Afar margt af því sem við sjáum nú til dags í sjónvarpsþáttum, kvikmyndum, leikhúsum og víðar er fengið úr sarpi sögunnar. Þegar þetta er skrifað er þáttaröðin Game of Thrones að hefja sína hinstu göngu. Eftirvænting hefur verið mikil um gervalla heimsbyggðina enda einir vinsælustu þættir allra tíma. Mörgum er eflaust í fersku minni hvernig þeim varð við að horfa á níunda þátt í þriðju syrpu þáttanna sem heitir á ensku Rains of Castamere. Undirritaður hefur áður gerst sekur um að spilla efni þáttanna fyrir öðrum og vill helst ekki þurfa að ganga í gegnum það erfiða ferli á ný.
Því verður ekki fjallað nánar um Game of Thrones en ætlunin er að benda á að efnisþráður t.d. Rains of Castamere sækir innblástur úr sögunni. Caracalla, eitt versta ómenni sem gegnt hefur embætti Rómarkeisara, fékk nefnilega slíka hugmynd nærri 2000 árum á undan handritshöfundum Game of Thrones. Joffrey konungur var sérlega ógeðfelldur og siðblindur sadisti en bliknar frammi fyrir ýmsum Rómarkeisurum sem, ólíkt Joffrey, voru ekki skáldskaparpersónur.
Við skulum nú kíkja á nokkra af þeim verstu sem hafa verið keisarar Rómar en margir þeirra fengu eina þá grimmilegustu refsingu sem rómverska þingið gat úthlutað: Damnatio Memorae en það gekk út á að afnema algjörlega allt sem minnti á viðkomandi, ritaðan texta, myndir eða styttur. Hugmyndin var sú að eftir ákveðinn tíma væru þessir menn öllum gleymdir en það fannst Rómverjum frekar ill örlög. Gjörðir sumra voru þó svo yfirgengilegar að Damnatio Memorae dugði ekki einu sinni til. Enn ræðum við illvirki þessara manna í dag. Við skulum skoða nokkra af þeim verstu sem gegndu því hlutverki að vera æðstu menn stærsta heimsveldis sögunnar.
Commodus (161 – 192 e.kr.)
Þennan þekkja eflaust ýmsir úr stórmyndinni Gladiator þar sem hinn afar sérstaki en hæfileikaríki Joaquin Phoenix gerði honum góð skil. Kvikmyndin á þó lítið skylt við raunveruleikann. Til dæmis þá myrti Commodus ekki föður sinn, Markús Árelíus, heldur hafði Markús ákveðið að Commodus yrði keisari eftir sinn dag. Markús er af mörgum talinn einn besti og fróðasti keisari sögunnar en þetta var þó afleit ákvörðun.
Það varð nefnilega fljótt ljóst að Commodus hafði ekki erft andlegt atgervi föður síns. Honum leiddist að standa í landvinningum og vildi halda til í gleðinni í Róm. Því gerði hann friðarsamning við germönsku ættbálkanna sem faðir hans hafði eytt mörgum árum í að knésetja. Commodus ávann sér óvild hersins með þessari ákvörðun. Einnig kom fljótlega í ljós að Commodus hafði mun meiri áhuga á því að vera skylmingaþræll en keisari en ráðamönnum í Róm blöskraði það, enda voru skylmingaþrælar ekki hátt skrifaðir í þessu stéttskipta samfélagi.
Commodus umbreyttist svo fljótlega úr því að vera venjulegur, ríkur og dekraður keisarasonur í vænisjúkan einræðisherra sem miskunnarlaust lét taka fjölda fólks af lífi fyrir litlar sakir. Hann fór að trúa því að hann væri rómverski guðinn Herkúles endurfæddur og breytti klæðnaði sínum eftir því. Einnig lét hann reisa fjöldamargar styttur af sér í líki guðsins.
Það þarf vart að taka fram að yfirleitt voru þessar styttur úr eðalmálmum og því rándýrar en Commódusi var slétt sama þótt minnkaði í fjárhirslum ríkisins. Hann breytti nafni borgarinnar í Colonia Commodiana sem mætti útleggja sem „Commodusar-borg“. Hann hélt stanslausa kappleiki í Colloseum þar sem hann sjálfur var aðal-númerið og drap þar ógrynni af alls konar dýrum. Þar á meðal voru hættuleg dýr eins og ljón, tígrisdýr og fílar en áhorfendur ráku upp stór augu þegar inn streymdu einnig strútar og gíraffar en Commodus slátraði þeim öllum með glöðu geði. Einn funheitan sumardag reyndi hann afar mikið á þolgæði áhorfenda er hann gerði sér lítið fyrir og drap eitt hundrað skógarbirni í röð.
Hann drap einnig fólk í hringnum en það voru vanalega hermenn sem voru veikir eða særðir og fengu léleg vopn sem nýttust þeim jafnt og ekkert. Ölmusumenn og fatlaðir voru einnig sendir í dauða sinn gegn keisaranum sem virtist haldinn óslökkvandi blóðþorsta.
