Í ræðum þingmanna í eldhúsdagsumræðum í gær var rætt um hin ýmsu mál og beindust spjót stjórnarandstöðu ekki síst að íhaldssamri afstöðu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, hvort sem það á rétt á sér eða ekki. Umhverfismálin fengu líka mikla athygli, meiri en oft áður í eldhúsdagsumræðum.
Umræðurnar skiptust í þrjár umferðir og hafði hver þingflokkur 8 mínútur í fyrstu umferð, 5 mínútur í annarri og 5 mínútur síðustu umferð. Samtals voru ræðurnar 24.
Sagði Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, að ríkisstjórnin væri mynduð um í kyrrstöðu og afturhalds- og íhaldssama sýn á stjórnmálin. Lagði hann sérstaklega áherslu á þessi mál, þegar umfjöllun um efnahagsmálin var annars vegar, og peningamálastefnan þar á meðal. Hanna Katrín Friðriksson sagði óljós skilaboð berast frá ríkisstjórninni, þar sem oft væri augljós málefnalegur ágreiningur milli ríkisstjórnarflokkanna. Kyrrstaða væri því oft niðurstaðan.
Oddný Harðardóttir, Samfylkingu, gagnrýndi Katrínu Jakobsdóttur harðlega, fyrir að gefa Sjálfstæðisflokknum sviðið í ríkisstjórnarsamstarfinu, en Anna Kolbrún Árnadóttir, Miðflokki, sagði Sjálfstæðisflokkinn hins vegar beygja sig fyrir stefnu Vinstri grænna í heilbrigðismálum, og það væri að bitna á sjúklingum.
Sést spillingin betur?
Píratinn Halldóra Mogensen velti fyrir sér hvernig á því stæði, að traust á Alþingi hefði dvínað. Hvort það gæti verið, að vegna betra aðgengis að upplýsingum væri auðveldara að greina spillingu og valdaþræðina en áður.
Inga Sæland, Flokki fólksins, lagði áherslu á það í ræðum sínum tveimur, að ríkisstjórnin gleymdi ekki þeim sem minna mega sín.
Haraldur Benediktsson, Sjálfstæðisflokki, ræddi um mikilvægi þess að ríkisstjórnin starfaði eftir jafnvægislistinni og næði að bregðast við samdrætti í efnahagsmálum með ábyrgum hætti. Allar forsendur væru til þess.
Gjörbreytt staða
Það var einnig leiðarstef Willums Þórs Þórssonar, Framsóknarflokki, og Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, Vinstri grænum. Enda stendur ríkisstjórnin nú frammi fyrir gjörbreyttum efnahagsveruleika, eftir fall WOW air og samdrátt í ferðaþjónustu og útflutningi.
Hagvöxtur var 4,6 prósent í fyrra, en nýleg spá Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir 0,4 prósent samdrætti í landsframleiðslu á þessu ári.
Hér að neðan má sjá hluta úr ræðum þingmanna stjórnmálaflokkana úr eldhúsdagsumræðunum, þar sem tókust á ólík sjónarmið í hinum ýmsu málum, en fulltrúar stjórnarandstöðunnar sóttu nokkuð hart að ríkisstjórninni.
- „Að lokum vil ég benda á að uppbygging heilbrigðisþjónustu á að vera um allt land. Við sjáum nú þegar að ekki gengur lengur að stefna öllum sem þurfa á slíkri þjónustu að halda á einn spítala við Hringbraut. Hugsa þarf upp á nýtt hvernig standa á sannarlega við það fyrirheit að allir eigi kost á heilbrigðisþjónustu í heimabyggð og það er furðulegt að sjá sérstaklega Sjálfstæðisflokkinn beygja sig fyrir stefnu Vinstri grænna í jafn mikilvægum málaflokki og velferðar- og heilbrigðismálin eru.“ - Anna Kolbrún Árnadóttir, Miðflokki.
