Haustið 2017 sat Søren H. Madsen bókhaldari hjá borgarstjórn Hróarskeldu við tölvuna og fór yfir reikningsfærslur. Þar var flest með venjubundnum hætti. Bókhaldarann rámaði þó í að upphæð sem borgin hafði fengið greidda frá félagsmálaráðuneytinu væri lægri, en hann hafði skömmu áður fengið tilkynningu um að yrði millifærð.
Hann fann tilkynninguna og mikið rétt, upphæðin sem greidd hafði verið inn á reikninginn stemmdi ekki við tilkynninguna. Það munaði kr. 69.047.- dönskum ( ca. 1.3 milljónir íslenskar). Hann hringdi strax til félagsmálaráðuneytisins, en þar fékk hann þau svör að upphæðin sem yfirfærð var stemmdi við áðurnefnda tilkynningu. Þetta þótti Søren bókhaldara einkennilegt. Skömmu síðar sendi hann ráðuneytinu yfirlit vegna þeirra greiðslna sem Hróarskelduborg hefði fengið frá ráðuneytinu og bað um staðfestingu á að þetta stemmdi við bókhald ráðuneytisins. Eftir nokkra daga fékk hann svar þar sem fram kom að upphæðin sem hann hefði tilgreint passaði ekki við það sem ráðuneytið hefði greitt Hróarskelduborg.
Bókhaldarinn óskaði skýringa
Søren bókhaldari sætti sig ekki við þetta svar og eftir að hafa óskað nánari upplýsinga fékk hann að vita að krónurnar 69.047 hefðu verið lagðar inn á annan reikning. Britta Nielsen, sem venjulega sá um þessar greiðslur, var í fríi en sá sem leysti hana af spurði hvort ,,þessi hinn reikningur væri ekki í eigu Hróarskelduborgar“. Það kannaðist Søren bókhaldari ekki við. Og ákvað að láta ekki við svo búið sitja. Hann ræddi við yfirmann sinn, sem hafði samband við ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins. Sá óskaði aðstoðar rannsóknardeildar lögreglunnar, og lagði sérstaka áherslu á að starfsfólk ráðuneytisins fengi ekki vitneskju um rannsóknina. Til að gera langa sögu stutta kom í ljós að reikningurinn sem krónurnar 69.047.- höfðu verið lagðar inn á reikning í eigu starfsmanns ráðuneytissins, áðurnefndrar Brittu Nielsen.
Byrjaði fyrir 25 árum
Rannsóknarlögreglumennirnir trúðu vart eigin augum þegar þeir fóru að skoða bókhaldið hjá ráðuneytinu. Þeir sáu nefnilega fljótlega að margnefndar 69.047.- krónur voru bara dropi í hafið. Britta Nielsen hafði yfirfært, á eigin bankareikninga, samtals um það bil 120 milljónir danskra króna (rúma 2.2 milljarða íslenska) á 25 ára tímabili, frá 1993 – 2018. Upphæðirnar sem Britta Nielsen færði inn á eigin bankareikninga (fleiri en einn) voru mismunandi eftir árum. Hæsta upphæð á einu ári var um það bil 17 milljónir árið 2010. Alls voru yfirfærslurnar 298 talsins.
Britta Nielsen og starfið
Britta Nielsen er 65 ára, fædd 28. maí 1954. Hún hóf störf hjá félagsmálaráðuneytinu 27. janúar 1977 og hafði starfað óslitið hjá undirstofnunum ráðuneytisins til ársins 2018. Þess má geta að 27. janúar 2017, þegar hún hafði starfað hjá ráðuneytinu í 40 ár, fékk hún starfsaldursviðurkenningu drottningar (fortjenstmedalje), fyrir að sinna störfum sínum samviskusamlega og af trúmennsku. Britta Nielsen vann alla tíð hjá sérstökum sjóði innan ráðuneytisins en sá sjóður deilir út peningum til sveitarfélaga, samkvæmt reglum um fjárhagsaðstoð til þeirra sem á þurfa að halda. Britta Nielsen bjó yfir mikilli tölvuþekkingu og var sökum þekkingar sinnar og reynslu mikilvægur starfsmaður hjá sjóðnum, en þar eru örfáir starfsmenn. Það var þessi þekking, ásamt slælegu innra eftirliti ráðuneytisins, sem gerði henni kleift að draga sér þessa miklu fjármuni, 120 milljónir.
