Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið hryggjastykkið íslenskum stjórnmálum frá því að Ísland öðlaðist fullveldi. Flokkurinn varð til árið 1929 þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust og hélt því nýverið upp á 90 ára afmæli sitt.
Frá því að Ísland fékk sjálfstæði fyrir 75 árum síðan hefur Sjálfstæðisflokkurinn setið í ríkisstjórn í þrjú af hverjum fjórum árum. Fram á tíunda áratuginn réð flokkurinn líka nær undantekningarlaust höfuðborginni.
Fylgi flokksins var oftast nær á bilinu 35 til 40 prósent. Hann var breiðfylking sem náði að sækja stuðning til fjölmargra stétta. Fram að bankahruni hafði flokkurinn einungis einu sinni fengið undir tæplega þriðjungi greiddra atkvæða. Það var árið 1987 þegar klofningur átti sér stað og Borgaraflokkurinn undir stjórn Alberts Guðmundssonar náði 10,9 prósent atkvæða, en Sjálfstæðisflokkurinn undir stjórn Þorsteins Pálssonar einungis 27,2 prósent. Flokkurinn jafnaði sig þó fljótt. árið 1991 var Borgarflokkurinn allur og Sjálfstæðisflokkur, þá í fyrsta sinn undir forystu Davíðs Oddssonar, fékk 38,6 prósent og bætti við sig 11,4 prósentustigum milli kosninga.
Hrunið breytti landslaginu
Hrunið fór illa með Sjálfstæðisflokkinn. Á fundi sem Sjálfstæðisflokkurinn boðaði til á Grand hótel í janúar 2009, í kjölfar slita á ríkisstjórn Geirs H. Haarde, ákvað Geir, þáverandi formaður flokksins, að setja á fót Endurreisnarnefnd. Tilgangurinn var að líta inn á við eftir ástæðum fyrir því að fór sem fór.
Heildarniðurstaða nefndarinnar var að fólk hefði brugðist, ekki stefna Sjálfstæðisflokksins.
Í lok mars 2009 var haldinn landsfundur Sjálfstæðisflokks. Þar tók Davíð Oddsson, sem gegndi engri annarri stöðu innan flokksins á þeim tíma en að vera landsfundarfulltrúi, til máls í eftirminnilegri og harðorðri ræðu. Á meðal þess sem Davíð sagði var að skýrsla Endurreisnarnefndarinnar væri hrákasmíð og hann sæi eftir þeim trjágróðri sem notaður var í prentun skýrslunnar.
Eftir það var ekki aftur rætt um skýrsluna á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. Á sama landsfundi var hinn 39 ára gamli Bjarni Benediktsson kjörinn formaður með 58 prósent greiddra atkvæða. „Ég er eins og skyr, ég er mjög hrærður,“ sagði nýi formaðurinn af þessu tilefni.
Það var þó ekki langur tími til stefnu til að venjast nýrri stöðu fyrir formanninn. Kosningar voru haldnar innan við mánuði síðar. Í þeim fékk Sjálfstæðisflokkurinn verstu niðurstöðu í sögu sinni, 23,7 prósent atkvæða.
Ekki náð fyrri styrk en samt stærstur
Ólíkt því sem gerðist 1987 þá jafnaði staðan sig ekki í næstu kosningum á eftir að neinu marki. Niðurstaðan í kosningunum 2016 varð aðeins betri, þegar flokkurinn fékk 29 prósent, en fylgið seig aftur ári síðar eftir að fyrsta ríkisstjórnin undir forsæti Bjarna sprakk eftir átta mánaða setu. Í síðustu kosningum reyndist fylgið vera 25,3 prósent, það næst minnsta sem flokkurinn hefur nokkru sinni fengið.
Frá því að Bjarni var kjörin formaður hefur Sjálfstæðisflokkurinn því farið í gegnum fjórar kosningar og aldrei náð yfir 30 prósent fylgi. Flokkurinn sem sjálfur hefur litið á sig sem ímynd stöðugleika í íslensku stjórnmálalandslagi hefur auk þess ekki myndað ríkisstjórn sem setið hefur út kjörtímabil frá því að Davíð Oddsson gerði slíkt árið 2003. Á þeim tíma sem liðinn er síðan þá flokkurinn átt aðkomu að fjórum ríkisstjórnum. Enn er ekki útséð með þá sem nú situr undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur sem samanstendur af Sjálfstæðisflokki, Vinstri grænum og Framsóknarflokki, enda kjörtímabilið ekki tveggja ára gamalt.
