Þriggja vikna stjórnarmyndunarviðræðum í Danmörku lauk síðastliðið miðvikudagskvöld og stjórnarskipti fóru fram daginn eftir, 27. júní. Jafnaðarmenn fengu 48 þingsæti í kosningunum 5. júní en samanlagt fengu mið- og vinstriflokkarnir, rauða blokkin svonefnda, 91 þingsæti en 179 þingmenn eiga sæti á danska þinginu, Folketinget. Löng hefð er fyrir minnihlutastjórnum í Danmörku en tæpir fjórir áratugir eru síðan Jafnaðarmenn sátu einir í stjórn.
Mette Frederiksen leiðtogi jafnaðarmanna lýsti því yfir þegar úrslit kosninganna lágu fyrir að hún myndi vilja reyna myndun minnihlutastjórnar, með stuðningi flokka í rauðu blokkinni, Sósíalíska þjóðarflokksins, Radikale Venstre og Einingarlistans. Viðræður þessara flokka hófust strax að loknum kosningum og hafa staðið linnulaust síðan. Frá upphafi var ljóst að þótt flokkarnir væru sammála um margt voru ágreiningsefnin líka mörg. Að lokum tókst þó flokkunum fjórum að ná saman og ljóst að stjórn undir forystu Mette Frederiksen yrði að veruleika.
Þegar Mette Frederiksen, Morten Østergaard formaður Radikale Venstre, Pia Olsen Dyhr formaður Sósíalíska þjóðarflokksins og Pernille Skipper talsmaður Einingarlistans (sem hefur ekki formann) kynntu samkomulagið lögðu þau fram 18 síðna plagg, einskonar stefnuyfirlýsingu „Retfærdig retning for Danmark“. Þar er gerð grein fyrir þeim markmiðum sem flokkarnir vilja leggja áherslu á, en hvernig þessum markmiðum skuli náð er ekki nákvæmlega útfært.
Eftirlaunaréttur, málefni innflytjenda og útlendinga, umhverfismál
Í upphafi kosningabaráttunnar lögðu jafnaðarmenn mikla áherslu á breytingar á eftirlaunaaldri. Rétt vinnulúinna, þeirra sem vinna erfið líkamleg störf til að fara fyrr en aðrir á eftirlaun. Um þetta var mikill ágreiningur meðal fulltrúa flokkanna og á endanum var nánast ekkert um þetta fjallað í stefnuyfirlýsingunni. Mette Frederiksen sagði í viðtali við danska sjónvarpið, DR, að þetta væri forgangsmál hjá sér og hún teldi fullvíst að fyrir þessum breytingum væri meirihluti á þinginu.
Annað sem hart var tekist á um voru málefni flóttafólks og hælisleitenda. Jafnaðarmenn höfðu tekið upp harða og óvægna stefnu, líkt og Danski þjóðaflokkurinn hefur fylgt um árabil, sem sé að flóttafólki og hælisleitendum skyldi, undantekningalítið, vísað úr landi. Þetta gengur þvert á stefnu Radikale Venstre og Einingarlistans og á endanum urðu jafnaðarmenn að gefa verulega eftir og sem dæmi má nefna að nú getur flóttafólk sem verið hefur í vinnu í Danmörku í tvö ár verið þar áfram, meðan viðkomandi sinnir sama starfi hjá sama fyrirtæki eða í hliðstæðu starfi hjá öðru fyrirtæki. Þetta er kúvending. Í umræðuþættinum „Debatten“ í danska sjónvarpinu sagði talsmaður jafnaðarmanna að þetta ákvæði hefði áður verið til staðar þannig að þetta væri ekki kúvending, fremur áherslubreyting. Talsmenn Einingarlistans og Radikale Venstre sögðu aftur á móti að þeim hefði tekist að fá jafnaðarmenn til að breyta um kúrs.
Hætt hefur verið við ákvarðanir fyrri ríkisstjórnar um að gera smáeyjuna Lindholm (7 hektarar) við suðurodda Sjálands að einskonar biðstöð þar sem einstaklingum sem hefði verið vísað úr landi yrði gert að dveljast uns þeir yfirgæfu Danmörku. Þessar fyrirætlanir mættu mikilli andstöðu og eru nú fyrir bí.
