Mikill skjálfti er nú innan seðlabanka heimsins vegna áforma samfélagsmiðla- og tæknirisans Facebook að setja rafmyntina Libra í loftið á næsta ári. Samkvæmt tilkynningum frá fyrirtækinu þá er markmiðið að setja í loftið gjaldmiðil sem yrði gjaldgengur í daglegum viðskiptum í því rúmlega 2,3 milljarða manna samfélagi sem Facebook tengir saman.
Nýtt gjaldmiðlastríð
Eitt af því sem sérfræðingar seðlabanka heimsins óttast er að þessi áform Facebook geti ýtt af stað atburðarás, sem eykur á fjármálaóstöðugleika heimsins og búið til nýtt gjaldmiðlastríð, að því er fram kemur í umfjöllun Bloomberg.
Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, eyddi drjúgum tíma í að ræða um áform Facebook þegar hann kynnti þá ákvörðun bankans að halda vöxtum óbreyttum í tveimur prósentum, í síðustu viku. Hann sagði að bankinn hefði formlega sett sig í samband við Facebook, og sérfræðingar hefðu átt í samskiptum um áformin.
Hann ítrekaði jafnframt að ekkert hefði enn gerst, sem ógnaði öryggi fjármálakerfisins eða Bandaríkjadalsins, en mikilvægt væri að fylgjast grannt með því hvernig framvindan yrði.
Ýmsar spurningar vakna, þegar kemur að áformum Facebook. Samkvæmt skrifum Yahoo Finance, þá vilja sérfræðingar eftirlitsstofnanna að stjórnmálamenn bregðist við með hertara regluverki. Er það mat margra að best sé að stíga varlega til jarðar, en ekki leyfa hlutunum að gerast hratt, þegar svo mikið er undir eins og fjármálakerfi heilu þjóðríkjanna.
Ekki opnar dyr
Fulltrúar sjö stærstu iðnríkja heimsins hafa ákveðið að skoða áhrifin af áformum Facebok sameiginlega, mun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn taka þátt í þeirri vinnu. Mark Carney, seðlabankastjóri Bretlands, sagði að eftirlitsstofnanir myndu nálgast áform Facebook með opnum huga, en ekki opnum dyrum. Meta þyrfti allar hliðar málsins, áður en gjaldmiðillinn yrði settur í loftið.
En hvaða máli skiptir þetta fyrir fólk? Hvað gæti gerst og hver er hugsunin að baki?
Í fyrsta lagi, er enginn með skýr svör við því hvað muni gerast þegar Libra fer í loftið og verður gjaldmiðill í Facebook samfélaginu. Með honum vill Facebook bjóða upp á valkost sem getur til lengri tíma litið verið valkostur sem gjaldmiðill í viðskiptum. Líklegt er að hann verði auðskiptanlegur yfir í helstu myntir heimsins, svo sem evru og Bandaríkjadal, en ekki er augljóst hvernig útfærslurnar verða í upphafi.
Ljóst er þó að tæknirisar eins og Facebook - og eftir atvikum fleiri, t.d. Amazon og Apple - búa yfir djúpum gögnum um notendur, sem geta nýst við að meta áhættu viðskipta, t.d. við að lána. Með því að setja rafmyntir í loftið þá geta myndast mikil hagnaðartækifæri, sökum þessa, og mikið samkeppnisforskot, sem getur ógnað tilveru hefðbundinna banka eins og við höfum þekkt hana til þessa.
Áhyggjurnar eru margvíslegar.
Margir ósttast að með því að setja Libra gjaldmiðilinn í loftið, geti opnast flóðgáttir fyrir peningaþvætti, þar sem eftirlit verður erfitt. Auðvelt verði að koma illa fengnum verðmætum í verð með rafmyntinni.
To make the libra cryptocurrency a success, Facebook and Mark Zuckerberg must regain people’s trust. https://t.co/3tIOoMARxt
— Vox (@voxdotcom) June 24, 2019
Facebook hefur reynt að slá á þessar áhyggjur með opinberum yfirlýsingum, en deild fyrirtækisins sem vinnur að innviðauppbyggingu fyrir gjaldmiðlakerfið - Calibra - hefur sent frá sér yfirlýsingar um að öll skref verði tekin með yfirvöldum. Eitt af því sem er erfitt er að skilgreina markaðssvæði og hvernig áhrifin verða innan ákveðinna svæða.
Þannig eftirlitsstofnanir haft ólíka nálgun eftir löndum, og bannað tiltekna viðskiptahegðun - eða jafnvel alveg alla notkun - á meðan önnur svæði verða opnari frá fyrstu dögum. Þannig geti myndast stórar fjármagnshreyfingar sem verði erfiðar fyrir mörg hagkerfi, ekki síst þau sem eru lítil og óvarin.
Þannig geta lönd eins og Ísland þurft að gaumgæfa vel, hvernig áhrifin af aukinni rafmyntavæðingu geta komið fram og hver áhrifin verða á fjármálastöðugleika.
Miklar sveiflur
Seðlabanki Ástralíu hefur sent frá sér skýrar viðvaranir vegna áforma Facebook. Hann segir að það sé ekki hægt að heimila starfsemi sem geti ógnað stöðugleika, og það sé heldur ekki hægt að hleypa of miklum sveiflum inn í hagkerfin, bara til þess að opna fyrir spennandi tækni. Engar auðveldar leiðir verði í boði fyrir Facebook. Of mikið sé í húfi fyrir almenning.
Þá er líka spurning hvort það sé hægt að treysta Facebook fyrir því að setja gjaldmiðil í loftið, eftir allt sem er á undan gengið hjá fyrirtækinu. Meðal annars ítrekuð mistök fyrirtækisins, þegar kemur að því að vernda gögn notenda, og einnig áhrifin á samfélagslega umræðum, sem hafa verið verulega umdeild á heimsvísu á undanförnum árum.