Rúmlega tvítug giftist Britta Nielsen Khursheed Hayat, starfsmanni Carlsberg verksmiðjanna, hann var ellefu árum eldri en Britta. Þau eignuðust tvær dætur og einn son og bjuggu í Hvidovre við Kaupmannahöfn. Khursheed lést árið 2005.
Flúði til Suður-Afríku
25. september 2018 kærði félagsmálaráðuneytið Brittu Nielsen til lögreglunnar. Handtökuskipun á hendur Brittu Nielsen var gefin út tveimur dögum síðar en var haldið leyndri fyrir fjölmiðlum. 29. september bankaði lögreglan uppá hjá Britte Nielsen i Hvidovre en enginn kom til dyra. Þegar lögreglan hafði samband við dætur hennar sögðu þær að hún hefði farið í frí, en sögðu ekki hvert. Hvort Britte Nielsen vissi að lögreglan væri á hælum hennar er ekki vitað en lögreglan telur að dæurnar hafi strax látið móður þeirra vita að lögreglan leitaði hennar. Lögreglan taldi sig vita að hún hefði farið til Suður-Afríku og síðar kom í ljós að hún hafði flogið til Jóhannesarborgar 23. september og strax áfram til Durban, en þar bjó sonur hennar. 9. október greindi danski innanríkisráðherrann frá málinu á fréttamannafundi í Kaupmannahöfn og fyrr sama dag hafði dómari í Bæjarrétti Kaupmannahafnar heimilað rannsókn og haldlagningu allra eigna Brittu og barna hennar, í Danmörku og öðrum löndum.
Handtakan
Að morgni 5. nóvember 2018 handtók suður-afríska lögreglan Brittu Nielsen. Hún hafði þá verið á flótta í sex vikur og meðal annars fengið að búa hjá kunningjafólki í smábænum Southbroom fyrir sunnan Durban. Sonurinn Jimmy var sömuleiðis handtekinn. Mánuði fyrr, 4. október höfðu mæðginin keypt hús í þessum sama bæ, sama dag og Britta Nielsen var lýst gjaldþrota heima í Danmörku.
8. nóvember komu mæðginin fyrir dómara í Suður-Afríku. Þar féllust þau á að verða flutt til Danmerkur og jafnframt að þau yrðu handtekin við komuna þangað. Þegar til Danmerkur var komið voru þau bæði úrskurðuð í ótímabundið gæsluvarðhald. Sá úrskurður er enn í gildi.
Auk þeirra Brittu og Jimmy eru dæturnar tvær grunaðar um að hylma yfir afbrot móðurinnar og sama gildir um eiginmann annarar dótturinnar. Þau neita öll sök. Dæturnar komu fram í sjónvarpi í Danmörku nokkru eftir handtöku móður þeirra, þær sögðust hafa haldið að þeir miklu fjármunir sem móðir þeirra hafði úr að spila væri arfur, sparnaður, eða líftrygging sem móðirin hefði fengið greidda eftir andlát eiginmannsins.
Í samvinnu dönsku og suður-afrísku lögreglunnar hefur tekist að leggja hald á talsvert af eignum Brittu Nielsen og barna hennar í Suður- Afríku, lögregla hefur ekki viljað upplýsa nákvæmlega um þau mál.
Lite som kungahuset i Sverige https://t.co/g3U5kFNlDW
— Patrik Persson (@storarisby) June 1, 2019
Krafa um tólf ára fangelsi
Síðastliðinn föstudag, 31. maí var Brittu Nielsen birt ákæra. Saksóknari fór fram á 12 ára fangelsi enda þótt refsiramminn geri ráð fyrir 8 ára hámarksrefsingu. Saksóknari sagði afbrotin sérlega alvarleg og þess vegna væri í ákærunni farið út fyrir refsirammann, en það er heimilt ef um svo alvarleg afbrot er að ræða
Í lokin er rétt að geta þess að árið 2013 hafði efnahagsbrotadeild lögreglunnar (Bagmandspolitiet) samband við danska skattinn vegna fimm milljóna króna innborgunar á reikning Brittu Nielsen. Skatturinn aðhafðist ekkert í því máli.