Allt þetta kostaði ríkið svimandi fjárhæðir og til að bæta gráu ofan á svart þá gerði Commodus þetta ekki ókeypis. Nei, ríkið neyddist til að borga honum stórfé fyrir að koma fram! Commodus hefur verið lýst sem keisara sem tók við borg úr gulli en skildi við hana sem hrörlegt þorp byggt úr ryðguðu járni. Að lokum var öllum nóg boðið og uppáhalds skylmingaþræll Commódusar var fenginn til að ráða hann af dögum.
Caracalla (188 – 217 e.kr.)
Eitt mesta varmenni sem hefur gegnt þessu embætti. Valdagræðgi hans var taumlaus og allar hans gjörðir benda til þess að hann hafi verið fullkomlega siðblindur. Í fyrstu átti hann að deila embættinu með bróður sínum Geta. Hvorugur bróðirinn var hrifinn af því og versnaði samband þeirra svo ofsalega að keisarahöllinni var bókstaflega skipt í tvennt og öllum starfsmönnum Caracalla bannað að fara í hinn hlutann og öfugt.
Móðir þeirra kom á sáttafundi á milli þeirra þar en á fundinum gaf Caracalla skyndilega merki, inn streymdu aðstoðarmenn hans og Geta var myrtur, dó í faðmi örvinglaðrar móður sinnar. Að myrða bróður sinn fyrir framan móður sína, það gerist nú varla miklu verra? Allt það fólk sem
hafði umgengist bróður hans var samstundis tekið af lífi og skipti þá engu hvort um var að ræða nánustu ráðgjafa eða þjónustufólk.
Nú var Caracalla einráður og gat snúið sér að því sem honum fannst skemmtilegast: Að heyja stríð. Hann byrjaði á því að hækka laun hermanna enda þurfti hann á aðstoð þeirra að halda en einnig gulltryggði hann þannig að herinn myndi ekki svíkja hann. Það kom fljótlega í ljós að Caracalla var heltekinn af sögum af gríska konungnum og herforingjanum Alexander mikla og reyndi hann að líkjast honum sem mest.
Hann skipaði t.d. rómverska hernum að nota aðferðir sem gríski herinn hafði notað en þær aðferðir voru þá taldar úreltar af rómverskum foringjum. Í Grikklandi, sem þá var undir yfirráðum Rómverja, frétti fólk af þessu grikkjablæti hans og Caracalla barst til eyrna að leikrit hafði verið sett á svið í Alexandríu þar sem gert var grín að honum. Hann ákvað því að heimsækja borgina. Fyrirmenni borgarinnar undirbjuggu sig til að taka vel á móti honum, eins og siður var er sjálfur keisarinn kom að heimsækja þegna sína en Caracalla var ekki mættur í kurteisisheimsókn.
Allt þetta fólk var myrt á staðnum og síðan sendi hann hermenn sína inn í Alexandríu þar sem þeir fengu að leika lausum hala í marga daga við að myrða, nauðga og fara ránshendi um borgina. Caracalla eyddi nú nokkrum árum í að berjast við Parþíumenn sem lengi höfðu staðið uppi í hári Rómverja. Það stríð gekk illa svo Caracalla brá á það ráð að semja um frið og bjóðast til að kvænast dóttur Artabanusar, konungs Parþíu. Caracalla hafði reyndar gengið að eiga konu í Róm en hann kunni illa við hana, hún var send í útlegð og seinna myrt. Artabanus var fullur grunsemda í fyrstu en Caracalla náði loks að sannfæra hann með gullhömrum og dýrum gjöfum. Brúðkaupið var stórkostlegt í fyrstu, engu til sparað og má ímynda sér að konungsdóttirin hafi verið heilluð. Hún var orðin keisaraynja Rómar, þess mikla heimsveldis. Hún var því miður ekki lengi í þeirri Paradís.
Svo lítið bar á gaf Caracalla merki og innan skamms streymdu inn í salinn þungvopnaðir rómverskir hermenn. Allir voru stráfelldir, einnig keisaraynjan unga. Í kjölfarið fóru Caracalla og menn hans ránshendi um landið og myrtu þúsundir manna. Sagnir herma þó að Artabanus konungur hafi náð að flýja úr veislunni og seinna tókst honum að safna her sem sigraði Rómverja. Þá var Caracalla reyndar allur. Eitt skiptið er föruneyti hans stöðvaði för sína fór hann út í vegkant til að kasta þvagi. Þá kom að honum rómverskur hermaður sem dró upp hníf og myrti hann. Að sögn var hann reiður því hann hafði ekki fengið stöðuhækkun sem keisarinn hafði lofað honum. Eftirmaður Caracalla samdi svo frið við Artabanus og greiddi honum mikið fé í stríðsskaðabætur.
Í næstu viku tökum við svo fyrir 3 aðra keisara.