Í maímánuði var hart tekist á um tvö mál á hinu pólitíska sviði. Fyrst um frumvarp um þungunarrof, þar sem það var heimilað fram á 22. viku meðgöngu óháð því hvaða ástæður liggja að baki. Áður þurfti ákvörðun um þungunarrof svo seint á meðgöngu að fara fyrir nefnd sem varð að gefa leyfi. Lög þess efnis voru samþykkt 16. maí með heilum stuðningi fimm flokka, tveggja úr stjórn og þriggja úr stjórnarandstöðu.
Í kjölfarið tók síðan við fordæmalaust málþóf vegna þriðja orkupakkans svokallaða þar sem Miðflokkurinn lagðist einn í málþóf, sem sér reyndar enn ekki fyrir endann á. Þegar umræðu um orkupakkann var frestað í síðustu viku, til að gera framgöngu annarra mála mögulega, þá hafði umræðan staðið í 134 klukkustundir og átta mínútur. Einungis vantar klukkustund í að umræðan slái umræðumet úr Icesave-deilunni og verður það met væntanlega slegið síðar í dag þegar orkupakkinn fer aftur á dagskrá.
Þrátt fyrir allan hitann sem var í umræðum um þessi mál, og skýrar víglínur sem myndast hafa vegna þeirra, þá hreyfist fylgi flokka varla milli mánaða samkvæmt könnun Gallup. Fylgi ríkisstjórnarflokkanna dalar innan skekkjumarka, fylgi frjálslyndu miðjuflokkanna í stjórnarandstöðu eykst innan skekkjumarka og Miðflokkurinn tekur aðeins af hinum flokknum sem var heill á móti þungunarrofi og orkupakkanum, Flokki fólksins.
Stöðugleikinn í íslenskum stjórnmálum sem ríkt hefur undanfarna mánuði virðist lítið ætla að haggast.
Stuðningur aftur undir 50 prósent
Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja mælist nú 44,3 prósent. Það hefur ekki mælst lægra frá því í nóvemberlok, eða rétt áður en að Klausturmálið svokallaða komst á almannavitorð. Samanlagða fylgið er umtalsvert minna en í þingkosningunum 2017, þegar 52,9 prósent kjósenda kusu Sjálfstæðisflokk, Vinstri græn eða Framsóknarflokk. Breytingin á milli mánaða er þó sáralítil. Sameiginlegt fylgi flokkanna mældist 44,9 prósent í apríl.
Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærsti flokkur ríkisstjórnarinnar og landsins, en 23,4 prósent landsmanna segja að þeir myndu kjósa hann. Vinstri græn, flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, dalar um tæpt prósent á milli mánaða og mælist nú með 12,4 prósent fylgi. Framsóknarflokkurinn bætir lítillega við sig og myndi fá 8,5 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag.
Stuðningur við ríkisstjórnina skreið yfir 50 prósent í aprílmánuði, og var það í fyrsta sinn frá því í júní í fyrra sem meirihluti landsmanna sagðist styðja hana. Í maí féll stuðningurinn að nýju rétt undir 50 prósent markið og mælist nú 49,6 prósent.
Bæta lítillega við sig
Samfylkingin er sem fyrr stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn með 16,6 prósent atkvæða, sem er smávægileg bæting frá könnuninni sem gerð var í apríl. Þar á eftir koma Píratar með 11,2 prósent fylgi og Viðreisn með 10,9 prósent fylgi. Báðir þessir flokkar standa nánast nákvæmlega í stað milli kannana. Fylgi þessarra þriggja flokka, sem eiga samleið í mörgum málum og forystumenn þeirra hafa kallað eftir því að myndi kjarnann í næstu ríkisstjórn, mælist samanlagt 38,7 prósent.
Þetta sameiginlega fylgi hefur verið mjög stöðugt undanfarna mánuði og svo virðist sem hreyfing á fylgi flokkanna þriggja eigi sér fyrst og síðast stað á milli þeirra, en leiti lítið á aðra flokka sem eru í boði. Allir flokkarnir þrír mælast með meira fylgi en þeir fengu í síðustu kosningum og sameiginlegt fylgi þeirra er tæpum ellefu prósentustigum hærra nú en í október 2017.
Taka frá hvorum öðrum
Miðflokknum, sem tekist hefur að endurheimta þorra kjörfylgis síns í kjölfar Klausturmálsins, mælist með tíu prósent fylgi. Það er um einu prósenti meira en fyrir mánuði síðan og í fyrsta sinn sem flokkurinn nær tveggja stafa tölu í mælingum Gallup frá því að Klausturmálið var opinberað. Til samanburðar var fylgi Miðflokksins 5,7 prósent í desember síðastliðnum.
Flokkur Fólksins, sem deilir mörgum áherslum með Miðflokknum, tapar að sama skapi tæpu prósenti milli kannana og mælist með 3,2 prósent fylgi. Samanlagt fylgi þessarar stjórnarandstöðublokkar mælist því 13,2 prósent. Það er umtalsvert minna en fylgið sem þessir tveir flokkar fengu í síðustu þingkosningum, þegar 17,8 prósent kjósenda kaus annan hvorn þeirra, og báðir flokkarnir mælast enn fyrir neðan kjörfylgi.
Sósíalistaflokkurinn næst minnsti flokkurinn
Sósíalistaflokkur Íslands hefur verið að mælast á svipuðum slóðum og Flokkur fólksins í fylgi undanfarna mánuði. Frá því í desember hefur fylgi hans ætið mælst minnst á fjórða prósent og í desember og janúar mældist flokkurinn með yfir fimm prósenta fylgi, sem myndi duga honum til að ná inn manni í kosningum.
Fylgi Sósíalistaflokksins mælist nú 3,7 prósent sem þýðir að fleiri myndu kjósa hann en t.d. Flokk fólksins, sem fékk fjóra þingmenn kjörna á þing 2017, þótt einungis tveir þeirra séu eftir í flokknum nú eftir að Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason gengu til liðs við Miðflokkinn.
Þetta fylgi myndi þó ekki duga Sósíalistaflokknum til að koma manni inn á þing. Flokkur fólksins er auk þess, að minnsta kosti sem sem stendur, töluvert frá því að ná í nægjanlega mikið fylgi til að ná inn manni á ef kosið væri nú. Því myndu tæplega sjö prósent atkvæða falla niður dauð miðað við könnun Gallup í maí.