað bíður þeirra. Í búðunum er ekkert sem heitir eðlilegt fjölskyldulíf, segja sérfræðingarnir og slíkt hafi mjög skaðleg áhrif á sálarlíf barnanna.
Tíu dagar til kosninga
Nú eru tíu dagar til þingkosninganna í Danmörku. Spár benda til að Mette Frederiksen verði næsti forsætisráðherra Danmerkur. Hennar biði hins vegar erfitt hlutskipti, flokkar sem tilheyra rauðu blokkinni (miðju og vinstri) eru ekki sammála jafnaðarmönnum í einu og öllu, til dæmis varðandi málefni hælisleitenda og flóttafólks.
Spár eru eitt og niðurstöður annað. Lars Løkke er slyngur stjórnmálamaður og rétt að ljúka þessum pistli á orðum eins dönsku dagblaðanna fyrir nokkrum dögum „Løkke hefur áður sýnt að hann gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Hvort honum tekst að veiða forsætisráðherrastólinn upp úr hattinum kemur í ljós að kvöldi 5.júní“.