Rasmus
Paludan er vafalítið umdeildasti stjórnmálamaður Danmerkur. Og ekki að
ástæðulausu. Hann hefur margsinnis hlotið dóm, einkum fyrir ummæli sem hann
hefur látið sér um munn fara. Danskir fjölmiðlar kalla hann hægri öfgamann,
rasista, haturstrúboða og nasista. Hann er 37 ára, lögfræðingur að mennt og
hefur um árabil haft afskipti af stjórnmálum.
Sem ungur maður tók Rasmus Paludan þátt í starfi nokkurra stjórnmálaflokka en festi hvergi rætur. Árið 2017 stofnaði hann stjórnmálaflokkinn Stram Kurs, Stranga Stefnu. Helsta baráttumál flokksins hefur frá byrjun verið barátta gegn múslímum í Danmörku. Öllum sem játa trú múslíma vill flokkurinn gera útlæga úr Danmörku, og helst af öllu afmá múslíma af yfirborði jarðar hvar sem er í heiminum. Flokkurinn vill líka að öllu fólki sem ekki er af vestrænum uppruna verði bannað að koma til Danmerkur.
Í kosningabaráttunni fyrir þingkosningarnar fyrr í þessum mánuði (5.júní) fór Rasmus Paludan, sem er allt í öllu hjá Stram Kurs, mikinn og var nær daglega um hann fjallað í dönskum fjölmiðlum. Sumir þeirra sögðu Rasmus Paludan einskonar blöndu af Mogens Glistrup og Donald Trump. Samkomur, sem flokkurinn stóð fyrir, voru iðulega haldnar á götum og torgum, ekki síst á svæðum þar sem fólk af erlendu bergi brotið býr. Þar lét formaðurinn móðan mása, hæddist að Kóraninum, sem hann kallaði Stóru skækjubókina (Den store luderbog) og hvatti viðstadda til að míga á þetta helsta trúarrit múslíma. Sjálfur hélt Rasmus Paludan iðulega á Kóraninum á fundum sínum, hrækti á hann og kveikti svo í. Sömuleiðis hæddist hann að fólki af afrískum uppruna, burtséð frá trúarbrögðum, sagði það litlum gáfum gætt. Hvíti maðurinn hefði haft vit á að fara frá Afríku en heimskingjarnir, þeir þeldökku, setið eftir. Allt vakti þetta mikla athygli og rataði í fjölmiðlana. Á þessum samkundum voru stuðningsmenn oft fámennari en mótmælendurnir. Lögreglan hafði því í nógu að snúast til að gæta öryggis flokksformannsins, meira um það síðar í þessum pistli.
Kallaði Mimi Jakobsen nasisasvín
Þegar Stram Kurs flokkurinn var stofnaður árið 2017 lýsti Rasmus Paludan því yfir að stefnt yrði að framboði næst þegar kosið yrði til þings. Til að geta boðið fram þarf að skila 20 þúsund meðmælendum og það tókst flokknum. Dönskum fjölmiðlum ber að gæta jafnræðis, geta til dæmis ekki sniðgengið fulltrúa tiltekinna flokka sem bjóða fram. Rasmus Paludan tók þátt í ótal umræðuþáttum í útvarpi og sjónvarpi og sparaði þar ekki stóru orðin. 9. maí kom hann ásamt fleirum fram í þættinum Aftenshowet á aðalrás danska sjónvarpsins, DR1. Meðal gesta þar var Mimi Jakobsen, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Centrum – Demokraterne, Mið – demókrata. Hún sat á þingi á árunum 1977 – 2001, þar af rúmlega tíu ár sem ráðherra, en hefur nú hætt afskiptum af stjórnmálum. Í áðurnefndum þætti tókust þau, hún og Rasmus Paludan, harkalega á. Hann sagði að Mimi Jakobsen minnti sig mest á Adolf Hitler, og bætti svo um betur og kallaði hana nasistasvín. Ekki einu sinni heldur tvisvar.
