Lokakaflinn í fléttunni um framtíð Arion banka, eina stóra viðskiptabankans á Íslandi sem er ekki að meirihluta í ríkiseigu, fór fram á fyrri hluta ársins 2018.
Hann hófst þegar lífeyrissjóðum landsins var boðið að kaupa allt að fimm prósent hlut í bankanum. Sjóðirnir höfðu til 12. febrúar að svara tilboðinu. Þeir sögðu pass hver á fætur öðrum.
Í kjölfarið var þeim skilaboðum komið til Bankasýslu ríkisins að vilji væri hjá Kaupskilum, félagi í eigu Kaupþings þar sem vogunarsjóðir eru stærstu hluthafarnir, að virkja kauprétt á 13 prósent hlut ríkisins í Arion banka og greiða um 23 milljarða króna fyrir 13 prósent hlut ríkisins.
5. febrúar var samþykkt að Arion banki myndi kaupa 9,5 prósent hlut í sjálfum sér af Kaupskilum, félagi í eigu Kaupþings, stærsta eiganda bankans. Um er að kaup á eigin bréfum í samræmi við ákvörðun hluthafafundar. Til viðbótar var greidd arðgreiðsla upp á 7,9 milljarða króna.
Fyrstur banka á markað eftir hrunið
Um miðjan maí 2018 var tilkynnt að Arion banki yrði fyrsti íslenski bankinn sem yrði skráður á markað frá bankahruni. Um tvískráningu yrði að ræða, á Íslandi og í Svíþjóð. Samhliða hófst vinna við útboð á hlut af því sem Kaupþing átti í bankanum.
Í tilkynningunni kom fram að markmið Arion banka yrði að vera með arðsemi eigin fjár sem væri yfir tíu prósent, en hún hafði verið einungis 3,6 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018. Þessu markmiði átti að ná með því að breyta fjármögnun bankans þannig að umtalsvert eigið fé yrði greitt út og að víkjandi lán yrðu sótt. Auk þess átti að minnka rekstrarkostnað, meðal annars með því að fækka starfsfólki, og að endingu var stefnt að hóflegum útlánavexti.
Arion banki var svo skráður á markað í júní. Lítið var um vendingar það sem eftir lifði þess árs. Eignarhaldið var áfram að mestu hjá Kaupþingi, sem átti enn um þriðjung af öllu hlutafé um síðustu áramót, og hjá vogunarsjóðunum sem stýra Kaupþingi, sem áttu tæplega fjórðung beint.
Segjast geta séð í gegnum sjóðina
Vert er að taka fram að ekkert liggur fyrir opinberlega um hverjir eru endanlegir eigendur þessarra sjóða. Engar upplýsingar hafa verið gefnar um hvort t.d. einhverjir íslenskir fjárfestar eru á meðal þeirra sem hafa fjárfest í þeim.
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagði þó í sjónvarpsþættinum 21 í síðasta mánuði að eftirlitið gæti séð hvort að þeir sem áttu eða stýrðu bönkum á Íslandi fyrir hrun séu á bakvið þá sjóði sem fara með virkan eignarhlut í skráðum íslenskum banka. „Við förum ekki offari í því að dæma menn fyrirfram úr leik. Það þarf að fara yfir hvert og eitt mál.“
Miklar breytingar á örfáum vikum
Það sem af er þessu ári, 2019, hefur allt síðan verið á fleygiferð innan Arion banka. Uppgjör bankans vegna síðasta árs olli miklum vonbrigðum. Arðsemin var einungis 3,7 prósent og hagnaður ársins 7,8 milljarðar króna. Það var 6,6 milljörðum krónum minna en árið áður.
Stór ástæða þessa var sú að þrír stórir viðskiptavinir bankans lentu í verulegum vandræðum, eða fóru beinlínis á hausinn með tilheyrandi útlánatöpum og afskriftum á kröfum.
Það sem af er ári hefur verið skipt um stjórnarformann og bankastjórinn Höskuldur H. Ólafsson var látinn hætta, en ekki hefur verið ráðið í hans stað enn sem komið er. Þá hefur eigendahópurinn tekið miklum breytingum. Þar ber helst að nefna sölu Kaupþings ehf. á stórum hluta sinnar eignar í bankanum en slitabúið á nú einungis 20 prósent eftir að hafa selt 15 prósent hlut í vor.
Á meðal þeirra sem eru nú áhrifamiklir í eigendahópi Arion banka eru Stoðir, sem áður hétu FL Group, með 4,65 prósent hlut auk þess sem vogunarsjóðurinn Taconic Capital, einn stærsti eigandi Kaupþings, hefur bætt við sig beinum eignarhlut og á nú 16,03 prósent í Arion banka.