Vill sjá útflutningsaukningu í hugviti og skapandi greinum
Nýskipaður sérstakur ráðgjafi mennta- og menningarmálaráðherra um eflingu skapandi greina á Íslandi segir að þær muni skipta máli fyrir eflingu samkeppnishæfni Íslands og að feli í sér lausnir fyrir hnattræn vandamál sem þjóðir heims standa andspænis.
Auður Edda Jökulsdóttir er nýskipaður sérstakur ráðgjafi í stefnumótun og eflingu skapandi greina á Íslandi. Hún ræddi við Kjarnann um framtíðarsýn um útflutningi íslensks hugvits og skapandi greina sem hún segir verða hennar ær og kýr á komandi tímum. Hún vill styðja við bakið á fólki í skapandi greinum og hugviti.
Auður Edda mun vinna að þeim verkefnum undir forystu Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningamálaráðherra. Auður Edda leiðir verkefnið í samstarfi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, kynningarmiðstöðvar listgreina og utanríkisþjónustuna og atvinnulífið, jafnframt sem stefnumörkunin verður unnin í samvinnu við Íslandsstofu.
Auður Edda hefur gegnt fjölmörgum störfum á vettvangi utanríkis- og alþjóðamála undafarna tvo áratugi, þar á meðal í sendiráðum Íslands í Peking og Berlín, og nú síðast sem forstöðumaður viðskiptaþjónustu og alþjóðlegs menningarsamstarfs í utanríkisráðuneytinu.
Heildarvelta skapandi greina 200 milljarðar
Verkefni Auðar Eddu verða fjölbreytt og segir hún að stefnumótun og efling skapandi greina sé rétt að byrja. „Markmiðið er að leiða saman stjórnsýslu og atvinnulíf til góðra verka. Sú vinna verður unnin í nánu samstarfi við Íslandstofu, Kynningarmiðstöðvar listgreina, háskóla, samtök og stofnanir. Áherslan er ekki síst á að vinna með hagaðilum og grasrótinni og beita sem mest skapandi hugsun og nálgunum í þessari vinnu," segir hún.
„Undir forystu mennta- og menningarmálaráðherra tökum við nú upp þráðinn á nýjan leik frá kortlagningu á hagrænu umfangi skapandi greina fyrir um áratug síðan. Þá kom í ljós að heildarvelta greinanna, þess hluta sem undanþeginn er virðisaukaskatti, nam hátt í 200 milljörðum og að hátt í 10 þúsund manns störfuðu við þær,"sagði hún. „Við þurfum að vanda okkur, vinna hratt og vel á breiðum grunni, og vera lausna- og árangursmiðuð í starfinu framundan."
Þörf á að móta framtíðarsýn skapandi greina
„Markmiðið er að koma hingað yfir til þess að halda áfram kortlagningu á skapandi greinum og hjálpa að móta framtíðarsýn um verkefni þeirra,“ segir Auður Edda. „Við byrjum opið og erum ekki ákveðin fyrirfram því þetta verður í samstarfi við alla, á milli stjórnsýslu, ráðuneyta, það er mennta- og menningamálaráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Við viljum vera í samtali við Samtök atvinnulífsins og háskólana, allar kynningarmiðstöðvar lista og tölvuleikjageirann.“
Þetta verður svona bottom-up vinna á góðri íslensku,“ bætir hún við. Hún segir verkefnin nú að vera að taka boltann þar sem skilið var við hann síðast og halda áfram að vinna með málefni skapandi greina. „Það hefur heilmikið gerst á 10 árum en það er ekki til ný tölfræði yfir þetta. Hvað er þetta orðið stórt í dag? Líka sem skiptir mjög miklu máli er að nágrannalönd okkar hafa stúderað þetta og gert mikið síðustu fimm til tíu ár. Það væri hægt að taka hugmyndir frá þeim.“
Ættum ekki að njörva okkur niður í kerfi og skilgreiningar
„Það má segja að þetta verði svolítið vítt. Nú er unnið að stefnu á sviði menningar, hönnunar og kvikmynda. Þetta þarf allt að koma saman og styðja hvað við annað,“ segir Auður Edda.
„Við erum auðvitað fámenn þjóð og þurfum að mínu mati að nálgast verkefni út frá hagnýtum sjónarhóli og gæta þess að njörfa okkur ekki um of niður í kerfi og skilgreiningar, heldur tökum hagnýta sýn á þetta. Hvernig getum við eflt þessar greinar svo hlutur þeirra í útflutningi stækki?“ Auður Edda bætir við að hún vilji sjá útflutningsaukningu í hugviti og greina vaxtartækifærin og hvaða leiðir séu bestar til að hjálpa þeim að stækka.
