Á aðalfundi Bláa lónsins, sem fór fram fyrr í dag, var samþykkt að greiða út um 30 milljónir evra, alls tæplega 4,3 milljarða króna í arðgreiðslu vegna frammistöðu síðasta árs, samkvæmt heimildum Kjarnans. Það er næstum því tvöfalt hærri greiðsla en var greidd út á síðasta ári í arð, þegar slík greiðsla nam 16 milljónum evra, eða tæplega 2,3 milljarðar króna á núvirði.
Í ársreikningi Bláa lónsins fyrir árið 2018, sem Kjarninn hefur undir höndum, kemur fram að rekstrartekjur fyrirtækisins hafi verið 122,6 milljónir evra, um 17,4 milljarðar króna, á síðasta ári. Það er aukning um 20 prósent frá árinu 2017 þegar þær voru 102,3 milljónir evra, eða um 14,5 milljarðar króna á gengi dagsins í dag.
Eigið féð 12,4 milljarðar
Bláa lónið hefur vaxið hratt síðustu misseri, samhliða stórauknum ferðamannastraumi til Íslands. Eignir þess um síðustu áramót voru metnar á 157,2 milljónir evra, eða 22,3 milljarða króna, og eigið fé þess var 87,8 milljónir evra, rúmlega 12,4 milljarðar króna.
Stærsti eigandi félagsins er Hvatning slhf. með eignarhlut upp á 39,1 prósent. Eigandi þess er Kólfur ehf., eignarhaldsfélag að stærstu leyti í eigu Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins, og Eðvard Júlíussonar. Kólfur keypti tæplega helming í Hvatningu af Horni II, framtakssjóði í stýringu Landsbréfa, í fyrra. Samkvæmt þessu mun Hvatning fá tæplega 1,7 milljarð króna í arðgreiðslu.
Næst stærsti eigandinn er Blávarmi slhf., félag í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, sem keypti 30 prósent hlut HS Orku í Bláa lóninu á tæplega fimmföldu bókfærðu virði hlutarins í maí síðastliðnum, eða á 15 milljarða króna.
Salan á hlutnum í Bláa Lóninu fór fram eftir að Jarðvarmi slhf., félag í eigu sömu lífeyrissjóða, hafði eignast allt hlutafé í HS Orku skömmu áður. Miðað við þessi viðskipti þá er Bláa lónið metið í heild sinni á 50 milljarða króna. Blávarmi mun fá tæplega 1,3 milljarða króna í arðgreiðslu.
Þriðji stærsti eigandinn með 8,7 prósent hlut er Keila ehf., en stærsti eigandi þess er áðurnefnd Hvatning. Arðgreiðsla þess félags mun vera um 370 milljónir króna.
Fjölmiðlaeigendur í eigendahópnum
Fjórðu og fimmtu stærstu hluthafarnir er félögin Hofgarðar ehf. og Saffron ehf. með sitt hvorn 6,2 prósent eignarhlut. Hofgarðar er eignarhaldsfélag í eigu Helga Magnússonar. Helgi var í fréttum nýverið þegar hann keypti helmingshlut í Torgi ehf., útgáfufélagi Fréttablaðsins. Hann er enn fremur stjórnarformaður Bláa lónsins.
Bogmaðurinn ehf., félag í eigu Ágústu Johnson er einnig á meðal stærstu eigenda með 2,4 prósent eignarhlut. Ágústa er eiginkona Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra. Arðgreiðsla Bogmannsins mun nema um 102 milljónum króna á gengi dagsins í dag.