Ætlar að höfða mál
Mimi Jakobsen lýsti því síðar yfir að hún sætti sig ekki við að vera kölluð nasistasvín og hún myndi kæra þessi ummæli til lögreglunnar. Ummæli af þessu tagi er hinsvegar ekki hægt að kæra til lögreglu og þess vegna hyggst Mimi Jakobsen höfða einkamál gegn Rasmus Paludan. Sú málshöfðun er nú í undirbúningi. Enginn fulltrúi Stram Kurs náði kjöri í kosningunum 5. Júní sl, til þess hefði flokkurinn þurft að fá 2% atkvæða en fékk 1.8% (63.537 atkvæði). Danskar reglur um stuðning við stjórnmálaflokka gera ráð fyrir árlegum fjárstyrk sem reiknaður er út miðað við fylgi flokks í nýliðnum kosningum fram til næstu kosninga. Burtséð frá því hvort viðkomandi flokkur náði fulltrúum á þing eða ekki. Stram kurs fær, samkvæmt þessum reglum árlegt framlag úr ríkissjóði, framlagið nemur 2.1 milljón danskra króna ( 40 milljónum íslenskum). Rasmus Paludan hefur í viðtölum lýst yfir að þótt flokknum hafi ekki tekist að ná fulltrúum á þing í þessari atrennu haldi flokksstarfið áfram og það komi dagur eftir þennan, eins og hann orðar það.
Kostnaðarsöm öryggisgæsla
Lögum samkvæmt er það hlutverk dönsku lögreglunnar að gæta öryggis stjórnmálamanna. Sú öryggisgæsla byggist á sérstöku mati og í tilviki Rasmus Paludan hefur þörfin fyrir slíka gæslu verið rík. Og kostar sitt. Það sem af er þessu ári hefur kostnaður lögreglu vegna þessa eina stjórnmálamanns numið vel á annað hundrað milljóna danskra króna( vel á þriðja milljarð íslenskra). Þetta er miklu meiri kostnaður en vegna annarra stjórnmálamanna, en það er mat lögreglunnar að sérstök ástæða sé til að hafa umfangsmikla gæslu þegar þessi umdeildi stjórnmálamaður á í hlut. Margir hafa undrast að manni með jafn afdráttarlausar og umdeildar skoðanir hafi tekist að safna nægum fjölda meðmælenda til að geta boðið fram. Það hefur vakið umræður um lögin, bæði varðandi fjölda meðmælenda og ennfremur þröskuldinn svonefnda.
Lögin
Eins og nefnt var fyrr í þessum pistli þarf flokkur sem hyggst bjóða fram í þingkosningum í Danmörku að hafa að minnsta kosti 20 þúsund meðmælendur. Sú regla hefur lengi verið óbreytt. Í umfjöllun dagblaðsins Berlingske um þetta mál lýstu nokkrir gamalgrónir stjórnmálamenn ( sem ekki eru lengur í eldlínunni) þeirri skoðun sinni að réttast væri að hækka tölu meðmælenda upp í 40 þúsund. Með því yrði komið í veg fyrir að flokkar í framboði yrðu allt of margir sem hefði í för með sér að þúsundir atkvæða féllu dauð (stemmespild). Margir eru hinsvegar andsnúnir þessari hugmynd, segja að þá yrði hugsjónafólki gert erfiðara um vik að reyna að hafa áhrif á stjórn landsmálanna. Skoðanir eru líka skiptar um hvort rétt sé að hækka þröskuldinn svonefnda. Í dag eru reglurnar þannig að til að ,,sleppa inn“ þarf 2% greiddra atkvæða. Flokkur sem rétt skríður yfir þröskuldinn fær fjóra þingmenn. Það er í samanburði við margar aðrar þjóðir fremur lágur þröskuldur. Andstæðingar hærri þröskuldar segja að það að þröskuldurinn skuli ekki vera hærri tryggi meiri fjölbreytni á þingi. Í Danmörku er löng hefð fyrir margra flokka stjórnum, og minnihlutastjórnum, og þar hafa fámennir þingflokkar oft skipt miklu máli.
Þessa dagana standa stjórnarmyndunarviðræður yfir í Danmörku. Þótt stjórnmálamenn hafi talað oft og lengi um breytingar á kosningafyrirkomulaginu er það ekki efst í huga þeirra núna.