Pólitíski ómöguleikinn
Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði fyrir nokkrum árum. Líklega má rekja upphafsdag þeirrar vegferðar til 21. febrúar 2014 þegar þáverandi ríkisstjórn lagði fram þingsályktunartillögu um að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka.
Hópur frjálsyndra alþjóðasinna innan Sjálfstæðisflokksins taldi sig vera illa svikinn. Þeir töldu sig hafa fengið skýr loforð frá flokki sínum um að umsóknin yrði ekki dregin til baka nema með þjóðaratkvæðagreiðslu í aðdraganda kosninga 2013.
Í febrúar 2014 sagði Bjarni, sem þá var orðinn fjármála- og efnahagsmálaráðherra, í pontu á Alþingi að án pólitísks stuðnings við aðildarumsókn væri ómögulegt að ljúka málinu. „Þá hljótum við að vera sammála um að hér er ákveðinn ómöguleiki til staðar."
Viðreisnarhópurinn klýfur flokkinn
Strax í apríl 2014 fór hópur Sjálfstæðismanna að hittast til að vinna að mótun nýs framboðs. Fyrsti formlegi stefnumótunarfundur hins nýja stjórnmálaafls var haldinn 11. júní 2014. Um svipað leyti var tilkynnt að flokkurinn myndi heita Viðreisn, eftir Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem sat við völd á Íslandi frá 1959 og fram til ársins 1971. Tæpu ári síðar, 17. mars 2015, var haldinn fyrstu fundur stuðningsmanna flokksins. Flokkurinn var loks formlega stofnaður á fundi í Hörpu 24. maí 2016 sem um 400 manns mættu á. Þar var Benedikt Jóhannesson kjörinn fyrsti formaður hans.
Ekki sjálfstætt markmið að lifa af
Grein Bjarna Benediktssonar á 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins í maí, sem birtist í Fréttablaðinu, fjallaði meðal annars um hvert flokkurinn stefnir. „Til framtíðar er það í okkar höndum hvernig fylgið þróast. Við getum náð fyrri styrk en við megum ekki gefa okkur í eina mínútu að við eigum einhvern tiltekinn stuðning vísan.“
Bjarni fjallaði bæði um meinta íhaldssemi Sjálfstæðisflokksins og svaraði gagnrýni á skort hans á alþjóðahyggju í grein sinni. Þar kom skýrt fram að Bjarni sjálfur telur flokkinn ekki afturhalds- eða kyrrstöðuflokk eins og sumir gagnrýnendur hans sem gengu til liðs við Viðreisn telja hann vera. „Stjórnmálaflokkur sem er á flótta undan samtíðinni, hræðist breytingar, forðast nýja hugsun og hleypur undan áskorunum framtíðarinnar, mun visna upp. Slíkur stjórnmálaflokkur hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið. Þvert á móti.[...]Afstaða okkar sjálfstæðismanna til alþjóðlegrar samvinnu hefur alltaf verið skýr og einörð. Við höfum staðið vörð um fullveldið og nýtt þá möguleika sem sjálfstæðið gefur okkur í alþjóðlegu samstarfi.“ Í því umróti sem stjórnmálalandslagið hefur upplifað undanfarin áratug skipti miklumáli að „þeir flokkar sem eiga djúpar rætur í sögu þjóðar og breiðan hóp fylgismanna standi í fæturna, en feykist ekki undan í örvæntingarfullri leit að vinsældum.“ Ljóst er þó að Sjálfstæðisflokkurinn stendur frammi fyrir áskorun við að ná til yngri kjósenda. Samkvæmt gögnum frá MMR eru einungis 19,9 prósent þeirra sem segjast ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn undir þrítugu. Eini flokkurinn sem er með lægra hlutfall kjósenda í þeim aldursflokki er Miðflokkurinn, en 18,5 prósent kjósenda hans eru 18-29 ára.Í kosningunum náði Viðreisn í 10,5 prósenta atkvæða og eftir langar og strangar stjórnarmyndunarviðræðum endaði flokkurinn ásamt Bjartri framtíð í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.