- „Við segjum gjarnan að ein af meginforsendum framtíðarhagvaxtar og samkeppnishæfni atvinnulífsins sé fjárfesting í menntun, nýsköpun og rannsóknum. Framlög til nýsköpunar og rannsókna eru stóraukin, um 31% að raungildi næstu fimm árin, og þá má segja að ráðherra hafi komið mennta- og menningarmálum vel á dagskrá með auknum framlögum og í formi fjölmargra aðgerða. Ég nefni hér stuðning við bókaútgáfu og stefnumótun til eflingar íslenskri tungu.“ - Willum Þór Þórsson, Framsóknarflokki.
- „Síðasta haust sameinuðust Íslendingar um að krefjast afsagnar þingmanna sem höfðu uppi dólgslæti og montuðu sig af spillingaráformum. En mörgum mánuðum síðar hefur ekkert gerst, ekki annað en það að sú kona sem upplýsti um samtalið hefur verið úrskurðuð brotleg við persónuverndarlög eftir harða aðför þessara þingmanna að trúverðugleika hennar og persónu. Að sama skapi hefur þingkonan sem upplýsti um mikilvægi þess að hefja rannsókn í akstursgreiðslumálinu verið úrskurðuð brotleg gagnvart siðareglum fyrir það eitt að benda á að forsendur séu fyrir því að rannsaka málið.“ - Halldóra Mogensen, Pírötum.
- „Endurheimt votlendis er alveg frábær og skógrækt er alveg ágæt þar sem hún á við, en við þurfum samt að vera miklu markvissari í því að draga úr losun. Við verðum að miða alla mannlega starfsemi við raunverulegan kostnað sem af henni hlýst fyrir lífið á jörðinni. Við þurfum að gera sáttmála þvert yfir höf og lönd. Þá dugir ekki heimsmynd músarholunnar, þrætugirnin og allt-fyrir-ekkert-hugsunin. Hún dugir ekki lengur, heldur þurfa samfélögin að taka öll höndum saman.“ - Guðmundur Andri Thorsson, Samfylkingunni.
- „Alþjóðavæðingin virðist ógnvænleg fyrir suma og við vitum ekki alltaf hvað er handan við hornið. Framtíðin bankar á dyrnar, burt séð frá því hversu margir vilja berjast gegn henni, og Ísland mun halda áfram að breytast, verða frjálsara, betra og hagsælla en það var í gær. Við stoppum ekki framþróun en við höfum alla burði til að taka þátt í henni. Sjálfstæðisflokkurinn mun sem fyrr vera þar í forystu.“ - Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Sjálfstæðisflokki.
- „Þá þurfum við að standa undir þeirri ábyrgð sem okkur er falin sem kjörnum fulltrúum. Við þurfum að grípa til aðgerða. Það hrekkur nefnilega skammt að almenningur minnki kjötát, flokki rusl eða fyllist flugviskubiti ef við sem með valdataumana höldum leggjum ekki okkar af mörkum. Krafan hlýtur að vera að við tökum saman höndum þvert á flokka af því að flokkar skipta ekki máli í baráttunni fyrir framtíðina.“ - Andrés Ingi Jónsson, Vinstri grænum.
- „Millistéttin hefur hér sem og á öðrum Vesturlöndum átt undir högg að sækja og hár kostnaður við íslensku krónuna veldur miklum eignaójöfnuði. Krónan hyglir nefnilega þeim, bæði fyrirtækjum og einstaklingum, sem geta fært eignir sínar úr landi þegar hentar. Hver situr svo uppi með kostnaðinn af krónunni? Jú, íslenskur almenningur, en auðvitað berjast þeir hvað harðast gegn breytingum í gjaldmiðlamálum okkar sem geta hagnast hvað mest á núverandi stöðu. Um þá stöðu hefur núverandi ríkisstjórn tekið sér varðstöðu.“ - Þorsteinn Víglundsson, Viðreisn.
- „Skyldi það vera svo að þjóðarskútan fari á hliðina ef við hættum að skattleggja fátækt?“ - Inga Sæland, Flokki Fólksins.