Á efstu hæð í nýju bókasafni Oslóborgar, Deichman Bjørvika, má finna lítið herbergi smíðað úr fallegum við úr skógi við borgarmörk Osló. Herbergið verður eftir hundrað ár fyllt af hundrað nýjum handritum eftir hundrað höfunda hvaðanæva að úr heiminum.
Þar á meðal hafa nú þegar heimsfrægir höfundar á borð við bandaríska rithöfundinn Margaret Atwood og breska höfundinn David Mitchell skilað inn handritum fyrir herbergið. Auk þeirra hefur íslenski rithöfundurinn Sjón skilað inn handriti. Enginn fær þó að bera þessi handrit augum fyrr en árið 2114.
Herbergi þagnarinnar
Katie Paterson, skosk myndlistakona, átti hugmyndina af Bókasafni framtíðarinnar en verkið snýst um að árlega í eina öld leggur valinn rithöfundur inn handrit til safnsins við hátíðlega athöfn í borgarskóginum í Osló.
Árið 2014 voru þúsund tré gróðursett í borgarskóginum. Hundrað árum síðar, árið 2114, munu þau tré verða hoggin niður og handritin hundrað prentuð úr trjánum. Á þeim tíma hefur engin lesið handritin nema skapararnir sjálfir.
Þangað til verða handritin geymd í sérsmíðuðum stað í nýja borgarbókasafninu í Osló, Deichman Bjørvika, sem opnar á næsta ári. Staðurinn heitir þögla herbergið eða The Silent room og var hannað af Katie í sameiningu með arkitektum bókasafnsins.
Kjarninn fékk að slást í för með Katie og föruneyti hennar þegar herbergið, nær klárað, var fyrst skoðað í Osló í maí síðastliðnum. Herbergið er líkt og lítill, fallegur, ávalur trékofi inn í miðju stóru björtu bókasafninu. Í herberginu má finna hundrað hólf sem eru sérmerkt höfundi hvers handrits og árinu sem því var skilað inn.
„Við byggðum Herbergi þagnarinnar með trjánum sem við felldum í borgarskóginum í Osló. Lyktina af þeim má enn finna í herberginu en andrúmsloftið var kjarninn í hönnun herbergisins. Við vildum skapa stað fyrir kyrrð og friðsæld. Stað þar sem gestir bókasafnsins geta leyft ímyndunaraflinu að teyma hugann burt frá bókasafninu til skógarins, til trjánna, til handritanna og hugleitt mörk tímans og leyndardómanna sem búa þar að baki,“ segir Katie í samtali við Kjarnann.
Handrit eftir Sjón kemur út árið 2114
Katie segir að hugmyndin að verkinu sé í hnotskurn að bækur séu tré og það tekur tíma að rækta bækur líkt og það tekur tíma að rækta tré. „Hugmyndin snerist um tíma, mennskan tíma, tíma handan okkar heima, tíma skógarins og tímann á eftir okkur,“ segir Katie.
Fimm handritum hefur verið skilað inn, þar á meðal handritið The Scribble Moon eftir hina víðfrægu Margaret Atwood. Auk hennar hefur hinn breski David Mitchell skilað inn handriti og hin tyrkneska Elif Shafak frá Tyrklandi. Þá skilaði íslenski rithöfundurinn Sjón inn handriti árið 2016 en titilinn á handritinu hans er: Þegar enni mitt strýkst við kjólfald engla eða Nokkuð um fallturninn, rússíbanann, snúningsbollana og önnur tilbeiðslutæki frá tímum síð-iðnvæðingarinnar
Sjón sagði í samtali við Vísir eftir að hann skilaði handritinu inn að hann voni að það eigi eftir að vekja áhuga á Íslenskri bókahefð. „Ég vona að það rati til lesenda sem eru áhugasamir um það hvers konar bókmenntir voru ofnar saman á Íslandi fyrir tæpum hundrað árum. Alla rithöfunda dreymir um að textar þeirra standi tímans tönn og auðvitað er það svo að í dag lesum við enn margt sem skrifað var í upphafi síðustu aldar og löngu fyrr. Ég reyndi samt að bægja þessari hugsun frá mér og skrifa eins og ég geri yfirleitt, það er, án þess að hugsa um viðtökur annarra en þess skuggasjálfs míns sem er viðmælandi minn á meðan sköpuninni stendur,“ segir Sjón.
Sjón má ekkert gefa upp um verkið og segir titilinn ekkert gefa upp um hvort að þetta sé ljóðabók, ritgerðir, leikrit, skáldsaga eða óperulíbrettó.