Sú ríkisstjórn náði að verða óvinsælasta ríkisstjórn lýðveldistímans og sat í einungis átta mánuði. Viðreisn fór ekki vel út úr þeirri stjórnarsetu. Þegar allt stefndi í að flokkurinn myndi þurrkast út í aðdraganda kosninga 2017 hætti Benedikt sem formaður og Þorgerður Katrín tók við. Á endanum náði flokkurinn í 6,7 prósent atkvæða og hélt sér á lífi.
Flokkurinn bauð í fyrsta sinn fram í sveitarstjórnarkosningum í fyrra. Þar fékk hann til að mynda 8,2 prósent atkvæða í Reykjavík og myndaði meirihluta þar með þremur öðrum flokkum á miðjunni og til vinstri.
Í síðustu könnun MMR mældist fylgi Viðreisnar á landsvísu 9,5 prósent. Það er 43 prósent af því fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn mældist með í þeirri könnun, sem var 22,1 prósent.
Tilvera flokksins er því augljóst högg fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Ungliðaáhrifin
Það var þó ekki svo að allir frjálslyndir alþjóðasinnar hefðu yfirgefið Sjálfstæðisflokkinn þegar Viðreisn var stofnuð og að einsleitur hópur íhaldsmanna sæti þar eftir. Sjálfstæðisflokkurinn er mun breiðari og flóknari en svo og stór hluti flokksmanna lítur á sig sem ákaflega frjálslynt fólk sem styður margháttaða alþjóðasamvinnu en er samt sem áður á móti Evrópusambandsaðild.
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2015 gerðu ungliðar innan flokksins til að mynda skæruárás þar sem lagðar voru fram allskyns breytingartillögur á stefnu hans. Á meðal þess sem lagt var fram var krafa um nýjan gjaldmiðil, aðskilnað ríkis og kirkju, aukið netfrelsi, aflagningu refsistefnu í fíkinefnamálum, aukin mannréttindi handa trans- og intersexfólki, tilfærslu hjónavígslna alfarið til sýslumanna, aflagningu mannanafnanefndar, að samkynhneigðir karlmenn fái að gefa blóð, að kvótakerfið í landbúnaði yrði afnumið og að kosningaaldur yrði lækkaður í 16 ár.
Þótt allar kröfur ungliðanna hafi ekki náð í gegn á endanum höfðu þær umtalsverð áhrif á landsfundinn og niðurstöðu hans. Það endurspeglaðist ágætlega í kosningu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem hafði leitt hópinn, sem ritara Sjálfstæðisflokksins, þá rétt að verða 25 ára gömul.
Þessi vel heppnaða aðgerð ungliðana þótti til marks um að að verulegar glæður væru enn í frjálslyndisarmi flokksins. Áslaug Arna hefur síðan hlotið mikinn framgang, verið kosin á þing og fékk kornung það hlutverk að sinna formennsku í utanríkismálanefnd. Bæði andstæðingar hennar innan stjórnmála og stuðningsmenn eru margir sammála um að hún hafi sinnt því hlutverki vel. Sé staðföst, vel undirbúin en kurteis og málefnaleg í samskiptum. Sérstaklega þykir hún hafa vaxið í þeim stormi sem geisað hefur vegna þriðja orkupakkans, en mikið hefur mætt á hennar nefnd vegna hans.