Í flóttamannabúðunum Sjælsmark á Norður-Sjálandi búa útlendingar sem hefur verið synjað um landvistarleyfi í Danmörku og bíða þess að verða sendir úr landi, en það getur tekið tíma. Í þessum búðum búa 90 börn og nýlega kom það fram í dönskum fjölmiðlum að íbúarnir fá ekki sjálfir að elda mat, heldur borða í mötuneyti á staðnum. Þetta hefur verið harðlega gagnrýnt en Inger Støjberg ráðherra innflytjendamála í stjórn Lars Løkke Rasmussen blés á slíka gagnrýni, svona væru reglurnar. Í stefnuyfirlýsingu stjórnar jafnaðarmanna segir að finna skuli viðunandi lausn þannig að engin börn, eða barnafjölskyldur búi á Sjælsmark.
Þriðja atriðið sem sérstök áhersla er lögð á í stefnuyfirlýsingunni, er umhverfis- og loftslagsmál. Þar er að finna mun háleitari markmið en jafnaðarmenn höfðu áður sett sér, til dæmis er ætlunin að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 70 prósent fram til ársins 2030, miðað við árið 1990. Þetta var baráttumál flokkanna þriggja sem styðja minnihlutastjórn Mette Frederiksen og stjórnarflokkurinn hefur nú beygt sig undir en jafnaðarmenn vildu miða við 60% minnkun. Í stefnuyfirlýsingunni er lítið sem ekkert fjallað um hvernig skuli fjármagna ýmsar fyrirætlanir stjórnarinnar og stuðningsflokkanna og það hafa stjórnarandstaðan gagnrýnt. Lars Løkke Rasmussen fyrrverandi forsætisráðherra kallar stefnuyfirlýsinguna óskalista.
20 ráðherrar, meðalaldurinn 42 ár
Mette Frederiksen, sem er 41 árs og tveggja barna móðir, er yngsti forsætisráðherra í sögu Danmerkur og einungis ein kona hefur áður gegnt embættinu, Helle Thorning-Schmidt á árunum 2011 til 2015. Forsætisráðherrann er ekki nýgræðingur í pólitík, 15 ára varð hún félagi í landssamtökum ungra jafnaðarmanna, hún hefur setið á þingi frá árinu 2001 og verið formaður flokks jafnaðarmanna frá árinu 2015. Hún er fædd og uppalin í Álaborg, með háskólapróf í stjórnun og samfélagsfræði og meistarapróf í málefnum Afríku. Hún gegndi embætti atvinnumálaráðherra 2011 til 2014 og dómsmálaráðherra 2014 til 2015. Per Frederiksen, eldri bróðir Mette, sagði í viðtali við danska sjónvarpið að hún væri þrjósk og fylgin sér en jafnframt réttsýn. Hún ætti auðvelt með að umgangast fólk og hann hefði alltaf vitað að hún ætti eftir að standa sig vel „þótt það sé kannski óraunverulegt að hún skuli vera orðin forsætisráðherra.“
Í ríkisstjórn Mette Frederiksen sitja 20 ráðherrar, 7 konur og 13 karlar, meðalaldurinn er 42 ár. 9 úr þessum hópi hafa áður gegnt ráðherraembætti. Nánustu samstarfsmenn forsætisráðherrans eru Nicolai Wammen fjármálaráðherra, Jeppe Kofod utanríkisráðherra og Nick Hækkerup dómsmálaráðherra. Þessir þrír mynda, auk forsætisráðherrans, einskonar ráðherranefnd (koordinationsudvalg), sem hittist að jafnaði einu sinni í viku og fjallar um frumvörp og ýmis stærri mál, áður en þau koma til kasta ríkisstjórnarinnar allrar. Þess má geta að einn úr ráðherrahópnum, Mogens Jensen ráðherra sjávarútvegs, matvæla- og jafnréttismála (eins og það er orðað á heimasíðu flokksins) er formaður Norræna félagsins í Danmörku og verður nú samstarfsráðherra Norðurlandanna fyrir hönd Danmerkur.
Í lokin má geta þess að Mette Frederiksen hefur tilkynnt að Margrethe Vestager, fyrrverandi ráðherra og formaður Radikale Venstre, sitji áfram í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fyrir hönd Danmerkur en fimm ára tímabili hennar í framkvæmdastjórninni hefði annars lokið á þessu ári. Danskir stjórnmálaskýrendur höfðu velt því fyrir sér hvort Mette Frederiksen myndi velja einhvern úr sínum flokki, Jafnaðarmannaflokknum til að taka við þessu mikilvæga starfi innan ESB. Margrethe Vestager hefur verið nefnd sem hugsanlegur næsti forseti framkvæmdastjórnarinnar en í þeim efnum er allt óljóst.