„En ástæðan fyrir því hvað hann er langur gæti verið sú að mig langaði til þess að opna sýn á efni verksins. Svo gæti titillinn líka verið ryk sem ég þyrla upp til að afvegaleiða fólk í spekúlasjónum sínum. Ef textinn lifir af Þyrnirósarsvefninn í skúffunni í borgarbókasafni Oslóar dæma lesendur 21. aldarinnar um hvort er,“ segir Sjón og bætti við að nú taki við það verkefni að þegja yfir innihaldi handritsins það sem eftir er ævinnar.
Mun mannkynið lifa af næstu hundrað ár?
Katie segir að hver hundrað höfundanna hafi sinn ólíka stíl, komi frá ólíkum stöðum í heiminum og handritin því skrifuð á ólíkum tungumálum. Enginn fær þó að bera þessi handverk augum fyrr en árið 2114 og því ljóst að hvorki Katie né höfundarnir sjálfir munu lifa nógu lengi til að upplifa það.
Þrátt fyrir þessar óvenjulegu kröfu segir Katie að rithöfundarnir sem hún hafi haft samband við hafi verið mjög móttækilegur fyrir verkefninu. Hún segir að fyrir rithöfunda sé þetta algjört frelsi en handritin eru skrifuð í algerri einangrun án aðkomu útgáfu og án viðbragða gagnrýnenda eða lesenda. „Þetta fyrirkomulag virkar eflaust ekki fyrir alla en fyrir suma er þetta tækifæri til að gera eitthvað alveg öðruvísi. Að skilja eftir gjöf fyrir fólkið í framtíðinni,“ segir Katie.
Rauði þráðurinn í Bókasafni framtíðarinnar er nokkursskonar samspil vonar og trausts. „Það kom mér verulega á óvart að þegar ég hafði samband við höfundanna voru fyrstu viðbrögð margra að velta upp spurningunni hvort að mannkynið muni lifa af næstu hundrað ár,“ segir Katie en hennar fyrsta hugsun var hvort að skógurinn myndi lifa þessi hundrað ár.
Þegar David Mitchell lagði fram sitt handrit árið 2016 sem ber titilinn „From Me Flows What You Call Time“, sagði hann að fyrir honum táknaði Bókasafn framtíðarinnar von í vonlausum heimi. „Allt er að segja okkur að við séum á leið til glötunar en Bókasafn framtíðarinnar færir okkur von um að mannkynið sé seigara en við héldum. Að við munum vera hérna, tréin verða hérna og það verða bækur, lesendur og siðmenning.“
Margret Atwood tók í svipaðan streng þegar hún skilaði inn fyrsta handritinu. „Ég er að senda inn handrit inn í framtíðina. Verða einhverjar manneskjur að bíða til að taka móti því? Verður Noregur? Verður skógur? Verður bókasafnið? Hversu skrítið er það að hugsa að mín eigin rödd, þá þögnuð í langan tíma, verði endurvakin eftir hundrað ár. Hvað mun hún segja þegar hendur, sem ekki enn eru til, draga út skúffuna og opna fyrstu blaðsíðuna?“
Óvissan í sjálfu sér er áhugaverð
Nýjasta handritið sem hlýtur stað í Herbergi þagnarinnar er handrit hinna suður-kóresku Han kang. Han hefur hlotið mikið lof fyrir bókina The Vegetarian en sú bók hlaut Man Booker-verðlaunin árið 2016.
Hang Kang segir í samtali við Kjarnann að hún hafi þurft að íhuga það lengi hvort hún væri tilbúin að taka þátt í Bókasafni framtíðarinnar. Hún segir þó að íhugunin sjálf hafi verið mjög falleg og hluti af ferlinu. „Ég verð ekki á lífi árið 2014, né neinn sem ég þekki. Ég þurfti að hugsa um framtíð mannkynsins, um náttúruna en fyrir mér var þetta margþætt ákvörðunin,“ segir Han Kang.
Fyrir henni er óvissan kjarninn í Bókasafni framtíðarinnar. „Allt er óvíst og óvissan í sjálfu sér er áhugaverð.“
Að lokum sagði Han að hún sé ánægð að hafa tekið þátt í verkefninu en handiritið hennar ber titilinn „Dear Son, My Beloved“. Hún segist hafa skrifað handritið fyrir fólkið sem vonandi verður að bíða eftir handritunum þegar bókasafnið verður opnað í framtíðinni. „Á þessari stundu líður mér líkt og mögulega sé þetta verkefni hundrað ára löng bæn.“