Í umsögn laganefndar Lögmannafélags Íslands (LMFÍ) um frumvarp til laga um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopn, sem skilað var til utanríkismálanefndar í síðustu viku, var tekið undir það sjónarmið að eftirlit með lögmönnum yrði í höndum félagsins. Sjónarmiðið sjálft var sett fram af stjórn Lögmannafélags Íslands í september í fyrra.
Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að Ríkisskattstjóri hafi eftirlit með því að lögmenn fari eftir ákvæðum laganna sem snúa annars vegar að frystingu fjármuna og efnahagslegs auðs og hins vegar að ráðstöfunum til að meta hvort viðskiptamenn séu á listum yfir peningaþvættisaðgerðir.
Eðlilegt að eftirlit væri hjá félaginu
Í umsögn laganefndar Lögmannafélags Íslands er bent á að stjórn félagsins hafi þegar lýst yfir sérstökum áhyggjum af því að ekki væri gætt að sjálfstæði lögmannastéttarinnar með setningu lagana. Það var gert á stjórnarfundi 5. september 2018 þar sem ályktun um að sjálfstæði lögmannastéttarinnar yrði gætt í hvítvetna við vinnu laganna. „Stjórn LMFÍ telur eðlilegt að eftirlit með lögmönnum verði í höndum félagsins. LMFÍ er tilbúið til viðræðna um nánari útfærslu á slíku eftirliti, en nákvæmar tillögur um tilhögun eftirlits liggja ekki fyrir.“
Frumvarpið var lagt fram í byrjun apríl síðastliðnum og var afgreitt úr utanríkismálanefnd á föstudag með breytingartillögu.
Tilefni frumvarpsins er úttekt sem alþjóðlega fjármálaaðgerðahópurinn Financial Action Task Force (FATF) gerði á vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem lauk með útgáfu skýrslu í apríl árið 2018. Niðurstaða FATF var afgerandi og alvarleg: Ísland fékk falleinkunn í vörnum sínum gegn peningaþvætti.
Hætta á að vera sett á lista
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um slakar varnir Íslendinga gegn peningaþvætti undanfarin misseri. Í byrjun janúar greindi Kjarninn frá því að í fyrravor hafi Ísland fengið aðvörun. Annað hvort myndu stjórnvöld þar taka sig til og innleiða almennilegar varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eða landið myndi verða sett á lista FATF um ósamvinnuþýð ríki.
Ef Ísland yrði sett á slíkan lista myndi það einnig leiða til þess að gerðar yrðu strangari kröfur til landsins og aðila sem þar búa um hvers konar fjármálastarfsemi, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa og jafnvel útgáfu aðvarana um að viðskipti við íslenska aðila sem gætu falið í sér hættu á peningaþvætti.
Ný heildarlög tóku gildi í byrjun árs
Starfshópur á vegum dómsmálaráðuneytis var því settur í að semja frumvarp um heildarendurskoðun á lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.
Sú vinna skilaði því að Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, lagði fram frumvarp um ný heildarlög 5. nóvember síðastliðinn. Málið var afgreitt frá efnahags- og viðskiptanefnd 12. desember og síðari tvær umræður kláraðar daginn án annarra ræðuhalda en Brynjars Níelssonar, sem mælti fyrir nefndaráliti um málið sem fulltrúar alla flokka skrifuðu undir.
Frumvarpið varð að lögum með öllum greiddum atkvæðum þingmanna þann sama dag. Þau tóku gildi á þriðjudag, þann 1. janúar 2019.
Í greinargerð með frumvarpinu sagði að nauðsynlegt yrði að fara í heildarendurskoðun á gildandi lögum þar sem gera þarf verulegar úrbætur á lögunum til að uppfylla þær lágmarkskröfur sem gerðar eru á alþjóðavettvangi.
Alþjóðaskuldbindingar
Til viðbótar þurfti að utanríkisráðherra að leggja fram frumvarp sem tryggði að regluverk og framkvæmd málaflokksins uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar Íslands gagnvart FATF og Sameinuðu þjóðunum.
Það frumvarp er nú til umræðu í þinginu og umsögn Lögmannafélags Íslands snéri að því. Annarri umræðu um frumvarpið í gær. Hún stóð í tæpar átta mínútur og í henni fólst framsaga Bryndísar Haraldsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokks sem mælti fyrir áliti utanríkismálanefndar, sem lauk rétt fyrir hálf tólf í gærkvöldi.
Búist er við því að frumvarpið verði að lögum á næstu dögum. Í yfirstandandi júnímánuði mun koma í ljós hvort að viðbrögð Íslands hafi verið nægjanleg til að sleppa við afleiðingar af hendi FATF.