Stjórn VR samþykkti á fundi í gær, með 13 af 15 greiddum atkvæðum, að boða fund í fulltrúaráði VR hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna þar sem lögð verður fram tillaga um að afturkalla umboð allra stjórnarmanna VR sem sitja í stjórn lífeyrissjóðsins og skipa nýja stjórn til bráðabirgða. Fundur fulltrúaráðsins verður haldin á morgun, fimmtudag.
Ástæðan er „algjör trúnaðarbrestur“ milli stjórnarmanna sem VR skipar og stjórnar félagsins vegna ákvörðunar sjóðsins um að hækka breytilega verðtryggða vexti sem sjóðsfélögum bjóðast til húsnæðiskaupa um tæp tíu prósent.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna er næst stærsti lífeyrissjóður landsins. Heildareignir hans voru mentar á 713,5 milljarða króna um síðustu áramót. Hann er mjög umsvifamikill fjárfestir í íslensku viðskiptalífi og á stóran hlut í flestum skráðum félögum hérlendis. Verðmætasta hlutabréfaeign sjóðsins er hluti í Marel.
Sjóðurinn á einnig stóran hlut í félögum á borð við HB Granda, Reginn, Icelandair og Eimskip. Þá er Lífeyrissjóður verzlunarmanna stærsti einstaki hluthafinn í Kviku banka með 9,49 prósent hlut.
Ákvarðanir færðar í lokuð stjórnarherbergi
Samkvæmt samþykkt stjórnar VR af stjórnarfundi hennar í gær, sem Kjarninn hefur undir höndum, kemur skýrt fram að ástæða þess að gripið sé til þessara aðgerða sé ákvörðun stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna þann 24. maí síðastliðinn að hækka breytilega verðtryggða vexti sem sjóðurinn býður sjóðsfélögum sínum til húsnæðiskaupa úr 2,06 prósent í 2,26 prósent frá og með 1. ágúst næstkomandi, eða um tæp tíu prósent.
Í samþykktinni kemur fram að eitt af meginmarkmiðum nýgerðra kjarasamninga VR væri að stuðla að vaxtalækkun sem yki ráðstöfunartekjur heimilanna. Það hafi því komið eins og þruma úr heiðskýru lofti þegar stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna ákvað að hækka vextina með þessum hætti. „Ekki aðeins er tímasetning þessarar ákvörðunar algjörlega óskiljanleg í ljósi þess að blekið á undirskriftum okkar á kjarasamningi er vart þornað heldur hitt að þessi ákvörðun virðist lýsa algjöru skilningsleysi á þeirri miklu áherslu sem verkalýðshreyfingin lagði á vaxtalækkun í mjög erfiðum kjarasamningsviðræðum. Höfuðið er svo bitið af skömminni með þeirri ákvörðun stjórnar LIVE að hætt með opið og gagnsætt ákvörðunarferli þessara vaxtabreytinga og að ákvarðanir um vaxtabreytingar verði í framtíðinni einfaldlega ákveðið í lokuðu stjórnarherbergi. Þetta er gegn samþykk á síðasta þingi Alþýðusambands Íslands þar sem sagði að almenningur ætti að fá ða njóta með beinum hætti lækkunar vaxta á skuldabréfamarkaði. Þetta er afturhvarf til stjórnarhátta sem við hreinlega héldum að væri komið úr úr myndinni. En svo er greinilega ekki.“
Ákváðu að hækka vexti og láta stjórn ákveða þá
Kjarninn greindi frá því síðla í maí að Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefði ákveðið að hækka breytilega vexti verðtryggðra lána til sjóðsfélaga frá og með 1. ágúst næstkomandi úr 2,06 prósentum í 2,26 prósent.
Vextir sjóðsins nú eru þeir lægstu sem standa íbúðakaupendum á Íslandi til boða. Eftir breytinguna munu bæði Frjálsi lífeyrissjóðurinn (2,15 prósent) og Almenni lífeyrissjóðurinn (2,18 prósent) bjóða sínum félögum upp á lægri breytileg vaxtakjör á verðtryggðum lánum.
Í staðinn fyrir að ávöxtunarkrafa ákveðins skuldabréfaflokks stýri því hverjir vextirnir eru mun stjórn sjóðsins ákveða þá. Frá þessu er greint í frétt á vef Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í síðustu viku. Þar kom einnig fram að vextir sjóðsins á föstum verðtryggðum vöxtum frá og með föstudeginum 24. maí úr 3,6 prósentum í 3,4 prósent. Vextir á slíkum lánum haldast óbreyttir út lánstímann.
Fastir verðtryggðir vextir hafa verið umtalsvert hærri en breytilegir vextir. Ef sjóðsfélagi hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna tæki til að mynda 40 ára verðtryggð lán hjá sjóðnum upp á 30 milljónir króna, miðað við 3,3 prósent verðbólguspá, í dag þá myndi viðkomandi greiða 94,9 milljónir króna í heildargreiðslu ef hann tæki fasta vexti með jöfnum afborgunum. Ef viðkomandi myndi hins vegar velja breytilega vexti með jöfnum afborgunum, og þeir myndu haldast óbreyttir eða lækka að meðaltali á lánstímanum, þá myndi viðkomandi greiða 81,8 milljónir króna í heildargreiðslu miðað við sömu forsendur.
Viðbrögð sem færu ekki framhjá neinum
VR kallaði í kjölfarið eftir skriflegum skýringu frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna um ákvörðun sjóðsins. Þann 31. maí síðastliðinn sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, við Kjarnann að það væri mjög þungt hljóð í stjórnarmönnum VR vegna málsins. Ákvörðun sjóðsins sé blaut tuska framan í verkalýðshreyfinguna og vinni gegn markmiðum hennar. Viðbrögð við stöðunni væri væntanleg. „Þau viðbrögð munu ekki fara framhjá neinum.“
Ragnar ræddi þær áherslur sem hann og stjórn VR muni tala fyrir í stjórn lífeyrissjóðsins, sem er einn stærsti fjárfestir á Íslandi, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í febrúar.
Þar sagði hann meðal annars að þeim tilmælum yrði beint til stjórnar að haga sínum fjárfestingum með þeim hætti að það verði ekki fjárfest í fyrirtækjum sem eru með kaupréttarsamninga eða ofurlaun eða bónusa. „Eða haga sér með þeim hætti eins til dæmis eins og Almenna leigufélagið, að beina viðskiptum sínum frá slíkum félögum. Það verða skýr skilaboð sem við munum senda nýrri stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.[...]Það eru skilaboð sem mig langar að senda út inn í fjármálakerfið, að menn skulu þá hugsa sig tvisvar um þegar þeir fara gegn hagsmunum launafólks með þessum hætti, að við munum beita okkur með róttækri hætti heldur en áður hefur verið.“