Hörð gagnrýni frá fyrrverandi formönnum
Síðustu árin hefur flokksforysta Sjálfstæðisflokksins þó legið undir stanslausri gagnrýni annars vegar frá þeim sem telja flokkinn of íhaldssaman og hinsvegar frá þeim sem telja hann ekki nægilega íhaldsaman. Guðlaugur Þór Þórðarson kom inn á þessa stöðu, og hvað það væri sem gerði hana svona óvenjulega, í viðtali á Hringbraut í maí. Þar sagði hann að það sem væri „nýtt og við höfum aldrei haft er þú ert með fyrrum formenn sem eru svona gagnrýnir á Sjálfstæðisflokkinn. Eru bara að hamast í því mjög lengi. Við erum annars vegar með Þorstein Pálsson, sem er farinn í annan flokk, og svo Davíð Oddsson.“
Þorsteinn er nú á meðal hugmyndafræðinga Viðreisnar. Davíð hefur síðastliðinn tæpan áratug verið ritstjóri Morgunblaðsins, sem hefur sögulega ætið gengið í takt með Sjálfstæðisflokknum og var áratugum saman formlegt málgagn hans. Þaðan hefur hann gagnrýnt forystumenn Sjálfstæðisflokksins í ritstjórnarskrifum og síðustu ár virðist stjórnmálaleg samleið hans vera fyrst og fremst vera með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og þeim flokkum sem hann stýrir hverju sinni. Inntak þeirrar hugmyndafræði er tortryggni gagnvart alþjóðasamstarfi grundvölluð á fullveldisrökum, þjóðerniskennd, gagnrýni á kerfisvæðingu stjórnmála og krafa um að völd verði í auknum mæli færð aftur til kjörinna stjórnmálamanna og andstaða við aukið frjálslyndi í lögum landsins sem hefur það markmið að auka réttindi afmarkaðra hópa.
Davíð er ekki einn um að hafa þessa skoðun. Hann er þvert á móti birtingarmynd hóps manna innan flokksins sem telur hann hafa villst verulega af leið í sinni pólitík.
Skilnaður flokks og blaðs
Undanfarna mánuði hefur verulega bætt í hörkuna í gagnrýni Davíðs og þeirra sem deila með honum skoðunum. Aðallega hefur hún hverfst um tvö mál, ný lög um þungunarrof sem heimila slíkt fram á 22 viku þungunar og svo þriðja orkupakkann.
Í fyrrahaust, áður en að Klausturmálið frestaði þriðja orkupakkastríðinu um nokkra mánuði, skrifaði Davíð tvo leiðara þar sem hann gagnrýndi Þordísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfdóttur, varaformann flokksins,harkalega.
Gagnrýni hans hefur haldið skýrt áfram á þessu ári og orðið breiðari. En undanfarið hefur forystusveit Sjálfstæðisflokksins svarað honum fullum hálsi.
Skýrasta dæmið var í grein Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara Sjálfstæðisflokksins, í lok síðasta mánaðar. Þar sagði hún meðal annars: „Rétt er það sem áður hefur verið haldið fram í þessu blaði að uppfinningamenn hafa lengi reynt að finna upp eilífðarvélina og ekki tekist. Því er mikilvægt að festast ekki í fortíðinni, heldur þróast í takt við nýja tíma og leiða þær óumflýjanlegu breytingar sem framtíðin mun hafa með sér fremur en að óttast þær[...]Það er ekki hlutverk Sjálfstæðisflokksins að standa vörð um úreltar hugmyndir sem þóttu einu sinni góðar. Við gerum greinarmun á grunngildum og einstaka stefnumálum eða úrræðum sem einu sinni virkuðu. Um leið og við berum virðingu fyrir sögunni er mikilvægt að við mótum framtíðina.“
Auk þess að vera í forystusveit Sjálfstæðisflokksins þá hefur Áslaug Arna tengingu inn í rekstur Morgunblaðsins. Faðir hennar Sigurbjörn Magnússon, er stjórnarformaður útgáfufélags blaðsins.
Þá vakti ekki síður athygli að á 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins í lok síðasta mánaðar ákvað Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, að birta afmælisgrein í Fréttablaðinu ekki Morgunblaðinu. Sú ákvörðun, sem er einsdæmi, þótti senda skýr skilaboð um hvernig formaðurinn teldi samband flokksins við gamla málgagnið standa.
Flokksforystan fari frá flokknum
Davíð hefur lagt Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins undir gagnrýni á flokkinn sinn undanfarnar vikur og þar bætt í frekar en dregið úr. Þann 8. júní lagði hann út frá aðsendri grein eftir Jón Hjaltason í Reykjavíkurbréfi dagsins, sem hafði þá nýverið birst. Þar taldi höfundurinn upp allt sem Sjálfstæðisflokkur dagsins í dag væri ekki að gera en sem hann teldi að væri hin eina sanna sjálfstæðisstefna.
