Að teknu tilliti til verðbólgu hefur fasteignaverð lítið sem ekkert hækkað á undanförnum 12 mánuðum. Vísitala íbúðaverðs hefur hækkað um 3,8 prósent, en verðbólga á ársgrundvelli mælist nú 3,6 prósent.
Vaxtalækkun vinnur á móti
Það sem helst getur unnið gegn verulegri kólnun í þróun fasteignaverðs, frá því sem verið hefur raunin á undanförnum þremur árum, er vaxtalækkun á markaði. Flestir viðmælenda Kjarnans gera ráð fyrir að Seðlabanki Íslands lækki vexti enn frekar á næstunni, til að vinna á móti samdrætti í efnahagslífinu, eftir fall WOW air í mars og einnig verulega íþyngjandi áhrif af kyrrsetningu á 737 Max vélum frá Boeing sem eru hluti af flota Icelandair.
Ferðaþjónustan finnur fyrir þessu og áhrifanna gætir vítt og breitt í efnahagslífinu. Minni eftirspurn í ferðaþjónustu dregur einnig úr eftirspurn á fasteignamarkaði, en útleiga á íbúðum til ferðamanna hefur verið verulega umfangsmikil á undanförnum árum, ekki síst miðsvæðis í Reykjavík.
Spá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir 0,2 prósent samdrætti í landsframleiðslu á þessu ári, samanborið við 4,6 prósent hagvöxt í fyrra. Ekkert annað land í Evrópu er að upplifa viðlíka viðsnúning til hins verra í landsframleiðslu.
Í fyrra urðu til um 6.500 ný störf, en þeim fjölgaði frá upphafi úr 201 þúsund í 207 og fimm hundruð, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands um yfirlit yfir fjölda fólks á vinnumarkaði.
Spá Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir 0,4 prósent samdrætti á þessu ári. Meginvextir Seðlabankans eru núna 4 prósent, verðbólga 3,6 prósent, en verðbólgumarkmiðið er 2,5 prósent.
Stærsti eignamarkaðurinn
Fasteignamarkaðurinn er stærsti eignamarkaðurinn í hagkerfinu, en sé horft til fasteignamats fyrir 2020 þá hækkaði það um 6,1 prósent milli ára og var samtals rúmlega 9 þúsund milljarðar króna.
Þar af nemur fasteignamat íbúða í landinu 6.594 milljörðum, og nemur hækkunin 6 prósentum frá fasteignamati fyrir 2019.
Spár fyrir horfur á fasteignamarkaði hafa verið nokkuð misvísandi undanfarin misseri. Greiningardeild Arion banka spáði raunverðslækkun á fasteignamarkaði, í upphafi þessa árs, og hefur sú verið raunin, þegar horft er til þróunar á síðustu sex mánuðum að teknu tilliti til verðbólgu.
Á undanförnum sex mánuðum hefur vísitala íbúðaverðs hækkað um 0,7 prósent en verðbólga hefur haldist yfir þrjú prósent á sama tíma.
Er góður tími til að kaupa eða selja?
Fasteignaviðskipti eru jafnan stærstu viðskipti venjulegra fjölskyldna. Kaup á fasteignum eru því langtímafjárfestingar, oftast nær, og ekki einungis horft til tímabundinna verðsveiflna þegar fasteignaviðskipti eiga sér stað, hvort sem um er að ræða sölur eða kaup.
Eins og horfurnar eru þessi misserin þá standa líkur til þess að kaupmáttur launa hjá fólki muni að meðaltali ekki aukast mikið á næstu misserum.
Frekar mun launaþróunin standa í stað, en á móti kemur geta vextir farið lækkandi, sem hjálpar til við að halda greiðslubyrði lána í skefjum. Framboð eigna á markaði er að aukast hratt, einkum litlar og meðalstórar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, og á það bæði við um eignir til leigu og kaups.
Um 84 prósent íbúðaviðskipta á höfuðborgarsvæðinu í apríl, voru undir ásettu verði íbúða, samkvæmt upplýsingum sem fram komu mánaðarskýrslu Íbúðarlánasjóðs. Um 10 prósent seldust á hærra verði.
Þetta er nokkrar breytingar frá því sem var áður en fyrir ári síðan fóru 69 prósent eigna á undir ásettu verði og 17 prósent seldust á yfirverði.
Á því mikla hækkunartímabili á fasteignamarkaði, sem stóð sem hæst á árunum 2013 til og með 2018, þá var hækkunin mest á vormánuðum 2017, 23,5 prósent.