Vissulega er það okkur Íslendingum ekki mjög eiginlegt að hugsa langt fram í tímann, en til að standast alþjóðlega samkeppni er það nauðsynlegt
Auður Edda segist munu vinna náið með Íslandsstofu sem hafi verið að vinna í samráði við atvinnulífið að mótun langtímastefnu um markaðssetningu Íslands erlendis og hvernig sé hægt að styðja betur við útflutning. „Íslandsstofa á grundvelli nýrra laga er langt komin með mótun langtímastefnu um markaðssetningu Íslands og eflingu útflutningsaðstoðar. Tillaga að stefnu verður samþykkt af Útflutnings og markaðsráði þar sem eiga sæti 5 ráðherrar og á fjórða tug öflugra fulltrúa úr atvinnulífi og frá hinu opinbera, en utanríkisráðherra leiðir starfsemina.“
Langtíma stefnumótun nauðsynleg
Auður Edda telur að langtíma stefnumótun í útflutningi á skapandi greinum hafi vantað. „Já, það er tímabært að móta langtímastefnu fyrir Ísland á því sviði. Vissulega er það okkur Íslendingum ekki mjög eiginlegt að hugsa langt fram í tímann, en til að standast alþjóðlega samkeppni er það nauðsynlegt."
„Það var brotið blað í þessu með Íslandsstofu og lykilhlutverki hennar að móta langtímastefnu og stuðningi við sókn á markaði,“ segir hún. „Já vissulega skiptir máli að skoða hlutina í alþjóðlegu samhengi. Því getur reynsla og þekking af alþjóðlegu samstarfi, alþjóðlegri tengslamyndun og þjónustu við íslenskt atvinnu- og menningarlíf okkar, meðal annars á vettvangi sendiráða úti á mörkuðum, skipt máli. Þau lönd sem við viljum taka hugmyndir frá leggja mikla áherslu á skapandi greinar til eflingar samkeppnishæfni á alþjóðamörkuðum. Að mati stjórnvalda í þessum ríkjum mun þetta svið leika afar veigamikið hlutverk [...] þegar kemur að því að þróa lausnir til að mynda þegar takast á við hnattrænar áskoranir á borð við loftslagsmál eða málefni flóttamanna sem dæmi.“
Ísland ekki einangrað
Auður Edda segist lengi hafa brunnið fyrir menningu og listum. „Ég gengdi stöðu menningarfulltrúa í utanríkisráðuneytinu á tímum efnahagshruns á Íslandi. Þá kom í ljós hversu sterk menningarleg sjálfsvitund Íslendinga er í reynd. Á þessum tíma hurfum við inn á við og margir fundu sköpunarkraftinn hið innra. Við áttuðum okkur á mikilvægi menningar til að byggja upp skilning á veröldinni og okkur sjálfum og hlutverki hennar fyrir jákvæða þróun samfélagsins, svo ekki sé talað um þátt hennar í að endurvinna traust orðspor alþjóðlega. Ég ólst upp við lifandi íslenska sveitamenningu og hef brunnið fyrir menningu og listum frá því ég kom inn í utanríkisþjónustuna,“ segir Auður Edda.
Auður Edda segir „mjúkt vald" Íslands innan alþjóðakerfisins smám saman verða sterkara. „Þar telst meðal annars til árangur í listum, jafnréttismálum og fótbolta sem dæmi séu nefnd. Mjúka valdið, vald aðdráttaraflsins, verður sífellt mikilvægara þegar kemur að því að standast alþjóðlega samkeppni. Það eigum við að nýta þegar kemur að því að laða að erlenda fjárfestingu og hæfileikaríkt erlent starfsfólk til Íslands.“
Auður Edda segir Ísland ekki vera einangrað heldur sé þetta „spurning að horfa á heiminn og hver þessi stóru vandamál eru sem við stöndum andspænis,“ segir hún. „Við þurfum að þróa hugvits- og þekkingarhagkerfi og vera samkeppnishæf í því. Það er mjög sterk tenging milli utnanríkisþjónustunnar og alþjóðamálanna og þessa starfs.“ Hún segir mennta- og menningarmálaráðherra nú munu setja kraft í málið og segist þakklát að fá tækifæri að leggjast á árar með henni og öðrum ráðherrum í þeim efnum.
Auður Edda segir að þrátt fyrir að áskoranirnar sem við Íslendingar stöndum andspænis séu stórar þá feli þær í sér tækifæri, meðal annars til mikilvægra breytinga. „Við þurfum að treysta á hina skapandi hugsun og nálgun þegar kemur að því að greina og finna sjálfbærar og áhrifaríkar lausnir fyrir Ísland. Við Íslendingar erum rík að búa yfir alþjóðlegri menntun, þekkingu og reynslu á öllum sviðum auk þess að vera mjög skapandi sem þjóð. Þessir eiginleikar munu nýtast okkur vel við uppbyggingu á Íslandi þar á meðal á sviði skapandi greina í náinni framtíð."