Greinin hófst á því að höfundur sagði að nú um stundir sýndist honum „sem flokksforystunni þyki helst við hæfi að hnýta í þann formann sem verið hefur þjóðinni og flokknum drýgstur og bestur. Mér stendur stuggur af ykkur því ég hefi þungar áhyggjur af flokknum.“ Sá formaður sem vísað var til var Davíð Oddsson. Jón sagðist hafa rætt við hundruð félagsmanna sem hugnist ekki ferðalag flokksforystunnar og ætli ekki að slást í þá för. Hann taldi Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Bjarna hefði svikist undan því að lækka skatta, hafi svikið flokkinn með því að ráð Má Guðmundsson sem seðlabankastjóra, svikist undan merkjum með því að samþykkja Icesave-samninginn, heykst á að afturkalla umsókn að Evrópusambandinu, farið gegn vilja flokksins í þriðja orkupakkamálinu og öðru sem snéri að innleiðingum frá Evrópu, hafi ekkert gert til að „slá á þá gerræðislegu hugmynd að færa Reykjavíkurflugvöll“ né til að „hamla brautargengi hinnar fáránlegu Borgarlínu“. Þá hafi flokksforystan stutt „nánast takmarkalausar fóstureyðingar“, ekkert gert til að koma böndum á „fjársóun og fáránleika í heilbrigðisráðuneytinu“, ekkert gert til að koma „einhverju skikki á opingáttarflæði hælisleitenda“, þanið út báknið, rekið kaupfélag í Leifsstöð og beri mesta ábyrgð allra flokka á RÚV. Þá hafi flokksforystan kastað fyrir róða „eina ráðherranum sem sýnt hefur staðfestu, þor og dug,“ og vísaði þar í Sigríði Á. Andersen, sem var látin segja af sér sem dómsmálaráðherra fyrr á þessu ári og er í miklum metum hjá íhaldssamari hluta Sjálfstæðisflokksins.
Jón sagðist hafa rætt við hundruð félagsmanna sem hugnist ekki ferðalag flokksforystunnar og ætli ekki að slást í þá för.
Í niðurlagi greinar Jóns sagði síðan: „Ég velti fyrir mér hvort ekki væri farsælla að þið færuð frá flokknum en að flokkurinn fari frá ykkur.“
Þessi orð gerði Davíð að sínum og sagði að miðað við „samræmdar árásir sem leyna sér ekki og spunameistarar halda utan um og Jón nefnir í upphafi sinnar greinar er rétt að taka fram að ritstjórar Morgunblaðsins hafa ekkert heyrt um stefnu eða rökstuðning þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Morgunblaðið er borgaralegt blað og þótt það lúti ekki fjarstýringum utan úr bæ frá flokkum eða einstaklingum lætur að líkum að blaðið ætti oftar en ekki að geta átt góða samleið með flokknum ef hann er sjálfum sér samkvæmur og heill í fögrum fyrirheitum sínum.“
Kastast í opinbera kekki við Engeyinga
Viku síðar var stríðið orðið enn hatrammlegra. Þá stóð í Reykjavíkurbréfinu að ekki væri að veljast nægilega öflugt fólk í forystu Sjálfstæðisflokksins. Það hafi lengi verið „óskráð meginregla í Sjálfstæðisflokknum, sem reyndist vel, að hversu öflugur sem formaður flokksins væri, sem þeir voru sannarlega langflestir, skyldi landsfundur eða flokksráðsfundur tryggja að sá sem næstur stæði formanninum hefði ríkulega stjórnmálalega reynslu ef örlög eða atvik höguðu því svo að fylla þyrfti skarðið yrðu góð tök á því.“
Skiptar skoðanir um formannsslag
Bjarni Benediktsson náði þeim áfanga að hafa verið formaður Sjálfstæðisflokksins í áratug fyrr á þessu ári. Einungis tveir formenn hafa setið lengur í sögu flokksins, Ólafur Thors, sem var formaður Sjálfstæðisflokksins frá 1934 til 1961, og Davíð Oddsson, sem var formaður hans frá 1991 til 2005. Í ljósi þess sem gengið hefur á í stjórnmálum síðastliðinn áratug má það teljast pólitískt afrek.
Mikið er rætt um það í íslensku stjórnmálalífi, jafnt á meðal andstæðinga Sjálfstæðisflokksins sem stuðningsmanna hans, hvort að Bjarni sé farin að hugleiða að láta gott heita og að það gæti gerst á næsta landsfundi, sem haldið verður snemma á næsta ári. Aðallega eru tveir nefndir sem mögulegir arftakar: Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður flokksins og ráðherra ferðamála-, iðnaðar-, nýsköpunar og dómsmála. Mjög skiptar skoðanir eru á meðal fólks sem vinnur í nálægð við hann reglulega, í þinginu eða innan ríkisstjórnarinnar, um hvað hann ætli sér að gera. Viðmælendur úr því mengi hafa sumir sagt að þeim finnist Bjarni virka frekar áhugalaus gagnvart öðrum málum en þeim sem snúi beint að hans ráðuneyti, og beiti sér til að mynda lítið sem ekkert til að lægja þær miklu öldur sem eru í flokknum um þessar mundir, að minnsta kosti opinberlega. Samstarfsmenn innan ríkisstjórnar sem Kjarninn ræddi við eru þó sumir hverjir á öðru máli. Segja að Bjarni njóti augljóslega þess sem hann sé að gera og hafi metnað fyrir því að gera það áfram. Eina viðtalið sem Bjarni sjálfur hefur gefið undanfarin misseri þar sem hann hefur tjáð sig um áframhaldandi formennsku sína var við Þjóðmál sem komu út í október í fyrra. Þar sagðist hann ekkert vera að hugsa um að hætta í stjórnmálum. Á meðan að hann brenni fyrir þeim verkefnum sem hann sinnti og þeim breytingum sem hann vildi sjá þá væri engin ástæða til að hætta.Nú þætti hins vegar fínt að reynslulítið fólk „sem hefur fengið pólitískt vægi með slíkt nesti langt umfram það sem áður tíðkaðist, tali niður til flokkssystkina sinna og leggi lykkju á leið sína til að vísa þeim sem eldri eru út úr umræðunni með þótta sem fer öllum illa.“
Þórdís Kolbrún tók gagnrýnina greinilega til sín og augljóst var að hún var að senda Davíð, og þeim sem fylgja honum að málum, sneið þegar hún skrifaði í stöðuuppfærslu á Facebook um síðustu helgi að það væri mikilvægt að eiga góðar og traustar vinkonur, sérstaklega þegar „allskonar mikilmenni gagnrýna mann og hafa helst á mann að fylgja sannfæringu sinni, hlusta á magann sinn og vera bara rúmlega þrítugur.“
Sú vending hafði orðið þarna að Halldór Blöndal, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins og forseti Alþingis, hafði skrifað grein í Morgunblaðið og gagnrýnt Davíð fyrir gagnrýni sína. Þar skrifaði Halldór, sem er náfrændi Bjarna Benediktssonar og hluti hinnar frægu og valdamiklu Engeyjarætttar, að skrif Davíðs lýstu sálarástandi hans. Davíð svaraði því til að Halldór rataði illa „eftir að notkunin á ættarvitanum óx. Og lendir þá í hverri hafvillunni af annarri.“
Uppgjör framundan eða sverðin slíðruð
Sem stendur virðist sú staða vera komin upp að áhrifamikil öfl innan hans, sem standa utan forystunnar, telji að Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki verið bæði íhaldsflokkur og frjálslyndur flokkur.
Ekkert bendir til þess að draga muni úr átökum á milli þeirra afla sem takast nú á um sál Sjálfstæðisflokksins og ef ekki tekst að slíðra sverðin fyrir næsta landsfund, sem er áætlaður í byrjun næsta árs, verður óumflýjanlegt að þar komi til uppgjörs.
Flokksforystan sækir þó styrk í það að í gegnum þann storm sem hefur geisað frá því síðsumars í fyrra hefur fylgi flokksins haldist nokkuð stöðugt. Fylgi þess flokks sem býður upp á íhaldssaman valkost við hann, Miðflokksins, hefur auk þess vart haggast.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur auk þess margoft sýnt það að hann getur sett vandamál og ágreining til hliðar þegar kemur að kosningum og unnið sem heild. Flokkurinn er enda ein stærsta fjöldahreyfing landsins með tugþúsundir skráðra flokksmanna og mikið afl sem kosningavél.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars